Ferill 19. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 19 . mál.


104. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 92/1986, um Kjaradóm, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin fjallaði um bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar á tveimur fundum. Kallaðir voru til eftirtaldir aðilar: Indriði H. Þorláksson, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu, Ólafur Davíðsson, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins, Valtýr Sigurðsson, formaður Dómarafélags Íslands, Ólafur Tómasson póst- og símamálastjóri, Sveinbjörn Björnsson, rektor Háskóla Íslands, Edda Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri starfsmannasviðs Háskóla Íslands, Guðlaugur Þorvaldsson ríkissáttasemjari, Geir Waage, formaður Prestafélags Íslands, Kristinn Ágúst Friðfinnsson, varaformaður Prestafélags Íslands, Jónatan Sveinsson hrl., Páll Halldórsson, Birgir Björn Sigurjónsson og Eggert Lárusson frá BHMR, Ásmundur Stefánsson og Bryndís Hlöðversdóttir frá ASÍ, Ögmundur Jónasson og Svanhildur Halldórsdóttir frá BSRB, Árni Benediktsson frá VMS og Þórarinn V. Þórarinsson og Hannes G. Sigurðsson frá VSÍ.
     Hinn 26. júní sl. kvað Kjaradómur upp úrskurð um launakjör þeirra aðila sem undir hann heyra. Kjaradómur fór að þeim lögum sem um hann gilda og ákvað m.a. að gera miklar breytingar á launakerfi þeirra starfsmanna ríkisins sem dómurinn nær til. Þessar breytingar fólu í sér allverulega hækkun á launum nokkurra æðstu embættismanna íslenska ríkisins meðan annar hópur manna varð fyrir verulegri launalækkun. Kjaradómur kynnti sér vel kjör og aðstæður presta landsins sem Alþingi samþykkti fyrir skömmu að færu undir Kjaradóm og felldi þann úrskurð að prestastéttinni bæri veruleg leiðrétting á launakjörum.
    Strax er dómur var upp kveðinn komu fram sterk viðbrögð úti í þjóðfélaginu, einkum frá þeim er samið höfðu um 1,7% hækkun á launum alls þorra launafólks. Einblínt var á þann hópinn sem Kjaradómur ákvað að hækka í launum, en þeim sem lækkun fengu var lítil samúð sýnd, hvað þá að kannað væri hvað sá uppskurður, sem Kjaradómur ætlaði að gera á launakerfinu, byði upp á varðandi endurskoðun á því tvöfalda og óréttláta launakerfi sem hér tíðkast. Þess var krafist að allar hækkanir og þar með lækkanir líka yrðu kveðnar niður. Engu skyldi haggað í núverandi launakerfi. Nú má um það deila hver launamunur skuli vera meðal landsmanna og um það hve há laun beri að greiða æðstu embættismönnum ríkisins, svo og um það hvort dómur Kjaradóms var réttlátur. Svo mikið er víst að úrskurður Kjaradóms miðaðist við þann raunveruleika sem ríkir í launamálum hér á landi. Kjaradómur afhjúpaði fyrst og fremst það neðanjarðarkerfi sem tíðkast hjá ríkinu, en jafnframt hver laun viðmiðunarhópanna úti í þjóðfélaginu eru. Þær niðurstöður komu illa við marga, ýmist vegna þess óréttlætis sem í ljós kom eða vegna þess að sumum fannst að satt mætti kyrrt liggja.
     Ríkisstjórnin hljóp upp til handa og fóta, snerist í nokkra hringi en bað síðan þrjá virta lögmenn álits á því hvort einhverjar leiðir væru færar til að hnekkja niðurstöðu dómsins og hvort ráðlegt væri að setja bráðabirgðalög. Lögmennirnir töldu öll tormerki á því að hnekkja dómnum að óbreyttum lögum og sögðu réttast að kalla saman þing ef ríkisstjórnin vildi breyta lögum um Kjaradóm. Ríkisstjórnin ákvað þvert á allar ráðleggingar að setja bráðbirgðalög sem gengu í gildi 3. júlí sl.
