Ferill 34. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 34 . mál.


35. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, og lögum nr. 52/1987, um opinber innkaup, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



I. KAFLI

Breyting á lögum nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda,

með síðari breytingum.

1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar svohljóðandi:
    Ákvæði VI. kafla laga þessara taka einnig til framkvæmda á vegum sveitarstjórna, samtaka þeirra og stofnana. Sama gildir um framkvæmdir annarra aðila sem reknir eru að mestu leyti á kostnað ríkis eða sveitarstjórna eða annarra opinberra aðila eða lúta yfirstjórn þessara aðila eða ef rekstur þeirra er undir yfirstjórn eða eftirliti stjórnar þar sem meiri hluti stjórnarmanna er skipaður af ríki eða sveitarstjórn eða öðrum opinberum aðilum.
    Ef þeir opinberu aðilar, sem getið er um í 1., 2. og 4. mgr., starfa á sviði viðskipta eða iðnaðar skulu þeir ekki háðir ákvæðum VI. kafla, enda sinni þeir ekki vatnsveitu, orkuveitu, flutningum eða fjarskiptum.

2. gr.

    Á eftir 20. gr. laganna kemur nýr kafli, VI. kafli, með 11 nýjum greinum. Fyrirsögn kaflans verður: Opinberar framkvæmdir á Evrópska efnahagssvæðinu. Töluröð annarra kafla og greina breytist samkvæmt því.
    Hinar nýju greinar orðast svo:

    a. (21. gr.)
    Ákvæði þessa kafla taka til verksamninga þar sem útboðsverðmæti er jafnt eða hærra en þau mörk sem getið er um í 22. gr. og gerðir eru af þeim aðilum sem getið er um í 1. gr. Ákvæði kaflans gilda einnig þegar aðilar skv. 1. gr. greiða meira en helming kostnaðar við verk sem annar aðili býður út og semur um. Jafnframt gilda ákvæði kaflans um verksamninga fyrirtækja sem sinna vatnsveitu, orkuveitu, fjarskiptum eða flutningum með almenningsvögnum á grundvelli sérleyfa eða einkaréttar sem veitt eru af opinberum aðilum.
    Ráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð að einstakar tegundir verksamninga séu ekki háðar ákvæðum þessa kafla.

    b. (22. gr.)
    Skylt er að bjóða út á hinu Evrópska efnahagssvæði verk sem áætlað er að nemi 5 milljónum evrópskra mynteininga (ECU) eða meira án virðisaukaskatts.
    Við mat á verðmæti verksins skal miða við það gengi sem í gildi er þann dag er auglýsing skv. 24. gr. er send til birtingar.
    Við útreikning fjárhæðar verks skal ekki eingöngu byggja á heildarfjárhæð þess heldur skal einnig taka með í þann útreikning verðmæti aðfanga sem nauðsynleg eru við framkvæmdir og verkkaupi lætur verktaka í té.

    c. (23. gr.)
    Nú er verk boðið út í áföngum þar sem hver áfangi er viðfangsefni sérstaks verksamnings og skal þá við mat á verðmæti verksins miða við samanlagða fjárhæð einstakra áfanga. Ekki þarf að taka með í þann útreikning áfanga sem að verðmæti nema allt að 1 milljón ECU án virðisaukaskatts, enda nái verðmæti þessa hluta ekki 20% af áætlaðri heildarfjárhæð allra verkáfanganna.
    Óheimilt er að skipta verki í áfanga í því skyni að koma í veg fyrir skyldu til að bjóða út verk skv. 22 gr.
    Í reglugerð er heimilt að kveða nánar á um mat á útboðsverðmæti.

    d. (24. gr.)
    Verkkaupi skal í sérstakri kynningarauglýsingu lýsa megineinkennum þeirra verka sem hann hyggst bjóða út. Jafnframt er verkkaupa skylt að auglýsa þau verk sem hann hefur ákveðið að bjóða út. Þá er verkkaupa, sem gert hefur verksamning, skylt að auglýsa það.
    Auglýsingar þær, sem getið er um í 1. mgr., skulu sendar útgáfustjórn Evrópubandalagsins til birtingar eins fljótt og unnt er eftir að ákvörðun um útboð eða gerð verksamnings hefur verið tekin.
    Hvers konar birting hér á landi á auglýsingu skv. 1. mgr. er óheimil þar til hún hefur verið send útgáfustjórn Evrópubandalagsins til birtingar. Sendingardagur skal koma fram í auglýsingunni. Jafnframt er óheimilt að birta í innlendum fjölmiðlum aðrar upplýsingar um útboðið en þær sem koma fram í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins.

    e. (25. gr.)
    Nú telur verktaki að stjórnvald eða annar verkkaupi, sem lög þessi taka til, hafi tekið ákvörðun í tengslum við framkvæmd útboðs eða gerð verksamnings sem felur í sér brot á lögum þessum og getur hann þá kært þá ákvörðun til fjármálaráðuneytisins, enda færi hann sönnur á að líklegt sé að hún hafi eða muni valda sér tjóni.
    Kæra skal vera skrifleg og studd nauðsynlegum gögnum. Fjármálaráðuneyti er heimilt að krefja kæranda um frekari upplýsingar ef það telur ástæðu til.

    f. (26. gr.)
    Fjármálaráðuneytið getur, eftir að hafa fengið kæru til meðferðar, gripið til eftirfarandi aðgerða fram að þeim tíma er tilboð hefur verið samþykkt:
    Stöðvað um stundarsakir útboð og gerð verksamnings.
    Breytt ákvörðun verkkaupa, m.a. með því að auglýsa útboð á nýjan leik, breyta útboðsauglýsingum, útboðsgögnum og útboðsskilmálum.
    Nú varðar kæra ákvarðanir sveitarfélags og getur þá félagsmálaráðherra gripið til þeirra aðgerða sem getið er um í 1. mgr. að fengnu erindi fjármálaráðherra.

    g. (27. gr.)
    Nú vill kærandi ekki una úrlausn fjármálaráðuneytis skv. 26. gr. og getur hann þá borið ákvörðun verkkaupa í sambandi við framkvæmd útboðs eða gerð verksamnings undir dómstóla, sbr. þó 29. gr.
    Verkkaupi er bótaskyldur vegna þess tjóns sem brot á lögum þessum hefur í för með sér fyrir verktaka. Bótafjárhæð skal miðast við kostnað við að undirbúa tilboð og að taka þátt í útboði.

    h. (28. gr.)
    Telji eftirlitsstofnun EFTA áður en samningsgerð er lokið að við gerð verksamnings hafi verið brotið gegn ákvæðum EES-samningsins á sviði opinberra innkaupa getur hún hafið rannsókn á meintu broti.
    Eftir að eftirlitsstofnun EFTA hefur tilkynnt fjármálaráðuneyti eða verkkaupa að hún telji að um brot hafi verið að ræða skal verkkaupi þegar í stað senda fjármálaráðuneyti:
    staðfestingu á að bætt hafi verið úr brotinu eða
    rökstudda greinargerð um ástæður fyrir því að úrbót hafi ekki verið gerð.
    Fjármálaráðherra getur beitt heimildum þeim sem getið er um í 26. gr. ef eftirlitsstofnun EFTA hefur tilkynnt að hún telji að um brot hafi verið að ræða. Nú varðar tilkynning stofnunarinnar ákvarðanir sveitarfélags og getur þá félagsmálaráðherra beitt sömu heimildum að fengnu erindi fjármálaráðherra.

