Umhverfismat á virkjunarframkvæmdum á Jökulsá á Fjöllum

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 11:54:38 (2422)



     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr hvort fram hafi farið umhverfismat á hugsanlegum virkjunarframkvæmdum á Jökulsá á Fjöllum og hvort slíks mats sé að vænta hafi það ekki farið fram. Hið beina svar er að umhverfismat hefur ekki farið fram vegna hugsanlegra möguleika á því að virkja Jökulsá á Fjöllum í eigin farvegi enda hafa ekki verið uppi slík áform um framkvæmdir, a.m.k. ekki fyrir allra næstu ár. Reyndar voru hugmyndir um slíka virkjun settar fram fyrir nokkrum árum og endurskoðaðar árið 1991 á vegum Landsvirkjunar en lengra er það mál ekki komið.
    Á hinn bóginn voru á 8. áratugnum á vegum Orkustofnunar mótaðar fyrstu hugmyndir um virkjun Jökulsár á Fjöllum og Jökulsdár á Dal og í framhaldi af því hófust athuganir á umhverfisáhrifum vegna hugsanlegra virkjunarframkvæmda samkvæmt þeirri hugmynd sem hv. fyrirspyrjandi vísaði nokkuð til áðan í máli sínu. Frá þessum tíma hefur verið að því unnið að leita leiða til að koma til móts við sjónarmið um umhverfisnvernd á svæðinu við hugsanlegar virkjunarframkvæmdir. Þetta mál hefur verið til meðferðar í samstarfsnefnd iðnrn. og Náttúruverndarráðs um orkumál, sem oft er nefnd skammstöfuninni SINO.
    Vinnuhópur á vegum samstarfsnefndarinnar, SINO, hefur borið saman virkjunarkosti í Jökulsá á Fjöllum og Jökulsá á Dal og lagði skýrslu fyrir samstarfsnefndina í apríl 1990. Þessi skýrsla var líka kynnt á fundi Náttúruverndarráðs í maí það sama ár. Á þeim fundi mótaði Náttúruverndaráð þá stefnu í sambandi við hugmyndir um virkjun Jökulsár á Fjöllum í eigin farvegi að vernda beri fossa í ánni þannig að í þeim verði eðlilegt vatnsmagn að sumarlagi og ekki skuli reisa virkjunarmannvirki í Jökulsárgljúfrum en hv. fyrirspyrjandi nefndi einmitt þann stað. Þessi stefna ráðsins var kynnt á fundi SINO í júní árið 1990. Í framhaldi af því var ákveðið að hefja myndatökur af Dettifossi til að kanna hvernig útlit hans breytist eftir vatnsmagni og framburði til sjávar. Að þessu verki er nú unnið og reyndar hefur það þegar leitt í ljós að fossinn hefur verið að breytast í sögunnar rás og má sjá það glöggt af samanburði misgamalla ljósmynda af honum.
    Í þessu sambandi hefur einnig verið vakin athylgi á því að kanna þurfi umhverfisáhrif þess að aurburður ánna til sjávar muni að öllum líkindum minnka verði árnar virkjaðar. Orkustofnun hefur þess vegna gert frumkönnun á líklegum breytingum á ströndinni fyrir botni Héraðsflóa og fyrir botni Öxarfjarðar með hliðsjón af þeim vatnsflutningum sem greina eru taldir koma. Ef litið er á hagkvæmnissjónarmið, þá virðist hagkvæmara að veita vatni úr Jökulsá á Fjöllum yfir í Jökulsá á Brú en að virkja ána í eða við farveg hennar sjálfrar. Landsvirkjun er nú að kanna þennan möguleika nánar og virkjunarkosti sem því fylgja. Að tillögu fulltrúa Náttúruverndarráðs í SINO var í byrjun þessa árs samþykkt að ráða líffræðing til að fara yfir fyrirliggjandi gögn með sérfræðingum sem hafa unnið að umhverfisathugunum á svæðinu og leggja mat á umhverfisáhrif mismunandi virkjunarleiða á áhrifasvæði veitu og virkjana á landsvæðinu á milli jökulsánna, sunnan Þríhyrningsvatns. Þetta mat miðar m.a. að því að kanna og bera saman hugsanleg lónstæði. Það er gert ráð fyrir að niðurstöður liggi fyrir um miðjan næsta mánuð.
    Með þessum orðum, virðulegur forseti, hef ég gert grein fyrir þeim umhverfisathugunum sem fram fara vegna hugsanlegra virkjanaframkvæmda við jökulsárnar á Norðaustursvæðinu.
    Við þetta svar get ég svo bætt því að að sjálfsögðu verður umhverfisvernd í heiðri höfð við ákvarðanir um virkjunarframkvæmdir á þessu svæði enda hefur þess verið gætt við allar ákvarðanir um virkjunarframkvæmdir hér á landi, a.m.k. undanfarna tvo áratugi.
    Jafnframt vil ég benda á að verði það frv. til laga um umhverfismat að lögum, sem lagt hefur verið fram hér á Alþingi, er alveg ljóst að ekki verður ráðist í virkjun Jökulsár á Fjöllum án þess að fyrir liggi vandað mat á áhrifum slíkrar virkjunar á umhverfið.