     Samkvæmt 28. gr. stjórnarskrár íslenska lýðveldisins getur forseti gefið út bráðabirgðalög þegar brýna nauðsyn ber til og þegar Alþingi er ekki að störfum.
     Nú vill svo til að síðasta vor gerðu þingflokkarnir með sér samkomulag um verklag í sumar vegna meðferðar samninganna um EES. Það samkomulag fól í sér að nefndir þingsins voru að störfum öðru hverju á sumarmánuðum og því voru flestir þingmenn í viðbragðsstöðu og kallfæri. Þótt veður hafi verið rysjótt fram eftir sumri verður ekki séð að ófærð, vatnavextir, verkföll, bilanir, bensínskortur eða annað, sem hindrað gæti samgöngur til höfuðborgarinnar, hafi hamlað því að þing væri kallað saman. Að dómi Kvennalistans bar ríkisstjórninni að kalla Alþingi saman í anda þeirra breytinga sem gerðar voru á 28. gr. stjórnarskrárinnar vorið 1991 og í samræmi við breytt þingsköp sem fela það í sér að Alþingi starfar allt árið. Ríkisstjórnin vildi ekki kalla þing saman, annaðhvort vegna þess að hún taldi sig ekki hafa meiri hluta fyrir lagabreytingu eða vegna þess að hún vildi ekki umræður á Alþingi um niðurstöðu Kjaradóms.
     Það er Alþingis að meta endanlega hvort niðurstaða Kjaradóms hafi falið í sér svo mikla hættu eða röskun á þjóðarhag að brýna nauðsyn hafi borið til að koma í veg fyrir áhrif hennar með setningu bráðabirgðalaga. Bráðabirgðalögin gáfu Kjaradómi næstum því mánaðarfrest til að kveða upp nýjan dóm. Þeir sem undir Kjaradóm heyra fengu laun samkvæmt niðurstöðu dómsins í einn mánuð. Þetta tvennt bendir ekki til þess að mjög brýnt hafi verið að nota þann neyðarrétt sem 28. gr. stjórnarskrárinnar felur í sér.
    Það er forkastanlegt hvernig hver ríkisstjórnin á fætur annarri hefur gripið til neyðarréttar samkvæmt stjórnarskrá til að kveða niður breytingar á launakjörum, oftast samkvæmt kröfum þeirra sem telja sig þess umkomna að móta launastefnu jafnt hins opinbera sem hins frjálsa markaðar, hvort sem aðrir samningsaðilar eru sammála stefnu þeirra eður ei. Hvað eftir annað hefur verið gripið inn í frjálsa samninga með þeim afleiðingum að fólk hefur orðið að leita til dómstóla og jafnvel alþjóðastofnana í von um að ná rétti sínum. Það sýnir í hvílíkar ógöngur stjórnarhættir íslenska ríkisins og launastefnan í landinu eru komin. Með bráðabirgðalögunum var ríkisstjórnin að leggja blessun sína yfir það óréttláta launakerfi sem hér tíðkast, en eins og allar tölur sýna bitnar það harðast á konum.
     Það er sannfæring þingkvenna Kvennalistans að enga þá nauðsyn hafi borið til að grípa inn í kjaramálin með þeim hætti sem gert var sem réttlæti bráðabirgðalög og afar slæmt sé að stjórnvöld skuli aftur og aftur neita að sætta sig við niðurstöður þeirra sem með lögum er gert að dæma í launamálum eða ákveða launakjör. Niðurstaða Kjaradóms gaf gullið tækifæri til að hefja nauðsynlega uppstokkun á öllu launakerfi íslenska ríkisins og það tækifæri átti ríkisstjórnin að grípa.
