Ferill 12. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 12 . mál.


12. Frumvarp til laga



um verðbréfasjóði.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



I. KAFLI


Gildissvið.


1. gr.


    Lög þessi taka til fyrirtækja, hér eftir nefnd verðbréfasjóðir, sem hafa eingöngu að markmiði
    að veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í framseljanlegum verðbréfum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu og
    gefa út hlutdeildarskírteini til þeirra sem fá félaginu fé til ávöxtunar og innleysa þau að kröfu eigenda af eignum félagsins.

II. KAFLI


Starfsleyfi verðbréfasjóða og skráning.


2. gr.


    Starfsemi samkvæmt lögum þessum verður einungis stunduð af verðbréfasjóðum sem uppfylla skilyrði laga þessara og fengið hafa starfsleyfi viðskiptaráðherra.
    Skilyrði fyrir starfsleyfi eru sem hér segir:
    Verðbréfasjóðurinn sé löglega stofnaður, sbr. 9. gr.
    Hann hafi yfir að ráða minnst 50 milljónum króna eða minnst 10 milljónum króna sem skiptist á a.m.k. 50 aðila þannig að hlutur hvers þeirra nemi minnst 10.000 krónum og hljóði á nafn.
    Samþykktir sjóðsins fullnægi ákvæði 1. mgr. 8. gr.
    Vörslufyrirtæki og rekstrarfélag fullnægi skilyrðum V. kafla.
    Endurskoðun sé framkvæmd af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarstofu.
     Umsókn um starfsleyfi skal vera skrifleg. Henni skulu fylgja samþykktir verðbréfasjóðs og aðrar þær upplýsingar sem ráðherra ákveður. Áður en leyfi er veitt skal leitað umsagnar bankaeftirlits Seðlabanka Íslands.

3. gr.


    Verðbréfasjóðum með fullgilt starfsleyfi er einum heimilt að stunda starfsemi skv. 1. gr. Önnur starfsemi er þeim óheimil.
     Verðbréfasjóðum er skylt og einum heimilt að nota orðið „verðbréfasjóður“, eitt sér eða samtengt öðrum orðum, í heiti sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni.
     Óheimilt er að breyta verðbréfasjóðum samkvæmt lögum þessum í fyrirtæki sem lögin taka ekki til.

4. gr.


    Uppfylli verðbréfasjóður ekki skilyrði laga þessara til að öðlast starfsleyfi skal umsókn synjað.
     Ráðherra getur synjað um leyfi til reksturs verðbréfasjóðs hafi stjórnarmenn sjóðsins eða framkvæmdastjórar rekstrarfélags eða vörslufyrirtækis
    verið dæmdir fyrir refsiverðan verknað sem ætla má að skapi hættu á að viðkomandi misnoti aðstöðu sína,
    sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að ætla að þeir muni ekki sinna starfi sínu á forsvaranlegan hátt.
     Áður en ákvörðun er tekin um synjun skv. 2. mgr. skal leitað umsagnar bankaeftirlitsins.

5. gr.


    Synjun ráðherra á leyfi skv. 4. gr. skal rökstudd skriflega og send umsækjanda, að jafnaði eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullbúin umsókn barst ráðherra. Ákvörðun ráðherra skal þó ávallt liggja fyrir innan sex mánaða.

6. gr.


    Ráðherra skal birta í Lögbirtingablaði tilkynningu um starfsleyfi verðbréfasjóðs. Í tilkynningunni skal koma fram nafn sjóðsins, stjórnarmanna og endurskoðenda auk nafns rekstrarfélags og vörslufyrirtækis sjóðsins. Óheimilt er að taka við fjármunum til ávöxtunar í verðbréfasjóði fyrr en tilkynning hefur verið birt.
     Hefji verðbréfasjóður ekki starfsemi innan tólf mánaða frá veitingu starfsleyfis fellur það úr gildi.

7. gr.


    Bankaeftirlitið skal halda sérstaka skrá yfir verðbréfasjóði sem hlotið hafa starfsleyfi. Í skránni skulu koma fram nöfn stjórnarmanna verðbréfasjóðs og hverjir séu endurskoðendur hans. Jafnframt skulu koma fram helstu upplýsingar um rekstrarfélag og vörslufyrirtæki verðbréfasjóðsins.
     Bankaeftirlitinu er heimilt að kveða nánar á um þær upplýsingar sem veittar skulu skv. 1. mgr. Breytingar á áður tilkynntum atriðum skulu þegar tilkynntar bankaeftirlitinu.

III. KAFLI


Samþykktir verðbréfasjóða.


8. gr.


    Í samþykktum verðbréfasjóðs skulu m.a. koma fram eftirfarandi atriði:
    Nafn verðbréfasjóðs, heimili og varnarþing.
    Nafn vörslufyrirtækis sjóðsins og ákvæði um hvernig skipt verði um það.
    Hvort sjóðurinn starfi óskiptur eða í aðgreindum deildum.
    Ákvæði um boðun aðalfundar og málefni sem þar skal fjallað um, þar á meðal hvort og með hvaða hætti samþykktum verði breytt.
    Hverjir eigi rétt til setu á aðalfundi og atkvæðisréttur þeirra.
    Stjórn verðbréfasjóðs og rekstrarfélag hans, sbr. 12. gr.
    Hver hafi rétt til að skuldbinda verðbréfasjóðinn og hver fari með atkvæðisrétt sem fylgir verðbréfum í hans eigu.
    Fjárfestingarstefna verðbréfasjóðsins.
    Hvernig reikna skuli út raunvirði hvers hlutar í sjóðnum.
    Hvernig háttað skuli innlausn hlutdeildarskírteina.
    Hvernig ráðstafa skuli arði eða öðrum hagnaði af verðbréfum sjóðsins.
    Endurskoðun og reikningsár sjóðsins.
    Ákvæði um samruna sjóðsins við aðra verðbréfasjóði eða samruna deilda sama sjóðs.
    Hvernig sjóði verði slitið.
     Breytingar á samþykktum verðbréfasjóðs öðlast ekki gildi fyrr en að fenginni staðfestingu bankaeftirlitsins. Breytingar skulu staðfestar séu þær í samræmi við lög, enda séu þær að öðru leyti í samræmi við hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina og engar aðrar fullgildar ástæður mæli gegn staðfestingu. Breytingar öðlast gildi eigi síðar en þremur mánuðum eftir staðfestingu nema bankaeftirlitið ákveði annað. Tilkynning um breytingar skal birt í Lögbirtingablaði.
     Verðbréfasjóður skal tilkynna eigendum hlutdeildarskírteina um hverja breytingu á samþykktum sjóðsins og jafnframt auglýsa hana opinberlega.

IV. KAFLI


Stjórn og skipulag verðbréfasjóða.


9. gr.


    Verðbréfasjóð má stofna sem hlutafélag eða í öðru félagsformi.
     Heimilt er að verðbréfasjóður starfi í aðgreindum deildum. Ber þá hver deild ábyrgð á sínum skuldbindingum. Þó bera deildir sjóðsins óskipta ábyrgð á sameiginlegum kostnaði þeirra.

10. gr.


    Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum verðbréfasjóðs. Stjórn sjóðsins fer með málefni hans milli aðalfunda.
     Aðalfund skal halda samkvæmt ákvæðum samþykkta. Aðalfund skal boða með minnst tíu daga fyrirvara og skal dagskrá fylgja fundarboði.

11. gr.


    Stjórn verðbréfasjóðs skal kjörin á aðalfundi samkvæmt ákvæðum samþykkta og skal vera skipuð þremur mönnum hið fæsta. Stjórnin hefur almennt eftirlit með að starfsemi sjóðsins sé í samræmi við ákvæði laga þessara, reglur settar samkvæmt þeim og samþykktir sjóðsins, þar á meðal að nægilegt eftirlit sé með bókhaldi og ráðstöfun eigna sjóðsins.
     Stjórnarmenn skulu vera búsettir hér á landi, hafa náð tuttugu ára aldri, hafa óflekkað mannorð og mega aldrei hafa verið sviptir forræði á búi sínu.
     Stjórnarmenn, sem búsettir eru í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, eru undanþegnir búsetuskilyrði skv. 2. mgr. Viðskiptaráðherra getur veitt ríkisborgurum annarra ríkja sömu undanþágu.
     Stjórnarmenn mega ekki jafnframt eiga sæti í stjórn vörslufyrirtækis eða rekstrarfélags skv. V. kafla.

V. KAFLI


Rekstrarfélög og vörslufyrirtæki.


12. gr.


    Rekstur verðbréfasjóðs skal falinn sérstöku rekstrarfélagi sem hlotið hefur viðurkenningu bankaeftirlitsins. Félagið skal vera hlutafélag með aðsetur hér á landi. Það skal vera óháð í störfum sínum og einungis hafa með höndum daglegan rekstur verðbréfasjóða eða annarra fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum sem ekki falla undir ákvæði laga þessara. Rekstrarfélag má ekki jafnframt vera vörslufyrirtæki skv. 14. gr.
     Rekstrarfélagi er óheimilt að eignast hluti með atkvæðisrétti í þeim mæli að það geri félaginu kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun útgefanda verðbréfa.

13. gr.


    Daglegur stjórnandi rekstrarfélags skal hafa leyfi til verðbréfamiðlunar samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti. Honum er óheimilt að sitja í stjórn atvinnufyrirtækja án samþykkis bankaeftirlitsins.

14. gr.


    Umsjá og varðveisla verðbréfa verðbréfasjóðs skal falin vörslufyrirtæki sem hlotið hefur viðurkenningu bankaeftirlitsins. Fjármunum verðbréfasjóðs skal haldið aðgreindum frá fjármunum vörslufyrirtækis. Vörslufyrirtæki skal
    sjá um að sala, útgáfa, endurkaup, innlausn og ógilding hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðs fari samkvæmt lögum og samþykktum sjóðsins,
    sjá um að innlausnarvirði hlutdeildarskírteina sé reiknað í samræmi við lög og samþykktir sjóðsins,
    framfylgja fyrirmælum rekstrarfélags verðbréfasjóðs nema þau séu í andstöðu við lög og samþykktir hans,
    sjá um að í viðskiptum með eignir verðbréfasjóðs sé endurgjald fyrir þær innt af hendi innan eðlilegra tímamarka,
    sjá um að tekjum verðbréfasjóðs sé ráðstafað í samræmi við lög og samþykktir sjóðsins.
     Viðurkenningu sem vörslufyrirtæki geta hlotið
    verðbréfafyrirtæki,
    viðskiptabankar og sparisjóðir,
    aðrar lánastofnanir sem starfa samkvæmt lögum sem um þær gilda,
    útibú hliðstæðra stofnana sem starfa hér á landi.

15. gr.


    Verðbréfasjóði er óheimilt að skipta um rekstrarfélag eða vörslufyrirtæki án samþykkis bankaeftirlitsins.

VI. KAFLI


Hlutdeildarskírteini.


16. gr.


    Gefa skal út verðbréf í formi hlutdeildarskírteina til þeirra sem fá verðbréfasjóði fjármuni til ávöxtunar. Hlutdeildarskírteini skulu skráð á nafn. Allir, sem eiga hlutdeild að verðbréfasjóði eða sérgreindri deild hans, eiga sama rétt til tekna og eigna sjóðsins eða viðkomandi deildar í hlutfalli við eign sína og eru skírteinin staðfesting á tilkalli til verðbréfaeignar sjóðsins.
     Hlutdeildarskírteini skulu skráð á opinberum verðbréfamarkaði samkvæmt reglum sem þar gilda um skráningu verðbréfa.

17. gr.


    Í hlutdeildarskírteini skal eftirtalinna atriða m.a. getið:
    Nafns verðbréfasjóðs, fjárvörslufyrirtækis og rekstrarfélags.
    Nafns og kennitölu upphaflegs eiganda skírteinis og númers þess.
    Hvernig hlutdeildarskírteini verði innleyst og hvaða reglur gildi um arðgreiðslur.
    Nafns og kennitölu framsalshafa, hafi skírteini gengið kaupum og sölum án innlausnar þess.
     Hlutdeildarskírteini skal vera dagsett og undirritað af stjórn verðbréfasjóðs eða þeim sem hún hefur gefið umboð til þess. Nafnritunin má vera prentuð eða sett fram á annan sambærilegan hátt.

18. gr.


    Rekstrarfélag verðbréfasjóðs skal halda skrá yfir öll hlutdeildarskírteini í sjóðnum. Í skránni skal eftirfarandi m.a. koma fram:
    Nafn og kennitala eiganda.
    Númer skírteinis og söludagur þess.
    Nafnverð skírteinis.
    Heildarfjöldi útistandandi skírteina.
     Tilkynna skal eigendaskipti hlutdeildarskírteina til rekstrarfélags verðbréfasjóðs. Slíkar tilkynningar, ásamt öðrum upplýsingum sem berast varðandi eignarhald á skírteinum, skulu færðar inn á skrána og heimildar tilkynningar getið.
    Kjósi eigendur hlutdeildarskírteina fulltrúa í stjórn verðbréfasjóðs samkvæmt samþykktum sjóðsins skal gerð nafnaskrá þar sem fram komi nöfn þeirra sem eiga atkvæðisrétt og atkvæðafjöldi. Eigendum hlutdeildarskírteina er heimilt að fá afrit af þessari skrá eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund sjóðsins.

19. gr.


