Ferill 140. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 140 . mál.


161. Frumvarp til fjáraukalaga



fyrir árið 1992.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



1. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á greiðsluyfirliti A-hluta ríkissjóðs 1992 frá 1. gr. fjárlaga fyrir árið 1992:

Greiðsluyfirlit ríkissjóðs.


     Þús. kr.     Þús. kr.

Rekstrarreikningur

Tekjur               -2 423 000
    Beinir skattar          -1 033 000
    Óbeinir skattar          -1 120 000
    Vaxtatekjur          240 000
    Aðrar tekjur          -510 000

Gjöld               2 960 900
    Samneysla          728 800
         Rekstrargjöld          728 800
    Neyslu- og rekstrartilfærslur          2 425 000
    Vaxtagjöld          -500 000
    Fjárfesting          307 100
         Stofnkostnaður          307 100

Gjöld umfram tekjur               5 383 900

Lánahreyfingar

    Veitt lán, nettó               1 395 000
         Veitt lán til B-hluta ríkissjóðs          1 295 000
         – Innheimtar afborganir af veittum lánum          100 000

Hrein lánsfjárþörf A-hluta ríkissjóðs               6 778 900
    Afborganir af teknum lánum               -415 000

Heildarlánsfjárþörf A-hluta ríkissjóðs               6 363 900
    Lántökur               6 400 000

Greiðslujöfnuður, sjóðsbreyting                36 100


    

2. gr.


    Útgjöld ríkissjóðs breytast frá ákvæðum 2. gr. fjárlaga fyrir árið 1992 sem hér segir, sbr. sundur liðun í 3. gr.:

     Þús. kr.     Þús. kr.

00 Æðsta stjórn ríkisins          31 500
02 Menntamálaráðuneyti          -151 000
03 Utanríkisráðuneyti          58 800
04 Landbúnaðarráðuneyti          617 000
05 Sjávarútvegsráðuneyti          121 000
06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti          89 000
07 Félagsmálaráðuneyti          96 000
08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti          1 638 400
09 Fjármálaráðuneyti          71 300
10 Samgönguráðuneyti          82 100
12 Viðskiptaráðuneyti          300 000
14 Umhverfisráðuneyti          6 800

Samtals               2 960 900

3. gr.


    Sundurliðun gjalda skv. 2. gr. á stofnanir og viðfangsefni er þessi:




(Tölvutækur texti ekki til.)










































4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Inngangur.


    Í þeirri þjóðhagsspá, sem lögð var til grundvallar fjárlögum ársins 1992, var gert ráð fyrir áfram haldandi samdrætti í þjóðarbúskapnum í kjölfar fjögurra ára stöðnunar eða samdráttar í íslensku efnahagslífi. Þær upplýsingar, sem nú liggja fyrir um efnahagsframvindu líðandi árs, staðfesta í meginatriðum þá spá. Þó er talið að landsframleiðslan dragist heldur minna saman en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Þá var gert ráð fyrir 6% samdrætti þjóðartekna, en nú eru taldar horfur á að hann verði tæp 4%. Viðskiptahallinn gagnvart útlöndum er talinn verða um 1 1 / 2 milljarði króna minni á þessu ári en reiknað var með í forsendum fjárlaga, eða kringum 13 1 / 2 milljarður króna í stað rúmlega 15 milljarða króna.
    Tvö atriði skera sig nokkuð úr í samanburði á forsendum fjárlaga og endurskoðaðri áætlun. Annars vegar er minni verðbólga en búist var við. Í fjárlögum var gert ráð fyrir 5 1 / 2 % meðalhækkun verðlags milli áranna 1991 og 1992, en nú bendir allt til þess að hækkunin verði innan við 4%. Hins vegar er meira atvinnuleysi sem endurspeglast í minni tekjum á yfirstandandi ári. Þessi frávik setja mark sitt á afkomu ríkissjóðs í ár, bæði á tekju- og gjaldahlið.

Afkoma ríkissjóðs.


    Afkoma ríkissjóðs á þessu ári hefur nú verið endurmetin í tengslum við gerð fjárlagafrumvarps fyrir árið 1993 og með tilliti til þeirra upplýsinga sem fyrir liggja um framvindu ríkisfjármála það sem af er árinu. Þá hafa fulltrúar fjármálaráðuneytis átt viðræður við fulltrúa annarra ráðuneyta um stöðu mála og metið beiðnir um viðbótarfjárframlög vegna yfirstandandi árs.

Afkoma ríkissjóðs 1992.



    Fjárlög     Áætlun     Breyting
Greiðslugrunnur     1992     1992     frá fjárl.
    m.kr.     m.kr.     m.kr.

