Ferill 47. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 47 . mál.


48. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



1. gr.


    1. tölul. 2. mgr. 1. gr. laganna orðast svo: Þeirra opinberu starfsmanna sem heyra undir lög um Kjaradóm og kjaranefnd.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta fylgir frumvarpi til laga um Kjaradóm og kjaranefnd sem lagt hefur verið fram á Alþingi. Eins og nánar greinir í því frumvarpi er þar lagt til að ákvörðun launakjara æðstu stjórnar ríkisins, æðstu embættismanna og forstöðumanna stærstu stofnana ríkisins verði í höndum Kjaradóms og kjaranefndar. Í því frumvarpi er gert ráð fyrir að launaákvörðun með þeim hætti nái til nokkuð stærri hóps en nú fellur undir launaákvörðun Kjaradóms.
    Það ákvæði laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sem hér er gerð tillaga um breytingu á, kveður á um það að ákvæði þeirra laga taki ekki til þeirra sem undir Kjaradóm heyra. Er það nú gert með upptalningu þeirra starfsheita sem Kjaradómur tekur til, en í öðrum töluliðum sömu málsgreinar eru síðan tilgreindir þeir aðrir sem lögin taka ekki til. Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að í stað upptalningar starfsheitanna komi tilvísun í lög um Kjaradóm og kjaranefnd þar sem starfsheitin eru tilgreind.
    Flest þeirra starfsheita, sem ákvæði þetta mun taka til, eru þegar undanþegin lögunum annaðhvort skv. 1. eða 5. tölul. málsgreinarinnar, en sá töluliður tekur til forstöðumanna stofnana sem óskað hafa eftir því að fjármálaráðherra ákveði þeim starfskjör utan samninga. Til viðbótar koma nokkur starfsheiti forstöðumanna sem nú fara eftir kjarasamningum en lagt er til að falli undir kjaranefnd samkvæmt frumvarpi þar um.
    Þau störf, sem frumvarp þetta tekur til, eru tilgreind í 2. gr. og í 8. gr. frumvarps til laga um Kjaradóm og kjaranefnd. Samkvæmt 2. gr. mundu hæstaréttardómarar og héraðsdómarar falla undir ákvæði þetta. Í 8. gr. eru talin upp eftirfarandi starfsheiti: Biskup Íslands, brunamálastjóri, fiskistofustjóri, fiskmatsstjóri, flugmálastjóri, flugvallarstjóri Keflavík, forsetaritari, forstjóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, forstjóri Fangelsismálastofnunar, forstjóri Fríhafnar Keflavíkurflugvelli, forstjóri Fasteignamats ríkisins, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, forstjóri Iðntæknistofnunar Íslands, forstjóri Innkaupastofnunar ríkisins, forstjóri Landmælinga Íslands, forstjóri Landhelgisgæslunnar, forstjóri Lánasýslu ríkisins, forstjóri Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, forstjóri Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins, forstjóri Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, forstjóri Ríkisspítala, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, forstjóri Vinnueftirlits ríkisins, forstöðumaður framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins, forstöðumaður Listasafns Íslands, forstöðumaður Tryggingaeftirlitsins, framkvæmdastjóri Hollustuverndar ríkisins, framkvæmdastjóri Húsnæðisstofnunar ríkisins, framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, hagstofustjóri, húsameistari ríkisins, landgræðslustjóri, landlæknir, landsbókavörður, lyfsölustjóri, lögreglustjórar, námsgagnastjóri, orkumálastjóri, póst- og símamálastjóri, rafmagnsveitustjóri ríkisins, rannsóknarlögreglustjóri, ráðuneytisstjórar, rektor Háskóla Íslands, rektor Háskólans á Akureyri, rektor Kennaraháskóla Íslands, rektor Tækniskóla Íslands, ríkisendurskoðandi, ríkislögmaður, ríkissáttasemjari, ríkisskattstjóri, ríkistollstjóri, sendiherrar, siglingamálastjóri, skattrannsóknarstjóri, skattstjórar, skipulagsstjóri ríkisins, skógræktarstjóri, skrifstofustjóri Alþingis, sýslumenn, tollstjórinn í Reykjavík, tollgæslustjóri, útvarpsstjóri, veðurstofustjóri, vegamálastjóri, verðlagsstjóri, vita- og hafnamálastjóri, yfirdýralæknir, yfirskattanefndarmenn, þjóðleikhússtjóri, þjóðminjavörður og þjóðskjalavörður. Enn fremur eru prestar þjóðkirkjunnar tilgreindir í 8. gr.