    i. (29. gr.)
    Ákvörðun verkkaupa í sambandi við framkvæmd útboðs eða gerð verksamnings verður ekki breytt eftir að tilboð frá bjóðanda hefur verið samþykkt.
    Kæra, sem berst eftir þetta tímamark, skal endursend.

    j. (30. gr.)
    Verkkaupa er skylt að veita fjármálaráðuneyti upplýsingar um þá verksamninga sem hann hefur gert og eru yfir þeim mörkum sem getið er um í 22. gr.

    k. (31. gr.)
    Fjármálaráðuneytið skal hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara. Innkaupastofnun ríkisins skal annast útboð á Evrópsku efnahagssvæði fyrir þau sveitarfélög sem þess óska. Einnig skal hún vera sveitarfélögum og öðrum opinberum aðilum til ráðuneytis varðandi framkvæmd útboða á Evrópska efnahagssvæðinu.

3. gr.

    Við lögin bætist ný grein sem orðast svo:
    Fjármálaráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um framkvæmd laga þessara, svo sem um efni auglýsinga, útboðsgögn, útboðsaðferðir, tilboðsfresti, hæfi verktaka og val á tilboðum.

II. KAFLI

Breyting á lögum nr. 52/1987, um opinber innkaup.


4. gr.

    Á eftir 8. gr. laganna koma sex nýjar greinar og breytist töluröð annarra greina samkvæmt því.
    Hinar nýju greinar orðast svo:

    a. (9. gr.)
    Á hinu Evrópska efnahagssvæði skulu boðin út innkaup þeirra aðila sem getið er um í 3. gr., svo og sveitarfélaga, samtaka þeirra, stofnana og fyrirtækja. Jafnframt skulu boðin út innkaup annarra opinberra aðila sem eru undir yfirstjórn eða yfirliti stjórnar þar sem meiri hluti stjórnarmanna er skipaður af opinberum aðilum. Starfi þessir aðilar á sviði viðskipta eða iðnaðar er þeim það þó ekki skylt, enda sinni þeir ekki vatnsveitu, orkuveitu, flutningum eða fjarskiptum.
    Ráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð að einstakar tegundir samninga um innkaup verði ekki boðnir út á Evrópska efnahagssvæðinu.

    b. (10. gr.)
    Skylda til útboðs tekur til innkaupa á vörum sem áætlað er að nemi a.m.k. því verðmæti án virðisaukaskatts sem getið er um í 1.–4. tölul. þessarar greinar. Með innkaupum er átt við kaup, leigu, fjármögnunarleigu og kaupleigu. Samningur telst vera samningur um innkaup, jafnvel þótt hann feli í sér flutning á ákvörðunarstað og uppsetningu.
    200.000 evrópskum mynteiningum (ECU) enda sé ekki um að ræða innkaup sem falla undir 2.–4. tölul.
    130.000 ECU vegna innkaupa á vörum sem getið er um í viðauka I við lög þessi enda séu innkaupin ekki á vegum sveitarfélaga.
    400.000 ECU ef innkaupin eru gerð af aðila sem sinnir flutningum með almenningsvögnum, orkuveitu, vatnsveitu, flugvallar- eða hafnargerð.
    600.000 ECU ef innkaupin eru gerð af Pósti og síma eða öðrum sambærilegum stofnunum sem reka fjarskiptakerfi eða veita almenna fjarskiptaþjónustu. Með innkaupum samkvæmt þessum tölulið er einnig átt við kaup á hugbúnaðarþjónustu sem sérstaklega er ætluð til notkunar í fjarskiptum.
    Ákvæði 3. og 4. tölul. 1. mgr. gilda einnig um innkaup þeirra fyrirtækja sem stunda þá starfsemi sem þar greinir á grundvelli sérleyfa eða einkaréttar sem veitt eru af opinberum aðilum.
    Við mat á verðmæti innkaupa skal miða við það gengi sem í gildi er þann dag er auglýsing skv. 12. gr. er send til birtingar.

    c. (11. gr.)
    Þegar gerðir eru samningar um leigu, fjármögnunarleigu eða kaupleigu skal við mat á verðmæti samningsins taka mið af heildarkostnaði út samningstímann. Ef samningur er ótímabundinn skal við það miðað að hann hafi verið til 48 mánaða.
    Þegar gerður er samningur sem endurnýja á innan ákveðins tíma skal við mat á verðmæti hans taka mið af sambærilegum samningum sem gerðir voru annaðhvort á síðasta reikningsári eða síðustu 12 mánuðum fyrir samningsgerð.
    Þegar innkaupum á sambærilegri vöru er deilt í nokkra hluta skal við mat á verðmæti innkaupanna tekið mið af samanlagðri fjárhæð einstakra hluta.
    Óheimilt er að skipta innkaupum um ákveðið magn vöru í hluta í því skyni að koma í veg fyrir skyldu til að bjóða innkaupin út.
    Í reglugerð er heimilt að kveða nánar á um mat á útboðsverðmæti.

    d. (12. gr.)
    Í sérstakri kynningarauglýsingu í upphafi hvers reikningsárs skal tilkynnt um heildarvörukaup eftir vöruflokkum ef áætluð fjárhæð þeirra er jöfn eða hærri en 750.000 ECU án virðisaukaskatts. Jafnframt er skylt að auglýsa þau innkaup sem ákveðið hefur verið að bjóða út. Þá er kaupanda, sem gert hefur samning um innkaup, skylt að auglýsa það.
    Auglýsingar þær, sem getið er um í 1. mgr., skulu sendar útgáfustjórn Evrópubandalagsins til birtingar eins fljótt og unnt er eftir að ákvörðun um útboð eða gerð samnings um innkaup hefur verið tekin.
    Hvers konar birting hér á landi á auglýsingu skv. 1. gr. er óheimil þar til hún hefur verið send útgáfustjórn Evrópubandalagsins til birtingar. Sendingardagur skal koma fram í auglýsingunni. Jafnframt er óheimilt að birta í innlendum fjölmiðlum aðrar upplýsingar um innkaupin en þær sem koma fram í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins.

    e. (13. gr.)
    Nú telur bjóðandi að stjórnvald hafi tekið ákvörðun í tengslum við framkvæmd útboðs eða gerð samnings um innkaup sem felur í sér brot á lögum þessum og getur hann þá kært þá ákvörðun til fjármálaráðuneytisins enda færi hann sönnur á að líklegt sé að hún hafi eða muni valda sér tjóni.
    Kæra skal vera skrifleg og studd nauðsynlegum gögnum. Fjármálaráðuneytinu er heimilt að krefja kæranda um frekari upplýsingar ef það telur ástæðu til.

    f. (14. gr.)
    Um meðferð kæru, úrræði vegna kæru, bótaskyldu, valdsvið eftirlitsstofnunar EFTA, eftirlit og hlutverk Innkaupastofnunar ríkisins fer skv. 26.–31. gr. laga nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, eftir því sem við á.

