Gjaldeyrismál

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 13:40:36 (584)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 6. þm. Norðurl. e. og 18. þm. Reykv. fyrir spurningar þeirra og athugasemdir og framlagið til umræðunnar. Vegna þess sem kom fram hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. í upphafi ræðu hans, að því mætti halda fram að margt í þessum frumvörpum, m.a. þessu frv., sem eru flutt í tengslum við EES-samninginn, sé ekki beinlínis tengt honum, þá vil ég annars vegar vísa til samkomulags milli þingflokkanna um það hvaða mál tengdust málsmeðferð EES-samningsins á þingi. Ég tel að á því leiki enginn vafi að við erum að framkvæma það samkomulag.
    Í öðru lagi vildi ég líka nefna að ég tel að einnig sé mjög mikilvægt að breytingar þær sem við beinlínis þurfum að gera á mörgum sviðum efnahags- og viðskiptamála vegna þessa samnings séu settar í sitt rétta samhengi, virki ekki eins og einhvers konar viðhengi í löggjöf sem að öðru leyti væri fullkomin ástæða til að hreyfa og vildi reyndar benda á að frv. sem hér er rætt hefur áður verið lagt fram og rætt í þinginu og tengingin þess vegna alveg skýrt og ákveðið sett við EES í að ég taldi fullu samráði við alla þingflokka. Ég geri ekki ráð fyrir að hv. 6. þm. Norðurl. e. hafi á þessu aðra skoðun en ég, en ég vildi hafa sagt þetta alveg skýrt við upphaf umræðu um þessi mörgu mál sem tengjast EES-samningnum.
    Þá vík ég að þeim fjórum spurningum sem hv. 6. þm. Norðurl. e. hreyfði hér. Hann vakti fyrst máls á því hvort hugsanlegt væri að komast fram hjá takmörkunum á skammtímahreyfingum fjármagns milli landa með því að beita langtímahreyfingum í sýndargerningum. Ég held að það muni aldrei verða mikil brögð að þessu, einfaldlega vegna þess hversu kostnaðarsamt það er að beita slíkum ráðum. Þó má vel vera að við vissar aðstæður kynni þessa að gæta, en þá eru líka tæki í þessu lagafrv. til þess að snúast við slíkum hreyfingum, þ.e. stöðvunarvald Seðlabankans sem ég þó fullvissa þingheim um að a.m.k. frá mínum bæjardyrum séð er ekki líklegt að verði notað til þess að hamla eðlilegum viðskiptum og aldrei mundi ég gera tillögu um slíkt.
    Þetta tengist beint annarri spurningu hv. 6. þm. Norðurl. e.: Er stöðvunarheimildin í 3. gr. frv. svo víðtæk að komið gæti í veg fyrir að fyrirtæki gætu staðið við eðlilegar viðskiptaskuldbindingar sínar? Þar er mitt svar að sjálfsögðu það sem ég hef þegar gefið í skyn, að það vakir alls ekki fyrir höfundum frv. Ég sé ekki að nokkur mundi í fyrirsjáanlegri framtíð vilja beita því þannig. En eðli málsins samkvæmt verður stöðvunarheimildin að vera nokkuð víðtæk ef hún á að geta gert það gagn sem henni er ætlað að gera.
    Í þriðja lagi var spurt um það hvort ákvæði 4. gr. um gjaldeyrishreyfingar vegna fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi væru nauðsynleg vegna þess að efnisákvæði mætti finna sem væru þessu skyld í lögum um fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi. Mitt svar í því máli er að sjálfsögðu það að ég tel nauðsynlegt að það sé alveg skýr tenging við gjaldeyrisviðskiptalöggjöfina einmitt hvað þessi atriði varðar þótt það sé að sjálfsögðu rétt hjá hv. þm. að efnisákvæðin um fjárfestingarmálin eiga að vera í hinum lögunum.
    Í fjórða lagi var svo spurt um 11. gr., hvort nauðsynlegt væri að bæta þar við ákvæði til þess að gefa skattyfirvöldum upplýsingar um fjármagnstekjur ef og þegar slíkar tekjur yrðu skattstofn. Þetta er rétt athugað hjá hv. þm. Þetta er mál sem þarf að huga að. Fyrir fram virðist þó eðlilegast að slík ákvæði væru sett í skattalögin og upplýsingaskyldu þeirra vegna en ekki í þessi lög, en þó tel ég tvímælalaust nauðsynlegt að hv. efh.- og viðskn. hugi að þessu atriði.
    Þá kem ég að máli hv. 18. þm. Reykv. Hv. þm. vék að því hvort í þessu frv. og ýmsum öðrum sem tengjast EES-samningnum fælist mikil aukning á reglugerðarvaldi ráðherra. Ég held að þetta frv. sé alls ekki dæmi um slíkar breytingar. Þvert á móti er þetta frv. sem felur í sér að gefa þegnunum almennan rétt nema annað sé ákveðið með sérstökum lögum. Í núgildandi gjaldeyrisreglum og lögum er þessu öfugt farið. Þar er allt bannað sem ekki er leyft af ráðherranum. Með þessu er því í raun og veru verið að rýmka rétt þegnanna og takmarka reglugerðarvald ráðherrans. Það má vel vera að því megi finna stoð í öðrum frv. að verið sé að skapa allvíðtækar heimildir fyrir reglugerðarsetningu af hálfu ráðuneytanna en þetta frv. er ekki gott dæmi um það.
    Ég kem þá að því sem sagt var um 10. og 11. gr. Ég tel að ákvæði 10. gr. séu þörf og það sé eðlileg krafa til viðskiptaaðila að þeir upplýsi sem gleggst þau kjör sem gilda í viðskiptunum og ég skildi reyndar athugasemd hv. þm. á þenn veg að það væri líka hennar skoðun.
    Um 11. gr. vil ég taka það skýrt fram að í henni vakir alls engin viðleitni til þess að viðhalda hinu eldra kerfi undir merki upplýsingakröfu. Þvert á móti er þetta eingöngu til þess hugsað að við getum fylgst með þessum mikilvægu viðskiptastraumum milli Íslands og annarra landa eftir að gjaldeyrisfrelsi hefur verið innleitt að fullu. Ég tel að þessi þörf verði áfram mjög mikil en hún má ekki verða til þess að hamla eðlilegum viðskiptum, enda er það alls ekki tilgangur þessarar greinar.
    Þá var spurt hvernig íslenskur markaður væri undir þetta búinn og hvaða afleiðingar kynnu að fylgja því að gjaldeyrisviðskiptafrelsi væri hér innleitt. Þá get ég eingöngu bent á það sem reynslan þessi síðustu tvö ár með mjög rúmum greiðsluheimildum fyrir þá sem viðskipti stunda í gjaldeyri, að þetta hefur alls ekki haft þau áhrif að hér skapaðist neinn órói á gjaldeyrismarkaðnum eða útstreymi gjaldeyris úr landinu. Þvert á móti, eins og ég hef bent á, hefur fremur verið um innstreymi að ræða og ekki neinar kollsteypur eða miklar breytingar þótt þarna væri í raun og veru brotið blað í okkar gjaldeyrisviðskiptasögu á pappírnum.