Öryggi raforkudreifingar um landið

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 10:40:21 (2907)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Það virðist eins og veðurskilyrði undanfarinna ára hafi verið sérstaklega erfið. Á ákveðnum landssvæðum, sérstaklega á Norðurlandi vestra hefur ísing reynst tíðari og erfiðari viðfangs að sögn staðkunnugra manna en verið hefur undanfarin ár. Og á undanförnum tveimur árum hafa orðið þarna mjög veruleg tjón umfram það sem menn höfðu búist við. Auðvitað er það þannig að fjárhagsáætlun Rafmagnsveitna ríkisins gerir ráð fyrir því að meiri háttar tjón verði á hverju ári og áætlaður kostnaður af slíkum atburðum er hluti af verðlagingu raforku. En rafmagnsveiturnar eru hins vegar vanbúnar að mæta síendurteknum áföllum upp á tugi milljóna kr. nema með gjaldskrárhækkun eða framlögum af almannafé.
    Þetta er eiginlega bakgrunnur þeirra spurninga sem hv. 3. þm. Vesturl. hreyfir hér. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að orkuráð gerði um það tillögu fyrir nokkrum árum að sett yrði upp sérstök framkvæmdaáætlun sem felur það í sér að það þyrfti um 140 millj. kr. á ári til að styrkja dreifikerfið. En það er langt frá því fjárframlagi sem áætlað er fyrir á fjárlögum þessa árs og reyndar í fjárlagafrv. fyrir næsta ár eins og kom fram hjá hv. þm.

    Vandamálið sem í raun og veru er um að tefla er að rekstur rafmagnsveitnanna hefur ekki skilað fjármagni upp í afskriftir á línukerfinu og þess vegna er bankað á dyr hjá ríkissjóði og hann beðinn að greiða línukerfið í annað eða jafnvel þriðja sinn frá því að átakið til rafvæðingar í landinu öllu hófst. Eiginlega má segja að eftir að frumrafvæðingu landsins lauk, það má segja að hún hafi staðið allt fram til 1980, hafi rafmagnsveiturnar markvisst unnið að því að auka afhendingaröryggi. Í flutningakerfinu er endurnýjun stofnlína þegar hafin með byggingu nýrra lína sem byggðar eru fyrir meiri áraun og hafa meiri flutningsgetu en eldri línur. Við byggingu þessara lína er nýtt sú reynsla sem hefur fengist af rekstri eldri lína á sömu svæðum. Í þéttbýli hafa eldri hlutar dreifikerfisins verið endurnýjaðir og markvisst að því unnið að leggja það alfarið í jörð og er þeirri vinnu að mestu lokið. Það er ljóst að verulegt tjón og langvarandi rafmagnsleysi hefði orðið í þéttbýli ef þessari endurnýjun loftlínukerfanna hefði ekki að mestu verið lokið.
    Endurnýjunin í sveitum er skemmra á veg komin enda er kostnaður við hana margfalt meiri. Það er ljóst að þarna er þörf á meiri háttar átaki. Það hefur fram á síðustu ár verið talið allt of dýrt að leggja strengi í jörð á þessum svæðum. Hins vegar hefur þessi kostnaður farið lækkandi og nú er hann víða að verða svipaður og við loftlínurnar. Rafmagnsveiturnar leggja því í vaxandi mæli háspennustrengi í dreifbýli í stað þess að byggja línur. Það er útlit fyrir að notkun strengjanna muni enn vaxa á næstu árum. Allar nýlagnir eru nú í jörð sérstaklega þar sem hægt er að plægja þær niður. Á þessum árum hafa rafmagnsveiturnar einnig verið að reyna nýjar aðferðir til þess að koma í veg fyrir áhleðslu íss á línurnar.
    Á það verður þó að benda að tæknilega og fjárhagslega er ekki hægt að tryggja öllum fullkomið rekstraröryggi og kostnaður við það verður að sjálfsögðu þeim mun meiri sem notkunin er dreifðari.
    Þetta vil ég segja, virðulegi forseti, sem bakgrunn við þær spurningar sem hv. þm. hefur hér hreyft. Í raun og veru er kjarni málsins: Treystum við okkur til að leggja það á rafmagnsveiturnar einar og Orkubú Vestfjarða, sem þjóna hinum dreifðu byggðum, að standa undir þessum kostnaði eða ætlum við að finna til þess aðra fjárstofna? Það skortir ekki hugmyndir um sérstaka skattlagningu í þessu skyni en það hefur ekki reynst unnt að mynda um slíkar leiðir meiri hluta.
    Annar möguleiki í þessu máli væri að breyta Rafmagnsveitum ríkisins í hlutafélag og afla því síðan aukins framkvæmdafjár með hlutafjárútboði. En vegna yfirtöku ríkissjóðs á skuldum fyrirtækisins og með stöðugri hagræðingu í rekstri ætti slíkt fyrirtæki að geta staðið undir sér á komandi árum. Ég tel að þetta sé e.t.v. sú leið sem við verðum að fara.
    En ég vildi að lokum, virðulegi forseti, segja það eitt að vandamálið með styrkingu dreifikerfa Rafmagnsveitna ríkisins og annarra dreifbýlisveitna er verkefni sem mikil ástæða er til fyrir þingið að taka á en það er ekki mál sem verður leyst einfaldlega með því að segja: Við þurfum 140 millj. kr. á ári og ríkissjóður á að útvega þær.