Tekjur               105.463     103.040     -2.423
Gjöld               -109.575     -112.140     -2.565
Rekstrarafkoma          -4.112     -9.100     -4.988
Veitt lán, nettó          -395     -1.790     -1.395
Hluta- og stofnfjárframlög          -280     -280     -
Viðskiptareikningar          400     400     -
Hrein lánsfjárþörf          -4.387     -10.770     -6.383
Lántökur, nettó          4.400     10.770     6.370
Innlend lántaka - afborganir          2.350     7.440     5.290
Erlend lántaka - afborganir1)          2.800     4.080     1.080
Lán í Seðlabanka - afborganir1)          -750     -750     -
1)    Að auki voru teknir að láni 5,6 milljarðar króna til að greiða skammtímaskuld í Seðlabanka vegna halla ríkissjóðs árið 1991.

    Niðurstaða þessa endurmats er að rekstrarhalli ríkissjóðs verði 9,1 milljarður króna á þessu ári, eða 5 milljörðum króna hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Frávik frá áætlun kemur fram bæði á tekju- og gjaldahlið. Þannig eru taldar horfur á að heildartekjur ríkissjóðs verði 103 milljarðar króna í ár, eða 2,4 milljörðum króna minni en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Tekjur af beinum og óbeinum sköttum verða rúmlega 2 milljörðum króna lægri en áætlað var, auk þess sem tekjur af sölu eigna verða minni en til stóð. Útgjöld ríkissjóðs eru talin hækka um 2,6 milljarða króna sem skýrist að mestu af fjórum þáttum. Fyrst er að telja áhrif yfirlýs ingar ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga sl. vor sem valda um 700 m.kr. kostnaðarauka, einkum í útgjöldum til heilbrigðis- og tryggingamála. Í annan stað hefur atvinnuleysi orðið meira en áætlað var í forsendum fjárlaga sem leiðir til um 500 m.kr. viðbótarútgjalda ríkissjóðs. Í þriðja lagi má ætla að eftirhreytur gamla búvörukerfisins kalli á um 900 m.kr. umfram fjárlög. Í fjórða lagi hafa ýmsir þættir sjúkratrygginga farið rúmlega 500 m.kr. fram úr fjárlögum. Enn fremur er sótt um greiðsluheimild fyrir geymdum fjárveitingum frá fyrra ári alls 720 m.kr. en á móti vegur að yfirfærðar skuldir eru 234 m.kr. Í áætluninni er við það miðað að samsvarandi upphæð færist yfir á árið 1993. Almennt er því ekki sótt um viðbótarheimildir til rekstrar nema í sérstökum tilvikum, en þess í stað við það miðað að greiðslum umfram heimildir til einstakra málaflokka verði mætt af heimildum næsta árs. Þetta kann að eiga við um tryggingabætur, einstaka framhaldsskóla og embætti sýslumanna og dómara. Loks ríkir óvissa um að hve miklu leyti tekjur af sölu veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs koma til með að skila sér í ríkissjóð strax á þessu ári.
    Hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs, þ.e. sú fjárhæð sem ríkissjóður þarf að afla til þess að mæta halla á rekstrarreikningi og ýmsum lánahreyfingum, er nú áætluð 10,8 milljarðar króna saman borið við 4,4 milljarða króna í fjárlögum og nemur viðbótarlánsfjárþörf ríkissjóðs á þessu ári því um 6,4 milljörðum króna. Þar af er aukinn rekstrarhalli um 5 milljarðar króna. Afgangurinn, eða 1,4 milljarðar króna, er aukið útstreymi fjár af lánareikningum, einkum vegna lánveitinga samkvæmt heimild í 8. gr. lánsfjárlaga fyrir árið 1992. Í ljósi núverandi ástands á lánamarkaði er stefnt að því að mæta viðbótarlánsfjárþörf ríkissjóðs á þessu ári sem mest á innlendum lánamarkaði. Til samanburðar reyndist lánsfjárþörfin 14,6 milljarðar króna á síðasta ári en þá nam rekstrarhalli ríkissjóðs 12,5 milljörðum króna. Af þessu sést að afkoma ríkissjóðs hefur batnað nokkuð frá fyrra ári þó ekki hafi fyllilega tekist að ná markmiðum fjárlaga.

Tekjur.