    Hlutdeildarskírteini verðbréfasjóðs verða einungis seld gegn staðgreiðslu kaupverðs.
     Hlutdeildarskírteini skulu innleyst að kröfu eigenda samkvæmt nánari ákvæðum samþykkta verðbréfasjóðsins. Þó er verðbréfasjóði heimilt samkvæmt ákvæðum samþykkta að fresta innlausn hlutdeildarskírteina. Frestun skal vera almenn og taka til allra hlutdeildarskírteina og verður einungis beitt mæli sérstakar ástæður með því og hagsmunir eigenda hlutdeildarskírteina krefjist. Frestun á innlausn skal þegar tilkynnt bankaeftirliti og eftirlitsaðilum annarra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem hlutdeildarskírteini verðbréfasjóðsins hafa verið sett á markað. Jafnframt skal frestun auglýst opinberlega.
     Bankaeftirlitið getur krafist þess að innlausn hlutdeildarskírteina verði frestað krefjist hagsmunir eigenda skírteinanna eða almennings þess.
     Innlausnarvirði hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðs er markaðsvirði samanlagðra eigna að frádregnum skuldum sjóðsins við innlausn, svo sem skuldum hans við innlánsstofnanir, ógreiddum umsýslu- og stjórnunarkostnaði, innheimtukostnaði og áföllnum eða reiknuðum opinberum gjöldum.
     Innlausnarvirði hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðs skal reiknað daglega og auglýst opinberlega eigi sjaldnar en tvisvar í mánuði. Bankaeftirlitið getur ákveðið að opinber auglýsing innlausnarvirðis skuli fara fram oftar ef ástæða þykir til.
     Ráðherra getur í reglugerð sett nánari reglur um útreikning á innlausnarvirði hlutdeildarskírteina.

VII. KAFLI


Fjárfestingarstefna verðbréfasjóða.


20. gr.


    Verðbréfasjóði, eða einstökum deildum hans, er eingöngu heimilt að fjárfesta með eftirfarandi hætti:
    Í framseljanlegum verðbréfum sem skráð hafa verið á opinberum verðbréfamarkaði eða ganga kaupum og sölum á öðrum skipulegum verðbréfamarkaði innan Evrópska efnahagssvæðisins sem starfar reglulega, er opinn almenningi og hefur hlotið viðurkenningu lögbærra yfirvalda í hlutaðeigandi ríki. Sé markaðurinn utan Evrópska efnahagssvæðisins skal bankaeftirlitið hafa viðurkennt hann.
    Í nýútgefnum, framseljanlegum verðbréfum, enda sé í skilmálum vegna útgáfu þeirra skuldbinding um að sótt verði um skráningu á opinberum verðbréfamarkaði eða að þau verði látin ganga kaupum og sölum á öðrum verðbréfamarkaði skv. 1. tölul. Skráning verðbréfa samkvæmt þessu ákvæði skal fara fram eigi síðar en einu ári frá útgáfu þeirra.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er verðbréfasjóði eða deild innan hans heimilt að fjárfesta sem svarar allt að 10% af eignum sínum í öðrum verðbréfum en þar getur.
     Bankaeftirlitinu er heimilt að setja reglur sem heimila verðbréfasjóðum að fjárfesta allt að 10% af eignum sínum í skuldaskjölum sem talin eru jafngilda framseljanlegum verðbréfum, eru auðseljanleg og með verðgildi sem ákvarða má hvenær sem er.
     Heildarfjárfesting skv. 2. og 3. mgr. má aldrei fara fram úr 10% af eignum verðbréfasjóðs.
     Verðbréfasjóðum er óheimilt að fjárfesta í eðalmálmum eða heimildarskírteinum fyrir þeim.

21. gr.


    Verðbréfasjóði eða einstakri deild innan hans er óheimilt að fjárfesta meira en 10% af eignum sínum í verðbréfum útgefnum af sama útgefanda, sbr. þó 22. og 23. gr. Fjárfesti sjóðurinn eða einstök deild hans meira en 5% í verðbréfum útgefnum af sama útgefanda skal samtala slíkra fjárfestinga ekki fara yfir 40% af eignum sjóðsins.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er verðbréfasjóði eða einstakri deild hans heimilt að fjárfesta allt að 35% af eignum sínum í verðbréfum sem eitt eða fleiri ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða sveitarfélög þeirra, alþjóðlegar stofnanir, sem eitt eða fleiri þessara ríkja eru aðilar að, eða ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins gefa út eða ábyrgjast.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur bankaeftirlitið heimilað verðbréfasjóði að fjárfesta allt að 25% af eignum sínum í skuldabréfum útgefnum af sama útgefanda, enda sé um að ræða lánastofnun innan Evrópska efnahagssvæðisins sem lýtur lögbundnu eftirliti. Fjárfesti verðbréfasjóður meira en 5% af eignum sínum í slíkum skuldabréfum má samanlagt verðmæti þeirra fjárfestinga ekki nema meira en 80% af eignum sjóðsins.
     Ekki skal tekið tillit til verðbréfa skv. 2. og 3. mgr. þegar fundin er samtala fjárfestinga samkvæmt síðari málslið 1. mgr.
     Þrátt fyrir ákvæði 1.–3. mgr. mega samanlagðar fjárfestingar verðbréfasjóðs í verðbréfum útgefnum af sama útgefanda aldrei nema meira en 35% af eignum sjóðsins.

22. gr.


    Bankaeftirlitið getur heimilað verðbréfasjóði eða einstakri deild hans að fjárfesta allt að 100% af eignum sínum í framseljanlegum verðbréfum skv. 2. mgr. 21. gr. telji bankaeftirlitið það samrýmanlegt hagsmunum eigenda hlutdeildarskírteina.
     Fjárfestingar verðbréfasjóðs eða einstakrar deildar hans skv. 1. mgr. skulu dreifast á að minnsta kosti sex mismunandi verðbréfaflokka og má fjárfesting í einum og sama verðbréfaflokki ekki nema hærri fjárhæð en sem svarar til 30% af eignum verðbréfasjóðs eða einstakrar deildar hans.
     Bankaeftirlitið getur sett nánari reglur um fjárfestingu samkvæmt þessu ákvæði.

23. gr.


    Verðbréfasjóði eða einstökum deildum hans er óheimilt að fjárfesta meira en sem svarar til 5% af eignum sjóðsins eða deildarinnar í hlutdeildarskírteinum annarra verðbréfasjóða sem uppfylla skilyrði laga þessara.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er verðbréfasjóði óheimilt að fjárfesta í hlutdeildarskírteinum annarra verðbréfasjóða sem hafa sömu stjórn eða rekstrarfélag eða eru að öðru leyti nátengd verðbréfasjóðnum. Bankaeftirlitið getur þó heimilað slíka fjárfestingu samkvæmt reglum sem það setur.
     Rekstrarfélagi er óheimilt að leggja á gjöld eða kostnað vegna viðskipta með hlutdeildarskírteini verðbréfasjóðs í þeim tilvikum þegar hluti eigna sjóðsins er fjárfestur í hlutdeildarskírteinum í öðrum verðbréfasjóði sem rekinn er af sama rekstrarfélagi eða öðru félagi sem rekstrarfélagið er tengt vegna sameiginlegrar stjórnar eða yfirráða eða vegna verulegrar beinnar eða óbeinnar eignarhlutdeildar.

24. gr.


    Verðbréfasjóður má ekki eignast meira en
    10% af hlutabréfum án atkvæðisréttar í einstöku hlutafélagi,
    10% af skuldaskjölum einstakra útgefenda framseljanlegra verðbréfa,
    10% hlutdeildarskírteina í einstökum verðbréfasjóðum sem uppfylla skilyrði laga þessara.
     Bankaeftirlitinu er heimilt að setja reglur um að 1. mgr. taki ekki til framseljanlegra verðbréfa sem
    ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða sveitarfélög þess gefa út eða ábyrgjast,
    ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins gefa út eða ábyrgjast,
    alþjóðastofnanir, sem eitt eða fleiri ríki Evrópska efnahagssvæðisins eru aðilar að, gefa út.

25. gr.


    Fari fjárfesting verðbréfasjóðs fram úr leyfilegum mörkum samkvæmt lögum þessum skulu þegar gerðar ráðstafanir til úrbóta og skal lögmæltu hámarki náð innan sex mánaða. Bankaeftirlitið getur í einstökum tilvikum mælt fyrir um lengri frest.

26. gr.


    Verðbréfasjóðir mega ekki fjárfesta í fasteignum eða lausafé nema að því marki sem nauðsynlegt er vegna starfsemi sjóðsins.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er verðbréfasjóðum heimilt án takmarkana að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu. Eignirnar skulu seldar jafnskjótt og það er talið hagkvæmt og eigi síðar en innan átján mánaða frá yfirtöku eignanna. Heimilt er þó að draga sölu lengur sé það augljóslega í þágu hagsmuna sjóðsins. Slíkan drátt á sölu eigna skal tilkynna bankaeftirliti sem getur þá krafist sölu þeirra innan viðeigandi frests.

27. gr.


    Verðbréfasjóði er óheimilt að taka lán nema í þeim tilvikum sem hér greinir:
    Skammtímalán allt að 10% af eignum sjóðsins til að standa straum af innlausn hlutdeildarskírteina.
    Lán allt að 10% af eignum sjóðsins til fjárfestingar í fasteignum sem eru nauðsynlegar vegna starfsemi sjóðsins.
     Lán skv. 1. mgr. mega hæst nema 15% af eignum verðbréfasjóðs.
     Verðbréfasjóði er óheimilt að veita lán eða ganga í ábyrgð fyrir aðra.

28. gr.


    Eigendum og stjórnendum verðbréfasjóðs, vörslufyrirtækis og rekstrarfélags, svo og mökum þeirra, er einungis heimilt að eiga viðskipti við hlutaðeigandi verðbréfasjóð með verðbréf sem eru skráð á opinberum markaði eða ganga kaupum og sölum á öðrum skipulegum verðbréfamarkaði, enda séu viðskiptin ekki á neinn hátt óvenjuleg, samþykkt af stjórn verðbréfasjóðsins og bókuð í gerðabók hennar.
     Um viðskipti annarra starfsmanna fyrirtækja skv. 1. mgr. við hlutaðeigandi verðbréfasjóð fer eftir reglum sem stjórnir þeirra setja.

VIII. KAFLI


Ársreikningur og endurskoðun.


29. gr.


    Stjórnir verðbréfasjóðs og rekstrarfélags hans skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár í samræmi við ákvæði laga og samþykkta. Ársreikningur skal hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning og skýringar. Enn fremur skal semja ársskýrslu. Ársreikningur og ársskýrsla mynda eina heild. Reikningsár verðbréfasjóðs er almanaksárið.
     Ársreikningur og ársskýrsla skulu undirrituð af stjórnum verðbréfasjóðs og rekstrarfélags. Hafi einhverjir stjórnarmanna mótbárur fram að færa gegn ársreikningi skulu þeir undirrita með fyrirvara og gera skal grein fyrir því í ársskýrslu hvers eðlis fyrirvarinn er.
     Framsetning ársreiknings skal vera með skýrum hætti og í samræmi við ákvæði laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim.
     Ársreikningur skal gefa glögga mynd af eignum, skuldum, fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu verðbréfasjóðs.
     Í ársskýrslu skal koma fram yfirlit yfir starfsemi hlutaðeigandi verðbréfasjóðs á árinu, svo og upplýsingar um atriði sem mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu sjóðsins og afkomu hans á reikningsárinu en koma ekki fram annars staðar í ársreikningnum.
     Bankaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um gerð ársreiknings.

30. gr.


    Ársreikningur verðbréfasjóðs skal endurskoðaður af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarstofu. Endurskoðandi má ekki sitja í stjórn verðbréfasjóðs eða rekstrarfélags, vera starfsmaður þessara aðila eða starfa í þágu þeirra að öðru en endurskoðun.
     Skylt er að veita endurskoðanda aðgang að öllum eigum, bókum, fylgiskjölum og öðrum gögnum verðbréfasjóðs. Jafnframt skulu stjórn og starfsmenn veita endurskoðanda allar umbeðnar upplýsingar sem unnt er að láta í té.
     Ákvæði 2. mgr. tekur einnig til upplýsinga og gagna hjá rekstrarfélagi og vörslufyrirtæki sem nauðsynleg eru vegna endurskoðunar hjá verðbréfasjóði.

31. gr.


    Endurskoðandi skal árita ársreikning og greina frá niðurstöðum endurskoðunarinnar. Hann skal gefa yfirlýsingu um að ársreikningur hafi verið endurskoðaður og að hann hafi verið saminn í samræmi við ákvæði laga, reglna og samþykkta. Hann skal láta í ljós álit á ársreikningnum og greina frá niðurstöðum að öðru leyti.
     Telji endurskoðandi að í ársreikningi komi ekki fram þær upplýsingar sem þar eiga að koma fram skal hann geta þess í áritun sinni og veita viðbótarupplýsingar ef þess er kostur. Ef ársskýrsla hefur ekki að geyma þær upplýsingar sem ber að veita, eða er ekki í samræmi við ársreikning, skulu endurskoðendur vekja athygli á því í áritun sinni. Að öðru leyti getur endurskoðandi greint frá þeim atriðum í áritun sinni sem hann telur eðlilegt að fram komi í ársreikningi.
     Leiði endurskoðun í ljós verulega ágalla á rekstri verðbréfasjóðs varðandi framkvæmd rekstrarins, greiðslutryggingar eða önnur atriði sem veikt geta fjárhagsstöðu sjóðsins skal endurskoðandi gera stjórn sjóðsins og bankaeftirlitinu viðvart. Endurskoðanda er að öðru leyti skylt að láta bankaeftirlitinu í té allar þær upplýsingar um málefni verðbréfasjóðs og framkvæmd endurskoðunar sem það kann að óska eftir.
    Ákvæði 3. mgr. taka til endurskoðenda rekstrarfélags og vörslufyrirtækis eftir því sem við getur átt.

32. gr.


