Vaxtalög

64. fundur
Fimmtudaginn 26. nóvember 1992, kl. 14:47:04 (2738)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst þakka stuðning þeirra hv. þm., sem talað hafa, við þetta frv. Ég vil taka skýrt fram til þess að taka af öll tvímæli að ég vil alls ekki gera ákaflega mikið úr beinu vægi þessarar breytingar á lánamarkaðinn. En hún hefur hins vegar táknrænt gildi og mig langar til þess að minna hv. þm. á að ákvörðun Seðlabankans um dráttarvexti hefur ekki eingöngu áhrif á dráttarvaxtatölurnar hjá bönkum og sparisjóðum heldur líka í algengum viðskiptum manna og fyrirtækja á meðal.
    Mér fannst þess gæta nokkuð í máli þingmanna hér áðan að þeir litu ekki til þess að við værum með þessum hætti að gefa um það merki að nú væri orðið tímabært að lækka nafnvaxtakröfur vegna þess að verðbólgan hefði gengið svo mikið niður sem raun ber vitni. Mig langar aðeins til að nefna það hér að ég tel að með þessari ákvörðun sé að sjálfsögðu verið að ryðja úr vegi lagahindrun fyrir því að láta þennan mun fylgja verðbólgustiginu og þar með vaxtastiginu. Sannleikurinn er sá að hlutfall þessarar viðbótar af meðalávöxtun venjulegra útlána var orðið allt of hátt. Ef maður lítur t.d. á hvar þessi tala var þegar þetta var upphaflega sett í lög 1987, þá var þetta um það bil fjórðungur af meðalávöxtun nýrra útlána, þessi viðbót, um 7% eða eitthvað þar um bil. Nú værum við hins vegar að tala um tölur sem stöppuðu nærri að vera helmingur af meðalávöxtun nýrra útlána. Það tel ég vera úr hófi þótt það sé vissulega rétt sem kom fram í máli nokkurra þingmanna, bæði hv. 4. þm. Norðurl. e. og 18. þm. Reykv., að auðvitað verður dráttarvaxtaálagið að fela í sér hemil á það að menn dragi greiðslur úr hófi fram. Ég tel hins vegar að með þessu sé verið að gefa merki um að Seðlabankanum sé frjálst að fara neðar með þetta enda tel ég eðlilegt að þetta hlutfall fari ekki mikið fram úr fjórðungi eða þriðjungi af meðalávöxtun nýrra útlána og hefur reyndar oft og tíðum verið lægra en það. Það verður því að líta á þessar hlutfallstölur, ekki á hinar beinu hundraðstölur eða hundraðshlutana eins og þeir birtast mönnum.
    Ég vil hins vegar taka það skýrt fram að það er misskilningur hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. að við séum hér að fara inn í verðbólguskeið. Ég tel að það sé alveg ljóst að verðbólgan milli áranna 1991 og 1992 verði um 3,7% að meðaltali á mælikvarða framfærsluvísitölunnar, hin lægsta um áratuga skeið. Horfurnar fyrir næsta ár eins og fram hefur komið í greinargerð ríkisstjórnarinnar fyrir aðgerðunum um eflingu atvinnulífs sýna að búist er við að meðaltala næsta árs verði 4--4,5% sem er miklum mun lægra en verið hefur um langan aldur og miklu lægra en var á síðustu 4--5 árum. Þetta finnst mér mikilvægt. Ég tel að svo kunni að fara að sú verðhækkun sem óhjákvæmilega mun fylgja gengisbreytingunni verði minni en við venjulegar gengisbreytingaraðstæður, einfaldlega af því að gengisbreytingin sem ákveðin var á mánudagsmorgun var að miklu leyti aðlögun að breyttum aðstæðum í umhverfi okkar. Það má kalla hana að ýmsu leyti núllstillingu upp á nýtt miðað við aðstæður á evrópskum gjaldeyrismarkaði. Þetta tel ég æskilegt að komi hér fram.
    Ég vil líka taka það fram vegna beinna spurninga hv. 6. þm. Norðurl. e. og hv. 18. þm. Reykv. að þetta mál hefur verið rætt við stjórn Seðlabankans, það hefur verið kynnt viðskiptabönkum og sparisjóðum, að vísu ekki í nákvæmum greinum enda er það þingsins að setja þessar reglur. Hins vegar er þeim vel kunnugt um þessi áform og ég tel víst að þegar heimildin hefur verið veitt af þingsins hálfu muni Seðlabankinn endurskoða sína síðustu ákvörðun um það að dráttarvextir í desember séu 18,25% og eins og fram kom hér áðan muni sú tala lækka í 16--16,5%. Þetta byggi ég á samtölum og samráði við Seðlabankann en það er að sjálfsögðu hans að taka þessa ákvörðun í smáatriðum, þingsins að setja lagalegar forsendur fyrir eðlilegri aðlögun að minni verðbólgu en verið hefur.