5. gr.

    Við lögin bætist ný grein sem orðast svo:
    Fjármálaráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um framkvæmd laga þessara, svo sem um efni auglýsinga, útboðsgögn, útboðsaðferðir, tilboðsfresti, hæfi bjóðenda og val á tilboðum.
    Ráðherra er heimilt að gera breytingar á viðauka I til samræmis við þær breytingar sem verða á þeim köflum í tollskrá sem viðaukinn vísar til. Breytingar samkvæmt þessari málsgrein skulu birtar í A-deild Stjórnartíðinda.

III. KAFLI

Gildistaka.


6. gr.

    Lög þessi öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið öðlast gildi að því er Ísland varðar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Inngangur.


    Frumvarp þetta er lagt fram í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Í XVI. viðauka þess samnings, sbr. 65. gr. hans, er fjallað um opinber innkaup innan Evrópska efnhagssvæðisins. Markmiðið með samkomulaginu er það m.a. að tryggja aukna samkeppni á Evrópumarkaði á sviði opinberra innkaupa.
    Samkvæmt viðauka XVI er gert ráð fyrir því að tilskipanir og ýmsar aðrar reglur EB á sviði opinberra innkaupa gildi á hinu Evrópska efnahagssvæði. Þykir rétt að rekja hér helstu atriði þessara tilskipana. Verður fyrst vikið að þeim reglum sem fjalla um opinbera verksamninga en síðar að reglum um opinber innkaup (þ.e. vörukaup).
    Helsta tilskipunin um opinbera verksamninga er tilskipun 71/305/EBE um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga. Henni hefur verið mikið breytt með tilskipun 89/440/EBE.
    Samkvæmt þessum tilskipunum er skylt að bjóða út verk sem nema a.m.k. 5 milljónum ECU án virðisaukaskatts. Skylt er að auglýsa þessi verk í Stjórnartíðindum EB og óheimilt er að auglýsa í heimalandi áður en auglýsing hefur verið send útgáfustjórn EB til birtingar. Auglýsing, sem send er EB til birtingar, skal vera á a.m.k. einni af þjóðtungum EB og í henni skal birta verklýsingu þannig að hugsanlegum bjóðendum sé gert kleift að gera sér mynd af verkinu. Útboðsgögnum skulu fylgja tæknilýsingar og skulu þær að jafnaði byggja á evrópskum stöðlum. Ef það er ekki gert skulu ástæður þess tilgreindar í útboðsauglýsingu og útboðsgögnum. Ekki er skylt að þýða útboðsgögn yfir á tungumál EB-ríkja. Útboð skal að jafnaði vera annaðhvort almennt, þ.e. opið öllum, eða lokað. Í undantekningartilvikum er heimilt að gera verksamninga eftir svokölluðu samstarfsútboði þar sem verkkaupi ráðfærir sig við ákveðna verktaka og semur við einn eða fleiri þeirra um samningsskilmála. Sérstakar reglur eru um tilboðsfresti. Meginreglan er sú að tilboðsfrestur við almennt útboð er 52 dagar talið frá sendingardegi auglýsingar. Ef verkkaupi hefur birt sérstaka kynningarauglýsingu styttist þessi frestur í 37 daga. Við lokuð útboð skal frestur til að skila þátttökubeiðnum eigi vera styttri en 37 dagar. Þegar forval hefur farið fram skal frestur til að skila tilboðum eigi vera styttri en 40 dagar talið frá útsendingu boðsbréfs. Þessi frestur styttist í 26 daga ef kynningarauglýsing hefur verið send. Í tilskipunum eru ítarlegar reglur um val verktaka. Verktökum er heimilt að gera tilboð sem hópur þótt þeir myndi ekki sérstakt rekstrarform að lögum. Þegar tilboð hópsins hefur verið samþykkt er hægt að krefjast þess að hann myndi slíkt rekstrarform. Heimilt er að útiloka verktaka frá útboði, t.d. ef krafist hefur verið gjaldþrotaskipta á búi hans, tækniþekking hans er ekki næg, hann hefur gerst sekur um refsiverðan verknað eða orðið sekur um vanrækslu í starfi. Forsendur verkkaupa fyrir vali á tilboðum skal annaðhvort vera lægsta verð eingöngu eða hagkvæmasta tilboðið með tilliti til arðsemi, framkvæmdatíma og annarra sambærilegra atvika. Þegar ætlunin er að taka hagkvæmasta tilboðinu skal verkkaupi, ef unnt er, tilgreina í útboðsauglýsingu eða útboðsgögnum forsendur sínar fyrir vali á verktaka. Heimilt er að hafna tilboðum sem eru augljóslega allt of lág.
    Undanþegin tilskipun 71/305/EBE, sbr. tilskipun 89/440/EBE, eru opinberar stofnanir og fyrirtæki sem sinna vatnsveitu, orkuveitu, flutningum og fjarskiptum. Um verksamninga og innkaup þessara aðila er fjallað í tilskipun 90/531/EBE. Samkvæmt þessari tilskipun er skylt að bjóða út verk sem nema a.m.k. 5 milljónum ECU án virðisaukaskatts. Viðmiðunarmörkin eru þannig hin sömu og við verkútboð annarra stofnana. Sambærilegar reglur gilda um auglýsingar útboða, útboðsgögn, útboðsaðferðir og val tilboða. Tilboðsfrestir í almennum útboðum eru í reynd þeir sömu en við lokuð útboð skal frestur til að skila umsóknum vera minnst fimm vikur og til að skila tilboðum minnst þrjár vikur. Heimilt er að ákvarða tilboðsfrest með gagnkvæmu samkomulagi verkkaupa og þátttakanda í útboði. Verkkaupum er heimilt að starfrækja kerfi til að meta hæfi verktaka. Ekki eru þannig tilgreind í þessari tilskipun, eins og í þeim sem fjallað var um hér að framan, ákveðin atvik sem geta leitt til vanhæfis verktaka.
    Í tilskipun 89/665/EBE er fjallað um samræmingu laga- og stjórnsýslufyrirmæla aðildarríkjanna á reglum um meðferð kæru vegna útboðs og gerðar opinberra vörukaupa-og verksamninga. Eins og nafnið gefur til kynna gildir þessi tilskipun bæði um opinber innkaup og framkvæmdir. Samkvæmt henni er ríkjum EB skylt að tryggja að verktaki geti kært ákvarðanir sem opinberir aðilar taka í sambandi við gerð verksamnings. Jafnframt er skylt að sjá til þess að unnt sé að áfrýja máli vegna kæru ef aðrir en dómstólar fjalla um hana. Ríkjunum er hins vegar í sjálfsvald sett hvort þau meðhöndla kæru á stjórnvaldsstigi eða hvort þau láta dómstóla fjalla um hana.
    Um opinber innkaup (vörukaup) gildir tilskipun 77/62/EBE um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra samninga um vörukaup. Henni hefur verið talsvert breytt með tilskipun 88/295/EBE. Þá er fjallað um kaup á ákveðnum vörutegundum í tilskipun 80/767/EBE. Það eru vörur sem falla undir GATT-samkomulagið um opinber innkaup.
    Samkvæmt framangreindum tilskipunum er skylt að auglýsa á Evrópumarkaði innkaup á vörum þegar verðmæti þeirra nemur a.m.k. 200.000 ECU án virðisaukaskatts. Þegar um er að ræða vörur sem falla undir GATT-reglurnar, sbr. tilskipun 80/767/EBE, eru mörkin lægri eða 130.000 ECU án virðisaukaskatts. Svipaðar reglur gilda um auglýsingar og tæknistaðla og gilda við verkútboð. Hins vegar skal þeirri meginreglu fylgt við vöruútboð að bjóða út samkvæmt almennu útboði. Heimilt er að viðhafa lokað útboð þegar unnt er að réttlæta slíkt, t.d. með tilliti til útboðskostnaðar. Einnig getur orðið um samstarfsútboð að ræða. Tilboðsfrestir eru 52 dagar í almennum útboðum en 40 dagar í lokuðum útboðum. Bjóðendur geta gert tilboð sem hópur eins og þegar um verksamninga er að ræða. Kaupendur geta jafnframt neitað seljendum um að gera tilboð á grundvelli sömu forsendna og hægt er að neita verktökum um slíkt, svo sem vegna gjaldþrots, vanskila á opinberum gjöldum og refsiverðrar háttsemi. Forsendur fyrir vali á tilboðum skal annaðhvort vera lægsta verð eingöngu eða hagkvæmasta verðið. Heimilt er að hafna tilboðum sem eru óeðlilega lág.
    Um innkaup fyrirtækja, sem sinna vatnsveitu, orkuveitu, flutningum og fjarskiptum, er fjallað í tilskipun 90/531/EBE. Reglurnar eru sambærilegar við það sem að framan er rakið nema hvað viðmiðunarmörkin eru hærri.
    Í XVI. viðauka er getið um nokkrar aðrar reglur sem gilda skulu á hinu Evrópska efnahagssvæði. Þar er fyrst að nefna reglugerð (EBE/KBE) nr. 1182/71 um það hvernig reikna beri tímabil, dagsetningar og fresti. Ætlunin er að lögfesta þessa reglugerð sérstaklega. Í tilskipun nr. 71/304/EBE er fjallað um skyldu til að afnema höft á rétti til að veita þjónustu á svið opinberra verksamninga og gerð opinberra verksamninga fyrir milligöngu umboða eða útibúa. Þessi tilskipun krefst ekki sérstaka breytinga hérlendis þar sem erlendum verktökum er ekki bannað í lögum að bjóða í verk. Þá munu aðrar reglur samningsins, svo sem um starfsréttindi og frjálsan flutning launþega, sbr. t.d. 28. gr. samningsins, tryggja að sérfræðingar og aðrir starfsmenn á vegum erlendra verktaka geti starfað hér á landi. Loks skal þess getið að með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar nr. 90/380/EBE var viðauki I við tilskipun 89/440/EBE leiðréttur. Þessi viðauki fjallar um þær stofnanir í löndum Evrópubandalagsins sem tilskipunin tekur til og hefur þar af leiðandi ekki efnislega þýðingu hér á landi.