    Endurskoðaður ársreikningur verðbréfasjóðs ásamt ársskýrslu skal sendur bankaeftirlitinu innan tíu daga frá undirritun en í síðasta lagi þremur mánuðum eftir lok reikningsárs. Reikningnum skal fylgja skýrsla löggilts endurskoðanda þar sem m.a. komi fram hvernig útreikningi á verðbréfaeign sjóðsins er háttað. Meginniðurstöður ársreikninga skal birta opinberlega og í samræmdu formi sem bankaeftirlitið ákveður. Slíkar meginniðurstöður skulu vera aðgengilegar almenningi og liggja frammi í starfsstöð verðbréfasjóðs og rekstrarfélags.
     Ársfjórðungslegt efnahagsyfirlit í því formi sem bankaeftirlitið ákveður skal einnig sent því og það liggja frammi á starfsstöð verðbréfasjóðs og rekstrarfélags.
     Auk ársreiknings verðbréfasjóðs samkvæmt framangreindu skal einnig senda bankaeftirlitinu endurskoðaða ársreikninga vörslufyrirtækis og rekstrarfélags eigi síðar en þremur mánuðum eftir lok reikningsárs. Þessum félögum er einnig skylt að láta Seðlabanka Íslands í té þær upplýsingar sem hann þarf á að halda vegna hagskýrslugerðar, sbr. ákvæði laga um Seðlabanka Íslands.

IX. KAFLI


Eftirlit.


33. gr.


    Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur eftirlit með að starfsemi verðbréfasjóða, rekstrarfélaga og vörslufyrirtækja sé í samræmi við lög þessi, reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim. Skal bankaeftirlitið eiga aðgang að öllum gögnum og upplýsingum hjá þeim aðilum, sem lögin taka til, sem það telur nauðsynlegar vegna eftirlitsins. Um eftirlitið gilda, eftir því sem við getur átt, lög um Seðlabanka Íslands svo og lög um verðbréfaviðskipti.
     Telji bankaeftirlitið að starfsemi verðbréfasjóðs, vörslufyrirtækis eða rekstrarfélags brjóti gegn ákvæðum laga þessara, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim eða sé að öðru leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust getur það veitt viðkomandi hæfilegan frest til úrbóta nema brot séu alvarleg.

X. KAFLI


Afturköllun leyfa.


34. gr.


    Skylt er ráðherra að afturkalla starfsleyfi verðbréfasjóðs
    uppfylli leyfishafi ekki lengur skilyrði til að öðlast starfsleyfi,
    sé bú leyfishafa tekið til gjaldþrotaskipta eða starfsemi hans slitið.

35. gr.


    Hafi verðbréfasjóðir, rekstrarfélag eða vörslufyrirtæki í starfsemi sinni ítrekað eða með alvarlegum hætti brotið gegn ákvæðum laga þessara, reglna eða reglugerða settra samkvæmt þeim eða starfsemi þeirra er að öðru leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust og kröfum bankaeftirlitsins skv. 2. mgr. 33. gr. hefur ekki verið sinnt er ráðherra heimilt að afturkalla starfsleyfi verðbréfasjóðsins að fengnum tillögum bankaeftirlitsins.
     Standi yfir opinber rannsókn vegna meints brots verðbréfasjóðs á ákvæðum laga þessara er ráðherra heimilt að svipta sjóðinn starfsleyfi um stundarsakir. Skal þá ráðherra skipa hlutaðeigandi umsjónaraðila til bráðabirgða sem gera skal ráðstafanir sem miða að því að tryggja hag viðskiptamanna.

36. gr.


    Afturköllun á starfsleyfi verðbréfasjóðs skal rökstudd og tilkynnt hlutaðeigandi skriflega. Jafnframt skal birta tilkynningu um afturköllun í Lögbirtingablaði og auglýsa hana í fjölmiðlum.
     Afturkalli ráðherra starfsleyfi verðbréfasjóðs endanlega skal hann skipa skilanefnd þriggja manna sem sér um slit á sjóðnum eða flutning á starfsemi hans til annars verðbréfasjóðs.

XI. KAFLI


Ýmis ákvæði.


37. gr.


    Hyggist verðbréfasjóður markaðssetja hlutdeildarskírteini sín eða stofna útibú í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skal það tilkynnt bankaeftirlitinu og eftirlitsaðila í því landi þar sem markaðssetning eða stofnun útibús er fyrirhuguð.
     Leyfi til starfsemi, er lög þessi taka til, sem veitt hefur verið af lögbærum yfirvöldum í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, gildir einnig hér á landi. Um starfsemi slíkra leyfishafa fer samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur.
     Um gildi leyfa til starfsemi, sem lög þessi taka til, sem veitt eru af lögbærum yfirvöldum ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins, svo og um starfsemi slíkra leyfishafa hér á landi, fer eftir reglum sem ráðherra setur.

38. gr.


    Stjórnendur og starfsmenn verðbréfasjóða, rekstrarfélaga og vörslufyrirtækja eru bundnir þagnarskyldu um öll viðskipti sem þeir hafa milligöngu um og allt það er varðar hagi viðskiptamanna og þeir öðlast vitneskju um í starfi sínu og leynt skal fara samkvæmt lögum eða eðli máls nema dómari úrskurði að skylt sé að veita upplýsingar fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

39. gr.


    Kostnaður við birtingar tilkynninga samkvæmt lögum þessum skal greiddur af viðkomandi verðbréfasjóði.

40. gr.


    Ráðherra er heimilt að fela bankaeftirlitinu veitingu leyfa skv. II. kafla, afturköllun leyfa skv. X. kafla, svo og setningu reglna sem ráðherra er falið að setja samkvæmt lögum þessum.

41. gr.


    Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Honum er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þeirra með reglugerð.

XII. KAFLI


Viðurlög.


42. gr.


    Brot gegn lögum þessum varða sektum eða fangelsi allt að einu ári nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt almennum hegningarlögum. Sé brot framið í þágu lögaðila er heimilt að beita stjórnendur lögaðilans framangreindum viðurlögum og einnig er heimilt að gera lögaðilanum sekt og sviptingu starfsréttinda.
     Um tilraun og hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum fer samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga.

XIII. KAFLI


Gildistaka.


43. gr.


    Lög þessi öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið að því er Ísland varðar. Jafnframt falla þá úr gildi lög nr. 20/1989, um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði.

Ákvæði til bráðabirgða.


    
Starfandi verðbréfasjóðir við gildistöku laga þessara skulu hafa uppfyllt ákvæði þeirra
og hlotið starfsleyfi ráðherra eigi síðar en einu ári eftir gildistöku laga þessara.
     Verðbréfafyrirtækjum, sem annast rekstur verðbréfasjóða við gildistöku laga þessara og hafa með höndum starfsemi sem lögin taka til, er heimilt að stunda þá starfsemi í eitt ár eftir gildistöku laga þessara. Ráðherra getur veitt lengri frest, þó ekki lengur en í sex mánuði.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Viðskiptaráðherra skipaði vinnuhóp 18. nóvember 1991 til að semja nauðsynleg lagafrumvörp og drög að reglugerðum vegna aðlögunar íslensks réttar á sviði lánastofnana og verðbréfaviðskipta að ákvæðum í samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Í vinnuhópinn voru skipaðir eftirtaldir: Þórður Ólafsson, forstöðumaður bankaeftirlits Seðlabanka Íslands, formaður, Finnur Sveinbjörnsson, skrifstofustjóri viðskiptaráðuneytis, Tryggvi Axelsson deildarstjóri, viðskiptaráðuneyti, Sveinbjörn Hafliðason forstöðumaður, Seðlabanka Íslands, Eiríkur Guðnason aðstoðarbankastjóri, Seðlabanka Íslands, Ólafur Örn Ingólfsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra viðskiptabanka. Starfsmaður og ritari vinnuhópsins var Jóhann H. Albertsson, deildarstjóri í bankaeftirliti Seðlabanka Íslands. Tryggvi Axelsson hvarf til starfa erlendis og lét af störfum í vinnuhópnum um miðjan apríl 1992. Sæti hans tók Páll Ásgrímsson lögfræðingur, viðskiptaráðuneyti.

Löggjöf um verðbréfaviðskipti.
    
Löggjöf um verðbréfaviðskipti er tiltölulega ný hér á landi. Fyrstu lög á þessu sviði voru lög nr. 27/1986, um verðbréfamiðlun. Þau voru síðar felld úr gildi með núgildandi lögum nr. 20/1989, um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði, sem að ýmsu leyti eru ítarlegri en lögin frá 1986. Þó var þegar ljóst að gildandi löggjöf þarfnaðist endurskoðunar í ýmsum atriðum að fenginni reynslu af framkvæmd þeirra. Voru því uppi hugmyndir um endurskoðun þeirra sem nýst hafa við þá samræmingu íslenskrar löggjafar á þessu sviði sem samningur um Evrópska efnahagssvæðið krefst.
     Frumvarp þetta er eitt þeirra frumvarpa sem vinnuhópurinn samdi á sviði verðbréfaviðskipta og lánastofnana í samræmi við efni skipunarbréfs sem að framan er getið. Þrjú þeirra eru á sviði verðbréfaviðskipta en auk þessa frumvarps voru samin frumvörp til laga um verðbréfasjóði og Verðbréfaþing Íslands. Drög að þessum þremur frumvörpum voru kynnt hagsmunaaðilum á verðbréfamarkaðinum og leitað eftir skriflegum athugasemdum þeirra. Auk þess voru frumvarpsdrögin rædd við ýmsa sérfræðinga á þessu sviði. Ýmsar ábendingar komu fram frá þessum aðilum og hefur verið tekið tillit til þeirra eftir því sem ástæða þótti til.

Meginefni frumvarpsins.
    
Við samningu frumvarpsins var m.a. stuðst við ákvæði gildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði frá 1989 eftir því sem talið var eiga við. Jafnframt var stuðst við tilskipanir og tilmæli Evrópubandalagsins sem munu gilda innan Evrópska efnahagssvæðisins og löggjöf nágrannalanda, svo sem Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs. Löggjöf þessara landa hefur verið löguð að reglum Evrópubandalagsins að meira eða minna leyti.
     Í frumvarpinu er fallið frá að nota skilgreiningar með sama hætti og gert er í I. kafla laga nr. 20/1989. Skilgreiningar af því tagi voru fremur taldar eiga heima í frumvarpi til almennra laga um verðbréfaviðskipti sem samið var jafnhliða þessu frumvarpi. Í frumvarpinu felast einnig að öðru leyti verulegar breytingar frá gildandi lögum að því er varðar rekstur verðbréfasjóða. Helstu breytingarnar eru þær að gert er ráð fyrir að verðbréfasjóðir hafi sérstakt starfsleyfi, sbr. II. kafla, og ítarlegri ákvæði um stjórn verðbréfasjóðs og hlutverk hennar, sbr. IV. kafla. Í V. kafla kemur fram meginbreyting þar sem skilið er á milli daglegs reksturs verðbréfasjóðs og varðveislu eigna hans og daglegur rekstur er færður úr höndum verðbréfafyrirtækja til sérstakra félaga sem skulu eingöngu annast rekstur verðbréfasjóðs. Samkvæmt VII. kafla frumvarpsins verða grundvallarbreytingar á fjárfestingu verðbréfasjóða. Samkvæmt kaflanum, sem er mun ítarlegri en samsvarandi ákvæði gildandi laga, er sett sú meginregla að verðbréfasjóðir fjárfesti nánast eingöngu í verðbréfum sem skráð eru á opinberum verðbréfamarkaði eða ganga kaupum og sölum á öðrum skipulegum verðbréfamarkaði. Ákvæði X. kafla frumvarpsins um afturköllun leyfa eru mun ítarlegri en samkvæmt gildandi lögum og loks eru viðurlög við brotum hert, sbr. XII. kafla.

Athugasemdir við einstaka kafla og greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


     Í I. kafla frumvarpsins er fjallað um til hvaða fyrirtækja frumvarpinu er ætlað að taka.
Er í því sambandi stuðst við tilskipun Evrópubandalagsins nr. 611 frá 1985 um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (undertakings for collective investment in transferable securities).

Um 1. gr.


    Fyrirtæki, sem frumvarpið tekur til, eru nánar skilgreind í 1. gr. frumvarpsins. Skiptist skilgreining þeirra í tvo þætti.
     Samkvæmt 1. tölul. greinarinnar er um að ræða fyrirtæki sem hafa eingöngu að markmiði sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu. Í frumvarpinu er notað samheitið verðbréfasjóður yfir slík fyrirtæki enda annast fyrirtæki, sem frumvarpið tekur til, starfsemi sem verðbréfasjóðir hafa annast hér á landi. Í 2. tölul. 1. gr. er síðan gert ráð fyrir að fyrirtæki, sem frumvarpið tekur til, gefi út hlutdeildarskírteini til þeirra sem fá því fé til ávöxtunar og að skírteinin verði innleyst að kröfu eigenda þeirra af eignum fyrirtækisins.
     Hugtakið verðbréfasjóður er skilgreint í athugasemdum með frumvarpinu sem varð að lögum um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði með eftirfarandi hætti: „Í 6. mgr. er skilgreint hugtakið verðbréfasjóður, en með því er átt við sérhvern lögaðila, sbr. IV. kafla frumvarpsins, sem hefur það markmið að kaupa og selja verðbréf í eigin nafni, en almenningur getur átt aðild að. Sú starfsemi, sem hér um ræðir, er nýlega til komin hérlendis. Markmið hennar yrði jafnan það að taka við fjármunum til sameiginlegra fjárfestinga til hagsbóta þeim sem leggja fé af mörkum í því skyni og dreifa þannig áhættu af áföllum í verðbréfaviðskiptum. Sá lögaðili, sem hefur slíka starfsemi með höndum, getur gegnt hlutverki sínu með ýmsum hætti, en gera verður ráð fyrir að það verði jafnan gert með því að kaupa verðbréf og selja í nafni lögaðilans í því skyni að afla ávinnings. Skilgreining þessa hugtaks er í frumvarpi þessu bundin við að lögaðili af þessu tagi sé í hlutafélagsformi eða hafi sett sér samþykktir í samræmi við 18. gr. frumvarpsins og að skilyrði fyrir aðild að honum felist í skuldaviðurkenningu hans, — hlutdeildarskírteini í sjóðnum. Það er einnig skilyrði þess að félag eða stofnun með þessum tilgangi teljist verðbréfasjóður í merkingu frumvarpsins að almenningur eða þrengri hópur manna eigi kost á aðild að honum. Eins og síðar er vikið að ráðgerir frumvarpið að það sé skilyrði fyrir rekstri verðbréfasjóðs í þessum skilningi að hann sé rekinn af verðbréfafyrirtæki skv. III. kafla frumvarpsins.“
     Enda þótt meginefni skilgreiningar í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 20/1989 eigi einnig við um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum er þó rétt að benda á einstök frávik samkvæmt frumvarpi þessu. Skilgreining þess tekur ekki fram einstök verðbréf sem fjárfest skal í heldur nefnir einungis framseljanleg verðbréf og er þá átt við verðbréf eins og þau eru skilgreind í 1. gr. frumvarpsins. Þá er skilgreining frumvarpsins einnig þrengri að því leyti að felld er brott tilvísun til „þrengri hóps manna“ og miðað við að verðbréfasjóðir séu opnir almenningi. Þessi breyting leiðir af tilskipun Evrópubandalagsins nr. 85/611.

