Jarðhitaréttindi

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 14:31:33 (1191)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Mér er bæði ljúft og skylt að verða við tilmælum hv. 4. þm. Austurl. að svara því hvað líði gerð frv. um eignarhald á auðlindum í jörðu sem boðað er að flutt verði sem stjfrv. á þessu þingi. Reyndar hafði áður, eins og kom fram hjá hv. þm., verið um það rætt að frv. yrði flutt í tengslum við EES-samninginn. Ég get skýrt frá því að frv. er á lokastigi. Það skal vel vanda sem lengi á að standa. Það er hverju orði sannara að það er vandasamt að fjalla um þetta mál þannig að öllu sé til skila haldið. Sú töf sem á því hefur orðið að frv. kæmi fram er eingöngu af því að við höfum viljað leita til hinna fróðustu manna í auðlindalögfræði og þeirra manna sem kunnugir eru því hvernig þessum málum er fyrir komið í okkar grannlöndum, bæði á Norðurlöndum og á hinu Evrópska efnahagssvæði sem væntanlegt er. Ég get fullvissað hv. þm. um að það sem fyrir mér vakir er að þarna verði byggt á sömu grundvallarreglum og í lögunum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins eftir því sem það getur átt við. Ég veit að ég þarf ekki að minna hv. þm. á það að almenn löggjöf um eignarhald á auðlindum í jörðu hefur aldrei verið sett hér á landi. Íslendingar hafa farið þá leið, og að mínu áliti var það miður, að freista þess að setja löggjöf um eignarhald á tilteknum verðmætum eða gögnum og gæðum, eins og hefur gerst með setningu námalaganna í upphafi þessarar aldar og um jarðhitalögin frá 1941. Ég tel að þetta sé gölluð aðferð og vil freista þess að setja fram tillögu um almenna löggjöf um þetta efni þar sem fjallað yrði um eignarhald á auðlindum í jörðu undir íslensku landi og netalögnum vegna þess að þar fyrir utan, á landgrunninu, eru þegar í gildi lagareglur eins og hv. þm. og þingheimi almennt er vel kunnugt.
    Deilumál um eignarhald á náttúruauðlindum hafa verið á Alþingi jafnlengi og þessi öld hefur liðið. Ég held að fyrstu bókfærðu deilurnar um það mál hafi verið á árunum 1904--1905. Síðan hefur næstum því á hverju einasta þingi verið eitthvað um þetta mál fjallað. Ég vonast til þess að okkur auðnist senn að koma þarna á góðum lagaramma.
    Ég veit að hv. 4. þm. Austurl. er mikill ahugamaður um þetta mál og ég treysti á gott samstarf við hann. Ég vil segja það alveg skýrt að ég held að það væri mjög affarasælt að það frv. sem stjórnin hyggst leggja fram komi fram sem fyrst og verði rætt í þinginu og í hv. iðnn. samhliða því frv. sem hv. 4. þm. Austurl. stendur að sem 1. flm. Ég vil, til þess að koma í veg fyrir misskilning, láta þess getið með skýrum orðum að í þeirri hugmynd minni, sem er mín eigin hugmynd en ekki annarra, felst alls ekki viðleitni til þess að tefja málið. Það er eðlilegt að það fari sína leið í gegnum þingið eins og fara gerir.