    Í fjárlögum fyrir árið 1992 voru heildartekjur ríkissjóðs áætlaðar 105,5 milljarðar króna. Nú eru hins vegar horfur á að þær verði allt að 2 1 / 2 milljarði króna minni, eða kringum 103 milljarðar króna. Þetta þýðir að heildartekjur ríkissjóðs verða nær þær sömu í ár og á síðasta ári metnar á föstu verðlagi. Skatttekjurnar dragast hins vegar lítillega saman milli ára, eða um rúmlega 1% að raungildi.
    Tekjusamdráttinn má að hluta rekja til erfiðs efnahagsástands bæði á yfirstandandi ári og árið 1991 sem rýrir tekjur þessa árs. Auk þess hafa ýmis tekjuáform ekki gengið eftir. Samhliða versnandi afkomu fyrirtækja og minnkandi eftirspurn hefur atvinnuleysi farið vaxandi og vinnutími styst sem endurspeglast í minnkandi tekjum hjá ríkissjóði jafnt af tekjusköttum og eignarsköttum sem veltusköttum.

Áætlaðar tekjur ríkissjóðs 1992.



    Fjárlög     Áætlun     Breyting     Breyting
Greiðslugrunnur     1992     1992     frá fjárl.     frá fjárl.
    m.kr.     m.kr.     m.kr.     %

Tekju- og eignarskattar          21.088     20.055     -1.033     -5
    Einstaklingar          16.288     15.408     -880     -5
    Fyrirtæki          4.800     4.647     -153     -3

Óbeinir skattar          76.215     75.095     -1.120     -1
    Innflutnings- og vörugjöld          8.608     8.150     -458     -5
    Virðisaukaskattur          40.450     39.600     -850     -2
    Hagnaður ÁTVR          6.650     6.650     -0     -
    Tryggingagjald          9.150     9.500     350     4
    Bifreiðagjöld          7.140     7.155     15     -
    Aðrir skattar          4.217     4.040     -177     -4

Aðrar tekjur          8.160     7.890     -270     -3
    Vaxtatekjur          3.990     4.230     240     6
    Arðgreiðslur          2.205     2.260     55     2
    Sala eigna          1.075     500     -575     -53
    Aðrar tekjur          890     900     10     1

Heildartekjur ríkissjóðs          105.463     103.040     -2.423     -2

     Tekjuskattar og eignarskattar. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun fyrir árið 1992 skila tekjuskattar og eignarskattar einstaklinga og fyrirtækja talsvert minni tekjum en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Þar munar mestu um staðgreiðslu tekjuskatts sem skilar allt að 1 milljarði króna lægri tekjum en áður var áætlað. Skýringin er fyrst og fremst minni tekjuaukning en miðað var við í fjárlögum vegna vaxandi atvinnuleysis og styttri vinnutíma. Á móti vegur að ofgreiddur tekjuskattur af tekjum ársins 1991, sem er endurgreiddur á þessu ári, varð talsvert minni en áætlað hafði verið. Það stafar af því að færri einstaklingar nýttu sér heimild til skatt afsláttar vegna hlutabréfakaupa á síðasta ári en búist hafði verið við.
    Þá verður innheimta á tekjusköttum og eignarsköttum fyrirtækja heldur lægri í ár en miðað hafði verið við sem bendir til vaxandi greiðsluerfiðleika hjá fyrir tækjum.
     Óbeinir skattar. Talið er að tekjur af veltusköttum (virðisaukaskatti, innflutningsgjöldum) verði 1,3 milljörðum króna lægri í ár en gert var ráð fyrir í tekjuáætlun fjárlaga. Á þessu eru tvær meginskýringar. Önnur er meiri samdráttur í innflutningi, einkum í dýrari vörum (bílum, rafmagnstækjum o.fl.) sem skila ríkis sjóði jafnan drjúgum hluta skattteknanna. Í fjárlögum 1992 var t.d. gert ráð fyrir að fluttir yrðu inn 8.500 bílar saman borið við 12.000 bíla árið 1991. Tölur um innflutning fyrstu níu mánuði ársins benda til þess að þeir verði heldur færri og tegundir ódýrari. Minnkandi umsvif eru einnig meginskýring þess að ýmsir aðrir veltutengdir skattar, svo sem gjaldeyrisskattar, lántökugjöld o.fl., lækka frá áætlun fjárlaga, sbr. liðinn Aðrir skattar í meðfylgjandi töflu.
    Hin skýringin er sú að tekjugrunnurinn fyrir yfirstandandi ár, þ.e. útkoma ársins 1991, varð lægri en miðað var við í fjárlögum. Þetta á einkum við um virðis aukaskattinn, en innheimta hans varð talsvert minni í desember á síðasta ári en reiknað hafði verið með við samþykkt fjárlaga. Jafnframt hefur áætlunum skattyfir valda við álagningu virðisaukaskatts fjölgað það sem af er árinu frá sama tíma og í fyrra, en við það dregur óhjákvæmilega úr skilum á skattinum. Hér kann að gæta áhrifa af versnandi afkomu fyrirtækja eins og áður kom fram.
    Á móti vega auknar tekjur af tryggingagjaldi sem rekja má til betri innheimtu á eftirstöðvum eldri launaskatta og viðbótartekna af slysatryggingagjaldi vegna ökutækja.
     Aðrar tekjur. Þegar á heildina er litið skila þessir tekjustofnar tæplega 300 m.kr. minni tekjum á þessu ári en áætlað var í fjárlögum. Hér kemur tvennt til. Annars vegar ríkir enn nokkur óvissa um tekjur af sölu eigna sem átti að skila ríkissjóði rúmlega 1 milljarði króna, en nú er talið að þessar tekjur verði aðeins um 500 m.kr. Hins vegar urðu arðgreiðslur Seðlabanka Íslands, svo og vaxtatekjur ríkissjóðs vegna slakrar lausafjárstöðu bankanna á árinu 1991, meiri en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlun fjárlaga.