Um II. kafla.


     Í þessum kafla frumvarpsins er fjallað um starfsleyfi og skráningu verðbréfasjóða. Ákvæði kaflans um skráningu verðbréfasjóða eru efnislega þau sömu og í gildandi lögum. Að því er varðar starfsleyfi verðbréfasjóða er um að ræða breytingu frá gildandi lögum sem ekki gera ráð fyrir sérstakri leyfisveitingu af hálfu viðskiptaráðherra, að uppfylltum nánari skilyrðum, vegna starfrækslu verðbréfasjóða heldur einungis staðfestingu bankaeftirlitsins á samþykktum sjóðanna. Kröfur um sérstaka leyfisveitingu eru í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópubandalagsins nr. 85/611 um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum. Bent skal á að skv. 40. gr. frumvarpsins getur viðskiptaráðherra falið bankaeftirlitinu að annast leyfisveitingar.
     Þá felast í þessum kafla frumvarpsins ákvæði um málsmeðferð við umsókn um starfsleyfi verðbréfasjóða, m.a. um synjun á leyfi sem einnig er nýmæli frá gildandi lögum.

Um 2. gr.


    Í 1. mgr. 2. gr. er tekið fram að einungis verðbréfasjóðir, sem uppfylla skilyrði frumvarpsins og hafa fengið formlegt starfsleyfi viðskiptaráðherra, megi stunda þá starfsemi sem frumvarpið tekur til. Ákvæði 3. gr. frumvarpsins hnykkja enn á kröfum um formlega leyfisveitingu.
     Nánari skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis er að finna í 2. mgr. Í 1. tölul. málsgreinarinnar er það skilyrði sett að verðbréfasjóður sé löglega stofnaður í skilningi 9. gr. frumvarpsins. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. frumvarpsins er heimilt að stofna verðbréfasjóð sem hlutafélag eða í öðru félagsformi.
     Með 1. tölul. 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins er lögð áhersla á að það félagsform, sem fyrir valinu verður, fullnægi kröfum sem til þess eru gerðar að lögum, m.a. að því er varðar málsmeðferð við stofnun.
     Í 2. tölul., sem er nýmæli frá gildandi lögum, eru gerðar fjárhagslegar kröfur til verðbréfasjóða. Þykir það eðlilegt og nauðsynlegt meðal annars með hliðsjón af því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir sjálfstæðari stöðu verðbréfasjóða en verið hefur, t.d. að því er varðar aðildarhæfi að dómsmálum.
     Í 3. tölul. er það skilyrði sett að í samþykktum verðbréfasjóðsins sé fullnægt þeim lágmarkskröfum sem settar eru með 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins. Ákvæðið þarfnast ekki nánari skýringa og vísast til athugasemda við 8. gr. í þessu samhengi.
     Í 4. tölul. kemur fram ein af meginbreytingum frumvarpsins að því er varðar skipulag á rekstri verðbréfasjóða með tilkomu svonefndra rekstrarfélaga og vörslufyrirtækja sem hvort tveggja er nýmæli í löggjöf hér á landi. Gert er ráð fyrir aðskilnaði daglegs reksturs verðbréfasjóðs sem verði falinn sérstöku rekstrarfélagi og varðveislu eigna sjóðsins sem falin verður sérstöku vörslufyrirtæki. Vísast til V. kafla frumvarpsins til nánari skýringar á þessu atriði.
     Í 5. tölul. er loks mælt fyrir um að endurskoðun hjá verðbréfasjóðum skuli framkvæmd af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarstofu. Ákvæðið er óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki nánari skýringa.
     Með 3. mgr. eru settar þær formkröfur að umsókn um starfsleyfi skuli vera skrifleg enda þótt gera megi ráð fyrir að svo verði almennt. Samþykktir verðbréfasjóðs skulu fylgja umsókn en að öðru leyti er viðskiptaráðherra veitt heimild til að ákveða hverjar aðrar upplýsingar skuli lagðar fram við umsókn. Eðli máls samkvæmt skulu kröfur um upplýsingar vera almennar og gilda fyrir alla umsækjendur. Þá er einnig gert ráð fyrir að leitað sé umsagnar bankaeftirlitsins áður en leyfi er veitt.

Um 3. gr.


    Í samræmi við ákvæði 2. gr. frumvarpsins er í 1. mgr. 3. gr. mælt fyrir um að verðbréfasjóðir, sem hlotið hafa fullgilt starfsleyfi, hafi einir rétt til að stunda starfsemi sem frumvarpið fjallar um. Jafnframt er tekið fram að verðbréfasjóðum sé óheimilt að annast aðra starfsemi. Þessi takmörkun leiðir af 1. gr. frumvarpsins og á rætur að rekja til tilskipunar Evrópubandalagsins á þessu sviði.
     Í 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins er verðbréfasjóðum gert skylt og einum veitt heimild til að nota orðið verðbréfasjóður, eitt sér eða samtengt öðrum orðum, í heiti sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni. Ákvæðinu er ætlað að koma í veg fyrir hættu á ruglingi og einnig að aðilar, sem ekki uppfylla skilyrði frumvarpsins til að stunda starfsemi sem það tekur til, villi á sér heimildir. Ákvæðið stuðlar að því að skapa nauðsynlegt traust á fjármagnsmarkaði.
     Loks er lagt bann við því í 3. mgr. að verðbréfasjóðum verði síðar breytt í annars konar fyrirtæki en þau sem frumvarpið tekur til. Ákvæðið er sett í samræmi við ákvæði í reglum Evrópubandalagsins. Var það talin nauðsynleg forsenda fyrir frelsi verðbréfasjóða til starfsemi innan Evrópubandalagsins og þar af leiðandi einnig innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þá er það einnig öryggisatriði fyrir viðskiptamenn verðbréfasjóða sem fá þeim fjármuni til ávöxtunar að sjóðurinn uppfylli ávallt kröfur frumvarpsins um fjárfestingar og fleiri atriði.

Um 4. gr.


    Í þessari grein er fjallað um synjun umsókna um starfsleyfi verðbréfasjóða. Þykir eðlilegt að samhliða kröfum um starfsleyfi verðbréfasjóða sé jafnframt kveðið með skýrum hætti á um þau tilvik sem valdið geta synjun umsókna.
     Í 1. mgr. 4. gr. er tekið fram með skýrum hætti að uppfylli umsækjandi um starfsleyfi ekki skilyrði frumvarpsins til veitingar leyfisins skuli umsókn synjað. Þau skilyrði, sem um er að ræða, koma fram í 2. gr. frumvarpsins og eru hlutlæg. Það er eðlilegt og til hagsbóta fyrir verðbréfamarkaðinn í heild og ekki síður umsækjendur sjálfa að kröfur og málsmeðferð að þessu leyti séu skýrar og ótvíræðar og ekki sé hætta á að matskennd atriði leiði til undanþága í einstökum tilvikum. Með ákvæðinu er með öðrum orðum lögfest eðlileg málsmeðferðarregla sem telja verður almennt viðurkennda í stjórnsýslu. Er ákvæðið ekki síður mikilvægt með tilliti til þess að leyfi, sem veitt hefur verið hér á landi, hefur sjálfkrafa gildi í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Verður því að vera tryggt að leyfishafar hafi frá upphafi uppfyllt lögbundnar kröfur.
     Samkvæmt 2. mgr. þessarar greinar er viðskiptaráðherra veitt heimild til að synja umsókn um starfsleyfi verðbréfasjóðs séu aðstæður með þeim hætti sem ákvæðið segir enda þótt umsækjandi uppfylli skilyrði frumvarpsins að öðru leyti. Ákvæðið er í samræmi við tilskipun Evrópubandalagsins á þessu sviði. Samsvarandi ákvæði er einnig t.d. í dönskum lögum.
     Í 1. tölul. 2. mgr. er ráðherra veitt heimild til synjunar hafi viðkomandi aðilar gerst sekir um refsiverðan verknað sem ætla má að skapi hættu á að þeir misnoti aðstöðu sína í starfi á vegum verðbréfasjóðsins. Ekki er unnt að gefa tæmandi talningu á þeim tilvikum sem fallið geta undir töluliðinn en almennt yrði um að ræða alvarleg fjármálabrot samkvæmt almennum hegningarlögum, svo sem fjársvik, fjárdrátt eða brot gegn sérrefsilögum. Synjun samkvæmt þessu ákvæði byggist á því að viðkomandi hafi hlotið dóm fyrir verknað. Jafnframt er sett það skilyrði fyrir synjun á grundvelli ákvæðisins að ástæða sé til að ætla að viðkomandi misnoti aðstöðu sína.
     Samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. er ráðherra veitt heimild til að synja um starfsleyfi hafi viðkomandi aðilar sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að ætla að þeir muni ekki sinna starfi sínu á forsvaranlegan hátt. Ákvæðið er ekki bundið við brot gegn lögum eða að viðkomandi hafi hlotið dóm fyrir umrædda háttsemi. Áhersla er lögð á það hvort ferill viðkomandi eða fyrri störf rýri álit hans svo að ekki teljist verjandi að hann hafi með höndum ábyrgðarstörf á verðbréfamarkaði. Ekki er unnt að gefa tæmandi talningu tilvika sem til greina gætu komið. Almennt yrði þó að vera um að ræða alvarlegar ávirðingar eða óæskilega háttsemi á fjármálasviði.
     Með 1. og 2. mgr. þessarar greinar er leitast við að tryggja heiðarleika stjórnenda á verðbréfamarkaði og það traust sem ætlast verður til að almenningur geti borið til markaðarins og þeirra sem þar starfa.
     Samkvæmt 4. gr. er það mat viðskiptaráðherra hvort atvik séu með þeim hætti að réttlætanlegt sé að synja um umsókn um starfsleyfi verðbréfasjóðs á grundvelli ákvæðisins. Almennt er ekki ætlast til að ákvæðinu sé beitt nema í alvarlegum tilvikum. Í 3. mgr. er mælt fyrir um að leitað skuli umsagnar bankaeftirlitsins áður en viðskiptaráðherra ákveður synjun á grundvelli ákvæðisins. Enda þótt ráðherra sé ekki bundinn við umsögn bankaeftirlitsins verður að ætla að síður komi til synjunar á umsókn telji bankaeftirlitið ekki ástæðu til hennar.

Um 5. gr.


    Samkvæmt ákvæðinu er viðskiptaráðherra gert skylt að rökstyðja synjun skv. 4. gr. og senda umsækjanda. Almennt hlýtur synjun á umsókn um starfsleyfi að varða umsækjandann miklu og því er talið eðlilegt að slík synjun sé rökstudd þannig að umsækjandinn geti metið ástæður hennar sjálfstætt og tekið ákvörðun um hvort hann uni niðurstöðu ráðherrans eða ákveði að leita réttar síns fyrir dómstólum samkvæmt almennum reglum.
     Með sama hætti má einnig ætla að það skipti umsækjanda miklu að ákvörðun ráðherra, hvort sem leyfi er veitt eða synjað, liggi fyrir innan hæfilegs tíma. Því er kveðið á um að ákvörðun ráðherra skuli að jafnaði liggja fyrir eigi síðar en þremur mánuðum og í síðasta lagi innan sex mánaða frá því að fullbúin umsókn berst ráðherra. Miðað er við þau tímamörk að fullbúin umsókn hafi borist. Aðstaða kann að vera sú að ófullnægjandi gögn eða upplýsingar hafi borist frá umsækjanda og þykir því eðlilegt að frestur samkvæmt ákvæðinu teljist frá þeim tíma að fullnægjandi upplýsingar berast að mati ráðherra. Það er hins vegar á valdi ráðherra hvaða gögnum hann óskar eftir, sbr. 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.


