Jöfnunartollur á skipasmíðaverkefni

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 16:28:03 (1223)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Vegna þeirrar till. til þál. um jöfnunartolla á skipasmíðaverkefni sem hér er flutt af hv. 3. þm. Vesturl. o.fl., langar mig til að segja nokkur orð, bæði um efni tillögunnar og um ástand og horfur í skipaiðnaðinum.
    Mér finnst það kannski ekki nógu vandlega hugsað eða rökstutt af hálfu flm. að tala um erfiðleika íslenska skipasmíðaiðnaðarins eins og eitthvert séríslenskt fyrirbæri sem stafi eingöngu af vanrækslu og vanrækslusyndum stjórnvalda. Sannleikurinn er sá að skipaiðnaður í öllum hátekjulöndum Evrópu og sérstaklega um Norður-Evrópu, hefur glímt við mjög harðnandi samkeppni við lönd þar sem kaupið er lægra og aðgangur að ýmsum efnum ódýrari og hagkvæmari en gerist í hinum tekjuháu iðnríkjum. Íslendingar eru í raun og veru hreinræktað dæmi um þetta. Um þetta má segja margt, bæði gott og vont. En örugglega ekki að þetta sé íslenskt fyrirbæri. Þetta er alþjóðlegt fyrirbæri sem menn hafa brugðist við með ýmsum hætti. Ég bendi t.d. á hinn stolta skipasmíðaiðnað Svía sem í raun og veru hefur verið lagður af á síðustu áratugum.
    Mér finnst það líka ekki nógu vandlega athugað hjá hv. flm. þessa máls að halda því fram og vitna til, eins og hann sagði, manna sem ættu að vera ábyrgir orða sína, að íslenskur iðnaður hafi skroppið saman á sl. 20 árum, þvílík fjarstæða. Sannleikurinn er sá að íslenskur iðnaður hefur á sl. 20 árum haldið vel í við vöxt þjóðarbúsins í heild. Við hefðum viljað sjá meiri iðnvöxt. Sannleikurinn er sá að íslenskur iðnaður hefur stóraukist á 20 árum ef menn vilja skoða tölurnar. Við hefðum viljað að hann yxi enn hraðar og bindum vonir við að hann geti gert það í framtíðinni. En þegar menn endurtaka firrurnar nógu oft endar með því að þeir fara að trúa þeim sjálfir. Þetta er ekki sagt til að breiða yfir þau vandamál og erfiðleika sem við glímum við nú. En við verðum að skoða hlutina í sínu rétta samhengi. Sannleikurinn er sá að hlutur vöruframleiðsluiðnaðar í íslensku þjóðarbúskap hefur haldist betur uppi en í flestum löndum á sambærilegu tekjustigi. Ef menn skoða efnið sem fyrir liggur um þessi mál frá okkar nálægu löndum þá er þetta niðurstaðan.
    En svo ég komi aftur beint að efni tillögunnar þá vil ég taka undir það að hér er glímt við mjög erfiðan vanda. Í framhaldi af umræðum um samkeppnisstöðu skipaiðnaðarins á síðustu mánuðum ákvað ríkisstjórnin í septembermánuði að setja á fót starfshóp í því skyni að kanna hvort um ólögmæt undirboð pólskra skipasmíðastöðva hafi verið að ræða þegar þær að undanförnu hafa gert tilboð í breytingar á íslenskum fiskiskipum. Jafnframt hefur þessum hópi verið falið að kanna fyrirkomulag ríkisstyrkja sem samkeppnisaðilar íslenskra skipasmíðastöðva njóta í öðrum ríkjum á hinu fyrirhugaða Evrópska efnahagssvæði og bera saman þann stuðningi við þann sem íslenskur skipaiðnaður nýtur hér á landi.
    Nefndinni er líka ætlað að gera tillögur um viðbrögð við þessum aðstæðum. M.a. verður könnuð álagning jöfnunartolla á skipasmíðaverkefni sem er efni þessarar till. til þál. Ég tel hins vegar að kanna þurfi mjög vandlega umhverfið allt, heimildir okkar og skuldbindingar samkvæmt gerðum samningum og fleira af því tagi. Og svo reyndar hvort þetta sé til þess fallið að þjóna þeim tilgangi sem tillöguflutningi þessum er ætlað að þjóna.
