Atvinnumál

14. fundur
Mánudaginn 07. september 1992, kl. 15:32:24 (330)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Mig langar til að vekja athygli á því að það sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði í seinni ræðu sinni um atvinnuleysistölur á Íslandi og í nálægum löndum voru hreinar fjarstæður. Hv. þm. kemur í stólinn og telur sig vera að leiðrétta mál annarra sem hér hafa talað og stagast á því sem eru tölur fjarri sanni. Að því er helst virðist leggur hann að jöfnu spár Vinnuveitendasambandsins fyrir atvinnuleysi á næsta ári og staðreyndatölur um atvinnuleysið í löndunum í kringum okkur. Ég er alveg tilbúinn til þess með hv. þm. að telja Japan í hópi þeirra landa sem eru í kringum okkur þótt það sé æðifurðulegur fjarlægðarreikningur í höfðinu á þingmanninum ef hann telur að það sé álíka langt þangað og til okkar ,,venjulegu`` nágrannaríkja.
    Þetta vildi ég hafa sagt og þessu verður ekki á móti mælt. Atvinnuleysisskráning á Íslandi er núna eftir síðustu tölum, tæplega 3%, 2,7--2,8%. Það er of hátt. Það stefnir í hærri tölur en enginn nema Vinnuveitendasambandið og hv. 4. þm. Norðurl. e. spá svo háum tölum sem hann vildi helst til jafna.
    Þá vil ég nefna það sem hann sagði um Japan og aðstæður Íslendinga og Japana til þess að beita ríkisfjármálunum til sveiflujöfnunar til þess að auka eftirspurn í hagkerfinu. Það er reyndar svo að ég þekki nokkuð til þess hvernig sparnaði er farið í Japan og hvernig skuldsetning japanska ríkisins er í samanburði við önnur iðnríki. Það er reyndar rétt sem kom fram hjá þingmanninum --- sem verður að teljast til tíðinda --- að japanska ríkið er óvenjulega skuldsett miðað við mörg önnur. En þegar á heildina er litið, og það er það sem máli skiptir, er staðan gagnvart útlöndum það sem telur. Það bið ég þingmanninn að skoða hvort ríkið standi tiltölulega betur í skuldum sínum við önnur lönd, Ísland eða Japan. Þar er endapunkturinn í málinu. (Forseti hringir.) Í síðasta lagi, virðulegur forseti, vil ég þakka þingmanninum fyrir að gera það alveg skýrt að að sjálfsögðu eru álver og álversframkvæmdir meðal þeirra verkefna sem þetta land mun byggja atvinnu sína á í framtíðinni. Ég nefndi þetta í ræðu minni en hv. þm. hefur ekki tekið eftir því.