Núgildandi skipulag opinberra framkvæmda og innkaupa hér á landi.


    Um opinberar framkvæmdir er fjallað í lögum nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, og í lögum nr. 52/1987 er fjallað um opinber innkaup. Lögin taka til framkvæmda og innkaupa á vegum ríkisins og stofnana þess. Markmið þeirra er að tryggja hagkvæmni í ríkisrekstri. Fjármálaráðuneytið fer með yfirstjórn opinberra framkvæmda og innkaupa.
    Meðferð máls varðandi opinberar framkvæmdir frá upphafi og þar til henni er lokið skiptist í fjóra áfanga, þ.e. frumathugun, áætlanagerð, verklega framkvæmd og skilamat, sbr. 2. gr. laga nr. 63/1970. Samkvæmt 13. gr. laganna skal verk að jafnaði boðið út. Innkaupastofnun ríkisins annast að jafnaði útboð verka svo og reikningshald og greiðslur, sbr. 14. gr. laganna. Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir veitir heimild til útboðs en hún er fjármálaráðuneytinu til ráðuneytis um fjármálalega framkvæmd laganna, sbr. 22. gr. Framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins fer síðan með yfirstjórn verklegra framkvæmda.
    Yfirstjórn opinberra innkaupa er fengin sérstakri stjórn opinberra innkaupa sem er jafnframt stjórn Innkaupastofnunar ríkisins, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 52/1987. Á grundvelli laganna hefur verið sett reglugerð nr. 189/1988 um opinber innkaup og starfsemi Innkaupastofnunar ríkisins. Samkvæmt 6. gr. laganna skal að jafnaði bjóða út kaup á vörum og þjónustu og að jafnaði skal taka hagkvæmasta tilboði.
    Hvorki í lögum nr. 63/1970 eða lögum nr. 52/1987 er kveðið á um efni útboðsauglýsinga og útboðsgagna, tilboðsfresti, meðferð tilboða eða val á bjóðendum. Í verkútboðum er hins vegar mikið stuðst við ÍST 30 og þar er að finna ýmsar reglur um þessi atriði. Enginn staðall er hins vegar til um vörukaup.
    Ýmsum öðrum ríkisstofnunum en Innkaupastofnun ríkisins hefur verið heimilað að annast eigin útboð. Þetta á t.d. við um Vegagerð ríkisins, Vita- og hafnamálaskrifstofu, Póst og síma, Rafmagnsveitur ríkisins og Flugmálastjórn. Þá hefur Landsvirkjun annast sín eigin viðskipti á þessu sviði. Reykjavíkurborg rekur eigin innkaupastofnun en hins vegar hafa önnur sveitarfélög í mörgum tilvikum falið Innkaupastofnun ríkisins að annast meiri háttar innkaup fyrir sig.

Um áhrif frumvarpsins á opinber innkaup hér á landi.


    Um langt skeið hefur verið fyrir hendi opinn alþjóðlegur útboðsmarkaður hér á landi við opinber innkaup, bæði hvað varðar vörur og meiri háttar verkkaup. Þannig hefur Landsvirkjun t.d. boðið út á erlendum markaði alla stærri verkhluta við virkjanir. Þetta á t.d. við um Blönduvirkjun og þá hluta Fljótsdalsvirkjunar sem hafa verið boðnir út, sbr. fskj. I. Innkaupastofnun ríkisins hefur á undanförnum tveimur árum boðið út rúmlega 20 vörukaupaútboð sem hefðu farið yfir þau mörk sem getið er um í II. kafla frumvarpsins. Öll þessi vörukaupaútboð voru send á alþjóðlegan markað. Á sama tíma var boðið út eitt verk innan lands sem hefði farið yfir viðmiðunarmörk I. kafla frumvarpsins, sbr. fskj. II. Svipað á við um Vegagerðina. Þar hafa á síðustu árum verið boðin út tvö verk sem hefðu farið yfir viðmiðunarmörkin, sbr. fskj. III. Innkaupastofnun annast hins vegar öll vörukaup fyrir Vegagerðina.

Helstu atriði frumvarpsins.


