Ferill 116. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 116 . mál.


136. Tillaga til þingsályktunar



um safn þjóðminja að Hólum í Hjaltadal.

Flm.: Tómas Ingi Olrich, Pálmi Jónsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa stofnun safns þjóðminja að Hólum í Hjaltadal er verði einkum helgað kirkjusögu Íslands.

Greinargerð.


     Tillaga þessi var áður flutt á 115. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu og er nú flutt að nýju.
    Þingsályktunartillagan miðar að því að efla það merka uppbyggingarstarf sem unnið hefur verið að Hólum í kirkju-, skóla- og menningarmálum. Enn fremur miðar tillagan að því að styrkja uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni, virkja í hennar þágu þann mikla menningaráhuga sem fram kemur í starfsemi minjasafna víða um landið og stuðla jafnframt að markvissari uppbyggingu þessarar starfsemi með því að sérhæfa hana í samræmi við hlutverk og vægi sögustaða.
     Hólastaður er einn merkasti sögustaður Íslendinga. Þar stóð biskupsstóll frá 1106 til 1800. Þar var annað af tveimur höfuðmenntasetrum þjóðarinnar frá upphafi 12. aldar til 1802. Þar var vagga íslenskrar prentlistar og bókaútgáfu. Þar var lagður grunnur að endurreisn norrænna fræða. Hólar voru höfuðvígi íslenskrar sjálfstæðisbaráttu um siðaskipti. Á staðnum stendur eitt merkasta minnismerki um húsagerðarlist á landinu, Hóladómkirkja, sú fjórða frá dögum Jóns helga Ögmundssonar. Að Hólum var stofnaður annar elsti búnaðarskóli á Íslandi og er Bændaskólinn að Hólum nú elsti starfandi búnaðarskóli á landinu.
     Á undangengnum árum og áratugum hefur verið unnið mikið endurreisnarstarf að Hólum á sviði skóla-, kirkju- og menningarmála. Starf Bændaskólans að Hólum hefur eflst og mikil uppbygging orðið á staðnum sem tengist skólanum. Prestar Hólastiftis hafa mjög látið sig varða endurreisn biskupsstóls á Hólum og Skagfirðingar jafnan haft mikinn metnað fyrir hönd Hóla. Hefur vígslubiskupsembættið nú verið bundið Hólastað með lögum. Hólanefnd sú, sem skipuð var 1987, hefur á undanförnum árum haft umsjón með gagngerum endurbótum á Hóladómkirkju og umhverfi hennar. Hefur það starf tekist hið besta. Kirkjan er frá sögu-, menningar- og byggingarfræðilegu sjónarhorni séð merkasta kirkjubygging sem þjóðin á. Prýða hana nú þegar allmargir mjög merkir safngripir. Á staðnum er einnig gamall bær frá 19. öld og vinnur Þjóðminjasafn Íslands nú að endurbyggingu hans.
     Meðal merkustu fornminja Íslendinga eru þær bækur sem prentaðar voru á Hólum og varðveist hafa. Prentverk mun hafa verið flutt til Hóla í biskupstíð Jóns Arasonar. Mest var bókaútgáfa á staðnum í tíð Guðbrands biskups Þorlákssonar, en hann mun hafa látið prenta um 90 rit, stærri og smærri. Bækur voru prentaðar á Hólum til loka 18. aldar. Hólaprent má með sanni líta á sem frumkvöðul íslenskrar bókaútgáfu. Sú athyglisverða hugmynd hefur komið fram að stofna sérstakt fornbókasafn að Hólum sem tengt verði Þjóðminjasafni Íslands.
     Gera má ráð fyrir að á Hólum séu miklar minjar um liðna tíð fólgnar í jörðu. Hefur lítillega verið grafið þar eftir fornleifum, en þar eins og víðast á Íslandi er mikið verk óunnið.
     Þjóðminjum er víða um land sýndur mikill sómi. Hafa sveitarstjórnir sýnt lofsvert framtak og skilning á gildi þjóðminja. Í landinu eru fjölmörg minjasöfn og starfar við þau söfn talsverður mannafli. Á hinn bóginn er það áberandi hve lík þessi héraðssöfn eru innbyrðis að allri uppbyggingu. Þess hefur verið freistað að sérhæfa nokkur þessara safna og er það lofsvert. Nauðsynlegt er að ýta undir þá þróun. Er ekki að efa að það yrði til að efla ferðamannaþjónustu ef þjóðminjasöfnum, sem hefðu sérhæfðu hlutverki að gegna, yrði komið fyrir víðs vegar um land þar sem sögustaðir og aðstæður gefa tilefni til slíks. Er ekki ofsagt þótt fullyrt sé að meðal sögustaða sé Hólastaður einna best fallinn til þess að gegna slíku hlutverki.
     Í þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir að ríkisstjórninni sé falið að undirbúa stofnun þjóðminjasafns að Hólum er verði helgað íslenskri kirkjusögu. Er það gert með tvennt í huga. Annars vegar hefur ríkisstjórn Íslands sameiginlega tekið ákvarðanir sem skipt hafa sköpum um endurreisn Hóla og Hóladómkirkju. Í öðru lagi ber að taka tillit til þess að það mál, sem hér er flutt, tengist þremur ráðuneytum, kirkjumálaráðuneyti að því er varðar málefni Hóladómkirkju, landbúnaðarráðuneyti að því er varðar staðarhald og bændaskóla og menntamálaráðuneyti að því er þjóðminjar varðar.