Lánskjör og ávöxtun sparifjár

44. fundur
Mánudaginn 02. nóvember 1992, kl. 14:35:52 (1748)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Oft erum við sammála, ég og hv. 1. þm. Vestf., en ekki í dag. Hv. þm. sagði að nú væri enn ríkari þörf en áður hefur verið á að samþykkja frv. Þar vil ég lýsa mig honum algerlega ósammála. Þetta frv. er nú flutt í sjötta sinn. Frá því það var fyrst flutt hefur verðbólga á Íslandi hjaðnað meira en dæmi eru um í sögu lýðveldisins. Verðbólgan er núna lægri en hún hefur nokkurn tíma verið sl. hálfa öld. Veit ég víst að þetta er ekki varanlegt ástand en þetta er mjög mikill árangur í þessu hálfrar aldar stríði við verðbólguna. Ég vil vekja athygli þingmanna og flm. á því að það er einmitt á þeim tíma sem þetta gerist að lánskjaravísitala er hér við lýði. Ég tel það þess vegna ekki rétta skoðun að lánskjaravísitalan sjálf sé verðbólguvaldur, að henni fylgi sjálfkrafa verðbólguskrúfa. Þvert á móti sýnir reynsla síðustu fimm ára að svo er ekki. Ég held því alls ekki fram að þarna sé orsakasamhengið það að það sé lánskjaravísitölunnar vegna að verðbólgan hefur hjaðnað, því fer víðs fjarri. En þetta sýnir bara svo ekki verður um villst að vandamálið liggur annars staðar. Eins og ég vék að í minni fyrri ræðu, þá hefur tekist að stöðva framrás verðbólgunnar. Ég tel núna enga ástæðu til að samþykkja frv. af þessu tagi. Ég hef áður lýst því að ég er því andvígur. Fram undan er að fella úr lögum ákvæði sem skylda til notkunar ákveðinnar lánskjaravísitölu. Reyndar tel ég eðlilegt að við samræmum okkar skipan á þessu sviði því sem algengast er í okkar viðskiptalöndum, þ.e. það séu ekki lagaákvæði um verðtryggingar fjárskuldbindinga og heldur ekki bann, að mönnum sé frjálst að semja um þetta eins og aðra þætti lánskjara. Slíka breytingu er því aðeins óhætt að gera að menn telji sig hafa náð nokkurn veginn jafnvægi í verðlagsmálum. Ég vona að það fari senn að verða óhætt að segja að svo sé og ítreka afstöðu mína til frv.
    Ég skil vel að frv. er í góðu skyni flutt og þess vegna leyfði ég mér að segja þegar við ræddum frv. síðast, af því að það kom í síðustu fimm skiptin fram um vor, að maður væri farinn að líta á frv. eins og vorboðann. Nú er það flutt að hausti og þar með er slíkur andblær, sem því áður fylgdi, úr sögunni.
    Ég er andvígur frv. og hef ekki fleira um málið að segja.