    Ég tel að með þessu hafi ég svarað því sem beinlínis snýr að þessu tiltekna máli. En það er vissulega rétt sem kom fram hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. að það er mikilvægt að treysta sem best eiginfjárstöðu bankanna. Það er mikilvægt að gefa þeim rýmri heimildir til þess að breyta skuldum í hlutafé enda liggur, eins og kom fram í máli þingmannsins, fyrir þinginu tillaga um það efni í hinu nýja frv. til banka- og sparisjóðalaga. Ég treysti þess vegna á fulltingi og atbeina þingmanna til að koma þeim ákvæðum í lög og fullvissa þingmanninn um að það er einmitt það sem fyrir flm. frv., ríkisstjórninni, vakir, að treysta fjárhagsgrundvöll bankanna. Ég tel að þar megi leita ýmissa leiða, m.a. almennra skuldbreytingaleiða. Ég tel að það sé ákaflega mikilvægt að lánstími og lánskjör verði færð í hátt við stöðugleikann sem við höfum náð og sem við hyggjumst treysta í framtíðinni.
    Með þessum orðum ætla ég að víkja nokkuð að því sem kom fram í máli hv. 5. þm. Suðurl. Ég tel að það sé í sjálfu sér rétt hjá hv. þm. að með þessari ákvörðun verði ekki gerð nein grundvallarbreyting á vaxtakjörunum í landinu. Þingið hefur að sínu leyti þó gert það sem í þess valdi stendur til að greiða fyrir þeirri aðlögun á þeim stað þar sem hún á að fara fram, í bönkum og sparisjóðum og á vettvangi bankakerfisins. Það er líka hárrétt athugað hjá hv. þm. að það mikilvægasta fyrir lánamarkaðinn af því sem stendur í valdi hins opinbera, ríkisins, er að draga úr útgáfu ríkispappíra þannig að vextir á þeim geti farið lækkandi. Þetta heyri ég að hv. þm. er mér algerlega sammála um og ég vil láta í ljós ánægju með þann skilning sem fram hefur komið á viðfangsefni bankakerfisins í þessum umræðum. Sérstaklega þótti mér það athyglisvert í máli hv. 4. þm. Norðurl. e. að hann hafði á því mikinn skilning að bankakerfið þyrfti að meta þessar breytingar inn í sinn fjárhag. Ég tel hins vegar enga hættu á því að menn ofmeti áhrifin. Það kom reyndar fram hjá hv. þm. að hann teldi að þetta mundi ekki velta mjög háum fjárhæðum í fjárhag bankakerfisins. Ég vil taka fram að ég fagna þeirri ábyrgu afstöðu sem fram hefur komið í þeim málflutningi.
    Ég vík svo að endingu, virðulegi forseti, að því sem kom fram hjá hv. 5. þm. Suðurl., Guðna Ágústssyni, að það væri ákaflega mikilvægt að ná samkomulagi við lífeyrissjóðina sem nú ráða fyrir stærstum hluta sparnaðar landsmanna. Í því sambandi langar mig til þess að rifja upp að fyrir síðustu helgi, nánar tiltekið á laugardag, átti ég ásamt hæstv. fjmrh. fund með fulltrúum Sambands almennra lífeyrissjóða og Landssambands lífeyrissjóða um stöðu sjóðanna á íslenskum fjármagnsmarkaði og hvernig þeir geta best stuðlað að framförum á honum. Þar var m.a. rætt um skuldabréfaviðskipti lífeyrissjóðanna og hins opinbera og hvað hvor aðili um sig gæti best gert til þess að stuðla að betra jafnvægi á lánamarkaðnum og lægri vöxtum. Við fjölluðum sérstaklega um þátttöku lífeyrissjóðanna í fjármögnun atvinnulífsins með auknum hlutabréfakaupum. Menn urðu sammála um það á þessum fundi að það væri æskilegt að stefna að því að á árunum 1993 og 1994 verji lífeyrissjóðirnir, og þar með taldir hinir opinberu lífeyrissjóðir, a.m.k. 5% af sínu árlega ráðstöfunarfé til að kaupa hlutabréf í íslenskum fyrirtækjum. Hér er um háa fjárhæð að ræða á mælikvarða íslenska fjármagnsmarkaðarins eða um 1.800 millj. kr. Ég tek það fram að ég legg ekki síður mikið upp úr fyrri þættinum í þessu samráði við lífeyrissjóðina, þ.e. hvernig best sé að haga skuldabréfaviðskiptum þeirra og hins opinbera. Þar er augljóslega mjög vandasamt og mikilvægt verkefni. Ég tek undir með hv. þm. að það er mikilvægt að menn hugi vandlega að þeim viðskiptum á næstunni.