Útgjöld.


    Áætluð útgjöld ríkissjóðs við afgreiðslu fjárlaga 1992 voru 109,6 milljarðar króna saman borið við 112,5 milljarða króna sem útgjöldin urðu árið 1991. Þannig var stefnt að tæplega 7 milljarða króna lækkun útgjalda milli ára að raungildi. Útgjöld ársins hafa verið endurmetin og er nú talið að þau verði um 112,1 milljarður króna en það er 2,5 milljarða króna hækkun frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum.

Áætluð útgjöld ríkissjóðs 1992.



    Fjárlög     Áætlun     Breyting     Breyting
Greiðslugrunnur     1992     1992     frá fjárl.     frá fjárl.
    m.kr.     m.kr.     m.kr.     %

Rekstrarkostnaður          41.081     41.660     579     1

Tryggingagreiðslur, niðurgreiðslur, framlög          43.925     46.313     2.388     5
Lífeyristryggingar          14.757     14.920     163     1
Sjúkratryggingar          9.043     9.573     530     6
Slysatryggingar          547     547     -     -
Atvinnuleysistryggingasjóður          1.280     1.980     700     55
Lánasjóður íslenskra námsmanna          2.220     2.000     -220     -10
Greiðslur vegna búvöruframleiðslu          7.262     8.177     915     13
Annað               8.816     9.116     300     3

Vextir               9.900     9.400     -500     -5

Viðhald          2.795     2.772     -23     -1

Stofnkostnaður          11.873     11.995     122     1
Vegamál          3.158     3.186     28     1
Hafnamál          965     965     -     -
Byggingarsjóðir          1.075     1.075     -     -
Annað               6.675     6.769     94     1

