Öryggi raforkudreifingar um landið

69. fundur
Fimmtudaginn 03. desember 1992, kl. 11:00:11 (2914)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Það er engin vafi á því að dreifikerfin til sveita eru mörg orðin úr sér gengin og gömul eru þau flest. Það þarf fjármagn til að endurnýja þau. Hér hafa menn lýst því sem mikilli blöskrunarhellu að ég hafi rætt þá hugmynd að Rafmagnsveitum ríkisins verði breytt í hlutafélag sem sjálft afli sér fjár til að standa undir rekstri og framkvæmdum og telja það hið mesta óráð. Treysta eða vilja treysta á að ríkið borgi einn kostnaðarþátt í rekstri þessa fyrirtækis. Ég verð nú að játa að mér þykir þetta furðulegt sjónarmið vegna þess að það er í raun og veru vandamálið sem við glímum við, þ.e. að hér hefur verið það kerfi um áratuga skeið að einn þáttur í rekstri fyrirtækisins er greiddur af almannafé en annað er á ábyrgð stjórnenda þess. Þetta er kerfi sem gengur ekki upp. Þess vegna er það skynsamleg stefna að létta frekar af fyrirtækinu og öðrum sem svipað standa skuldum til þess að þau geti sjálf staðið undir öllum sínum rekstri og öllum sínum framkvæmdum. Það er sú stefna sem ég vil vinna að og í því felst alls ekki --- og ég mótmæli því sem kom hér fram hjá hv. 4. þm. Austurl. --- að ríkið láti sig engu varða hvernig dreifikerfið á orkunni um landið er vaxið. Þvert á móti er spurningin um það að finna til þess færar leiðir að tryggja það sem best. Sannleikurinn er sá að sú leið sem farin hefur verið um langan aldur hefur ekki dugað. Þess vegna þurfum við nýjar leiðir, hv. þingmenn. Þess vegna þurfum við nú að finna ný úrræði en treysta ekki á þau gömlu sem ekki hafa dugað, ekki heldur á meðan hv. 4. þm. Austurl. var ábyrgðarmaður þessa sem orkumálaráðherra. Þetta vil ég láta koma mjög skýrt fram vegna þess að hér er ekki um úrræðaleysi að ræða heldur er um það að ræða að leita nýrra úrræða til að leysa alvarlegt vandamál. Og ég vil ítreka það að hér er að sjálfsögðu spurning um að láta almannavaldið taka þátt í þessu.
    Ég veit ekki betur en að skuldum hafi í milljarðavís verið létt af orkukerfinu. Ég veit ekki betur en ríkið hafi að sjálfsögðu greitt tjón sem orðið hafa á undanförnum árum í hundraða milljónavís og þar með styrkt kerfið um leið. Um þetta hefur enginn hér sagt eitt einasta orð. Sannleikurinn er sá að menn sjá ekki aðalatriði málsins en einblína á aukaatriðin.