Aðgerðir gegn peningaþvætti

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 16:41:20 (2331)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Fyrst vil ég fagna þeim stuðningi við efnistillögur frv. sem fram komu í máli hv. 9. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Suðurl. Það er vel og boðar gott um framhald málsins í þinginu.
    Um gildistökuákvæðið vil ég fyrst segja það að eins og fram kemur í athugasemdum við lagafrv. er það svo að samkvæmt samningnum um Evrópskt efnahagssvæði er Ísland skuldbundið til þess að hafa lagað löggjöf sína að þessari gerð eða tilskipun Evrópubandalagsins sem fjallar um peningaþvætti, eða aðgerðir gegn því, við gildistöku EES-samningsins. Það er skuldbinding sem ég vil fyrir mitt leyti að við virðum og þess vegna er frv. flutt með því gildistökuákvæði sem í því er. Út af fyrir sig er það alveg rétt að það hefur almennt gildi og þarf að leiða í lög hvort sem við gerumst aðilar að Evrópsku efnahagssvæði eða ekki. Ég bendi bara á að við erum skuldbundnir til þess að leiða í lög lágmarksákvæðið sem finna má í þessari gerð Evrópubandalagsins sem er nr. 91/308. Þetta vil ég láta koma fram. Náist um það samkomulag að afgreiða málið fyrir áramót þarf enga slíka tilvísun í það frá mínum bæjardyrum séð en að sjálfsögðu er þá tímaatriðið mikilvægt.
    Ég vil líka segja um efnisatriðin sem hv. 9. þm. Reykv. nefndi að frávikið frá bankaleynd, sem felst í þessu frv., er að sjálfsögðu fyrst og fremst rökstutt með því að við erum hér að verjast refsiverðum verknaði, koma í veg fyrir að fyrir slíkum athöfnum sé greitt. Þess vegna er að mínu áliti eðlilegt að hafa þetta í sérstökum lögum. Hins vegar er ég mjög opinn fyrir því að hv. efh.- og viðskn. kanni það, sérstaklega af því að hún fjallar um frv. til nýrra laga um viðskiptabanka og sparisjóði, hvort eitthvað af ákvæðum þessa lagafrv. eigi eðlilega heima þar. Ég vek athygli á því að nefndin sem samdi frv. hafði fulltrúa frá bönkunum, Seðlabankanum og dómsmrn. sér til halds og trausts. Við erum hér að fullnægja skuldbindingum sem við höfum tekið á okkur víðar en á vettvangi hins Evrópska efnahagssvæðis.
    Vegna athugasemdar hv. 2. þm. Suðurl. um það að ég hefði sagt að aðild okkar að EES fylgdi meiri hætta á því að Íslands tengdist skipulagðri glæpastarfsemi vil ég taka skýrt fram að það sagði ég ekki. Ég sagði hins vegar að það aukna alþjóðlega samstarf sem setur svip sinn á heiminn, Ísland meðal annarra landa, gerir það því miður nauðsynlegt að grípa til sérstakra ráða til að verjast alþjóðlegri glæpastarfsemi. Þetta hefur merkingu hvort og þá hvenær við verðum aðilar að EES. Þetta vil ég láta koma alveg skýrt fram.
    Hv. 9. þm. Reykv. taldi nokkur atriði í frv. sýna að það væri vanbúið. Ég er honum alls ekki sammála um það. Það má vel vera rétt að sumt af þessum reglugerðarefnum séu verklagsfyrirmæli sem gefa megi í bönkum. Það kemur þá væntanlega fram í reglugerðinni en það er ekkert í frv. sem er óvenjulegt hvað varðar reglugerðarheimildir.
    Hins vegar út af því sem hann sagði réttilega að væri nokkuð óvenjulegt að finna svona ,,sic`` í athugasemdatextanum við frv. en þær athugasemdir hv. þm. sýndu enn á ný að mönnum skýst þótt skýrir séu. (Gripið fram í.) ,,Sikkið`` er einmitt þegar Íslensk málstöð, sem hefur tekið að sér að þýða heilmikið af þessum tilskipunum fyrir ríkið, er að þýða heiti þessara tilskipana, þá notar hún ekki það orð sem hún hefur sjálf lagt til, nefnilega þvættið. Bæði dæmin eru einmitt þar sem notað er hið jákvæða orð þvottur. Ég bið hv. þm. að kynna sér betur athugasemdatextann áður en hann fer að finna að þessu. Hins vegar þykist ég vita að það sé yfirsjón prófarkalesarans að hafa ekki fjarlægt þetta sic. Þetta mun hafa verið til þess að vekja athygli þeirra sem unnu að endanlegri gerð frv. að þarna er notað annað hugtak. En það geti byggst á því að þarna sé um að ræða opinbera eða hálfopinbera þýðingu á þessum tilskipunum. Ég vek athygli á því að á bls. 3 og eins á öðrum stað í þessum texta er það einmitt ekki þvættishugtakið sem notað er heldur, eins og segir í athugasemdum við frv. á síðu 3, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hinn 10. júní 1991 samþykkti ráð Evrópubandalagsins tilskipun nr. 91/308 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvottar (sic).`` Athyglismerkið, sem ekki þarf endilega að vera háðsmerki þótt hv. 9. þm. Reykv. vildi svo vera láta, mun vera vegna þess að orðanotkun er ekki samræmd. Það hefði átt að gera en þarna var e.t.v. um fastan texta að ræða sem höfundar frv. fengu engu um breytt. Ég þakka hv. þm. fyrir þá natni og athygli sem hann sýnir með því að benda á þessa eiginleika í athugasemdum frv.