Samtals          109.574     112.140     2.566     2

     Rekstrarkostnaður er nú áætlaður 41,7 milljarðar króna eða 0,6 milljarðar króna umfram fjárlög. Á föstu verðlagi hefur rekstrarkostnaður ríkisins lækkað um 2,2 milljarða króna frá fyrra ári. Þannig er ljóst að áformaður sparnaður stofnana ríkisins í fjárlögum 1992 hefur að mestu gengið eftir. Af hækkun rekstrargjalda eru um 200 m.kr. vegna kjarasamninganna frá því í vor, en 400 m.kr. skýrast af ýmsum tilefnum. Helstu liðir eru þessir: Minni sértekjur vegna lægra verðs við sölu á veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs nema 83 m.kr. Í forsendum fjárlaga voru ýmis aðfarargjöld færð sem sértekjur sýslumannsembætta en teljast skatttekjur sam kvæmt lögum. Þetta hækkar gjöld um 69 m.kr. en á móti koma hærri tekjur ríkissjóðs. Þá vantar 40 m.kr. upp á að tekjur af hafnargjöldum skili sér í samræmi við áætlanir. Loks má nefna að viðbótarkostnaður vegna undirbúnings, kynningar og umfjöllunar um EES-samninginn er talinn verða um 60 m.kr.
     Tryggingagreiðslur, niðurgreiðslur og framlög eru nú áætluð 46,3 milljarðar króna sem er 2,3 milljörðum króna hærri fjárhæð en í fjárlögum. Að raungildi hafa þessar greiðslur lækkað um 0,5 milljarða króna frá árinu 1991. Helstu frávik koma fram í þremur málaflokkum: Í fyrsta lagi hækka framlög til landbúnaðarmála um 915 m.kr. Útflutningsbætur og niðurgreiðslur hækka um 615 m.kr., en á þessu ári fer fram uppgjör á eftirstöðvum gamla búvörusamningsins. Þá ákvað ríkis stjórnin að flýta greiðslu á 300 m.kr. beinum greiðslum til bænda sem áður var gert ráð fyrir að greiða á næsta ári. Í öðru lagi hækka greiðslur atvinnuleysisbóta um rúmlega 700 m.kr. og er það að stærstum hluta vegna aukins atvinnuleysis á árinu. Í þriðja lagi er áætlað að útgjöld vegna almannatrygginga aukist um tæpar 700 m.kr. Greiðslur vegna lífeyristrygginga hækka um 163 m.kr. og útgjöld sjúkratrygginga eru áætluð 530 m.kr. umfram fjárlög. Af þeirri fjárhæð eru um tveir þriðju hlutar ófyrirséð ný útgjöld en að öðru leyti hefur ekki tekist að ná fram áformuðum sparnaði, eins og í lyfjakostnaði og sérfræðingakostnaði. Enn fremur er áætlað að allt að 300 m.kr. útgjaldaaukning sjúkratrygginga á þessu ári færist til næsta árs. Önnur framlög hækka um 300 m.kr. Þar vega þyngst 80 m.kr. vegna launagreiðslna gjaldþrota fyrirtækja, 40 m.kr. hækkun til Þjóðleikhúss, 20 m.kr. framlag til friðargæslusveita og 20 m.kr. hækkun á greiðslum umönnunarbóta skv. 10 gr. laga um málefni fatlaðra.
     Vextir eru nú áætlaðir 9,4 milljarðar króna, eða 500 m.kr. lægri en í fjárlögum. Það skýrist einkum af lægri vöxtum á erlendum lánum en áætlað var.
     Viðhald og stofnkostnaður hækkar um rúmlega 100 m.kr. frá fjárlögum og er áætlaður 14,8 milljarðar króna. Enn fremur er sótt um flutning innstæðna frá árinu 1991 að fjárhæð 221 m.kr. yfir til ársins 1992. Gert er ráð fyrir að ónýttar greiðsluheimildir þessa árs verði með sama hætti fluttar til ársins 1993.
     Yfirfærsla heimilda og gjalda frá 1991. Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um aukna fjárhagslega ábyrgð stofnana ríkisins eru fjárheimildir til rekstrar nú í fyrsta sinn með almennum hætti færðar milli ára með tilliti til greiðslustöðu í árslok 1991. Áður hafa geymdar fjárveitingar nær eingöngu miðast við óhafin framlög til stofnkostnaðar og viðhalds. Þessi stefna er mörkuð í ljósi þess að rekstur stofnana ríkisins er samfelldur frá ári til árs og það væri nánast hending ef greiðslustaðan um áramót væri nákvæmlega í samræmi við heimildir. Þessi flutningur á greiðsluheimildum yfir áramót hvetur til aukins aðhalds og sparnaðar í rekstri þar sem stofnanir hafa möguleika til að haga rekstri sínum með sveigjanlegri hætti en áður hefur verið. Þannig er almennt ekki sótt um viðbótarheimildir til reksturs nema í sérstökum tilvikum, en þess í stað við það miðað að greiðslum umfram heimildir til einstakra málaflokka verði mætt af heimildum næsta árs.
    Eftirfarandi vinnureglur hafa verið mótaðar við flutning innstæðna og umframgjalda yfir áramót:
    1. Flutningur á innstæðu tekur mið af lækkun gjalda sem náðst hefur með hagræðingu eða flutningi verkefna milli ára. Sé ástæða inneignar hins vegar sú að ekki hefur verið haldið uppi þeirri þjónustu sem gert er ráð fyrir í fjárlögum fellur heimildin niður.
    2. Greiðsluafgangur hjá stofnunum, sem fengið hafa aukafjárveitingu á árinu, er felldur niður. Undantekningar eru gerðar þegar um er að ræða afmörkuð verkefni sem ekki hefur tekist að ljúka fyrir áramót.
    3. Innstæður eða umframgjöld á tilfærsluliðum eru almennt felld niður þegar um er að ræða lög- eða samningsbundnar greiðslur.

    Hér á eftir fer yfirlit yfir þær innstæður og umframgjöld á árinu 1991 sem lagt er til að færist yfir til ársins 1992.