    Ákvæði 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins eru efnislega í samræmi við 2. mgr. 19. gr. núgildandi laga nr. 20 frá 1989 að öðru leyti en því að í stað þess að bankaeftirlitinu er ætlað að birta í Lögbirtingablaði tilkynningu um staðfestingu samþykkta verðbréfasjóða er nú gert ráð fyrir að viðskiptaráðherra birti tilkynningu um þá sjóði sem hafa hlotið starfsleyfi. Er eðlilegt að sá aðili, sem veitir leyfið, annist birtingu slíkra tilkynninga. Að öðru leyti mælir greinin fyrir um þær upplýsingar sem koma skulu fram í tilkynningu samkvæmt ákvæðinu og skal þar m.a. geta rekstrarfélags og vörslufyrirtækis verðbréfasjóðsins. Þá er mælt fyrir um í ákvæðinu að óheimilt sé að taka við fjármunum til ávöxtunar í verðbréfasjóði fyrr en tilkynningin hefur verið birt. Slíkt ákvæði er einnig í 2. mgr. 19. gr. núgildandi laga.
     Ákvæði 2. mgr. er nýmæli. Samkvæmt því er verðbréfasjóðum, sem fengið hafa starfsleyfi, veittur árs frestur til að hefja starfsemi að öðrum kosti falli leyfið sjálfkrafa úr gildi. Samsvarandi ákvæði er að finna í danskri löggjöf. Með ákvæðinu er reynt að tryggja að einungis þeir sem raunverulega ætla sér að stunda starfrækslu verðbréfasjóða sækist eftir starfsleyfi til þess. Þá er einnig mikilvægt að tilkynningar viðskiptaráðherra skv. 1. mgr. ákvæðisins og upplýsingar í skráningu skv. 7. gr. frumvarpsins veiti á hverjum tíma eins réttar upplýsingar og kostur er um starfandi verðbréfasjóði.

Um 7. gr.


    Í grein þessari er kveðið á um að bankaeftirlitið skuli halda sérstaka skrá yfir verðbréfasjóði sem fengið hafa starfsleyfi og er kveðið nánar á um hvaða upplýsingar skuli koma þar fram. Ákvæðið er efnislega óbreytt frá gildandi lögum að öðru leyti en því að nú er einnig gert ráð fyrir að skráðar verði upplýsingar um rekstrarfélag og vörslufyrirtæki verðbréfasjóðs.
     Ákvæði 2. mgr. veitir bankaeftirlitinu heimild til að kveða nánar á um upplýsingar sem veittar skulu skv. 1. mgr. Þá er sérstaklega tekið fram að breytingar á áður tilkynntum atriðum skuli þegar tilkynntar bankaeftirlitinu. Nokkur misbrestur hefur orðið á að slíkar breytingar hafi verið tilkynntar bankeftirlitinu enda núgildandi lög ef til vill ekki nægilega skýr að þessu leyti. Á þessu er nú ráðin bót með lokamálslið þessarar málsgreinar.

Um III. kafla.


     Í þessum kafla eru settar lágmarkskröfur um þau atriði sem skulu koma fram í samþykktum verðbréfasjóða, svo og hvernig skuli staðið að breytingum á þeim.

Um 8. gr.


    1. mgr. er nokkru efnismeiri en ákvæði 2. mgr. 18. gr. núgildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði en það leiðir af breyttu skipulagi á rekstri verðbréfasjóða. Greinin þarfnast ekki skýringa að öðru leyti.
     Ákvæði 2. mgr. er að mestu efnislega samhljóða 5. og 6. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 19. gr. núgildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði. Þó er sú breyting gerð frá núgildandi lögum að felld er brott heimild stjórnar verðbréfasjóðs skv. 5. mgr. 18. gr. núgildandi laga til að ákveða breytingar á samþykktum nema annað sé ákveðið í stofnsamþykktum sjóðsins. Þykir eðlilegra að einungis sé kveðið á um breytingar á samþykktum verðbréfasjóðsins í samþykktunum sjálfum, sbr. 4. tölul. 1. mgr.
     Með 3. mgr. er kveðið skýrar á um en gert er í núgildandi lögum að það sé í verkahring verðbréfasjóðsins sjálfs að tilkynna um breytingar á samþykktum með þeim hætti sem þar greinir.

Um IV. kafla.


     Í IV. kafla er fjallað um stjórn og skipulag verðbréfasjóða. Í kaflanum eru ítarlegri ákvæði en samkvæmt núgildandi löggjöf um aðalfund, skipan stjórnar og hlutverk hennar. Þá eru einnig sett hæfisskilyrði um stjórnarmenn.

Um 9. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. er kveðið á um félagsform verðbréfasjóða. Ákvæðið er samhljóða fyrri hluta 2. málsl. 18. gr. núgildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði. Verðbréfasjóðir verða samkvæmt ákvæðinu einungis stofnaðir sem félög en félagsformið sjálft er ekki ákveðið. Að öðru leyti skulu gilda ákvæði í lögum sem sett kunna að vera varðandi samþykktir félaga, sbr. til að mynda lög um hlutafélög.
     Í 2. mgr. er heimilað að verðbréfasjóður starfi í aðgreindum deildum og er sú heimild einnig fyrir hendi samkvæmt núgildandi lögum. Hins vegar er í 2. mgr. bætt við ákvæði um innbyrðis ábyrgð einstakra deilda á skuldbindingum. Er kveðið skýrt á um það að hver deild beri ábyrgð á sínum skuldbindingum. Með þessu er hnykkt á þeirri meginreglu sem hefur raunar verið almennt viðurkennd í starfsemi verðbréfasjóða að viðskiptamenn einstakra deilda sjóðanna, þar á meðal eigendur hlutdeildarskírteina, eigi einungis kröfu á þá deild sem þeir hafa átt viðskipti við. Á hinn bóginn felst einnig í ákvæðinu að deildir verðbréfasjóðs innbyrðis skulu sjálfar bera þann kostnað sem á beinlínis rætur að rekja til starfsemi hverrar deildar. Dæmi þessa væri auglýsingakostnaður o.þ.h. vegna einstakrar deildar. Öðru máli gegnir hins vegar um það sem telja má sameiginlegan kostnað, svo sem skrifstofuhald og endurskoðun sem tíðast er framkvæmd af sama aðila fyrir verðbréfasjóð í heild. Allar deildirnar bera sameiginlega ábyrgð á slíkum kostnaði.

Um 10. gr.


    Hér er fjallað um aðalfund verðbréfasjóðs sem fer með æðsta vald í málefnum sjóðsins. Ákvæðið er nýmæli frá gildandi löggjöf. Það þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 11. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um stjórnarmenn verðbréfasjóða, hæfi þeirra og skyldur. Sams konar ákvæði er ekki að finna í núgildandi lögum. Með ákvæðinu er stefnt að meira sjálfstæði og aukinni ábyrgð stjórnarinnar á rekstri verðbréfasjóða.
     Í 1. mgr. er kveðið á um lágmarksfjölda stjórnarmanna sem skulu vera þrír hið fæsta. Í núgildandi lögum er ekki kveðið á um þetta atriði. Þá mælir 1. mgr. með skýrum hætti fyrir um hlutverk og skyldur stjórnarmanna til almenns eftirlits með starfsemi verðbréfasjóðs en slík ákvæði er ekki að finna í núgildandi lögum. Þykir eðlilegt með tilliti til þess aukna sjálfstæðis sem verðbréfasjóðum er ætlað frá gildandi lögum að kveða einnig skýrar á um þessi atriði. Ekki síst verður það nauðsynlegt með tilliti til þess að með frumvarpinu eru felldar brott takmarkanir gildandi laga að því er varðar aðild verðbréfasjóðs að dómsmálum.
     Samkvæmt 2. mgr. eru sett sérstök hæfisskilyrði fyrir stjórnarmenn verðbréfasjóða. Ákvæðið er nýmæli frá gildandi lögum en eðlilegt þykir að slík skilyrði séu sett með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem rakin eru í athugasemdum við 1. mgr. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.
     Ákvæði 3. mgr. undanþiggur stjórnarmenn sem búsettir eru í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins skilyrðum 2. mgr. um búsetu. Slík undanþága leiðir af samningum um Evrópska efnahagssvæðið. Viðskiptaráðherra er jafnframt veitt heimild til að veita ríkisborgurum annarra ríkja sömu undanþágu. Hún gæti ýmist falist í sérstakri ákvörðun hverju sinni eða almennum reglum sem viðskiptaráðherra setur.
     Ákvæði gildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði hafa ekki að geyma reglur sem banna aðilum að sitja samtímis í stjórnum verðbréfasjóðs og verðbréfafyrirtækis sem annast rekstur sjóðsins enda þótt telja verði slíka skipan óeðlilega og skapa hættu á hagsmunaárekstrum. Úr þessu er bætt með 4. mgr. 11. gr. frumvarpsins sem mælir fyrir um að stjórnarmenn verðbréfasjóðs megi ekki jafnframt eiga sæti í stjórnum rekstrarfélags eða vörslufyrirtækis verðbréfasjóðsins. Ákvæðið er eðlilegt með tilliti til þess almenna eftirlitshlutverks sem stjórn verðbréfasjóðs er ætlað skv. 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins. Þá er það einnig í samræmi við tilskipun Evrópubandalagsins á þessu sviði sem mælir fyrir um að rekstrarfélög og vörslufyrirtæki verðbréfasjóðs skuli vera óháð í störfum sínum. Enda þótt fyrst og fremst sé átt við að þessi félög séu óháð innbyrðis má ætla að skipan sú, sem gert er ráð fyrir í 4. mgr., tryggi enn frekar að þessu markmiði verði náð.

Um V. kafla.


     Samkvæmt gildandi lögum um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði er gert ráð fyrir
því að rekstur verðbréfasjóða skuli falinn sérstökum hlutafélögum — verðbréfafyrirtækjum. Verðbréfasjóðir hér á landi hafa samkvæmt þessari skipan verið byggðir upp og starfræktir með hliðstæðum hætti og sams konar fyrirtæki víða erlendis (mutual funds). Reglur Evrópubandalagsins um starfsemi fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum, sem öðlast gildi hér á landi með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði, leiða til þess að verðbréfafyrirtækjum verður óheimilt að reka verðbréfasjóði eins og verið hefur. Reglur bandalagsins kveða á um að félög, sem annast rekstur verðbréfasjóða, skuli eingöngu hafa slíkan rekstur með höndum. Miðað við óbreytt form á rekstri verðbréfasjóða hér á landi er því nauðsynlegt að til komi ákvæði um rekstrarfélög verðbréfasjóða svo sem mælt er fyrir um í þessum kafla frumvarpsins. Á hinn bóginn gætu starfandi verðbréfafyrirtæki ákveðið að taka að sér að vera rekstrarfélag samkvæmt þessum kafla frumvarpsins, enda láti þau þá af annarri starfsemi sem þeim er nú heimilt að annast og verður áfram samkvæmt frumvarpi til almennra laga um verðbréfaviðskipti sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu.
     Þá er gert ráð fyrir því nýmæli í frumvarpinu að öðrum aðila en rekstrarfélagi verðbréfasjóðs, svonefndu vörslufyrirtæki, skuli falið að varðveita eignir sjóðsins. Er þessi nýskipan í samræmi við reglur Evrópubandalagsins. Samkvæmt frumvarpinu gæti verðbréfafyrirtæki gegnt hlutverki vörslufyrirtækis og annast varðveislu eigna verðbréfasjóðs.

Um 12. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar er rekstrarfélagi, sem hlotið hefur viðurkenningu bankaeftirlitsins, ætlað að annast daglegan rekstur verðbréfasjóðs sem verðbréfafyrirtæki annast nú samkvæmt núgildandi lögum. Þessi skipan leiðir af tilskipun Evrópubandalagsins á þessu sviði. Rekstrarfélag annast því sölu og innlausn hlutdeildarskírteina viðkomandi sjóðs og fjárfestingar fjármuna sem sjóðnum eru fengnir til ávöxtunar. Það skilyrði er sett varðandi rekstrarfélög að þau séu óháð og starfi eingöngu að rekstri verðbréfasjóða eða annarra fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum sem ekki falla undir skilgreiningu frumvarpsins á verðbréfasjóðum. Dæmi um slík fyrirtæki eru hlutabréfasjóðir og fjárfestingarfélög. Ákvæðinu er ætlað að tryggja viðskiptamönnum verðbréfasjóða að rekstrarfélög hafi yfir að ráða nægilegri sérhæfingu eða sérþekkingu og jafnframt að sporna við hugsanlegum hagsmunaárekstrum í starfsemi þessara félaga.
     Með ákvæði 1. mgr. er ekki ætlunin að rekstrarfélög geti ekki annast og ráðstafað eigin eignum heldur einungis lögð áhersla á að þess sé gætt að slíkar ráðstafanir skerði ekki óháða stöðu félagsins í tengslum við þá starfsemi sem því er ætlað að stunda. Með þetta í huga ber einnig að líta á ákvæði 2. mgr. Ákvæðinu er með öðrum orðum ætlað að tryggja óháða stöðu félagsins og að ráðstafanir þess á eignum verðbréfasjóðs taki einungis mið af hagsmunum sjóðsins og eigenda hlutdeildarskírteina. Ákvæði 2. mgr. er sett með hliðsjón af reglum Evrópubandalagsins á þessu sviði.

Um 13. gr.


    Ákvæði þessarar greinar eru í samræmi við það sem gilt hefur um framkvæmdastjóra verðbréfafyrirtækja samkvæmt núgildandi lögum um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði. Þykir eðlilegt að gerðar verði sömu kröfur til daglegs stjórnanda rekstrarfélags sem annast rekstur sem fram að þessu hefur verið falinn verðbréfafyrirtæki.

Um 14. gr.