    Í frumvarpinu felst að við lög nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, og lög nr. 52/1987, um opinber innkaup, er bætt nokkrum nýjum greinum er fela m.a. í sér skyldu fyrir ríki og sveitarfélög að bjóða út verk og vörukaup á hinu Evrópska efnahagssvæði.
    Frumvarpinu er skipt í þrjá kafla. I. kafli fjallar um breytingar á lögum nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, II. kafli um breytingar á lögum nr. 52/1987, um opinber innkaup, og í III. kafla er ákvæði um gildistöku.
    Breytingarnar, sem felast í I. kafla frumvarpsins, felast í því að við 1. gr. laganna, sem fjallar um gildissvið þeirra, er bætt við ákvæðum sem munu leiða til þess að sveitarfélögum verður skylt að bjóða út á Evrópumarkaði. Þá er bætt við lögin nýjum kafla sem fjallar um opinber útboð á Evrópsku efnahagssvæði. Í þeim kafla er að finna reglur sem fjalla um ýmis atriði, svo sem verðmætismörk, auglýsingar, kærur, skaðabætur o.fl. Með I. kafla frumvarpsins er verið að laga lögin um skipan opinberra framkvæmda að tilskipun 71/305/EBE, sbr. tilskipun 89/440/EBE, tilskipun 90/531/EBE og tilskipun 89/665/EBE. 1. gr. frumvarpsins og a–d-liðir 2. gr. eru byggð á fyrstu þremur tilskipunum sem getið er um hér að framan en helstu reglur tilskipunar 89/665/EBE eru teknar upp í e–j-liðum 2. gr. frumvarpsins.
    Breytingar þær, sem II. kafli felur í sér á lögum nr. 52/1987, eru að flestu leyti sambærilegar við þær breytingar sem getið er um hér að framan. Sveitarfélög auk ríkisins og stofnana þess verða skyld til að bjóða út innkaup. Um verðmætismörkin er fjallað í b- og c-liðum 4. gr. Reglur um auglýsingar, kærur og valdsvið eftirlitsstofnunar EFTA eru hins vegar svipaðar reglum I. kafla. Þær tilskipanir, sem þessi kafli laganna byggir á, eru tilskipun 77/62/EBE, sbr. tilskipun 80/767/EBE og tilskipun 88/295/EBE, tilskipun 90/531/EBE og tilskipun 89/665/EBE. Ákvæði a–e-liða 4. gr. byggja á fyrstu fjórum tilskipunum sem getið er um hér að framan en helstu reglur tilskipunar 89/665/EBE eru teknar upp í e- og f-liðum 4. gr. frumvarpsins.
    Í III. kafla frumvarpsins er síðan að finna ákvæði um gildistöku laganna.
    Markmið með frumvarpinu er fyrst og fremst að lögfesta þá skyldu til útboða á Evrópska efnahagssvæðinu sem leiðir af EES-samningnum. Ekki er ætlunin að gera aðrar breytingar á skipan opinberra framkvæmda og innkaupa hér á landi. Þannig munu sömu aðilar bjóða út þessi verk og innkaup og gera nú. Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir mun veita heimild til útboða eins og verið hefur. Fjármálaráðuneytið mun hafa eftirlit með því að reglum laganna sé fylgt en hins vegar mun Innkaupastofnun ríkisins annast ráðgjöf á þessu sviði, svo sem með útgáfu upplýsingabæklinga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. gr. laga nr. 63/1970 er fjallað um gildissvið laganna. Samkvæmt þeirri grein taka lögin til framkvæmda sem kostaðar eru af ríkissjóði en geta einnig tekið til framkvæmda á vegum ríkisstofnana sem hafa sjálfstæðan fjárhag. Hér er lagt til í 1. mgr. að gildissvið laganna verði víkkað þannig að VI. kafli þeirra, sem fjalla mun um framkvæmdir á hinu Evrópska efnahagssvæði, taki til sveitarfélaga og annarra aðila sem eru undir yfirstjórn ríkis eða sveitarfélaga.
    Þegar opinberir aðilar sinna viðskiptum eða iðnaði öðrum en vatnsveitu, orkuveitu, flutningum eða fjarskiptum er þeim ekki skylt að bjóða út á Evrópumarkaði. Því er lagt til í 2. mgr. að þessir aðilar verði undanþegnir útboðsskyldunni. Þessi undanþága mundi t.d. taka til ríkisverksmiðja og ríkisviðskiptabanka.
    Í 1., 4., 5., 6., 8., 10., 11. og 12. viðbæti við XVI. viðauka samningsins er finna yfirlit yfir þá opinberu aðila sem greinin mundi taka til.

Um 2. gr.


    Í greininni er lagt til að bætt verði inn í lög nr. 63/1970 nýjum kafla sem fjalla mun um opinberar framkvæmdir á hinu Evrópska efnahagssvæði.

    a. (21. gr.).
    Í greininni er kveðið á um gildissvið VI. kafla. Lögin munu ekki eingöngu taka til framkvæmda á vegum opinberra aðila heldur einnig til þess ef ríkisstofnun mundi t.d. fela verkfræðistofu að annast fyrir sig útboð sem hún mundi hins vegar sjálf greiða fyrir. Jafnframt mundi greinin ná til einkaréttar sem opinberir aðilar veita fyrirtækjum, t.d. til að annast vatnsveitu í ákveðnum landshlutum.
    Samkvæmt tilskipunum 71/305, sbr. 89/440 og 90/531, eru nokkrar gerðir verksamninga undanþegnir útboðsskyldu. Þykir því rétt að kveða á um það í 2. mgr. að ráðherra geti með reglugerð ákveðið að einstakar tegundir verksamninga verði undanþegnir ákvæðum VI. kafla.

    b. (22. gr.)
    Í greininni er kveðið á um það lágmarksverðmæti sem verksamningur þarf að hljóða upp á til þess að aðilum þeim, sem lögin taka til, verði skylt að bjóða verkið út. Þegar fjárhæð útboðs er metin skal skv. 2. mgr. miða við gengi ECU þann dag er auglýsing er send Stjórnartíðindum EB til birtingar en það á að gera eins fljótt og unnt er eftir að ákvörðun um útboð hefur verið tekin.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að við mat á verðmæti útboðs skuli ekki eingöngu taka mið af heildarverðmæti verksins, þ.e. vinnu, hönnun og vörukaupum, eftir því sem við á, heldur eigi einnig að taka mið af verðmæti þeirra aðfanga, t.d. tækja, sem verkkaupi lætur verktakanum í té.

    c. (23. gr.)
    Í greininni er kveðið á um að þegar ákveðið er að bjóða verk út í áföngum skal leggja saman fjárhæð einstakra áfanga, jafnvel þótt gerðir séu sérstakir verksamningar um hvern áfanga. Í 2. málsl. 1. mgr. er að finna undantekningu frá þessari reglu þess efnis að ekki þarf að taka mið af áfanga sem er undir 1 milljón ECU án virðisaukaskatts svo framarlega sem verðmæti þessa áfanga er minna en 1 / 5 af verðmæti verksins í heild.
    Samkvæmt 2. mgr. verður óheimilt að skipta verki í áfanga beinlínis í því skyni að sniðganga ákvæði laganna um verðmætismörk. Það leiðir hins vegar af 1. mgr. að ekki er almennt bannað að bjóða verk út í áföngum.

