Tekjustofnar sveitarfélaga

88. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 02:53:34 (4115)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Hv. 8. þm. Reykn. beindi til mín spurningum varðandi samkeppnisstöðu íslenska banka- og lánakerfisins og í því sambandi hvaða þýðingu landsútsvarið hefði fyrir samkeppnisstöðu okkar banka.
    Það er með öllu ljóst að afnám aðstöðugjaldsins er mjög mikilvægt skref til þess að samræma okkar skattkerfi því sem gerist í löndunum í kring. Það er nú jafnan svo þegar skattalögum er breytt að þar kunna að vegast á sjónarmið fjáröflunar annars vegar og hagkvæmni og skipulags hins vegar. Í þessu tilfelli er það niðurstaðan af fjáröflunarástæðum að halda landsútsvarinu enn um sinn en ég vil benda á að það er ekki fyrr en á árinu 1995 að íslenska bankakerfið verður að fullu og öllu komið í opna samkeppni við banka á Evrópsku efnahagssvæði miðað við þau ákvæði sem í þeim samningum eru um banka- og gjaldeyrismál.
    Hv. þm. rifjaði upp margvíslegar spurningar sem hann hefði lagt fram í umræðunum um EES-samninginn. Það mál allt verður að sjálfsögðu rætt þegar umræða um það mál hefst að nýju. Ég vil eiginlega vísa til þeirrar framtíðarumræðu ýmsu af því sem komið var inn á í fyrirspurn hv. þm. Ég vil eingöngu segja að við erum sammála um það heyrist mér, hv. 8. þm. Reykn. og sá sem hér stendur, að við þurfum að búa þannig um hnútana að íslenska bankakerfið búi við sömu samkeppnisskilyrði og starfskjör og sambærilegar stofnanir sem við förum senn að keppa við.
    Ég held að sá ótti, sem hv. þm. nefndi áðan um að íslenska bankakerfið væri ekki nægilega sterkt, sé ekki á rökum reistur því að sannleikurinn er sá að efnahagsstaða íslenskra lánastofnana er fyllilega sambærileg við það sem gerist í löndunum í kring, kannski sterkari.
    Að endingu vildi ég eingöngu ítreka það sem hefur komið fram við þessa umæðu, bæði hjá hv. 8. þm. Reykn., hv. 1. þm. Austurl. og reyndar hv. 4. þm. Austurl., að um stefnumið þessa máls sem við ræðum virðist vera mjög víðtæk samstaða og stuðningur.

Þess vegna er ekki ástæða til að sýta það þótt enn hafi ekki verið framkvæmt til fulls það sem menn vildu kannski gera með því að samræma skattmeðferð lánastofnana og olíufélaga því sem gerist um aðrar atvinnugreinar.