Lækkun vaxta

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 13:49:14 (2306)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Vegna spurningar hv. 6. þm. Norðurl. e. vil ég láta það koma fram að ríkisstjórnin hefur ítrekað rætt mikilvæg atriði sem varða ákvörðun vaxta og lánskjara í landinu. Þar vil ég fyrst nefna að sjálfsögðu eftirspurn ríkisins sjálfs eftir lánsfé, með öðrum orðum útgáfu ríkisskuldabréfa. Það er mikilvægast í þessu máli að halda henni við hóf. Það þarf að huga að fjölmörgum öðrum atriðum í málinu, m.a. þeim starfsskilyrðum sem Seðlabankinn setur viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum. Þar nefni ég bindiskyldu, þar nefni ég fyrirkomulag á ákvörðun dráttarvaxta. Ég nefni þar afskriftir vegna tapshættu. Ég nefni þarna fjölmörg atriði sem varða rekstrarskilyrði bankanna. Þetta mál hefur verið rætt af fulltrúum ríkisstjórnarinnar og Seðlabanka við viðskiptabanka og sparisjóði. Ég mun í dag t.d. eiga fund með bankastjórn Seðlabankans og fulltrúum bankastjórna viðskiptabanka og sparisjóða einmitt til að ræða það hvernig þessi skilyrði verði best lögð til að vaxtalækkun geti orðið enda séu þessar forsendur rétt vísandi fyrir þá þróun.
    Vextir verða ekki lækkaðir með valdboði einu saman en það er margt sem hið opinbera með ítökum sínum á lánamarkaði getur gert til að stuðla að lækkun vaxta enda séu horfur á að verðlagsþróun fram undan, stöðugleiki í gengi, stöðugleiki í launaþróun meðal þess sem á er hægt að byggja. Að þessu marki beinist viðleitni ríkisstjórnarinnar og samstarf hennar við aðilana á vinnumarkaðnum og aðilana á lánamarkaðnum.