     Sumarið 1990 setti þáverandi ríkisstjórn bráðabirgðalög til að koma í veg fyrir 4% launahækkun sem samið hafði verið um við BHMR og var liður í áætlun um að leiðrétta kjör háskólamenntaðra starfsmanna ríkisins til samræmis við það sem gerist á almennum vinnumarkaði. Meðal þeirra sem þá voru sviptir samningsrétti og umsömdum launahækkunum var Prestafélag Íslands. Í kjölfar bráðabirgðalaganna á BHMR og þeirra aðgerða, sem þeim fylgdu, ákvað Prestafélagið að fara þess á leit við Alþingi að kjör þeirra yrðu ákveðin af Kjaradómi. Prestar höfðu þá lengi leitað eftir leiðréttingum á kjörum sínum sem höfðu rýrnað verulega svo sem kjaradómurinn frá 26. júní sl. ber með sér. Prestar hafa um margt sérstöðu miðað við aðra hópa háskólamanna sem fá laun sín greidd frá ríkinu. Prestar eiga afar erfitt með að beita sömu aðferðum og annað launafólk í baráttu fyrir bættum kjörum vegna eðlis starfa þeirra og stöðu þjóðkirkjunnar. Alþingi samþykkti að prestar færu undir Kjaradóm m.a. til þess að þeir mættu fá bót sinna mála. Þá gerðist það að ný bráðabirgðalög voru sett, nú á Kjaradóm, og voru prestar þar með sviptir langþráðum leiðréttingum í annað sinn.
     Framkoma ríkisvaldsins við starfsmenn sína hefur verið með eindæmum á undanförnum árum og hefur leitt til þess að algjör trúnaðarbrestur ríkir þar á milli sem auðvitað kemur niður á starfsemi ríkisins. Ekki hefur verið samið við BHMR og nú eru málefni prestastéttarinnar í algjöru uppnámi. Þessum gjörræðislegu vinnubrögðum ríkisvaldsins verður að linna. Ríkisstjórnir landsins verða að virða samningsrétt og niðurstöður Kjaradóms fari hann að lögum. Það getur ekki gengið til lengdar í þjóðfélagi sem vill virða frelsi og mannréttindi að níðast á ákveðnum hópum launafólks með þeim hætti sem gert hefur verið hvað eftir annað. Það getur ekki gengið að auka frelsi á vinnumarkaði og í viðskiptum, svo og að ýta undir samkeppni í hagkerfinu með annarri hendinni, en ætla að halda launum fyrir utan öll lögmál markaðarins með hinni. Stefna af þessu tagi ýtir undir það neðanjarðarlaunakerfi sem þegar er til staðar í þjóðfélaginu, eykur misrétti og veldur óánægju og spennu.
    Það er niðurstaða fulltrúa Kvennalistans í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis að ekki hafi borið brýna nauðsyn til setningar bráðabirgðalaga og að ekki hafi verið rétt að málum staðið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Réttast hefði verið að kalla Alþingi saman til að ræða niðurstöðu Kjaradóms og kanna þar með hvort vilji væri til að breyta lögum um Kjaradóm. Framkoma ríkisstjórnarinnar gagnvart Alþingi Íslendinga er allsendis óviðunandi og er enn eitt dæmi um það hvernig framkvæmdarvaldið seilist æ lengra inn á valdsvið Alþingis. Með setningu bráðabirgðalaganna var gengið freklega fram hjá Alþingi. Þá er það álit Kvennalistans að síendurteknar aðgerðir íslenskra ríkisstjórna til að koma í veg fyrir áhrif kjarasamninga og dóma samrýmist hvorki nútímastjórnarháttum né því hagkerfi sem við búum við. Þegar til lengri tíma er litið grafa aðgerðir af því tagi, sem hér um ræðir, undan frjálsum kjarasamningum, virðingu fyrir samningsréttinum og trausti á ríkisvaldinu sem vinnuveitanda.
    Vegna alls þess, sem að ofan greinir, munu þingkonur Kvennalistans greiða atkvæði gegn bráðabirgðalögum ríkisstjórnarinnar frá 3. júlí sl.

