Ferill 32. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 32 . mál.


33. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 123 28. desember 1989, um uppboðsmarkað fyrir sjávarafla, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



1. gr.


    Við 2. gr. laganna, sbr. 27. gr. laga nr. 23/1991, um breytingu á lagaákvæðum er varða fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri o.fl., bætist ný málsgrein er orðast svo:
     Ríkisborgarar ríkja hins Evrópska efnahagssvæðis skulu vera undanþegnir skilyrðum um ríkisfang og búsetu samkvæmt nánari reglum er ráðherra setur.

2. gr.


    Lög þessi öðlast gildi um leið og samningur um Evrópskt efnahagssvæði öðlast gildi að því er Ísland varðar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt samningi EFTA-ríkja við Evrópubandalagið um Evrópskt efnahagssvæði, sem undirritaður var í Óportó í Portúgal 2. maí sl., er óheimilt að gera upp á milli borgara ríkjanna á grundvelli þjóðernis hvað varðar frelsi til að mega stunda verslunaratvinnu. Það er því nauðsynlegt að bæta inn í lög nr. 123/1989, um uppboðsmarkað fyrir sjávarafla, ákvæði sem undanþiggur ríkisborgara annarra ríkja EES-svæðis framangreindum skilyrðum sem kveðið er á um í umræddum lögum til að geta fengið leyfi til að reka uppboðsmarkað með sjávarafla á Íslandi.