Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 12:28:27 (570)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls, þeim 15. þm. Reykv. og 11. þm. Reykv., fyrir spurningarnar og athugasemdirnar sem þeir hafa gert.
    Í fyrsta lagi spurði hv. 15. þm. Reykv. um 11. gr. og gildistökuávæðið þar sem gildistakan er tengd aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Ástæðan fyrir því að þessi tenging er gerð er sú, eins og fram kemur í 4. gr. frv., að þarna er verið að stofna lagagrundvöll til þess að veita ríkisborgurum Evrópubandalagsins gagnkvæmnisrétt á Íslandi. Við viljum ekki gera það alveg hiklaust fyrr en við höfum tryggt okkur þá gagnkvæmni sem í EES-samningnum felst að öðru leyti. Auðvitað er það rétt, eins og kom fram hjá hv. 11. þm. Reykv. og reyndar eins og ég skildi hv. 15. þm. sama kjördæmis, að það er nauðsynlegt að kveða á í íslenskum lögum um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum upp á framtíðina. Þetta er framtíðarmál og okkar rannsóknarmenn og hugvitsmenn verða að búa við þau skilyrði að hanni þeir rafeindatæknihluti af þessu tagi þá njóti þeir einkaréttar til hagnýtingar eins og gerist í öðrum löndum og með gagnkvæmni á hinu stóra markaðssvæði Evrópubandalagsins. Það er mergurinn málsins.
    Ég ætla ekki að taka að mér að útskýra rafeindatæknina í þessu máli. Reyndar vék ég að henni nokkrum orðum í minni framsöguræðu á þann leikmannsmáta sem mér er fært að gera, það er eina aðferðin sem ég kann til að lýsa þessu, að gefa þá lýsingu á málinu sem mér var gefin. Þetta eru þessi ,,integrated circuits``, ,,silicon chips``, sem eru íhlutir flestra rafeindatækja nú á tíð og þá kem ég að því orði sem ég er ekkert að gera að mínu orði sérstaklega en ég skil svo að tæknimennirnir, sem textann settu saman, líti á sem orð fyrir ,,component``, hluta í einhverju stærra verki. Ég er ekkert að halda þessu orði fram sem sérstaklega snjöllu, en það hefur alveg skýra merkingu í hugum þeirra sem þennan texta hafa sett saman og vonandi í hugum þeirra sem setja saman svona tæki.
    Ég hef ekki, virðulegi forseti, mikið meira um þetta að segja. Ég tek undir það með þingmönnunum tveimur sem hér töluðu að hvort tveggja þarf að athuga í nefndinni, orðalagið, orðavalið og gildistökuákvæðið sem að sjálfsögðu tengist gildistökuákvæði margra frumvarpa sem flutt eru hér í tengslum við aðildarsamninginn um Evrópska efnahagssvæðið.