Umræður um dagskrármál

81. fundur
Laugardaginn 12. desember 1992, kl. 17:09:32 (3427)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegur forseti. Ég ætla mér ekki að orðlengja mikið um gæslu þingskapa í þessu máli að öðru leyti en því að þakka hæstv. forseta fyrir viðleitni til þess að leysa þessi mál í samvinnu við þingflokkana.
    Mér finnst ástæða til þess að vekja athygli á því að það gildir ekki það sama um öll frv. fjögur sem hér eru til umræðu í einu lagi undir þingskapagæsluliðnum, þ.e. eitt þeirra er með gildistökutillögu sem er miðuð við áramót. Það er rétt að í þeim eru nokkrar tilvísanir til hins Evrópska efnahagssvæðis sem ástæða er til að menn gefi gaum.
    Ég vildi líka láta það koma fram vegna þess sem var sagt áðan að það var haft samband við nefndarmenn stjórnarandstöðunnar sem ekki eru hér staddir vegna þessara mála og voru engin andmæli af þeirra hálfu við þeirri meðferð sem upphaflega var gert ráð fyrir. Ég tel mjög mikilvægt að menn nái samkomulagi um hvernig þessi mál gangi best fram og geri fyrir mitt leyti alls enga athugasemd við þá tillögu sem hæstv. forseti gerði áðan.