Verðbréfaþing Íslands

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 16:19:39 (615)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um Verðbréfaþing Íslands, en það er að finna á þskj. 13.
    Þetta frv. tengist að sjálfsögðu þeim tveimur frv. sem mælt var fyrir undir síðasta dagskrárlið um tengd efni, um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði. Öll eru þessi þrjú frv. skref í aðlögun íslensks réttar á sviði verðbréfaviðskipta að ákvæðum í samningi um Evrópskt efnahagssvæði.

    Það hafa ekki áður verið sett sérstök lög um Verðbréfaþing Íslands. Ég ætla því að fara nokkrum orðum um tilurð skipulegra verðbréfaviðskipta á Íslandi, en fyrstu reglurnar um Verðbréfaþing voru settar af bankastjórn Seðlabanka Íslands og staðfestar af viðskrh. sumarið 1985. Seðlabankinn sótti lagaheimild til setningar þessara reglna til þágildandi laga um Seðlabankann. Í reglunum var lögð á það áhersla að markaður með verðbréf yrði sem sveigjanlegastur en jafnframt tryggt að starfsemin yrði traust og heilbrigð. Lagt var á það kapp að öryggi þeirra sem vildu ávaxta sitt fé fyrir milligöngu þingsins yrði borgið sem best.
    Fimmtán aðilar sóttu um aðild að Verðbréfaþinginu strax í upphafi, en einungis fjórir fengu slíka aðild. Stofnaðilarnir voru því auk Seðlabankanas: Fjárfestingarfélag Íslands, Iðnaðarbanki Íslands, Kaupþing hf. og Landsbankinn. Í gegnum árin hafa fleiri verið samþykktir sem þingaðilar en flestir hafa þeir verið 13. Í dag eru þeir 10 og má rekja fækkunina til sameiningar viðskiptabankanna, fyrst og fremst.
    Í nóvember 1985 voru fyrstu verðbréfin skráð í viðskiptakerfi Verðbréfaþingsins. Í fyrstu var hér um að ræða skráningu á útistandandi flokkum spariskírteina ríkissjóðs en þegar fram liðu stundir bættust við ýmsir flokkar annarra verðbréfa.
    Hlutabréf voru fyrst samþykkt til skráningar síðla árs 1991 en nú hafa alls sex félög skráð hlutabréf sín á Verðbréfaþinginu. Mér er óhætt að fullyrða að með tilkomu Verðbréfaþingsins hafi verið skapaður grundvöllur fyrir skipuleg verðbréfaviðskipti á því sem venjulega er kallaður eftirmarkaður hér á landi.
    Frumvarpið var upphaflega kynnt sem frumvarp til laga um Kauphöll Íslands en hefur tekið ýmsum breytingum í meðförum þingnefndar og umsagnaraðila. Þessar breytingar hafa verið kynntar efh.- og viðskn. en frv. hefur fengið þar nokkra umfjöllun. Nú er lagt til að hinn opinberi verðbréfamarkaður hér á landi verði áfram kallaður Verðbréfaþing Íslands og að skipan stjórnar verði óbreytt fyrst um sinn.
    Frv. gerir ráð fyrir að meginatriði gildandi reglna nr. 26/1992, um Verðbréfaþing Íslands, verði lögfest og að þingið starfi sem sjálfstæð sjálfseignarstofnun. Fram að þessu hefur starfsemi þingsins að mestu farið fram undir verndarvæng Seðlabankans sem hefur m.a. lagt því til starfsaðstöðu og starfskrafta. Gert er ráð fyrir að eftirleiðis verði starfsemin borin uppi af eigin tekjum og að hún færist úr Seðlabankanum er frá líður.
    Hér er lagt til að Verðbréfaþing Íslands hafi einkarétt til að stunda kauphallarstarfsemi og að önnur starfsemi verði Verðbréfaþinginu ekki heimil. Byggt er á því að íslenskur verðbréfamarkaður beri varla nema eitt fyrirtæki sem rekur verðbréfaþing á faglegum grundvelli.