    Í þessari grein, sem leiðir af reglum Evrópubandalagsins, er það nýmæli að skilið er á milli daglegs reksturs verðbréfasjóða annars vegar og varðveislu og umsjár með þeim eignum sem sjóðurinn hefur fjárfest í hins vegar. Er með því stefnt að frekari vernd fyrir viðskiptavini verðbréfasjóða. Vörsluaðila er ætlað að stuðla að því að fjármunir séu fjárfestir með lögmætum hætti í samræmi við ákvæði laga og samþykkta verðbréfasjóða og hlíta fyrirmælum rekstrarfélags um ráðstöfun eignanna nema þau séu andstæð lögum eða samþykktum. Í samræmi við þetta ber vörslufyrirtæki einnig að fylgjast með því að sala hlutdeildarskírteina, innlausn þeirra og útreikningur á innlausnarvirði fari fram í samræmi við ákvæði laga og samþykkta. Ákvæðið girðir ekki fyrir að sami verðbréfasjóður hafi fleiri en eitt vörslufyrirtæki. Vörslufyrirtæki skal hafa hlotið viðurkenningu bankaeftirlitsins.
     Nánari ákvæði um hlutverk vörslufyrirtækja eru í 1.–5. tölul. 1. mgr. og skýra sig efnislega sjálf. Í hlutverki vörslufyrirtækis samkvæmt ákvæðinu felst ekki að það sé ábyrgt fyrir því að starfsemi verðbréfasjóðs sé í lögmætu horfi. Þá ábyrgð ber stjórn verðbréfasjóðs og rekstrarfélag hans. Vörslufyrirtæki ber hins vegar að leitast við að tryggja að starfsemi verðbréfasjóðs sé í samræmi við lög og samþykktir hans og ber ábyrgð á því ef hann sinnir ekki þeim skyldum sínum.
     Í 2. mgr. er kveðið á um hvaða aðilar geti fengið viðurkenningu bankaeftirlitsins sem vörslufyrirtæki. Sameiginlegt öllum þessum aðilum er að þeir lúta lögbundnu eftirliti samkvæmt lögum sem um hvern þeirra gildir. Er það í samræmi við reglur Evrópubandalagsins um vörslufyrirtæki.

Um 15. gr.


    Ákvæði 15. gr. frumvarpsins er sett í samræmi við reglur Evrópubandalagsins og skýrir sig sjálft.

Um VI. kafla.


     Í þessum kafla er fjallað um hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða og er að mestu stuðst
við ákvæði 20.–23. gr. núgildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði en einnig tilskipun Evrópubandalagsins á þessu sviði og ákvæði danskra laga.

Um 16. gr.


    Í 1. mgr. þessarar greinar er kveðið á um skyldu verðbréfasjóða til að gefa út hlutdeildarskírteini. Ákvæðið er í samræmi við skilgreiningu 1. gr. frumvarpsins og er óbreytt frá 1. mgr. 20. gr. núgildandi laga að öðru leyti en því að ekki er lengur tekið fram að eigendur hlutdeildarskírteina hafi réttarstöðu lánadrottna gagnvart verðbréfasjóði. Óþarft þykir að taka það fram sérstaklega en ekki er með því ætlunin að breyta réttarstöðu aðila frá því sem mælt er fyrir um í gildandi lögum.
     Ákvæði 2. mgr. er nýmæli. Það er sett með tilliti til ákvæða í frumvarpi um verðbréfaviðskipti sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi þar sem gert er ráð fyrir að öll verðbréf, sem boðin eru almenningi með almennu útboði, verði skráð á opinberum verðbréfamarkaði. Þar sem hlutdeildarskírteini eru boðin almenningi með þeim hætti að jafna megi til almenns útboðs þykir eðlilegt að gera kröfu til skráningar skírteinanna.

Um 17. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 18. gr.


    1. mgr. er efnislega óbreytt frá 1. mgr. 22. gr. núgildandi laga og þarfnast ekki frekari skýringa.
     Í 2. mgr. er kveðið skýrt á um skyldu til að tilkynna eigendaskipti hlutdeildarskírteina en gildandi lög eru óskýr um þetta atriði. Slíkar tilkynningar eru nauðsynlegar vegna þeirrar skráningar sem kveðið er á um í 1. mgr.
     3. mgr. er óbreytt frá 3. mgr. 22. gr. núgildandi laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 19. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið beinlínis á um að hlutdeildarskírteini verði einungis seld gegn staðgreiðslu. Ákvæðið er nýmæli en á sér hliðstæður í ákvæðum tilskipunar Evrópubandalagsins á þessu sviði og dönskum lögum.
     Í 2. mgr. er kveðið á um skyldu til innlausnar hlutdeildarskírteina að kröfu eigenda þeirra samkvæmt ákvæðum samþykkta verðbréfasjóðs en slíkt ákvæði er í samræmi við skilgreiningu 1. gr. frumvarpsins og raunar einnig skilgreiningu núgildandi laga. Ákvæðið er einnig í samræmi við reglur Evrópubandalagsins og dönsk lög.
     Þá er í 2. mgr. kveðið sérstaklega á um frestun innlausnar en það er ekki gert í núgildandi lögum. Ákvæðið tekur mið af reglum Evrópubandalagsins á þessu sviði og ákvæðum danskra laga. Komi til frestunar samkvæmt ákvæðinu skal hún vera almenn og taka til allra hlutdeildarskírteina. Ákvæðið er undantekning frá meginreglu frumvarpsins um innlausn að kröfu eigenda hlutdeildarskírteina og ber að túlka þannig að til frestunar á innlausn geti eingöngu komið mæli sérstakar aðstæður með því með tilliti til hagsmuna eigenda skírteinanna, enda sé verðbréfasjóður ófær um að uppfylla skyldur sínar til innlausnar. Sem dæmi um slík tilvik má nefna lokun kauphalla þar sem verulegur hluti eigna sjóðsins er skráður þannig að ekki reynist unnt að staðreyna innlausnarvirði hlutdeildarskírteina. Einnig gæti verðbréfasjóður staðið frammi fyrir svo miklum kröfum um innlausn að ekki væri unnt að mæta þeim nema með sölu eigna sem tekið gæti einhvern tíma. Líta ber á heimildir til frestunar á innlausn sem tímabundnar og skulu samþykktir hafa að geyma nánari ákvæði um slíkar heimildir.
     Loks er í 2. mgr. gert ráð fyrir því að frestun innlausnar hlutdeildarskírteina sé tilkynnt bankaeftirliti og eftirlitsaðilum í þeim ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins þar sem hlutdeildarskírteini verðbréfasjóðsins hafa verið sett á markað. Jafnframt skal frestun auglýst opinberlega. Í þessu sambandi er höfð hliðsjón af reglum Evrópubandalagsins á þessu sviði og dönskum lögum. Er þessi krafa eðlileg með tilliti til trausts og öryggis verðbréfamarkaðarins í heild og hagsmuna almennings.
     Í 3. mgr. er enn nýmæli frá gildandi löggjöf, einnig í samræmi við reglur Evrópubandalagsins og ákvæði danskra laga. Um er að ræða sjálfstæða heimild bankaeftirlitsins til að krefjast frestunar á innlausn hlutdeildarskírteina. Ákvæðið tekur bæði til þess að aðstæður séu með þeim hætti sem greinir í 2. mgr. án þess að verðbréfasjóður beiti frestunarheimild samkvæmt því ákvæði. Einnig getur bankaeftirlitið krafist frestunar af öðrum ástæðum telji það hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina eða verðbréfamarkaðarins krefjast þess enda þótt ástæður, sem varða viðkomandi verðbréfasjóð, krefjist ekki frestunar.
     Ákvæði 4. og 5. mgr. þarfnast ekki skýringa.
     Samkvæmt 6. mgr. er ráðherra veitt heimild til að setja nánari reglur um útreikning á innlausnarvirði hlutdeildarskírteina. Samsvarandi ákvæði er í gildandi lögum um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði.

Um VII. kafla.


     Í VII. kafla frumvarpsins er fjallað um fjárfestingar verðbréfasjóða og einstakra deilda
þeirra. Ákvæði kaflans eru mun ítarlegri en nú er og fela í sér grundvallarbreytingar frá gildandi lögum um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði sem veita verðbréfasjóðum frjálst val um það í hvers konar verðbréfum er fjárfest. Þessi kafli frumvarpsins er í samræmi við reglur Evrópubandalagsins á þessu sviði. Meginreglan verður samkvæmt kaflanum fjárfesting í verðbréfum sem skráð eru á opinberum verðbréfamarkaði eða ganga kaupum og sölum á öðrum skipulegum verðbréfamarkaði.

Um 20. gr.


    Í 1. mgr. kemur fram meginregla frumvarpsins varðandi fjárfestingu verðbréfasjóða sem hefur í för með sér verulegar breytingar frá núgildandi lögum hér á landi. Samkvæmt frumvarpinu er sú meginregla sett að verðbréfasjóðir fjárfesti eingöngu í framseljanlegum verðbréfum sem eru skráð á opinberum verðbréfamarkaði eða ganga kaupum og sölum á öðrum skipulegum verðbréfamarkaði. Um þetta er fjallað nánar í 1. og 2. tölul. málsgreinarinnar. Þrátt fyrir að sagt sé að verðbréfasjóðum sé eingöngu heimilað að fjárfesta með þeim hætti sem í 1. mgr. segir þá leiðir það af öðrum ákvæðum þessa kafla frumvarpsins að í raun er ætlast til að að minnsta kosti 90% eigna þeirra séu fjárfest samkvæmt ákvæðinu. Með ákvæðinu eru hagsmunir þeirra sem fjárfesta í verðbréfasjóðum tryggðir betur en verið hefur með því að verðbréf, sem sjóðirnir fjárfesta í, hafi ýmist uppfyllt þær ströngu reglur sem víðast gilda um skráningu verðbréfa á opinberum verðbréfamarkaði, t.d. um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfanna um ýmis atriði í rekstri sínum, eða gangi kaupum og sölum á skipulegum verðbréfamarkaði. Hvort tveggja gerir verðbréfin auðseljanlegri og þar af leiðandi heppilegri eign fyrir verðbréfasjóði.
     Í 1. tölul. er fjallað um fjárfestingar í framseljanlegum verðbréfum sem skráð eru á opinberum verðbréfamarkaði eða ganga kaupum og sölum á öðrum viðurkenndum verðbréfamarkaði. Fjárfestingar í verðbréfum samkvæmt ákvæðinu eru ekki bundnar við tiltekna verðbréfamarkaði eða lönd. Með opinberum verðbréfamarkaði er átt við viðurkenndar kauphallir eins og t.d. Kauphöll Óslóar, Kauphöll Kaupmannahafnar og Kauphöll Lundúna. Jafnframt er verðbréfasjóðum heimilað að fjárfesta eignir sínar í framseljanlegum verðbréfum sem ganga kaupum og sölum á öðrum skipulegum mörkuðum en kauphöllum. Séu slíkir markaðir innan Evrópska efnahagssvæðisins þurfa þeir að hafa hlotið viðurkenningu lögbærra yfirvalda í hlutaðeigandi ríki. Sé um að ræða slíkan markað utan Evrópska efnahagssvæðisins þarf bankaeftirlitið að viðurkenna hann. Þá er sú krafa einnig gerð til slíkra markaða að þeir starfi reglulega og séu opnir almenningi. Ekki er unnt að gefa tæmandi yfirlit eða upptalningu þeirra markaða sem falla undir síðari hluta ákvæðisins. Með viðurkenningu bankaeftirlitsins á slíkum markaði er átt við að bankaeftirlitið hafi, annaðhvort að eigin frumkvæði eða að ósk þeirra sem að markaðnum standa eða annarra, kannað skipulag markaðarins og starfsemi hans og önnur atriði sem eru til þess fallin að skapa traust á hlutaðeigandi markaði. Hin eiginlega viðurkenning fælist síðan í því að bankaeftirlitið ritaði viðkomandi markaði bréf þar sem því væri lýst yfir að bankaeftirlitið teldi markaðinn uppfylla nauðsynleg skilyrði til þess að teljast skipulegur markaður samkvæmt ákvæðum laga eða kunngerði það opinberlega með viðeigandi hætti, t.d. auglýsingu eða fréttatilkynningu. Á Íslandi kynni Opni tilboðsmarkaðurinn, sem starfræktur er í samvinnu verðbréfafyrirtækja, að falla undir þessa skilgreiningu.
     Í 2. tölul. 1. mgr. er veitt heimild til fjárfestingar í nýútgefnum framseljanlegum verðbréfum sem hafa ekki verið skráð eða tekin til sölu á einhverjum þeirra markaða sem fjallað var um í umfjöllun um 1. tölul. ákvæðisins. Þessi heimild er hins vegar bundin því skilyrði að í skilmálum vegna útgáfu verðbréfanna sé kveðið á um að skráningar verði óskað á opinberum markaði eða þau verði látin ganga kaupum og sölum á öðrum skipulegum verðbréfamarkaði innan eins árs frá útgáfu þeirra. Í síðarnefnda tilvikinu er gert ráð fyrir að einhvers konar skráning hliðstæð skráningu á opinberum verðbréfamarkaði eigi sér stað samkvæmt þeim reglum sem gilda um hlutaðeigandi markað. Ákvæðinu er ætlað að veita verðbréfasjóðum svigrúm til að fjárfesta í nýjum verðbréfaútgáfum en eftir sem áður er ætlast til þess að viðskipti með þau á opinberum verðbréfamarkaði eða öðrum skipulegum verðbréfamarkaði hefjist innan tiltölulega skamms tíma frá útgáfu. Verði ekki af skráningu verðbréfa samkvæmt þessum tölulið, innan settra tímamarka, telst skilyrðum ákvæðisins ekki fullnægt. Hins vegar kynni verðbréfasjóði eftir sem áður að vera heimilt að eiga verðbréfin áfram, enda sé sameiginlegt verðmæti þeirra innan þeirra takmarka sem sett eru í 2.–4. mgr. 19. gr. frumvarpsins.
     Ákvæði 1. mgr. takmarka ekki heimildir verðbréfasjóða til að fjárfesta allar eigur sínar í verðbréfum skv. 1. og 2. tölul. ákvæðisins svo framarlega sem gætt er annarra takmarkana VII. kafla frumvarpsins. Þrátt fyrir þetta teldust slíkar fjárfestingar í verðbréfum skv. 2. tölul. 1. mgr. almennt ekki æskilegar.
     Í 2. mgr. er veitt undanþága frá meginreglu 1. mgr. um fjárfestingar í skráðum verðbréfum eða verðbréfum sem verða skráð innan tiltekinna tímamarka eða verðbréfum sem ganga eða munu ganga kaupum eða sölum á öðrum skipulegum verðbréfamarkaði. Með 2. mgr. er veitt tiltekið, eðlilegt svigrúm í fjárfestingum verðbréfasjóða án þess að skerða hagsmuni fjárfestanna eða ganga gegn grundvallarsjónarmiði frumvarpsins um áhættudreifingu.
     Með 3. mgr. er bankaeftirliti heimilað að setja reglur um fjárfestingar verðbréfasjóða í skuldaskjölum sem talin eru jafngild framseljanlegum verðbréfum fyrir allt að 10% eigna verðbréfasjóða. Þó er sett það skilyrði að skuldaskjöl samkvæmt ákvæðinu uppfylli tiltekin grundvallaratriði sem eiga við um fjárfestingar verðbréfasjóða. Er þar m.a. átt við að skuldaskjöl séu framseljanleg, auðseljanleg og að verðgildi þeirra megi ákvarða hvenær sem er, eftir því sem segir til um í þeim reglum sem kunna að verða settar af bankaeftirliti um fjárfestingar af þessu tagi. Ekki er unnt að gefa almenna skilgreiningu á skuldaskjölum sem falla undir ákvæðið, slíkt yrði háð mati bankaeftirlitsins. Hins vegar veitir ákvæðið mikilvægt svigrúm til að mæta nýjungum á verðbréfamarkaði hverju sinni og jafnframt því að skilgreiningar einstakra ríkja á framseljanlegum verðbréfum kunna að vera mismunandi.
     Í 4. mgr. er kveðið á um að fjárfestingar skv. 2. og 3. mgr. megi samtals ekki fara fram úr 10% af eignum verðbréfasjóðs. Ákvæðið er eðlilegt með tilliti til meginreglu 1. mgr.
     Í 5. mgr. er lagt bann við fjárfestingum í eðalmálmum eða heimildarskírteinum fyrir þeim. Ákvæðið er eðlilegt enda eru fjárfestingar af þessu tagi andstæðar skilgreiningu 1. gr. frumvarpsins.