    d. (24. gr.)
    Í þessari grein er fjallað um auglýsingar verksamninga. Í fyrsta lagi á verkkaupi í sérstakri kynningarauglýsingu að lýsa helstu einkennum þeirra verka sem hann hefur í hyggju að bjóða út og falla undir viðmiðunarmörk 22. gr. Ætla má að slík auglýsing yrði að jafnaði send þegar fjárhagsáætlun viðkomandi stofnunar er tilbúin. Slík auglýsing leggur hins vegar enga skyldu á stofnunina að bjóða verkið út. Helsta gildi slíkrar auglýsingar er að þegar kemur að því að bjóða út verk þau, sem tilgreind eru í henni, styttist tilboðsfresturinn. Í öðru lagi á að auglýsa verkið sjálft. Hér er átt við hina eiginlegu útboðsauglýsingu. Í þriðja lagi á að auglýsa þá verksamninga sem gerðir hafa verið samkvæmt ákvæðum laganna.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að auglýsingar skulu sendar útgáfustjórn EB til birtingar. Þær verða birtar í EES-deild Stjórnartíðinda EB og útgáfustjórnin hefur 12 daga til að birta auglýsinguna.
    Ekki verður heimilt að birta auglýsinguna hér á landi fyrr en hún hefur verið send útgáfustjórninni til birtingar. Þá verða auglýsingar hérlendis að innihalda sömu upplýsingar og þær sem fram koma í auglýsingu þeirri sem útgáfustjórninni er send. Þessar kröfur eru gerðar til þess að tryggja sem jafnasta samkeppnisstöðu verktaka á Evrópumarkaði. Þar sem hins vegar geta liðið allt að 12 dagar þar til auglýsingin birtist í Stjórnartíðindum EB njóta innlendir verktakar ákveðins forgangs enda er ekkert því til fyrirstöðu að auglýsing birtist í innlendum blöðum 1–2 dögum eftir sendingardag.

    e. (25. gr.)
    Hér er kveðið á um heimild verktaka, sem er óánægður með ákvörðun sem verkkaupi hefur tekið í tengslum við framkvæmd útboðs eða gerð verksamnings, til þess að kæra þá ákvörðun til fjármálaráðuneytis. Kæran verður að vera skrifleg og rökstudd og hann verður að sýna fram á að ákvörðunin hafi eða muni hugsanlega valda sér tjóni. Þannig geta aðeins þeir sem hafa hagsmuna að gæta kært ákvörðun.

    f. (26. gr.)
    Í þessari grein er kveðið á um til hvaða aðgerða ráðuneytið getur gripið í tilefni af kæru. Það er háð mati ráðuneytisins hvort það grípur til þeirra aðgerða sem getið er um í 1. og 2. tölul. Ráðuneytið mundi m.a. taka tillit til þeirra hagsmuna sem eru í húfi. Annars vegar verður að líta til hagsmuna kæranda og hins vegar til hagsmuna verkkaupa og annarra bjóðenda og jafnframt til almannahagsmuna. Ef ætla má að tjón hinna síðarnefndu yrði meira en tjón kæranda mundi ekki verða gripið til þeirra ráðstafana sem getið er um í greininni. Þar sem félagsmálaráðherra fer með yfirstjórn sveitarstjórnarmála þykir rétt að þegar kæra varðar ákvarðanir sveitarfélags sé það hann sem láti framkvæma þær aðgerðir sem getið er um í 1. mgr. Fjármálaráðuneytið verður eftir sem áður úrskurðaraðili.

    g. (27. gr.)
    Hér er kveðið á um að kærandi, sem er óánægður með úrlausn fjármálaráðuneytis, geti höfðað mál til þess að fá ákvörðun verkkaupa í sambandi við framkvæmd útboðs eða gerð verksamnings hnekkt. Verktaki yrði þannig ávallt fyrst að leita eftir úrskurði ráðuneytisins áður en hann gæti farið með málið fyrir dómstóla. Dómstóll yrði þá að beita sams konar hagsmunamati og getið er um í athugasemd við f-lið (26. gr.). Verkkaupi eða annar hagsmunaaðili gæti jafnframt borið ákvörðun sem fjármálaráðuneytið tekur í tilefni af kæru undir úrlausn dómstóla samkvæmt almennum réttarfarsreglum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að verkkaupi sé bótaskyldur vegna þess kostnaðar sem verktakinn hefur haft af því að undirbúa tilboð og taka þátt í útboði. Hann getur þannig ekki krafist bóta vegna þess tjóns sem hann verður hugsanlega fyrir vegna þess að hann missir af þeim ávinningi sem samningurinn hefði haft fyrir hann. Réttur til bóta er óháður því hvort ákvörðun hefur verið kærð eða ekki. Um bótaábyrgð, skilyrði bótaskyldu og fyrningu bótakrafna fer samkvæmt almennum reglum.

    h. (28. gr.)
    Hér er kveðið á um valdsvið eftirlitsstofnunar EFTA á sviði opinberra innkaupa. Með greininni er verið að lögfesta þær reglur sem fram koma í bókun 2 við samninginn um stofnun eftirlitsstofnunar EFTA. Þessi bókun fjallar um störf og valdsvið eftirlitsstofnunar EFTA á svið opinberra innkaupa.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að eftirlitsstofnunin geti hafið rannsókn á meintum brotum áður en samningsgerð er lokið. Hér gildir það sama og þegar um kærur er að ræða, ákvörðun verður ekki breytt eftir að samningur hefur komist á.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að verkkaupa sé skylt að senda fjármálaráðuneytinu annaðhvort staðfestingu á að bætt hafi verið úr broti eða greinargerð um það hvers vegna það hefur ekki verið gert. Samkvæmt bókuninni er aðildarríki skylt að senda stofnuninni framangreindar upplýsingar innan 21 dags frá tilkynningu stofnunarinnar. Til þess að fjármálaráðuneytið geti staðið við þessa skuldbindingu þykir rétt að lögfesta þessa skyldu. Ráðuneytið mun síðan koma þeim upplýsingum á framfæri við eftirlitsstofnun EFTA.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að ráðherra geti stöðvað útboð eða breytt ákvörðun verkkaupa ef eftirlitsstofnun EFTA telur að ákvörðun, sem tekin var í tengslum við útboð eða gerð verksamnings, feli í sér brot á EES-samningnum. Við mat á því hvort heimildir 26. gr. yrðu nýttar mundi ráðherra hafa í huga sömu sjónarmið og getið er um athugasemdum við þá grein.

    i. (29. gr.)
    Í greininni er kveðið á um að eftir að bindandi samningur um verk er kominn á verði ákvörðun, sem tekin var í tengslum við útboðið og samningsgerðina, ekki breytt. Á þessu tímamarki eru hagsmunir samningsaðilanna af því að samningur standi óbreyttur orðnir það miklir að minni hagsmunir kæranda verða að víkja.

    j. (30. gr.)
    Í greininni er kveðið á um skyldu verkkaupa til að gefa fjármálaráðuneytinu skýrslur um gerða verksamninga. Þar sem fjármálaráðuneytið þarf að senda eftirlitsstofnun EFTA skýrslur um þá samninga sem boðnir hafa verið út á Evrópska efnahagssvæðinu þykir nauðsynlegt að tryggja að ráðuneytinu berist þessar upplýsingar.

    k. (31. gr.)
    Í greininni er kveðið á um að fjármálaráðuneytið skuli hafa eftirlit með framkvæmd laganna, svo sem með því að sveitarfélög, ríkisstofnanir og fyrirtæki sinni þeirri skyldu sinni að auglýsa útboð á Evrópumarkaði. Þá gerir greinin ráð fyrir því að Innkaupastofnun ríkisins annist útboð fyrir þá opinberu aðila sem þess óska. Fjármálaráðuneytið mun jafnframt bera ábyrgð á framkvæmd samningsins og annast samskipti við eftirlitsstofnun EFTA eftir því sem við á.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 4. gr.


