Afstaða Landsvirkjunar til lækkunar orkuverðs

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 11:22:48 (1675)


     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Vestf. hefur beint til mín tveimur spurningum. Hin fyrri er: Hver er afstaða Landsvirkjunar til þess að auka afslátt á heildsöluverði raforku til hitunar á íbúðarhúsnæði?
    Til þess að skýra þetta mál ætla ég aðeins að rifja upp bréfaskipti iðnrn. við stjórn Landsvirkjunar. Hinn 10. apríl á þessu ári skrifaði ég stjórn Landsvirkjunar bréf og áréttaði þar þá ósk iðnrn. að fyrirtækið lækki heildsöluverð á raforku til íbúðarhúsnæðis í samræmi m.a. við þær umræður sem fram fóru á Alþingi og hv. 3. þm. Vestf. vitnaði til.
    Í bréfinu minnti ég á tillögur orkuverðsjöfnunarnefndar sem, eins og hv. fyrirspyrjandi rifjaði upp, starfaði á vegum iðnrrn. veturinn 1990--1991. Í þeirri nefnd voru fulltrúar allra flokka sem þá áttu sæti á Alþingi. Í framhaldi af starfi þessarar nefndar var lögð fram á þinginu þáltill. um lækkun húshitunarkostnaðar eftir tillögu meiri hluta nefndarinnar. Það náðist ekki að afgreiða þessa tillögu fyrir þinglok eins og fram kom áðan, en annar liður ályktunartillögunnar beindist að stjórn Landsvirkjunar. Hún var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi beinir því til þingkjörinna fulltrúa í stjórn Landsvirkjunar að þeir á þeim vettvangi beiti sér fyrir sérstökum aðgerðum til lækkunar á heildsöluverði raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis. Aðgerðirnar miði að því að heildsöluverð á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis lækki á næstu tveimur árum niður í kostnaðarverð orku frá nýjum virkjunum að viðbættum flutningskostnaði til dreifiveitna.``
    Með bréfi mínu frá 10. apríl sl. var þessi ósk ráðuneytisins áréttuð til stjórnar Landsvirkjunar að hún vinni að því að þetta markmið náist. Í því sambandi var vísað til bréfs sem ráðuneytið hafi skrifað Landsvirkjun 21. maí 1991. Í bréfinu segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ráðuneytið bendir jafnframt á að vegna lágs heimsmarkaðsverðs á olíu er kostnaður við rafhitun íbúðarhúsnæðis svipaður eða hærri en við olíukyndingu þrátt fyrir auknar niðurgreiðslur ríkissjóðs. Ráðuneytið væntir þess að afstaða stjórnarinnar til þessa erindis liggi fyrir í maí nk. en 1. júní verður ár liðið frá því að niðurgreiðslur ríkissjóðs voru auknar og reglum um þær breytt. Sá áfangi náðist fyrst og fremst með auknum niðurgreiðslum ríkissjóðs. Í næsta áfanga væri æskilegt að hlutur orkufyrirtækjanna yrði stærri.``
    Stjórn Landsvirkjunar mun hafa fjallað um þetta erindi og í svari sem barst frá fyrirtækinu 4. júní á þessu ári var vakin athygli á því að 1. júní 1991 hafi rafhitunarafsláttur Landsvirkjunar hækkað úr kr. 0,155 á kwst. í 20 aura á kwst. og hafi hann frá þeim tíma miðast við allt að 30.000 kwst. á íbúð á ári í stað 40.000 kwst. áður. Þessi breyting var einmitt gerð í sambandi við þá kerfisbreytingu og aukningu á niðurgreiðslum ríkissjóðs sem tók gildi 1. júní 1991.
    Stjórn Landsvirkjunar taldi hins vegar í sínu svari ekki unnt að koma til móts við þau tilmæli mín sem ég hef skýrt frá þar eð hvorki, að þeirra áliti, verðlagningarsjónarmið né ríkjandi markaðsaðstæður réttlættu verðlækkun af þeirra hálfu.
    Með svari Landsvirkjunar fylgdi ítarleg greinargerð um samkeppnisstöðu raforku til húshitunar sem tímans vegna verður ekki unnt að gera skil hér, en ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að láta fyrirspyrjanda þessa greinargerð í té.
    Ráðuneytið sendi Landsvirkjun spurningar fyrirspyrjanda og í svari við þeirri ósk ráðuneytisins vísaði fyrirtækið eingöngu til svars við bréfi ráðuneytisins frá 4. júní á þessu ári.
    Þetta læt ég nægja um bréfaskipti mín við Landsvirkjun vegna þessa máls og sný mér þá að síðari hluta spurningarinnar sem var: Hyggst Landsvirkjun taka þátt í því að lækka húshitunarkostnað?
    Við þeirri spurningu hef ég það svar eitt að segja að núverandi afstaða stjórnar Landsvirkjunar hefur þegar komið fram í því sem ég hef rakið. Með því er ég ekki að segja að hún kunni ekki að breytast síðar, um það get ég ekki fullyrt á þessari stundu, en eitt get ég fullyrt að ég mun leggja að Landsvirkjun að taka þátt í þessu verkefni.