Verðbréfaviðskipti

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 16:07:15 (614)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Hér hafa orðið mjög athyglisverðar umræður og um mál sem skipta afar miklu þegar þetta frv. er rætt. Það er í fyrsta lagi það sem kom fram í máli þeirra beggja, hv. 14. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Austurl., að mikilvægt væri að þessi löggjöf setti íslenskum verðbréfafyrirtækjum og verðbréfasjóðum samkeppnisskilyrði sem væru sambærileg við það sem gerðist í löndunum í kringum okkur. Ég vil fullvissa þessa tvo hv. þingmenn um að það er nákvæmlega það sem er tilgangur þessara frumvarpa.
    Það kann að virðast að við séum að setja mikið af nýjum lagaákvæðum en þó er það reyndar ekki efnislega svo því hér er að mestu um það að ræða að flytja í nýjan búning lagareglur sem fyrir voru eða skerpa þær í ljósi reynslunnar og líka það að við séum tilbúin fyrir áramót með regluverk og skipulag fyrir okkar stofnanir sem stenst samjöfnuð, bæði hvað varðar eftirlit og öryggi viðskiptavina og samkeppnisstöðu. Þetta er hinn tvíþætti tilgangur þessara beggja frumvarpa og ég veit að hv. þingmenn sem hér hafa talað eru mér alveg sammála um þennan tilgang.
    Það er rétt hjá hv. 14. þm. Reykv. að það kann að vera að reglan um það að verðbréfafyrirtæki megi ekki veita viðskiptavinum sínum lán fyrir andvirði bréfanna að fullu eða að hluta til lengri eða skemmri tíma sé ekki í lögum víða þótt ég telji að hún sé víða í reglum. Hér er fyrst og fremst tekið mið af norskum rétti þar sem slíkt bann er í gildi, en ég tek fram að bann við slíkum lánveitingum, sem að sjálfsögðu er til þess hugsað að verðbréfafyrirtækin verði sem óhlutdrægust og óháðust og séu ekki til þess að örva sölu með því að lána væntanlegum kaupendum peninga, á eingöngu að gilda til þess að takmarka slíka sölumennsku og hefur engin áhrif á heimildir fyrirtækjanna til að veita sölutryggingu fyrir útgáfu bréfa eða eðlilega bið sem getur orðið á uppgjöri vegna viðskipta milli einstakra verðbréfafyrirtækja. Hins vegar er mjög mikilvægt að ekkert sé í þessu lagafrumvarpi sem hindrar eðlilega starfsemi þessara fyrirtækja.
    Annað mjög athyglisvert mál sem báðir hv. þingmenn viku að var hvort í tillögum frv. fælist óeðlilegt, óheppilegt samkrull valdþátta hjá bankaeftirlitinu væri því heimilað að annast ýmis þau störf sem aðalregla frv. er að fela ráðherranum.
    Ég get sagt það af hjartans einlægni að ekkert er fjær mér en að flétta saman með óhæfilegum hætti valdþáttunum þremur. Hvorki í þessu máli né öðrum vil ég gera það. En það er spurning hvort það t.d. að fela bankaeftirlitinu leyfisveitingar og afturköllun á leyfi til þessarar starfsemi kann ekki einmitt að fela í sér vissa vernd fyrir þá sem í greininni starfa. Einmitt vegna þess sem hv. 1. þm. Austurl. nefndi ættu þeir málskot til ráðuneytisins ef þeim ekki líkaði niðurstaðan. Þetta vil ég nefna sem eina skýringu á þessu, en tek skýrt fram að hér er um heimildir að ræða, ekki ákvörðun. Ég tek undir það sem fram kom hjá hv. 1. þm. Austurl. að þetta er mál sem er einkar heppilegt að ræða fyrst og fremst í nefndum þingsins og tek fram að þar hefur mikil vinna þegar verið fram lögð við að gera þetta mál sem best úr garði. Ég leyfi mér að láta í ljós þá von að sumar af ábendingum hv. 1. þm. Austurl. hafi ekki tekið tillit til þeirra breytinga sem gerðar hafa verið í ljósi umsagna sem borist hafa frá mörgum aðilum sem fengu málið til umsagnar og þar svara ég um leið einni af spurningum hv. 14. þm. Reykv. Mál þetta hefur sannarlega fengið vandaðan umsagnarferil. Ég bið menn að taka með svolitlu saltkorni þessi stóryrði í bréfinu frá verðbréfafyrirtækjunum þar sem frv. var fundið margt til foráttu sem ekki átti við rök að styðjast, en það sem átti við rök að styðjast vil ég meina að hafi verið tekið til greina.
    Ég er alveg sammála hv. 1. þm. Austurl. um það. Við höfum síst þjóða tök á því að tryggja opinbert eftirlit sem verndi menn fyrir sjálfum sér. Það er alltaf álitamál hversu langt á að ganga í eftirlitsstarfsemi hins opinbera, en ég held að það sé fjarri lagi að halda því fram að í þessum lagafrumvörpum felist óhæfileg tilhneiging til þess að auka vald eftirlitsaðilanna. Þvert á móti erum við að reyna að setja upp samkeppnishæfa skipan þessa málaflokks þannig að okkar fyrirtæki geti hindranalaust tekið þátt í viðskiptum á stærra markaðssvæði en áður og til þess þurfa þau að standa mál, bæði hvað varðar viðskiptalega aðstöðu en ekki síður að menn hafi traust á að vel sé staðið að rekstrinum.