Allar fjárhæðir í þús. kr.     Rekstur     Rekstur     Stofnkostn.
    inneign     skuld     og viðhald

00 Æðsta stjórn ríkisins          6.999     -     18.814
01 Forsætisráðuneyti          6.213     -781     2.000
02 Menntamálaráðuneyti          154.606     -94.936     70.194
03 Utanríkisráðuneyti          17.431     -     -
04 Landbúnaðarráðuneyti          1.424     -17.664     -246
05 Sjávarútvegsráðuneyti          12.808     -2.462     -
06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti          43.103     -18.712     24.553
07 Félagsmálaráðuneyti          29.103     -11.566     38.193
08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti          93.598     -12.556     26.440
09 Fjármálaráðuneyti          18.113     -6.999     40.673
10 Samgönguráðuneyti          -     -2.303     -
11 Iðnaðarráðuneyti          22.457     -47.590     -
12 Viðskiptaráðuneyti          2.991     -1.930     -
13 Hagstofa Íslands          1.932     -     -
14 Umhverfisráðuneyti          74.780     -3.421     -

Samtals           485.558     -220.920     220.621

    Af rekstrargjöldum ríkissjóðs á árinu 1991 er lagt til að alls verði fluttar 486 m.kr. til ársins 1992, en á móti verði heimildir fjárlaga 1992 lækkaðar um 221 m.kr. vegna umframgreiðslna 1991. Loks nema ónotaðar heimildir til stofnkostnaðar og viðhalds 221 m.kr. Sótt er um þessar fjárheimildir undir liðnum 09–989 Launa- og verðlagsmál í frumvarpinu, en í fylgiskjali kemur fram frekari sundurliðun á einstakar stofnanir ríkisins.

Lánahreyfingar.


    Í fjárlögum 1992 var hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs áætluð 4,4 milljarðar króna og heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs 13,4 milljarðar króna. Gert var ráð fyrir að hún yrði fjármögnuð bæði innan lands og utan. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun er hrein lánsfjárþörf nú talin verða 10,8 milljarðar króna en heildarlánsfjárþörf 19,4 milljarðar króna. Aukning heildarlánsfjárþarfar frá fjárlögum er því 6 milljarðar króna. Skýrist hún að stærstum hluta af 5 milljarða króna hærri rekstrarhalla ríkissjóðs. Einnig verða lánveitingar 1,4 milljörðum króna hærri en ráð var fyrir gert sem einkum skýrist af lánveitingum skv. 8. gr. lánsfjárlaga, en þar er fjármála ráðherra heimilað að endurlána úr ríkissjóði í stað þess að veita ríkisábyrgð. Á móti kemur að afborganir lána verða lægri sem nemur 0,4 milljörðum króna.
    Innlend lánsfjáröflun, sem er áætluð 10,8 milljarðar króna, hefur gengið vel, einkum öflun skammtímalánsfjár. Til septemberloka hafa ríkisbréf selst fyrir um 2,7 milljarða króna og er gert ráð fyrir að heildarsala þeirra á árinu, að frádreginni innlausn, verði um 3,3 milljarðar króna. Spariskírteini ríkissjóðs hafa selst fyrir 2,6 milljarða króna á sama tímabili. Í árslok er gert ráð fyrir að salan verði orðin rúmlega 4 milljarðar króna en innlausn eldri skírteina er talin verða um 1,5 milljarðar króna án vaxta. Sala ríkisvíxla hefur aukist um 8 milljarða króna frá ársbyrjun til septemberloka. Nú fer sá tími í hönd þegar lausafjárstaða bankanna versnar og má því reikna með að staða útistandandi ríkisvíxla lækki frá því sem nú er. Ef ofangreindar forsendur fyrir sölu spariskírteina og ríkisbréfa ganga eftir þyrfti skammtímafjármögnun ríkissjóðs að nema 3,5 milljörðum króna. Stefnt er að því að mæta henni á innlendum lánamarkaði.

Lánahreyfingar og lánsfjárþörf ríkissjóðs 1992.



    Fjárlög     Áætlun     Breyting     Breyting
Greiðslugrunnur     1992     1992     frá fjárl.     frá fjárl.
    m.kr.     m.kr.     m.kr.     %

Rekstrarafkoma          -4.112     -9.100     -4.988     121

Lánveitingar, nettó          -395     -1.790     -1.395     353
Lánveitingar          -4.545     -5.840     -1.295     28
Innheimtar afborganir          4.150     4.050     -100     -2

Hluta- og stofnfjárframlög          -280     -280     -     -

Viðskiptareikningar          400     400     -     -
Viðskiptareikningar, almennir          -500     -500     -     -
Húsnæðisstofnun          900     900     -     -

Afborganir          -9.000     -8.585     415     -5
Spariskírteini          -1.515     -1.100     -415     -27
Seðlabanki1)          -750     -750     -     -
Önnur innlend lán          -2.035     -2.235     -200     10
Erlend lán          -4.700     -4.500     200     -4

Heildarlánsfjárþörf          -13.387     -19.355     -5.968     45

Lántökur          13.400     19.355     5.955     44
Ríkisverðbréf          5.900     10.775     4.875     83
Erlend lán1)          7.500     8.580     1.080     14
1)    Í ársbyrjun 1992 gerði ríkissjóður upp 5.600 m.kr. yfirdráttarskuld við Seðlabanka Íslands frá fyrra ári með erlendri lántöku.

