Friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 14:57:18 (1130)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég fullvissa hv. 8. þm. Reykn. um að hér er um venjulegt lagafrv. að ræða. Svo venjulegt að hv. 8. þm. Reykn. og hv. 7. þm. sama kjördæmis, sem þá var forsrh., stóðu að flutningi sams konar frv. á 113. löggjafarþingi sem stjórnarfrumvarps. Það hefur engin efnisbreyting verið gerð á því frv. sem þessir ágætu þingmenn stóðu þá að og studdu með þátttöku sinni í ríkisstjórn og framlagningu þess á þingi. Þetta hlýt ég að segja í upphafi míns máls til þess að skýra aðdraganda frv. Ég vil líka mótmæla því að sú breyting sem gerð hefur verið á 1. gr. feli í sér nokkra efnisbreytingu. Hún er eingöngu til þess ætluð að skýra það nánar sem í hinni upphaflegu gerð fólst. Það er líka nauðsynlegt að menn átti sig á því að í 2. mgr. 1. gr. segir skýrum orðum:
    ,,Eftirtaldir skulu einnig njóta friðhelgi og forréttinda samkvæmt samningum þessum hér á landi.`` Þetta virðist hv. 7. þm. Reykn. hafa hlaupið yfir í skilningi sínum á þessum orðum. Þar er einmitt tilvísunin því auðvitað er það ekki ætlunin að þessi friðhelgi eða forréttindi taki til annarra en þeirra sem hljótast af samningum sem Íslendingar hafa gert og hlotið hafa samþykki Alþingis. Þetta verður að segja alveg skýrt því annars er málið mjög misskilið.
    Ég vil líka láta það koma fram að með 2. gr. er alls ekki verið að færa ráðherra aukið reglugerðarvald. Hér hafa verið notuð orð eins og gjörsamlega opin heimild, alveg óbundið reglugerðarvald. Það er það að sjálfsögðu ekki. Í fyrsta lagi leyfi ég mér að benda á að í þeim lögum sem upp eru talin í 3. gr. er í flestum ef ekki öllum tilfellum reglugerðarheimild með venjulegu sniði fyrir í lögum. Í öðru lagi mun þetta regluvald aldrei fara út fyrir þann ramma sem samningurinn, sem í hlut á hverju sinni og þingið hefur staðfest, leyfir. Þetta er alveg venjulegt en ekki óvenjulegt. Ég leyfi mér að benda á að með þessu er í raun og veru verið að greiða fyrir þingstörfum, létta af þinginu þeirri þörf að setja sérstök lög um hvern þann samning sem það kýs að staðfesta. Það er verið að fara frá hinu sérstaka til hins almenna, tíunda það sem iðulega er í þessum samningum, ef um stofnanir er að ræða, festa það í almennan lagaramma. Það vakti athygli mína og ánægju að hv. 7. þm. Reykn. lýsti stuðningi sínum við þá viðleitni og lá skyldi honum hver maður að hann gerði það því hann stóð að flutningi frv. á 113. þingi. Þetta er alveg nauðsynlegt að komi fram. Ég vil líka láta það koma skýrt fram að í þessu felst ekki neitt efnislega nýtt. Þetta er eingöngu hugsað til að greiða fyrir þingstörfunum með nákvæmlega sama hætti og sú tilviljun að ég mæli nú fyrir frv. en ekki hæstv. utanrrh. Það er gert til þess að greiða fyrir þingstörfum að beiðni utanrrh. og forseta þingsins.
    Það vill svo til að ég þekki sum þessara mála en ég vil fullvissa hv. 7. þm. Reykn. um það að sá grunur hans að ég hafi á einhvern hátt þrýst sérstaklega á flutning þessa máls í fyrri ríkisstjórn eða á flutning þess hér og nú er alveg tilhæfulaus. Ég hef ekki neitt sérstakt kappsmál þar en tel mér skylt að stuðla að greiðari þingstörfum og létta af þinginu óþarfa lagasetningu um einstök mál ef um almenna reglu er þar að ræða og hægt að festa hana í lög svo sómi sé að með hliðstæðum hætti og er í löggjöf okkar nágrannaríkja. Ég verð að láta í ljós furðu mína á því að þeir ágætu þingmenn sem hér hafa talað og hafa oft og einatt viljað kenna sig við alþjóðahyggju skuli nú gerast dragbítar á einföldun og að settar séu eðlilegar reglur um samskipti okkar við aðrar þjóðir og mikilvægar alþjóðastofnanir eins og stofnanir Sameinuðu þjóðanna.