Fjárlög 1993

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 16:36:05 (3936)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. 6. þm. Vestf. beindi til mín spurningu um það hvort ég hefði kynnt mér áform um stofnun lánatryggingarsjóðs kvenna hér á landi. Ég hef átt þess kost að eiga orðastað við þá sem vinna að undirbúningi þessa máls, auk þess sem mér hafa verið send þau gögn sem fjárln. hafa verið kynnt. Ég vil láta það koma fram að ég er samþykkur þeirri afstöðu meiri hluta fjárln. að ætla ekki sérstaka fjárveitingu til þessa máls á fjárlögum 1993. Ég tel það rétta og skynsamlega afstöðu þar sem málið sé ekki þar á vegi statt að það sé tilefni fjárlagameðferðar. Hins vegar get ég tekið það fram að mér finnst málið í senn vera jafnréttis- og atvinnumál og vil fyrir mitt leyti láta það koma fram hér, eins og ég hef reyndar látið koma fram við aðstandendur málsins í samtölum, að viðskrn. er til þess reiðubúið að taka þátt í hluta af kostnaði við athugun á þessu máli. Ég vil leyfa mér að benda á að þar sem þetta er í senn jafnréttis- og atvinnumál mætti vel hugsa sér að fjárveitingar undir liðnum Atvinnumál kvenna á landsbyggðinni kæmi þarna við sögu. Ég er sammála hv. 6. þm. Vestf. um að það sé ákaflega mikilvægt að virkja framtak, frumkvæði og fjármunavit kvenna til þess að treysta atvinnuástand og efnahag í landinu.