Ferill 97. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 97 . mál.


113. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 82/1989, með síðari breytingu.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



1. gr.


    Eftirtaldar breytingar verða á 12. gr. laganna eins og henni var breytt með lögum nr. 12/1991:
    3. tölul. 1. mgr. orðast svo:
          3. Að styðja sveitarfélög og heilsugæslustöðvar til að koma á fót og reka heima           þjónustu fyrir aldraða.
    4. tölul. 1. mgr. orðast svo:
          4. Að veita rekstrarfé til stofnana fyrir aldraða.
    2. mgr. 12. gr. fellur niður.

2. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1993.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Framkvæmdasjóður aldraðra hefur nú starfað í liðlega 10 ár og átt drjúgan þátt í þeirri gífurlegu uppbyggingu sem orðið hefur á síðasta áratug í húsnæðismálum aldraðra um allt land.
     Á hinn bóginn vantar fjármuni til reksturs þeirra stofnana sem þegar er búið að taka í notkun. Árið 1991 var hlutverki Framkvæmdasjóðs aldraðra breytt í þá veru að fjármuni hans mætti nýta til að reka stofnanir sem færu í rekstur á miðju ári. Í ljósi þess samdráttar, sem er í útgjöldum til heilbrigðismála, sýnist eðlilegt að rýmka þessa heimild og sömuleiðis fella niður skilyrði um að aldrei megi verja nema tilteknum hluta sjóðsins til nánar tilgreindra verkefna. Þegar svo er komið að uppbygging húsnæðismála aldraðra er orðin svo mikil að víða er framboð umfram eftirspurn hlýtur að vera skynsamlegra að verja fjármunum sjóðsins til reksturs og eflingar heimaþjónustu sveitarfélaga og heilsugæslustöðva fremur en til framkvæmda. Þetta á ekki síst við á þeim samdráttartímum sem nú ganga yfir og velja þarf á milli þessa og hins að jafnvel hætta rekstri stofnana í öldrunarþjónustu.
     Í frumvarpi þessu er því gert ráð fyrir að heimild til að nýta fé Framkvæmdasjóðs aldraðra til reksturs verði rýmkuð og um leið að felld verði niður skilyrði um að eingöngu tilteknum hluta sjóðsins megi verja til reksturs og annarra tilgreindra verkefna.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni


aldraðra, nr. 82/1989, með síðari breytingu.


    Hér er um rýmkun á gildandi lögum að ræða. Takmörk á fé, sem hægt er að veita til reksturs, eru afnumin og lögin gerð afdráttarlausari. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1993 er áformað að nota fé sjóðsins í auknum mæli til reksturs stofnana fyrir aldraða, svo sem til að takmarka lokanir og opna nýjar stofnanir.