    Í byrjun júní á þessu ári gerði fjármálaráðherra samning við Seðlabanka Íslands um fyrirgreiðslu bankans við ríkissjóð sem takmarkar aðgang ríkissjóðs að yfirdrætti í Seðlabankanum innan ársins. Ákvæði samningsins taka mið af framlögðu frumvarpi til laga um starfsemi Seðlabanka Íslands. Í samningnum er gert ráð fyrir að dregið verði úr fyrirgreiðslu Seðlabankans í áföngum. Þannig er á þessu ári 3 milljarða króna hámark á yfirdráttarheimild ríkissjóðs, en um áramótin fellur yfirdráttarheimild niður. Þetta hefur það í för með sér að ríkissjóður verður að mæta allri lánsfjárþörfinni á markaði. Með þessu er stefnt að því að draga úr þensluáhrifum sem mikill yfirdráttur ríkissjóðs í Seðlabanka gæti valdið.
    Nauðsynlegur þáttur í þessari nýbreytni er að ríkissjóður eigi jafnan aðgang að lánsfé á lánamarkaði. Því ákvað fjármálaráðherra að láta vaxtaákvörðun á ríkisverðbréfum ráðast í útboðum á markaði, en fram að þeim tíma hafði vaxtaákvörðunin verið tekin einhliða af stjórnvöldum. Með þessu var stigið veigamikið skref frá beinum afskiptum af vaxtaákvörðun í landinu. Fyrstu verðbréfin, sem seld voru með útboði, voru ríkisbréf og hafa þau verið boðin út mánaðarlega frá júní. Ávöxtunarkrafa ríkisbréfa hefur farið lækkandi með hverju útboði og er meðaltalsávöxtun bréfanna nú 10,6%, en var 11,5% í júní. Er sú þróun í samræmi við þá stöðu sem ríkir á peningamarkaði um þessar mundir.
    Nú hefur fjármálaráðherra ákveðið að bæði ríkisvíxlar og spariskírteini ríkissjóðs verði seld á sama hátt og ríkisbréfin, þ.e. með útboði. Fyrsta útboð spariskír teina fór fram um miðjan október. Frá og með næstu mánaðamótum verða ríkisvíxlar aðeins seldir með útboði. Framvegis mun ríkissjóður þannig hafa meiri mögu leika á að stýra samsetningu þeirra lána sem hann tekur, þar á meðal hlutfalli milli langtímalána og skammtímalána.
    Heimildir ríkissjóðs til erlendrar lántöku nema alls 8,6 milljörðum króna á árinu 1992. Þar af eru 4,5 milljarðar króna vegna afborgana eldri lána. Líkur eru á að þær verði nýttar að fullu. Auk þess var á fyrstu mánuðum ársins tekið erlent lán að fjárhæð 5,6 milljarðar króna til að greiða skammtímaskuld í Seðlabanka vegna halla ríkissjóðs árið 1991.
    Að lokum skal þess getið að í fjármálaráðuneyti er til athugunar að inna af hendi á þessu ári hlutafjárloforð ríkisstjórnarinnar vegna Slippstöðvarinnar hf. á Akureyri og getið var um í greinargerð með frumvarpi til fjárlaga 1993. Um er að ræða 30 m.kr. og rúmast sú fjárhæð innan heimilda fjárlaga 1992.


Athugasemdir við einstaka fjárlagaliði, sbr. 3. gr.



00 Æðsta stjórn ríkisins



    Til æðstu stjórnar ríkisins er farið fram á viðbótarheimild að fjárhæð 31,5 m.kr.

201    Alþingi. Til Alþingis er samtals farið fram á 31,5 m.kr. Sótt er um 27,5 m.kr. til greiðslu á viðbótarkostnaði þar sem þinghald hófst sex vikum fyrr en venjulega vegna umræðna um EES-samning. Einnig er sótt um 4 m.kr. vegna endurbóta á atkvæðagreiðslukerfi þingsins.


02 Menntamálaráðuneyti



    Til menntamálaráðuneytis er farið fram á lækkun á fjárheimild um 151 m.kr.

202    Tilraunastöð Háskólans að Keldum. Farið er fram á 15 m.kr. Undanfarin ár hefur stofnunin ítrekað farið fram úr heimildum fjárlaga vegna minnkandi tekna af sölu framleiðslu og þjónustu. Starfshópur undir forustu menntamálaráðuneytisins hefur lagt fram tillögur til úrbóta sem eiga að tryggja rekstrargrundvöll stofnunarinnar.