Um 21. gr.


    Ákvæði þessarar greinar felur í sér takmarkanir á heimildum verðbréfasjóða eða einstakra deilda þeirra til að fjárfesta í verðbréfum útgefnum af sama útgefanda. Ákvæðinu er ætlað að tryggja eðlilega áhættudreifingu í fjárfestingu verðbréfasjóða og tekur mið af ákvæðum reglna Evrópubandalagsins á þessu sviði. Undanþága gildandi laga að því er varðar fjárfestingu í verðbréfum með ríkisábyrgð eða ábyrgð innlánsstofnana er felld brott, svo og fyrirvari um heildareignir verðbréfasjóða.
     Í 1. mgr. er lagt bann við að fjárfesta meira en 10% af eignum verðbréfasjóða í verðbréfum útgefnum af sama útgefanda. Í reglum Evrópubandalagsins er miðað við 5% sem meginreglu en veitt heimild til að hækka hlutfallið í 10% eins og gert er hér. Er þetta nokkur rýmkun frá gildandi ákvæði 1. mgr. 28. gr. laga nr. 20/1989 sem miðast við 5% í þessum tilvikum. Þó er sett sú regla sem er nýmæli og er ætlað að tryggja enn frekar áhættudreifingu að fjárfesti verðbréfasjóður eða einstök deild hans meira en 5% af eignum sínum í verðbréfum útgefnum af sama útgefanda megi samtala slíkra fjárfestinga ekki fara yfir 40% af eignum verðbréfasjóðsins eða deildarinnar.
     Í 2. mgr. er veitt undanþága frá meginreglu 1. mgr. að því er varðar fjárfestingu í verðbréfum sem þeir aðilar, sem í ákvæðinu greinir, gefa út eða ábyrgjast. Má almennt ætla að áhætta samfara þessum fjárfestingum sé lítil og því réttlætanlegt að rýmka heimildir að því er þær varðar. Þó er sett hámark í ákvæðinu við 35% af eignum verðbréfasjóðs, eða einstakrar deildar hans, og er með því enn lögð áhersla á grundvallarregluna í starfsemi verðbréfasjóða um áhættudreifingu. Þessi takmörkun er breyting frá gildandi lögum hér á landi. Með ákvæði 2. mgr. er einnig tekið tillit til þess að einstakir verðbréfasjóðir kunna nú þegar að hafa fjárfest mikinn hluta eigna sinna í verðbréfum af því tagi sem ákvæðið tekur til. Verðbréf skv. 2. mgr. verða að uppfylla skilyrði 1. mgr. 20. gr. frumvarpsins nema annað leiði af ákvæðum þess.
     Í 3. mgr. er höfð hliðsjón af sams konar ákvæðum í reglum Evrópubandalagsins sem voru settar sérstaklega með tilliti til aðstæðna í Danmörku þar sem mikið er um fjárfestingu í verðbréfum tryggðum með veði í fasteignum vegna húsnæðislánakerfis þar. Þótti heppilegt að taka inn í frumvarpið sams konar ákvæði með tilliti til hugsanlegar breytingar á þessu sviði hér á landi.

Um 22. gr.


    Í 1. mgr. þessarar greinar er bankaeftirlitinu heimilað að veita undanþágu frá meginreglu 21. gr. frumvarpsins um fjárfestingu verðbréfasjóða í verðbréfum útgefnum af sama útgefanda. Ákvæðið er í samræmi við reglur Evrópubandalagsins á þessu sviði. Rökin fyrir þessari undanþáguheimild eru einkum þau að tiltölulega lítil áhætta er fólgin í fjárfestingu í þeim verðbréfum sem tilgreind eru í ákvæðinu. Þá er með ákvæðinu tekið tillit til verðbréfasjóða sem hafa einkum sérhæft sig í að fjárfesta í slíkum verðbréfum. Sá almenni fyrirvari er þó settur að hagsmunir eigenda hlutdeildarskírteina séu tryggðir að mati bankaeftirlitsins. Samkvæmt þessu er ætlast til að fram fari sjálfstætt mat á því í hverju tilviki hvort veita eigi heimild til fjárfestinga samkvæmt ákvæðinu.
     Þrátt fyrir að fjárfesting skv. 1. mgr. sé almennt talin fela í sér lágmarksáhættu eru settar nánari reglur um þessa fjárfestingu í 2. mgr. sem byggjast á meginsjónarmiði frumvarpsins um áhættudreifingu í fjárfestingu verðbréfasjóða. Ákvæðið er í samræmi við reglur Evrópubandalagsins.
     Með 3. mgr. er bankaeftirlitinu veitt heimild til að setja nánari reglur um fjárfestingu samkvæmt þessu ákvæði frumvarpsins. Meðal þess sem slíkar reglur gætu tekið til er með hvaða hætti fjárfestingar samkvæmt ákvæðinu skuli vera getið í samþykktum verðbréfasjóðs og staðfesting bankaeftirlitsins á því og hvernig verðbréfasjóður stendur að kynningu á slíkri fjárfestingu gagnvart almenningi.

Um 23. gr.


    Ákvæði 1. mgr. er ætlað að tryggja áhættudreifingu. Það felur í sér þá breytingu frá 28. gr. núgildandi laga að samanlögð fjárfesting verðbréfasjóðs í hlutdeildarskírteinum annarra verðbréfasjóða má ekki fara fram úr 5% af eignum sjóðsins eða einstakrar deildar hans. Ákvæðið er í samræmi við reglur Evrópubandalagsins.
     Það er skilyrði fjárfestingar skv. 1. mgr. að verðbréfasjóðir, sem fjárfest er í, uppfylli skilyrði frumvarpsins til að teljast verðbréfasjóðir, sbr. 1. gr. þess. Það er hins vegar ekki skilyrði að viðkomandi verðbréfasjóðir séu staðsettir innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þá skal tekið fram að séu hlutdeildarskírteini þeirra ekki skráð á opinberum verðbréfamarkaði eða gangi kaupum og sölum á öðrum skipulegum markaði skv. 1. mgr. 20. gr. frumvarpsins fellur fjárfesting í skírteinunum undir ákvæði 2. og 3. mgr. þeirrar greinar frumvarpsins.
     Með 2. mgr. er verðbréfasjóðum bannað að fjárfesta í hlutdeildarskírteinum annarra verðbréfasjóða sem eru þeim tengdir. Þó getur bankaeftirlitið heimilað slíkar fjárfestingar samkvæmt reglum sem það setur. Ákvæði þetta er í samræmi við reglur Evrópubandalagsins á þessu sviði. Samkvæmt þeim er m.a. gert ráð fyrir að verðbréfasjóðum verði einungis heimilað að fjárfesta í öðrum verðbréfasjóðum sem ákvæðið fjallar um ef sá sjóður, sem fjárfest er í, hefur í samþykktum sínum ákvæði um að hann sérhæfi sig í fjárfestingu innan tiltekinna landfræðilegra marka eða í tiltekinni atvinnustarfsemi. Þá er í reglunum gert ráð fyrir að verðbréfasjóður, sem hyggst stunda slíka fjárfestingu, tilkynni þá fyrirætlan sérstaklega. Sams konar sjónarmið verði látin gilda komi til þess að bankaeftirlitið heimili fjárfestingu af þessu tagi. Með sama hætti og kom fram í athugasemdum við 1. mgr. þessarar greinar mundu hlutdeildarskírteini, sem ekki eru skráð á opinberum verðbréfamarkaði eða öðrum skipulegum markaði skv. 1. mgr. 20. gr. frumvarpsins, falla undir ákvæði 2. og 3. mgr. þeirrar greinar.
     Ákvæði 3. mgr. á við um fjárfestingu skv. 2. mgr. verði hún heimiluð af bankaeftirliti. Ákvæðinu er ætlað að koma í veg fyrir hugsanlega hagsmunaárekstra verðbréfasjóða, sem reknir eru af sama rekstrarfélagi, vegna innbyrðis viðskipta sjóðanna eða viðskipta sjóðs við önnur félög sem rekstrarfélagið er tengt með þeim hætti sem greinir í ákvæðinu, enda er einnig gert ráð fyrir því í frumvarpinu að rekstrarfélög skuli vera óháð í störfum sínum fyrir verðbréfasjóði, sbr. 1. mgr. 14. gr. Þá er með ákvæði 3. mgr. komið í veg fyrir óeðlilega myndun þóknunar til rekstrarfélags í þeim tilvikum sem fjárfesting af þessu tagi kann að vera heimiluð.

Um 24. gr.


    Ákvæði þessarar greinar er ætlað að tryggja enn frekar áhættudreifingu í fjárfestingu verðbréfasjóða. Enda þótt fjárfesting sé innan þeirra marka sem önnur ákvæði frumvarpsins setja gætu verðbréfasjóðir fjárfest í jafnvel öllum verðbréfum eða öðrum skuldaskjölum tiltekins útgefanda. Slíkt væri í andstöðu við grundvallarsjónarmið um áhættudreifingu í rekstri verðbréfasjóða. Því eru þessar takmarkanir settar. Þær eru í samræmi við reglur Evrópubandalagsins á þessu sviði.
     Ákvæði 2. mgr. þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 25. gr.


    Í þessari grein er lögfest sú almenna regla sem gilt hefur í framkvæmd í starfsemi verðbréfasjóða hér á landi. Í greininni er þó það nýmæli að kveðið er á um tiltekinn frest sem meginreglu og kveðið sérstaklega á um að heimild bankaeftirlitsins þurfi til að víkja frá þeim fresti. Ákvæðið er í samræmi við almenn ákvæði í reglum Evrópubandalagsins á þessu sviði og auk þess er höfð hliðsjón af dönskum lögum. Meginreglan er þó ljóslega sú að annmarkar í fjárfestingu verði lagfærðir án ástæðulauss dráttar nema sérstök tilvik, með tilliti til hagsmuna verðbréfasjóðsins og viðskiptamanna hans, réttlæti annað.

Um 26. gr.


    Ákvæði 1. mgr. er efnislega samhljóða 1. málsl. 4. mgr. 28. gr. núgildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði að því undanskildu að verðbréfasjóði er heimilað að fjárfesta í fasteignum að því marki sem nauðsynlegt er vegna starfsemi hans. Miðað er við að slík fjárfesting sé innan eðlilegra marka og ber að skýra ákvæðið þröngt. Að öðru leyti þarfnast það ekki skýringa.
     2. mgr. er efnislega óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.

Um 27. gr.


