Viðskiptabankar og sparisjóðir

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 16:07:10 (2323)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. þrástagast á því að það að ríkisbanki geti gengið vel sanni svo ekki verði um villst að hlutafélagsbreyting gæti ekki gert bankarekstur betri. Það er að sjálfsögðu hverjum manni ljóst sem hugsa vill um málið að þetta sannar ekki neitt. Að sjálfsögðu er það rétt í þessu eins og öðru að þar veldur hver á heldur. Það er að mínu áliti farsælla þegar horft er til langrar framtíðar, hvað sem segja má um breytingar á líðandi stund, að breyta því formi sem við höfum á ríkisbankaeigninni einmitt til þess að gera okkar bankakerfi skilvirkara og öruggara.