Alþingi, 17. sept. 1992.



Kristín Ástgeirsdóttir.





Fylgiskjal I.


Yfirlýsing frá þingflokki Kvennalistans


í tilefni úrskurðar Kjaradóms um launakjör ráðherra,


þingmanna og einstakra embættismanna.


(2. júlí 1992.)



    Á undanförnum árum hafa forustumenn í stjórnkerfinu, með ráðherra í broddi fylkingar, staðið gegn hvers kyns leiðréttingum á launakjörum einstakra hópa á vinnumarkaði. Í kjaraviðræðum hafa þeir ekki léð máls á öðru en heildarlausnum fyrir allt launafólk sem hafa falið í sér mjög óverulegar kauphækkanir. Það skýtur því óneitanlega skökku við að þeir sem mótað hafa þessa stefnu skuli nú fyrstir allra fá leiðréttingu á sínum launum. Þeim ber því öðru fremur siðferðileg skylda til að benda á leiðir til að taka á þeirri stöðu, sem upp er komin í kjaramálum, eigi þeir ekki að glata öllu trausti og trúverðugleika hjá launafólki.
    Það er gömul saga og ný að miklar hömlur á samningsrétti launafólks, hvort sem er í formi lagasetningar eða þrýstiaðgerða af hálfu framkvæmdarvaldsins, auka launamun í samfélaginu. Í því sambandi vill þingflokkur Kvennalistans benda á að samkvæmt upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun hefur tekjumunur verið að aukast á Íslandi á undanförnum árum, en þó mest milli áranna 1989 og 1990 eftir að taxtakaup og innbyrðis staða launafólks var fryst með svokallaðri þjóðarsátt. Á þessu tímabili færðist tæpur milljarður frá tekjulægri hóp launafólks til þess tekjuhærri. Það má því færa þung rök fyrir því að frysting taxtalauna hafi í raun aukið svigrúm atvinnurekanda til að hækka laun hinna tekjuhærri sem eru í aðstöðu til að gera einstaklingsbundna samninga um kaup sitt og kjör.
    Því hefur verið haldið fram að við núverandi aðstæður í íslensku efnahagslífi eigi hvorki né megi gera kerfisbreytingar á því tvöfalda launakerfi sem viðgengst hér á landi. Þingflokkur Kvennalistans er ósammála þessu og telur slíkar breytingar bæði mikilvægar og tímabærar einmitt núna ef takast á að draga úr launamun í íslensku samfélagi, ekki síst milli karla og kvenna. Tvær af hverjum þremur konum taka laun samkvæmt töxtum verkalýðsfélaga en aðeins einn af hverjum þremur körlum, enda njóta þeir í mun ríkari mæli hvers kyns aukagreiðslna. Þannig nam hlutfall heildaraukagreiðslna af dagvinnu hjá ráðuneytum og helstu stofnunum ríkisins árið 1991 74,2% hjá körlum en 41,8% hjá konum. Þessar aukagreiðslur hafa tíðkast í mörg ár og þeir stjórnmálamenn, sem setið hafa við stjórnvöl í ráðuneytum um langt árabil, hafa ákveðið þessi launakjör. Það er skoðun þingflokksins að mikilvægt sé að taka á þessu neðanjarðarlaunakerfi sem beint og óbeint vinnur gegn þeim sem taka laun samkvæmt umsömdum launatöxtum.
    Þingflokkur Kvennalistans er sammála þeirri grunnhugmynd í úrskurði Kjaradóms að afnema beri aukagreiðslur og ákvarða heildarlaun æðstu starfsmanna ríkisins. Verði þessari ákvörðun Kjaradóms fylgt eftir þýðir hún launalækkun hjá stórum hópi æðstu embættismanna. Þá telur þingflokkurinn að dómurinn hafi gert leiðréttingar á innbyrðis launum þess hóps sem undir hann heyrir sem m.a. þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, hafa lengi talað um í sinn hóp að væru réttmætar. Engu að síður hljótum við að vekja athygli á og mótmæla því launamisrétti sem viðgengst í íslensku samfélagi og gert er sýnilegt með úrskurðinum. Þá orkar það líka mjög tvímælis, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, að þingmenn og ráðherrar fái leiðréttingu sem öllum öðrum er synjað um, ekki síst þar sem hún hefur talsverðan kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð. Það er skoðun þingflokksins að slík leiðrétting hefði ekki átt að hafa hlutfallslega meiri kostnað í för með sér en fyrirsjáanlegar launahækkanir á almennum vinnumarkaði.
    Þingflokkur Kvennalistans er tilbúinn til að standa að því að þing verði kallað saman þegar í júlí og breyting gerð á lögum um Kjaradóm ef það má verða til að leysa þann hnút sem launamál í landinu eru nú komin í. Þingflokkurinn er aftur á móti ekki tilbúinn til að ógilda úrskurð Kjaradóms með lögum og hverfa aftur til fyrra horfs. Úrskurður Kjaradóms sýnir svo ekki verður um villst að við búum við handónýtt og ógegnsætt launakerfi sem viðheldur lágum launum og vinnur gegn jöfnuði og jafnrétti. Að ásaka Kjaradóm fyrir þetta kerfi er að hengja bakara fyrir smið.



Fylgiskjal II.


Kvennalistinn og Kjaradómur.