    Í greininni er lagt til að bætt verði inn í lög nr. 52/1987 nýjum ákvæðum um innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu.

    a. (9. gr.)
    Í greininni er kveðið á um það hverjir skuli bjóða út á Evrópska efnahagssvæðinu. Í 3. gr. laga nr. 52/1987 er tekið fram að Innkaupastofnun ríkisins annist innkaup fyrir allar stofnanir og fyrirtæki ríkisins. Greinin er þannig mun víðtækari en samsvarandi grein í lögum nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda. Af þeim sökum er fyrst og fremst þörf á því að kveða á um það í þessari grein að sveitarfélög, stofnunum þeirra og fyrirtækjum sé skylt að bjóða út á Evrópumarkaði.

     b. (10. gr.)
    Greinin kveður á um verðmætismörk þau sem eiga að gilda á sviði opinberra innkaupa. Meginreglan verður sú að bjóða á út innkaup sem að verðmæti nema a.m.k. 200.000 ECU án virðisaukaskatts, sbr. 1. tölul. 1. mgr. Undantekningar frá þeirri reglu er að finna í 2.–4. tölul. og skiptast þær í tvennt. Annars vegar er um að ræða að skv. 2. tölul. gilda lægri mörk um vörur sem falla undir ákveðna kafla í tollskrá en þessir vöruflokkar eru taldir upp í viðauka I. Eru þetta þeir vöruflokkar sem falla undir GATT-samkomulagið um opinber innkaup. Hins vegar er gert ráð fyrir því að kaup ákveðinna opinberra aðila falli undir hærri verðmætamörk, sbr. 3. og 4. tölul. Þessar undantekningar verður almennt að skýra þröngt.

    c. (11. gr.)
    Í greininni er kveðið á um það hvernig meta eigi verðmæti ýmissa tegunda samninga. Í 1. mgr. er fjallað um ýmiss konar leigusamninga en í 2. mgr. um kaupsamninga sem í eru endurnýjunarákvæði. Í 3. mgr. er fjallað um innkaup sem skipt er í hluta. Ákvæðið mundi t.d. eiga við um það tilvik þegar á svipuðum tíma yrði ákveðið að gera fleiri en einn samning um kaup á búnaði fyrir nokkra framhaldsskóla. Í 4. og 5. mgr. er að finna sams konar ákvæði og í 2. og 3. mgr. c-lið 2. gr. (23. gr.).

    d. (12. gr.)
    Í greininni er kveðið á um þær auglýsingar sem senda á útgáfustjórn EB til birtingar. Greinin er að mestu leyti samhljóða d-lið 2. gr. (24. gr.) sem gildir um verksamninga. Ekki þarf að senda kynningarauglýsingu nema áætluð vörukaup nemi 750.000 ECU á ársgrundvelli og slík auglýsing mun ekki leiða til þess að tilboðsfrestur styttist.

    e. (13. gr.)
    Greinin kveður á um kæruheimild seljanda vöru og er samhljóða e-lið 2. gr. (25. gr.). Um skýringu á greininni vísast til skýringa með þeirri grein.

    f. (14. gr.)
    Í greininni er kveðið á um að um ýmis atriði, svo sem varðandi meðferð kæru, fari skv. I. kafla frumvarpsins. Þetta á t.d. við um þau úrræði sem fjármálaráðuneytið getur gripið til í tilefni af kæru og um að ákvörðun verður ekki breytt eftir að bindandi kaupsamningur hefur komist á. Jafnframt er kveðið á um að I. kafli gildi um eftirlitsvald fjármálaráðuneytisins og það hlutverk Innkaupastofnunar að annast útboð og ráðgjöf fyrir sveitarfélög og ríkisstofnanir.

Um 5. gr.


    Í greininni er kveðið á um skyldu ráðherra til þess að setja reglugerð um ýmis atriði sem snerta framkvæmd laganna. Jafnframt er kveðið á um heimild ráðherra til að breyta viðauka I með auglýsingu. Þessi heimild er mjög þröng og má aðeins beita í því skyni að færa viðaukann til samræmis við breytingar á tollskrá.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.




Fylgiskjal II.


Fylgiskjal III.

VIÐAUKI

I.

    Í viðauka þessum er kveðið á um þær vörur sem falla undir 2. tölul. 1. mgr. 10. gr. laga þessara. Við flokkun á vörunum er fylgt flokkunarreglum tollalaga, nr. 55/1987. Kaflaheiti vísar til samsvarandi kafla í viðauka I við tollalög, nr. 55/1987.


25. kafli:     Salt; brennisteinn; mold og steintegundir; gipsefni, kalk og sement

26. kafli:     Málmgrýti, gjall og aska

27. kafli:     Eldsneyti úr steinaríkinu, jarðolíur og efni eimd úr þeim; jarðbiksefni;     jarðvax
    nema:
    úr 2710:     Eldsneyti fyrir sérstakar vélar

28. kafli:    Ólífræn efni; lífræn eða ólífræn sambönd góðmálma, sjaldgæfra jarðmálma, geislavirkra frumefna eða samsætna
    nema:
    úr 2808:     Sprengiefni
    úr 2811:     Sprengiefni
    úr 2812:     Táragas
    úr 2825:     Sprengiefni
    úr 2829:     Sprengiefni
    úr 2834:     Sprengiefni
    úr 2844:     Eiturefni
    úr 2845:     Eiturefni
    úr 2847:     Sprengiefni

29. kafli:     Lífræn efni
    nema:
    úr 2904:     Sprengiefni
    úr 2905:     Sprengiefni
    úr 2908:     Sprengiefni
    úr 2909:     Sprengiefni
    úr 2912:     Sprengiefni
    úr 2913:     Sprengiefni
    úr 2914:     Eiturefni
    úr 2915:     Eiturefni
    úr 2917:     Eiturefni
    úr 2920:     Eiturefni
    úr 2921:     Eiturefni
    úr 2922:     Eiturefni
    úr 2925:     Sprengiefni
    úr 2926:     Eiturefni
    úr 2928:     Sprengiefni
30. kafli:     Vörur til lækninga

31. kafli:     Áburður

32. kafli:    Sútunar- eða litakjarnar; tannín og afleiður þeirra; leysilitir (dyes), dreifilitir (pigment) og önnur litunarefni; málning og lökk; kítti og önnur þéttiefni; blek

33. kafli:    Rokgjarnar olíur og resinóíð; ilmvörur og snyrtivörur eða hreinlætisvörur