    Ég vil ekki á þessari stundu segja neitt um hver verður niðurstaðan úr þessu starfi. En ég vildi líka láta það koma skýrt fram að meðal þess sem kannað verður verður einmitt þetta úrræði. Á því kunna að vera ýmis tormerki sem munu þá koma skýrt í ljós og Alþingi og einkum iðnn. þingsins og efh.- og viðskn., ef hún mun fjalla um þetta mál, fá að sjálfsögðu að fylgjast með því starfi.
    Mér þótti athyglisvert að þeim bar ekki alveg saman Skagamönnum, hv. 3. þm. Vesturl. og hv. 5. þm. Vesturl., um hvað valdið hafi vandræðum í skipaiðnaði að undanförnu. Annar sagði og segir reyndar hér skriflega í grg. með tillögunni. Með leyfi forseta vitna ég til grg.: ,,Skipasmíðar hér á landi hafa átt undir högg að sækja undanfarin ár. Ástæðurnar eru ekki verkefnaleysi í þjónustu við íslenska útgerð.``
    Hv. 5. þm. Vesturl. sagði einmitt, og ég hygg að hann muni gagnkunnugur málinu, að verkefnaskortur hafi bagað mjög þessa grein. Ég held að það sé rétt vegna þess að því miður er það einn þáttur í hinni íslensku mynd að það hefur orðið mikill afturkippur í verkefnum og þau eru sveiflukend og henta ekki vel okkar stöðvum. Það að nýsmíðaverkefnin hafa því sem næst horfið hjá okkur vegna erfiðleika í sjávarútvegi og breytinga í eftirspurn útvegsins eftir skipum hefur m.a. valdið því að baráttan um viðhaldsverkefnin innan lands hefur harðnað mjög og hefur víða komið fram í erfiðleikum.
    Þar er ég komin að því sem ég hygg að sé úrræða helst líklegt til að svara þessum vanda, og hv. 5. þm. Vesturl. vék að því í sínu máli, að við þurfum að huga að skipulagi greinarinnar. Þar undirbýr ráðuneytið nú að veita þeim fyrirtækjum sem saman vilja starfa stuðning í því viðfangi. Og ég held að viðbrögðin séu helst samstarf og sérhæfing. Samstarf fyrirtækja, hvort sem það er með sameiningu eða öðru fyrirkomulagi, og sérhæfing þeirra í þeim verkum sem þau geta best af hendi leyst. Ég held að það sé mjög mikilvægt að greinin snúist sjálf við þessum vanda með þessum hætti og að ríkið leggi þeim úrlausnum lið.
    Það var hárrétt athugað hjá hv. 5. þm. Vesturl. að það er rétt að byggja á skynsamlegum athugunum Appeldore fyrirtækisins breska sem nú er í raun og veru verið að endurnýja með þeirra hjálp og annarra. En ég held að þarna verði nú samt helst að vera heimafenginn baggi og hann muni reynast haldbestur. Ég á von á að úr þessu starfi komi senn niðurstöður sem að sjálfsögðu verða kynntar þinginu.
    Ég held að þarna sé líka ákaflega mikilvægt að menn hugsi fyrir fram um þá endurnýjunarbylgju sem hv. flm. þessa máls, hv. 3. þm. Vesturl., réttilega nefndi hér, hvernig við komum þar best fyrir okkar hagsmunum. Hvernig okkar skipastöðvar geta best nýst til að sinna og anna þeirri þörf. Það er ekki víst að það sé best gert með því að smíða skip með þeirri aðferð sem við höfum lengst af notað hér. Það má vel vera að samstarf og sérhæfing geti leyst það betur af hendi.
    Með þessum orðum, virðulegi forseti, vil ég ljúka mínu máli og vísa til þess sem ég hef sagt um efni tillögunnar að ég tel að hún þarfnist miklu nánari athugunar áður en hægt er að samþykkja hana.