    Kvennalistakonur hafa lengi verið þeirrar skoðunar að það launakerfi, sem við búum við, þarfnist verulegra endurbóta og uppstokkunar. Við teljum að á undanförnum árum hafi verið farnar mjög svo vafasamar leiðir í kjarasamningum. Við okkur blasir að launamunur fer vaxandi og feluleikurinn dafnar meðal þeirra sem betur mega sín meðan hópar launafólks vinna samkvæmt umsömdum smánartöxtum.
    Launakerfið mismunar körlum og konum. Stórum hópum er haldið niðri ár eftir ár á meðan skapast hefur eins konar neðanjarðarkerfi aukagreiðslna og yfirvinnu, unninnar og óunninnar sem einkum nær til karla. Atvinnurekendum er harðlega bannað að hækka laun starfsmanna sinna og fá yfir sig VSÍ-forustuna ef þeir voga sér að bæta launin, enda æ fleiri sem semja um duldar greiðslur og gera einkasamninga. Í stað þess að fagna því þegar glufur myndast í þessu heilfrysta launakerfi tekur verkalýðsforustan nú að sér að verja óbreytt ástand. Vei þeim sem einhverju vilja breyta.
    Með ríkjandi launastefnu er verið að festa í sessi láglaunastefnuna og koma í veg fyrir allar leiðréttingar, þar með talið að draga úr launamisrétti kynjanna. Það mætti halda að það sé náttúrulögmál að enginn megi gera betri kjarasamninga en annar og þau launahlutföll, sem nú ríkja milli hópa, verði að haldast óbreytt.
    Árum saman hefur verið samið í skugga vaxandi erfiðleika í atvinnulífinu og þess samdráttar sem þegar er orðinn og boðaður er. Það er augljóst að við verðum öll að taka á okkur áföllin og þeir því meira sem betur standa. Því hlýtur leiðin á tímum sem þessum að vera sú að breyta tekjuskiptingunni og jafna kjörin.
    Kjaradómur sinnti lagaskyldu sinni og felldi úrskurð sem fól í sér verulega tilfærslu greiðslna innan þess hóps sem úrskurðurinn nær til. Stór hópur lækkaði í launum, aðrir hækkuðu. Kjaradómur gerði tilraun til að brjótast út úr herkví feluleiksins og afhjúpaði um leið þann mikla launamun sem ríkir í þjóðfélaginu en mörgum virðist hafa verið ókunnugt um. Kjaradómur reyndi að taka á neðanjarðarlaunakerfi ríkisins og hafði til viðmiðunar ýmsa hópa úti í þjóðfélaginu, þar á meðal forustumenn VSÍ og ASÍ við ákvörðun launa. Niðurstaðan skall eins og blaut tuska á andlit láglaunafólks en þar er ekki við Kjaradóm að sakast heldur þann veruleika sem við búum við í launamálum, veruleika sem þarf að breyta. Með því að grípa til aðgerða gegn úrskurði Kjaradóms lætur ríkisstjórnin líta svo út sem hún hafi gert eitthvað sem máli skiptir í launamálum. Sannleikurinn er þó sá að úrskurður Kjaradóms breytir engu um launamisréttið í landinu og með því að hafna honum er verið að framlengja líf neðanjarðarkerfisins, ýta undir feluleikinn og fá fólk til að sætta sig betur við bág kjör sín. Bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar leysa heldur engan vanda heldur er honum sópað undir teppið. Mun eðlilegra hefði verið að Alþingi tæki á málinu með rækilegri skoðun.
    Það vekur furðu að Morgunblaðið, sem blaða harðast hefur gagnrýnt rétt ríkisstjórna til setningar bráðabirgðalaga á undanförnum árum, slær nú úr og í þrátt fyrir breytt lög sem heimila að Alþingi verði kallað saman með skömmum fyrirvara. Hvað veldur?
    Eftir örfáar vikur verða upplýsingar um tekjur landsmanna lagðar fram á skattstofum landsins. Þá gefst gullið tækifæri til að skoða tekjuskiptingu þjóðarinnar. Þá geta menn t.d. skoðað hvað leiðtogar verkalýðsins, vinnuveitendur, ritstjórar og aðrir þeir sem harðast gagnrýna Kjaradóm bera úr býtum. Væri ekki nær að horfast í augu við veruleikann og hefjast handa við uppstokkun á launakerfinu og breytingu á tekjuskiptingunni í átt til aukins réttlætis.
    Ekki stendur á okkur Kvennalistakonum að leggja okkar af mörkum til þeirrar vinnu. Umræðan um Kjaradóm snýst einmitt um tekjumun í þjóðfélaginu, réttlæti í launamálum og skipbrot þeirrar launastefnu sem hér hefur verið rekin um árabil af samflotinu mikla. Skúta þeirra hefur nú steytt á því skeri sem e.t.v. mun sökkva henni.