Samkeppnislög

68. fundur
Miðvikudaginn 02. desember 1992, kl. 23:16:57 (2902)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Örfá orð um síðari ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. Í fyrsta lagi vil ég taka skýrt fram að ég er alls ekki andvígur hugmyndinni um breytingu á 17. gr., eins og henni hefur hér verið lýst. Ég er samt ekki viss um að hún sé nauðsynleg, en ég heyri það að um hana er efnislegt samkomulag. Ég vil alls ekki standa í vegi fyrir því.
    Í öðru lagi um forúrskurðina sem ákvæði eru um í 18. gr. í þeirri gerð sem hér er gerð tillaga um. Þeir eru sannarlega mikilvægir. Ég er sammála hv. 4. þm. Norðurl. e. um það að þeir gætu styrkt stöðu samkeppnisráðs og Samkeppnisstofnunar.
    Í þriðja lagi um brtt. hv. 4. þm. Norðurl. e. á þskj. 358. Ég vil taka alveg skýrt fram að ég tel að sú umræða sem hv. þm. meðal annarra og kannski umfram aðra hefur haldið uppi um samkeppnisaðstæður í samgöngum, mun að mínu áliti verða mikilvægari fyrir þá árvekni sem samkeppnisráð og Samkeppnisstofnun munu sýna, eins og reyndar nýleg breyting farmgjalda minnti okkur rækilega á. Ég held að enginn þurfi að velkjast í vafa um það að samkeppnisráð og Samkeppnisstofnun munu alveg sérstaklega vera á varðbergi gagnvart samkeppnisaðstæðum í þessum greinum. Þar með er reyndar tilganginum náð sem ég tel að vaki fyrir hv. þm.
    Loks í fjórða lagi vil ég taka undir það sem kom fram hjá hv. 8. þm. Reykv. Ég sé ekki í raun og veru neitt ágreiningsefni í sambandi við afgreiðslu málsins. Efnislega má ljúka henni líkt og hér hefur verið lýst og formlega með þeim hætti sem menn koma sér saman um. Reyndar er það mín skoðun að eins og frv. er úr garði gert með þeim brtt. sem hér liggja fyrir sé ekkert því til fyrirstöðu að samþykkja það þegar.