34. kafli:    Sápa, lífræn yfirborðsvirk efni, þvottaefni, smurefni, gervivax, unnið vax, fægi- eða ræstiefni, kerti og áþekkar vörur, mótunarefni, tannvax og tannlækningavörur að meginstofni úr gipsefnum

35. kafli:     Albúmínkennd efni; umbreytt sterkja; lím; ensím

37. kafli:     Ljósmynda- og kvikmyndavörur

38. kafli:     Ýmsar kemískar vörur
    nema:
    úr 38.23:     Eiturefni

39. kafli:     Plast og vörur úr því
    nema:
    úr 3912:     Sprengiefni

40. kafli:     Gúmmí og vörur úr því
    nema:
    úr 4011:     Skotheldir hjólbarðar

41. kafli:     Óunnar húðir og skinn (þó ekki loðskinn) og leður

42. kafli:    Vörur úr leðri; reiðtygi og aktygi; ferðabúnaður, handtöskur og áþekkar hirslur; vörur úr dýraþörmum (þó ekki silkiormaþörmum)

43. kafli:     Loðskinn og loðskinnsgervi; framleiðsla úr þeim

44. kafli:     Viður og vörur úr viði; viðarkol

45. kafli:     Korkur og vörur úr korki

46. kafli:    Framleiðsla úr strái, úr espartó eða öðrum fléttiefnum; körfugerðarvörur og tágasmíði

47. kafli:    Deig úr viði eða öðru trefjakenndu sellulósaefni; úrgangur og rusl úr pappír eða pappa
48. kafli:    Pappír eða pappi; vörur úr pappírsdeigi, pappír eða pappa

49. kafli:    Prentaðar bækur, blöð, myndir og aðrar vörur prentiðnaðar; handrit, vélrit og uppdrættir

65. kafli:     Höfuðfatnaður og hlutar til hans

66. kafli:    Regnhlífar, sólhlífar, göngustafir, setustafir, svipur, keyri og hlutar til þeirra

67. kafli:    Unnar fjaðrir og dúnn og vörur úr fjöðrum eða dún; gerviblóm; vörur úr mannshári

68. kafli:     Vörur úr steini, gipsefni, sementi, asbesti, gljásteini eða áþekkum efnum

69. kafli:     Leirvörur

70. kafli:     Gler og glervörur

71. kafli:    Náttúrulegar eða ræktaðar perlur, eðalsteinar eða hálfeðalsteinar, góðmálmar, málmar klæddir góðmálmi, og vörur úr þessum efnum; glysvarningur; mynt

73. kafli:     Vörur úr járni eða stáli

74. kafli:     Kopar og vörur úr honum

75. kafli:     Nikkill og vörur úr honum

76. kafli:     Ál og vörur úr því

78. kafli:     Blý og vörur úr því

79. kafli:     Sink og vörur úr því

80. kafli:     Tin og vörur úr því

81. kafli:     Aðrir ódýrir málmar; keramíkmelmi; vörur úr þeim

82. kafli:    Verkfæri, áhöld, eggjárn, skeiðar og gafflar, úr ódýrum málmi; hlutar til þeirra úr ódýrum málmi
    nema:
    úr 8207:     Verkfæri
    úr 8209:     Verkfæri, hlutar

83. kafli:     Ýmsar vörur úr ódýrum málmi

84. kafli:     Kjarnakljúfar, katlar, vélbúnaður og vélræn tæki; hlutar til þeirra
    nema:
    úr 8401:     Kjarnakljúfar
    úr 8407 og úr 8408:      Brunahreyflar
    úr 8411 og úr 8412:      Hverflar og aðrir hreyflar
    úr 8456, úr 8457, úr 8458, úr 8459, úr 8460, úr 8461, úr 8462 og
    úr 8463:     Smíðavélar
    úr 8471:     Sjálfvirkar gagnavinnsluvélar
    úr 8473:     Hlutar og fylgihlutir til véla í nr. 8471

85. kafli:    Rafbúnaður og -tæki og hlutar til þeirra; hljóðupptöku- og hljóðflutningstæki, mynda- og hljóðupptökutæki og mynda- og hljóðflutningstæki fyrir sjónvarp og hlutar og fylgihlutir til þess konar vara
    nema:
    úr 8517:     Fjarskiptabúnaður á línu
    úr 8525:     Senditæki

86. kafli    Eimreiðar, vagnar og hlutar til þeirra fyrir járnbrautir eða sporbrautir;
    sporbúnaður og tengihlutar fyrir járnbrautir eða sporbrautir og hlutar til þeirra; hvers konar vélrænn umferðarmerkjabúnaður (þar með talinn rafknúinn)
    nema:
    úr 8601:     Brynvarðar rafmagnseimreiðar
    úr 8602:     Aðrar brynvarðar eimreiðar
    úr 8604:     Viðgerðarvagnar fyrir járnbrautir eða sporbrautir
    úr 8604 og 8605:      Brynvarðir járnbrautar- eða sporbrautarvagnar
    úr 8606:     Vöruflutningavagnar fyrir járnbrautir eða sporbrautir

87. kafli:    Ökutæki, þó ekki járnbrautar- eða sporbrautarvagnar, og hlutar og fylgihlutir til þeirra
    nema:
    úr 8701:     Dráttarvélar
    úr 8702, 8703 og 8704:      Ökutæki til hernaðarnota
    úr 8705:     Gálgabifreiðar til að lyfta biluðum ökutækjum og flytja þau
    úr 8710:    Skriðdrekar og aðrir brynvarðir stríðsvagnar, einnig búnir vopnum, og hlutar til slíkra ökutækja
    úr 8711:     Mótorhjól
    úr 8716:     Tengivagnar

89. kafli:     Skip, bátar og fljótandi mannvirki
    nema:
    úr 8906:     Herskip

90. kafli:    Áhöld og tækjabúnaður til optískra nota, ljósmyndunar, kvikmyndunar, mælinga, prófunar, nákvæmnisvinnu, lyflækninga eða skurðlækninga; hlutar og fylgihlutir til þeirra
    nema:
    úr 9005:     Sjónaukar
    úr 9012:     Smásjár
    úr 9013:     Leysitæki; önnur optísk tæki og áhöld ót. a. í þessum kafla
    úr 9015:     Fjarmælar
    úr 9018:     Áhöld og tæki til lækninga
    úr 9019:     Tæki til mekanóterapí
    úr 9021:     Búnaður til réttilækninga
    úr 9022     Tækjabúnaður sem byggir á notkun röntgengeisla
    úr 9030:     Mælar til að mæla og prófa rafmagnsstærðir

91. kafli:     Klukkur og úr og hlutar til þeirra

92. kafli:     Hljóðfæri; hlutar og fylgihlutir til þess konar vara

94. kafli:    Húsgögn, rekkjubúnaður, dýnur, rúmbotnar, púðar og áþekkur stoppaður húsbúnaður; lampar og ljósabúnaður, ót. a.; ljósaskilti, ljósanafnskilti og þess háttar; forsmíðaðar byggingar
    nema:
    9401.1000:     Sæti til nota í flugvélum

96. kafli:     Ýmsar framleiddar vörur