Jöfnunartollur á skipasmíðaverkefni

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 16:43:18 (1225)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Vegna þess sem kom fram hjá hv. 3. þm. Vesturl. nú síðast vil ég vekja athygli á því að það sem hann las upp og hafði eftir Félagi ísl. iðnrekenda var allt annað en það sem hann hafði áður haft eftir þeim enda var það að vonum því það sem sagt var fyrr styðst ekki við rétt rök eða staðreyndir. Hitt er annað mál að við glímum núna við atvinnuvanda víða í iðnaði, ekki síst í skipaiðnaðinum. Um það veit ég að við erum sammála og munum sameiginlega reyna að taka á því.
    Vegna þess sem hér hefur verið rætt um Pólland og mjög lág tilboð þeirra í skipaviðgerðir og önnur skipasmíðaverkefni og vegna þess sem hér var nefnt um fríverslunarsamning milli EFTA-ríkjanna og Póllands vil ég láta það koma fram að Íslendingar hafa ekki undirritað slíkan samnining. Hann hefur ekki verið staðfestur af okkar hálfu. Í honum eru eftir því sem ég veit best ekki nein sérstök ákvæði um skipasmíðar. Spurningin sem hv. þm. vakti og fleiri hafa gerst til að vekja er hvort almenn ákvæði hans um skuldbindingar um takmörkun á ríkisstuðningi eigi eða geti átt sérstaklega við skipasmíðar og þá á það jafnt við um pólsku hliðina sem EFTA-hliðina. Ég vil láta það koma fram hér að þetta mál verður kannað að minni beiðni innan utanrrn. sem fer með þetta mál. Ég mun þar reyna að gæta hagsmuna okkar skipaiðnaðar eftir því sem kostur er.
    Vegna þess sem kom fram áðan hjá hv. 5. þm. Vesturl. um samning um viðgerðir á strandferðaskipinu Heklu eða því skipi sem áður bar það nafn vil ég láta það koma fram að iðnrrn. var öldungis ókunnugt um þann samning. Hafi hann verið gerður, þá er það á ábyrgð samgrn. og fjmrn. Ég vil líka láta það koma fram hér að ég tel það ekki hyggilegt að gera slíkan samning af hálfu ríkisins meðan ríkið sjálft er að athuga hvort um undirboð sé að ræða frá því ríki sem þarna er um að tefla, Póllandi. Fyrir því sjónarmiði hef ég talað og mun tala og mun láta á það reyna hvort gerður hafi verið bindandi samningur um þessa viðgerð. Hvað sem um þann samning má að öðru leyti segja eru aðstæður þannig, vegna þeirrar sérstöku athugunar sem fram fer á vegum ríkisstjórnarinnar á því hvort pólsku tilboðin séu óeðlileg og ósanngjörn, að hún hlýtur að halda að sér höndum í því máli.
    Þetta, virðulegur forseti, vil ég láta koma fram hér og nú.