Ferill 127. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 127 . mál.


147. Frumvarp til laga



um lánskjör og ávöxtun sparifjár.

Flm.: Eggert Haukdal, Matthías Bjarnason.



1. gr.


    Frá og með 1. janúar 1993 er óheimilt að verðtryggja fjárskuldbindingar, þar með talin inn- og útlán í bankakerfinu, skuldabréf, verðbréf o.fl., enda verði lánskjaravísitalan lögð niður.

2. gr.


    Við gildistöku þessara laga falla úr gildi ákvæði VII. kafla, 34.–47. gr., laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl., svo og önnur lagaákvæði er kunna að stríða gegn lögum þessum.

3. gr.


    Ráðherra setur reglugerð um framkvæmd laga þessara.

4. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1993.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er hér flutt í sjötta sinn, nú með örfáum breytingum. Síðast var það flutt á 115. löggjafarþingi.
     Verðtrygging fjárskuldbindinga samkvæmt lánskjaravísitölu hefur þegar gengið sér til húðar, enda komið á daginn að atvinnuvegirnir bera hana ekki. Greiðslustöðvanir og gjaldþrot fyrirtækja, raunar einnig heimila, hafa farið hraðvaxandi. Áframhaldandi hrun og atvinnuleysi er fram undan ef ekki er gripið í taumana.
     Fyrirheit, sem gefin voru með verðtryggingu fjárskuldbindinga, um samdrátt útlána, minni erlendar lántökur og aukinn sparnað, hafa öll brugðist eins og hagskýrslur bera með sér.
     Lánskjaravísitalan er meiri verðbólguvaldur en aðrar vísitölur þar sem byggingarkostnaður er innifalinn, en hann er háður mestum sveiflum í hagkerfinu. Vinnulaun eru og reiknuð í vísitölunni en ein afleiðing þess er sú að sérhver kjarabót launþega er jafnharðan af þeim tekin með sjálfkrafa hækkun skulda af íbúðalánum. Kaupgjaldsvísitalan hefur þegar verið afnumin með lögum og því ekki siðferðilega stætt á því að halda lánskjaravísitölunni. Afnám hinnar síðarnefndu var þess utan loforð ríkisstjórnar sem ekki er lengur unnt að víkjast undan, enda öll sett skilyrði fyrir hendi.

Um 1. gr.


    Þegar lög þessi öðlast gildi er gert ráð fyrir að viðskiptabankar, sparisjóðir og aðrar innlánsstofnanir, sem veita viðtöku fé til ávöxtunar, taki upp þá reglu, sem viðgengst í öðrum vestrænum ríkjum, að greiða vaxtaauka á bundin spariinnlán til eins árs eða lengur ef gildandi vextir eru lægri en nemur verðbólgu. Útgjöld vegna vaxtaaukans eru þá fjármögnuð með fé sem inn kemur við vaxtalækkun á hlaupareikningum, ávísanareikningum og almennum sparisjóðsbókum er notast sem viðskiptareikningar. Talið er af sérfræðingum í banka- og peningamálum að 90–95% rekstrarkostnaður í viðskiptabanka fari í að þjónusta þessa reikninga og fyrir þá þjónustu ber eigendum þeirra að greiða með lágum vöxtum af slíkum innlánum.
     Langtímaútlán verða hins vegar samkvæmt viðtekinni reglu erlendis háð breytilegum vöxtum. Er þá ýmist heimilt að breyta vaxtaprósentunni innan ákveðinna marka eða binda hana í t.d. þrjú ár og láta hana síðan fylgja gildandi vöxtum á hverjum tíma.
     Verðtrygging fjárskuldbindinga er ekki lengur við lýði í viðskiptalöndum okkar sem við erum að aðlagast. Þau ríki, sem reyndu verðtryggingu (Finnland, Ísrael og að takmörkuðu leyti Bretland og Svíþjóð), hafa hætt henni. Enginn grundvöllur er því lengur fyrir verðtryggingu hér. Það knýr á um afnám hennar að ekki eru lengur „rauð strik“ í kjarasamningum. Við getum ekki varið það að verðtryggja skuldir en ekki kaupgjald láglaunafólksins sem á að borga skuldirnar.
     Ísland hefur ekki efni á að raska því jafnvægi í kjaramálum og verðlagi sem náðist með þjóðarsátt. Atvinnuvegirnir þola ekki nýja vaxtaskrúfu af völdum lánskjaravísitölu eins og þá er varð 1982–1990 þegar skuldauppsöfnunin náði 100 milljörðum króna hjá útgerð og fiskvinnslu. Það er grunnorsök vandans í dag, ekki aflasamdráttur sem oft hefur verið meiri án þess að valda sambærilegum erfiðleikum.
     Það er út í hött að gera verðtryggingu frjálsa að vali lánveitenda og lántakenda. Hinir fyrrnefndu ráða ferðinni þannig að verðtryggingin yrði í reynd áfram lögþvinguð.