Aðgerðir gegn peningaþvætti

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 16:49:00 (2333)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég játa það að vísu að við sameiginlega, ég og hv. 9. þm. Reykv., tökum nokkra áhættu hvað það varðar að hér kynni að vera að hefjast málþvætti, sem er að sjálfsögðu nýyrði fyrir málþóf í þinginu. Ég vil samt bæta þeim orðum við að gildistökuákvæðið, eins og það er, er ekki sett þar af neinni tilviljum. Það er einmitt af því að Ísland hefur skuldbundið sig til þess að laga löggjöf sína að þessari gerð eða tilskipun frá Evrópubandalaginu samkvæmt EES-samningnum. Við verðum að reyna að standa við það.
    Hitt er svo annað mál að sé unnt að koma því svo fyrir að almenn löggjöf hafi almennan gildistökutíma, þá er það bara hið besta mál. Ef hægt er að ná samkomulagi um það að samþykkja frv. með hinum venjulegu orðum: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi``, og það takist í tæka tíð, þá fagna ég því manna fyrst.