    Til fróðleiks má geta þess að samkvæmt nýsettum dönskum lögum heldur kauphöll Kaupmannahafnar einkarétti til að starfrækja kauphallarstarfsemi þar í landi.
    Eins og ég hef þegar sagt er gert ráð fyrir að Verðbréfaþing verði rekið sem sjálfseignarstofnun en það form er talið henta best hér á landi að svo stöddu. Þess má geta að kauphallirnar í Danmörku og Noregi eru báðar sjálfseignarstofnanir.
    Samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði skyldar aðildarríkin strangt til tekið ekki til að setja lög um kauphallarviðskiptin. Hins vegar er að finna ákvæði í reglum bandalagsins sem kveða á um það að aðildarríkin skuli tilnefna innlent yfirvald eða yfirvöld sem til þess eru bær að heimila opinbera skráningu verðbréfa þannig að líkar reglur gildi um þetta efni á öllu svæðinu.
    Það verður því að teljast æskilegt að hér séu sett sérstök lög, reyndar í samræmi við okkar réttarhefð, um þetta málasvið svo að sem minnstur vafi leiki á um réttindi og skyldur þingaðila á Verðbréfaþingi Íslands. Þessu til stuðnings má benda á Evrópubandalagstilskipun nr. 79/279 en þar segir að aðildarríki skuli sjá til þess að lögbær yfirvöld hafi nauðsynlegar heimildir til að starfrækja skyldur sínar.
    Ekki þykir mér ástæða til að fjölyrða um einstök ákvæði þeirra EES-reglna sem gilda munu um verðbréfaviðskiptin. Ég bendi á að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði mælir fyrir um frjálsar fjármagnshreyfingar milli aðildarríkjanna og því aðeins er unnt að tala um sameiginlegan markað að útgefendur og kaupendur verðbréfa búi við sambærilegar aðstæður og jöfn starfsskilyrði hvarvetna á þessu stóra svæði. EES-reglurnar miða þannig að því að vernda kaupendur verðbréfa jafnframt því að auðvelda útgefendum aðgang að fjármagni á stærri markaði en áður. Þess má og geta að gildandi reglur um Verðbréfaþing Íslands eru nú þegar að nokkru leyti lagaðar að Evrópubandalagsreglum, t.d. reglunum um skráningarlýsingu og upplýsingaskyldu skráðra hlutafélaga.
    Meginefni frumvarpsins er að öðru leyti sótt til gildandi reglna um Verðbréfaþing Íslands að teknu tilliti til nauðsynlegra form- og efnisbreytinga. Þá hafa verið sóttar ýmsar góðar hugmyndir til nágrannaríkja okkar, einkum Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar.
    Ég mun nú, virðulegi forseti, fara nokkrum orðum um helstu ákvæði frv. og drepa á nokkur frávik frá þeim reglum sem nú gilda.
    Eins og ég hef þegar nefnt er gert ráð fyrir að Verðbréfaþingið hafi einkarétt til að stunda kauphallarstarfsemi. Ákvæði frumvarpsins um einkarétt girða þó ekki fyrir það að verðbréfafyrirtæki geti birt opinberlega sölu og kaupverð verðbréfa burt séð frá því hvort slík bréf eru skráð á Verðbréfaþinginu. Þessir viðskiptahættir eru þekktir erlendis og hafa verið nefndir ,,over the counter``-viðskipti eða bara ,,yfir búðarborðið``.
