Viðskiptabankar og sparisjóðir

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 16:04:43 (2321)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér virðist að hv. 4. þm. Norðurl. e. hafi ekki alveg meðtekið það sem ég sagði áðan. Það var að það væri að mínu áliti æskileg breyting til að stuðla að betri rekstri og meira öryggi í bankakerfinu að bankar væru reknir með takmarkaðri ábyrgð og þeim reglum sem gilda um rekstur hlutafélagsbanka. Það er hins vegar ekki nægilegt skilyrði, þótt þessu yrði fullnægt, til þess að tryggja áfallalausan eða öruggan bankarekstur, hvorki hér á landi né annars staðar. Það er þessi einfaldi munur á því sem er æskilegt og því sem er nægilegt. Þetta er allt sem um þetta mál þarf að segja og fjarstæðukennt að halda því fram að nokkuð annað hafi verið látið í ljós af minni hálfu.
    Ég tel í raun og veru enga þörf á að bæta við það sem ég sagði áðan um það hvað gerast muni í ársbyrjun 1996 samkvæmt EES-samningnum, þ.e. að eftir þann tíma verði ekki mismunun eftir þjóðerni.