    Í þessu ákvæði eru settar fram sömu meginreglur og gilda samkvæmt núgildandi lögum. Hins vegar verða nokkrar efnislegar breytingar frá gildandi löggjöf um þessi atriði. Ákvæðið tekur mið af ákvæðum tilskipunar Evrópubandalagsins á þessu sviði og ákvæðum danskra laga.
     Í 1. mgr. er sett sama meginregla og gildir samkvæmt núgildandi lögum um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði um bann við lántökum verðbréfasjóða. Lántaka er þó heimil í tveimur tilvikum:
     Í fyrsta lagi gerir ákvæðið ráð fyrir að veita megi heimild vegna skammtímalána til að standa straum af innlausnum hlutdeildarskírteina, sbr. 1. tölul. 1. mgr. Hámark slíkrar lántöku er 10% af eignum verðbréfasjóðsins sem er lækkun frá gildandi lögum. Lækkunin leiðir af reglum Evrópubandalagsins.
     Í öðru lagi veitir 2. tölul. 1. mgr. heimild til lántöku verðbréfasjóðs til fjárfestingar í fasteignum sem nauðsynlegar eru vegna starfsemi sjóðsins. Eðli máls samkvæmt þótti ekki rétt að binda slíkar lántökur við skammtímalán. Þetta er nýmæli og breyting frá gildandi lögum sem ekki veita neina heimild til fjárfestingar í fasteignum eins og nú er gert með 1. mgr. 26. gr. frumvarpsins. Líkt og sagði í athugasemdum við þá grein ber að skýra ákvæði 2. tölul. þessarar greinar þröngt.
     Svo sem fram kemur í 1. mgr. þessarar greinar er gert ráð fyrir að bankaeftirlitið veiti heimildir til lántöku í hverju einstöku tilviki. Það leiðir jafnframt af þeim fyrirvara að bankaeftirlitið metur hvort skilyrði séu til veitingar heimilda hverju sinni.
     Ákvæði 2. mgr. setur skorður við því hve samtala fjárfestingar skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. má vera mikill hluti af eignum verðbréfasjóðs. Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringa.
     Ákvæði 3. mgr. er efnislega óbreytt frá 27. gr. núgildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði og þarfnast ekki skýringa.

Um 28. gr.


    Ákvæði 1. mgr. er efnislega að mestu samhljóða 26. gr. núgildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði að teknu tilliti til breyttrar uppbyggingar samkvæmt frumvarpinu með tilkomu rekstrarfélaga og vörslufyrirtækja. Þeim aðilum, sem 1. mgr. tekur til, er þó fækkað frá gildandi lögum. Ákvæðið var efnislega skýrt þannig í athugasemdum við 26. gr. frumvarpsins sem varð að lögum um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði að það væri sett til að girða fyrir óeðlileg verðbréfaviðskipti og á sú skýring enn við.
     Samkvæmt 2. mgr. er stjórnum fyrirtækja, sem greind eru í 1. mgr., ætlað að setja sérstakar reglur um viðskipti almennra starfsmanna sinna við hlutaðeigandi verðbréfasjóð. Þykir nægilegt að stjórnirnar setji sérstakar innri reglur um þessi viðskipti sem tryggi að ekki komi til hagsmunaárekstra í daglegri starfsemi fyrirtækjanna.

Um VIII. kafla.


     Í VIII. kafla frumvarpsins er fjallað um ársreikning og endurskoðun hjá verðbréfasjóðum. Ákvæði kaflans er að efni til byggt á hliðstæðum ákvæðum laga um hlutafélög, nr. 32/1978, með síðari breytingum, ákvæðum í reglum Evrópubandalagsins, svo og dönskum lögum um þetta efni.

Um 29.–32. gr.


    Ákvæði 29.–32. gr. frumvarpsins skýra sig sjálf að efni til.

Um IX. kafla.


     Í þessum kafla frumvarpsins er fjallað um eftirlit bankaeftirlits Seðlabanka Íslands með
starfsemi verðbréfasjóða, rekstrarfélaga og vörslufyrirtækja. Bankaeftirlitið hefur farið með eftirlit á þessu sviði allt frá því að lög nr. 27/1986, um verðbréfamiðlun, voru sett og einnig samkvæmt núgildandi lögum nr. 20 1989, um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði. Jafnframt hefur eftirlitið átt stoð í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, svo og lögum og reglugerð um Seðlabanka Íslands. Nú er jafnframt kveðið svo á að um eftirlitið gildi ákvæði laga um verðbréfaviðskipti en frumvarp til almennra laga um slík viðskipti er lagt fram samhliða frumvarpi þessu.

Um 33. gr.


    Ákvæði 1. mgr. er efnislega samhljóða gildandi ákvæði 1. mgr. 34. gr. núgildandi laga, að teknu tilliti til þeirra skipulagsbreytinga sem frumvarpið felur í sér en þó með breyttu orðalagi að hluta. Ákvæðið tryggir bankaeftirlitinu víðtækan aðgang að þeim gögnum og upplýsingum sem það telur nauðsynlegt til að rækja skyldur sínar til eftirlits með þeirri starfsemi sem um ræðir.
     Ákvæði 2. mgr. er einnig efnislega samhljóða samsvarandi ákvæði 2. mgr. 34. gr. núgildandi laga en með breyttu orðalagi að hluta. Þó er ekki mælt fyrir um afturköllun leyfa líkt og gert er í gildandi ákvæði enda er sérstakur kafli í frumvarpinu um afturköllun leyfa.

Um X. kafla.


     Í þessum kafla er fjallað með ítarlegri og skýrari hætti en gert er í núgildandi lögum
um afturköllun viðskiptaráðherra á þegar veittum starfsleyfum verðbréfasjóða. Á það við um tilvik sem leitt geta til afturköllunar og einnig eru tilgreind tilvik sem leiða til þess að skylt er að afturkalla veitt leyfi en skylda til þess er ekki lögmælt í núgildandi lögum. Þá eru einnig sett ítarleg ákvæði um málsmeðferð komi til afturköllunar sem talin eru eðlileg og nauðsynleg með tilliti til hagsmuna leyfishafa sjálfra og ekki síður almennings. Höfð er hliðsjón af ákvæðum danskra laga og gildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði.

Um 34. gr.


    Í þessu ákvæði er mælt fyrir um skyldu til afturköllunar sem er nýmæli frá gildandi lögum.
     Samkvæmt 1. tölul. er gert ráð fyrir skyldu til afturköllunar uppfylli leyfishafi ekki lengur skilyrði frumvarpsins til að öðlast leyfi. Með ákvæðinu er lögð áhersla á að ekki sé nægilegt að uppfylla skilyrði til leyfisveitingar á þeim tíma sem leyfis er óskað heldur skuli viðkomandi ávallt fullnægja þeim skilyrðum sem sett eru fyrir leyfisveitingu. Auk afturköllunar vegna þess að formlegum skilyrðum 2. gr. frumvarpsins er ekki lengur fullnægt af leyfishafa gæti komið til afturköllunar væru aðstæður með þeim hætti að 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins ætti við. Væri óeðlilegt ef verðbréfasjóður héldi starfsleyfi sem hann hefði e.t.v. ekki hlotið í upphafi vegna þeirra tilvika sem um ræðir. Enda þótt þess sé ekki sérstaklega getið í ákvæðinu er gert ráð fyrir að viðkomandi verði að jafnaði gefinn tiltekinn frestur til úrbóta áður en til afturköllunar kemur.
     Ákvæði 2. tölul. þarfnast ekki sérstakra skýringa. Séu aðstæður með þessum hætti er eðlilegt að leyfi sé afturkallað. Í þessum tilvikum yrði af eðlilegum ástæðum ekki um frest til úrbóta að ræða.

Um 35. gr.


    Ákvæðið er heimildarákvæði sem viðskiptaráðherra getur beitt við afturköllun leyfa.     Í 1. mgr. er viðskiptaráðherra veitt heimild til afturköllunar, að fengnum tillögum bankaeftirlitsins, séu atvik með þeim hætti sem þar greinir. Gerðar eru strangari kröfur í þessu sambandi en í 2. mgr. 34. gr. núgildandi laga með því að nú er gert ráð fyrir að um ítrekuð eða alvarleg brot sé að ræða. Er þetta eðlilegt enda verður afturköllun að teljast viðurhlutamikil athöfn sem snertir ríka hagsmuni leyfishafa og almennings. Með sama hætti yrðu atvik, sem talin eru leiða til þess að starfsemi viðkomandi verðbréfasjóðs sé metin að öðru leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust, að vera alvarlegs eðlis. Mat á því er hins vegar í höndum bankaeftirlitsins hverju sinni. Þá er einnig gert ráð fyrir því að áður en bankaeftirlitið leggur til afturköllun hafi viðkomandi að jafnaði verið gefið tækifæri til að bæta úr ágöllum sé þess kostur, sbr. 2. mgr. 33. gr. frumvarpsins.
     Ákvæði 2. mgr. er efnislega óbreytt frá 38. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 36. gr.


    Í 1. mgr. þessarar greinar er kveðið á um málsmeðferð af hálfu viðskiptaráðherra við afturköllun á starfsleyfi verðbréfasjóðs. Þykir eðlilegt að gera kröfur til skriflegs rökstuðnings ákvarðana af þessu tagi. Slíkt er almennt til þess fallið að stuðla að vönduðum vinnubrögðum og sporna við misnotkun heimilda til afturköllunar. Þá er ekki síður mikilvægt fyrir leyfishafa að fá rökstuðning fyrir afturköllun, t.d. til notkunar í dómsmáli sætti viðkomandi sig ekki við rök fyrir afturköllun.
     Í síðari málslið er kveðið á um birtingu tilkynningar um afturköllun í Lögbirtingablaði og auglýsingu um hana í fjölmiðlum. Ekki er síður mikilvægt fyrir almenning og verðbréfamarkaðinn í heild að fá sem fyrst vitneskju um afturköllun og er því ákvæðið sett.
     Ákvæði 2. mgr. er efnislega óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.

Um 37. gr.


    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir tilkynningarskyldu verðbréfasjóða til bankaeftirlitsins og eftirlitsaðila í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins hyggist verðbréfasjóðurinn markaðssetja hlutdeildarskírteini sín eða stofna útibú í einhverju þessara ríkja, enda munu verðbréfasjóðir þurfa að senda eftirlitsaðilanum ýmsar upplýsingar og gögn í þessu sambandi þótt þeirra sé ekki sérstaklega getið í ákvæðinu af hagkvæmnisástæðum. Ákvæðið er sett með hliðsjón af tilskipun Evrópubandalagsins á þessu sviði. Af orðalagi ákvæðisins er ljóst að tilkynningar samkvæmt því skulu berast hlutaðeigandi fyrir fram.
     Ákvæði 2. mgr. leiðir af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og þarfnast ekki frekari skýringa.
     Ákvæði 3. mgr. þarfnast ekki skýringa.

Um 38. gr.


    Ákvæðið er efnislega óbreytt frá 7. gr. núgildandi laga en með breyttu orðalagi og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 39. gr.


    Í þessu ákvæði er það nýmæli að kostnaður við tilkynningar samkvæmt frumvarpinu greiðist af viðkomandi verðbréfasjóðum. Þykir eðlilegt að sjóðirnir beri þennan kostnað og má benda á að víða erlendis tíðkast að kostnaður við eftirlit af þessu tagi greiðist af þeim sem undir eftirlitið eru settir.

Um 40. gr.


    Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að viðskiptaráðherra fari með leyfisveitingar, afturköllun þeirra og setningu ýmissa reglna samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Víða erlendis hefur þróunin verið sú að eftirlitsaðilum séu falin þessi verkefni og má sem dæmi nefna dönsk lög á þessu sviði. Enda þótt bankaeftirlitinu séu í frumvarpinu falin ýmis verkefni þykir heppilegt að hafa heimild af þessu tagi í frumvarpinu. Með því móti er ráðherra gert kleift að fylgja þróun þessara mála erlendis kjósi hann að gera svo.

Um 41. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 42. gr.


    Ákvæðið er efnislega óbreytt frá gildandi viðurlagaákvæðum laga nr. 20 1989 að öðru leyti en því að refsingar eru hertar og bætt inn í ákvæðið fyrirvara um hugsanlega þyngri refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum. Ástæða þess að viðurlög eru hert er fyrst og fremst sú að viðskipti á verðbréfamarkaði hafa orðið sífellt umfangsmeiri hluti fjármagnsmarkaðar á undanförnum árum. Samfara því hefur orðið ljóst að brot gegn lögum á þessu sviði geta haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, bæði fyrir verðbréfamarkaðinn í heild og ekki síður einstaklinga sem fyrir brotum verða. Þykir því nauðsynlegt að viðurlög séu hert þannig að þau séu til þess fallin að hafa almenn varnaðaráhrif. Er þetta í samræmi við þróun víða í nágrannalöndum. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um 43. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa að öðru leyti en því að gildistaka frumvarpsins er miðuð við gildistöku samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Óvíst er hvenær samningurinn öðlast endanlega gildi og þótti því eðlilegt að orða ákvæðið með þessum hætti enda er frumvarpið samið í tengslum við aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.

Um ákvæði til bráðabirgða.


     Í 1. mgr. er kveðið á um að starfandi verðbréfasjóðir við gildistöku frumvarpsins hafi
tólf mánuði til að uppfylla skilyrði þess. Lengd frestsins leiðir af samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Þá er gert ráð fyrir að ekki verði um að ræða sjálfkrafa heimildir þessara aðila til að starfa á grundvelli frumvarpsins heldur þurfi formleg veiting starfsleyfis að koma til.
     Frestur sá, sem 2. mgr. mælir fyrir um, er settur með hliðsjón af ákvæðum í samningi um Evrópska efnahagssvæðið.


Fylgiskjal.



Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um verðbréfasjóði.


    Með frumvarpi þessu er ætlað að setja ítarlegri lög um verðbréfasjóði en áður var gert með lögum nr. 20/1989, um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði. Þau lög munu falla úr gildi um leið og frumvarp þetta verður að lögum en það mun öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið. Helsta breytingin frá fyrri lögum er að lög um verðbréfasjóði verða nú aðskilin frá lögum um verðbréfaviðskipti og er frumvarp þar að lútandi lagt fram um leið og þetta, svo og frumvarp um Verðbréfaþing Íslands.
    Ekki verður séð af frumvarpi þessu að til beins kostnaðar komi fyrir ríkissjóð. Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands mun aðallega hafa það hlutverk að líta eftir framfylgd laga þessara. Stjórnsýsluhlutverk viðskiptaráðuneytis mun með tímanum aukast með umfangi verðbréfasjóða þótt ekki verði beinn kostnaðarauki þar af nú.