    Með frv. er lagt til að Verðbréfaþingið taki við öllum réttindum, eignum, skuldum og skuldbindingum Verðbréfaþings Íslands og er ráðgert að uppgjör fari fram við gildistöku laganna. Heimili og varnarþing Verðbréfaþingsins verður í Reykjavík, enda eru höfuðstöðvar allra peninga- og fjármálastofnana í höfuðborginni. Gert er ráð fyrir fjölbreyttu og fjölþættu hlutverki Verðbréfaþingsins hér eftir sem hingað til. Það á að vera vettvangur verðbréfaviðskipta og það á að starfrækja í því skyni skipulagt viðskipta- og upplýsingakerfi. Að öðru leyti fellur m.a. í hlut Verðbréfaþingsins að gera faglegar kröfur til þingaðila, að meta skráningarhæfi verðbréfa, að skrá gengi og aðrar nauðsynlegar upplýsingar og hafa eftirlit með framkvæmdum á reglum Verðbréfaþingsins.
    Með þessu frumvarpi er ekki gert ráð fyrir að breytingar verði á núverandi samsetningu stjórnar Verðbréfaþingsins að svo stöddu.
    Í upphafi þessa árs náðist almenn samstaða milli hagsmunaaðila á verðbréfamarkaði um meginatriði gildandi reglna um Verðbréfaþing Íslands. Þar náðist m.a. samkomulag um samsetningu stjórnar og virðist ekki þörf á að hreyfa við þeirri niðurstöðu að svo skömmum tíma liðnum. Af helstu nýmælum ber fyrst að nefna ákvæði IV. kafla frv. sem fjallar um þingaðila að Verðbréfaþinginu. Þar er lagt til að verðbréfamiðlarar og verðbréfafyrirtæki sem starfa innan Evrópska efnahagssvæðisins og öðlast hafa leyfi til verðbréfamiðlunar samkvæmt lögum síns heimalands geti orðið þingaðilar hér á landi. Hér er að sjálfsögðu um að ræða einn þátt í lögun íslensks réttar að ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Í þessu felst að leyfishafar frá aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins þurfa ekki að sækja sérstaklega um leyfi til verðbréfamiðlunar samkvæmt hérlendum lögum um verðbréfaviðskipti hafi þeir slíkt leyfi samkvæmt lögum síns heimalands eða annars lands á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Samningurinn um EES tryggir einnig að hérlendir aðilar njóti sams konar eða hliðstæðra réttinda innan svæðisins alls.
    Þá er lagt til að ráðherra verði heimilt að veita aðilum frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins leyfi til verðbréfamiðlunar að fenginni umsögn stjórnar Verðbréfaþingsins. Sé slíkt leyfi veitt af aðildarríki innan EES gildir það eingöngu innan þess aðildarríkis að gefnum þeim skilyrðum sem það sjálft setur.
    Í V. kafla frv. er fjallað um skráningu verðbréfa í viðskiptakerfi Verðbréfaþingsins og eru ákvæði kaflans að miklu leyti efnislega samhljóða núgildandi reglum. Þó er lagt til að settar verði fyllri reglur en nú gilda um niðurfellingu verðbréfa af skrá. Einnig er gert ráð fyrir að ráðherra geti við sérstakar aðstæður stöðvað viðskipti á Verðbréfaþinginu.
    Um eftirlitshlutverk Verðbréfaþingsins er fjallað í VIII. kafla frv. Þar er gert ráð fyrir að eitt af hlutverkum þingsins sé að hafa eftirlit með framkvæmd á reglum sem settar hafa verið af stjórn þess. Jafnframt eru þar ákvæði um það að Verðbréfaþingið skuli hafa samvinnu við bankaeftirlit Seðlabankans á þeim sviðum þar sem það gegnir almennu eftirlitshlutverki lögum samkvæmt.
    Virðulegi forseti. Þetta frv. gerir ráð fyrir að Verðbréfaþingi Íslands verði með sérstökum lögum tryggðar nauðsynlegar heimildir til þess að rækja skyldur sínar, jafnt hér á landi sem gagnvart samstarfsaðilum okkar á væntanlegu Evrópsku efnahagssvæði. Ég legg áherslu á að þetta frv. fái sem fyrst afgreiðslu og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.