750    Skólar fyrir fatlaða. Farið er fram á 5 m.kr. til að standa straum af kostnaði við skólaakstur fyrir fatlaða í Reykjavík í sumar. Til bráðabirgða var kostnaðurinn greiddur af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar.

872    Lánasjóður íslenskra námsmanna. Farið er fram á 220 m.kr. lækkun á fjárveitingu stofnunarinnar. Ný lög voru sett um sjóðinn í vor og úthlutunarreglum breytt í kjölfarið. Breytingarnar hafa í för með sér lægri fjárþörf sjóðsins en gert var ráð fyrir í fjárlögum.

973    Þjóðleikhús. Farið er fram á 40 m.kr. Fjárveiting í fjárlögum 1992 fól í sér nokkurn samdrátt í rekstri leikhússins, en hann hefur ekki náðst að fullu og því er sótt um viðbótarfjárheimild.

982    Listir, framlög. Farið er fram á 6 m.kr. vegna rekstrarhalla á Listahátíð en samkvæmt samningi leggur ríkissjóður fram fjárhæð til jafns við borgarsjóð.

989    Ýmis íþróttamál. Farið er fram á 3 m.kr. til Ólympíunefndar Íslands til styrktar þátttöku Íslendinga á Ólympíuleikunum í sumar.

03 Utanríkisráðuneyti



    Til utanríkisráðuneytis er farið fram á viðbótarheimild að fjárhæð 58,8 m.kr.

101    Aðalskrifstofa. Farið er fram á 33,6 m.kr. Ófyrirséð útgjöld vegna samnings um Evrópska efnahagssvæðið eru 24,6 m.kr. sem skiptast þannig að 8 m.kr. eru vegna kostnaðar við prentun þingskjala, 3,6 m.kr. eru til þess að ljúka þýðingum og 13 m.kr. til kynningar á samningnum. Einnig er sótt um 8 m.kr. viðbótar fjárveitingu vegna kostnaðar við athugun á möguleikum fríiðnaðarsvæðis á Keflavíkurflugvelli og um 1 m.kr. vegna aðstoðar við forræðismál.

310    Sendiráð í Brussel og hjá Evrópubandalaginu. Farið er fram á 4,6 m.kr. Sendiráðið tók á leigu nýtt skrifstofuhúsnæði á árinu þar sem fyrirséð var veruleg hækkun húsaleigu, auk þess sem fjölga þurfti starfsmönnum í kjölfar EES-samningsins. Fjárvöntun vegna hærri húsaleigu og annars húsnæðiskostnaðar er 4,6 m.kr.

401    Alþjóðastofnanir. Farið er fram á 20,6 m.kr. viðbótarframlag til Sameinuðu þjóðanna vegna aukinnar starfsemi friðargæslusveita, m.a. í Kambódíu, Júgóslavíu og víðar. Hér er um bundin framlög að ræða sem tengjast aðild að Sameinuðu þjóðunum.


04 Landbúnaðarráðuneyti



    Til landbúnaðarráðuneytis er farið fram á viðbótarheimild að fjárhæð 617 m.kr.

246    Veiðimálastofnun. Farið er fram á 2 m.kr. sem er hlutdeild ríkissjóðs við eftirlit með því að ekki séu stundaðar ólöglegar laxveiðar í sjó. Heildarkostnaður er áætlaður 7–8 m.kr.

290    Greiðslur vegna búvöruframleiðslu. Farið er fram á 615 m.kr. Vegna erfiðleika í landbúnaði hefur ríkisstjórnin lagt til að flýta þeim hluta beinna greiðslna til bænda sem áður var gert ráð fyrir að greiða á næsta ári. Þar er um að ræða 300 m.kr. Greiðslur vegna útflutningsbóta á kindakjöti frá síðasta ári eru 100 m.kr. Útflutningsbætur vegna mjólkurafurða eru taldar verða 215 m.kr. umfram fjárlög vegna uppgjörs búvörusamnings fyrir verðlagsárið 1991/1992.


05 Sjávarútvegsráðuneyti



    Til sjávarútvegsráðuneytis er farið fram á viðbótarheimild að fjárhæð 121 m.kr.

202    Hafrannsóknastofnun. Farið er fram á 83 m.kr. Í fjárlögum er gert ráð fyrir 525 m.kr. sértekjum hjá stofnuninni með almennri sölu veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs. Markaðsverð hefur lækkað frá því sem var í forsendum fjárlaga. Óvíst er því að hve miklu leyti tekjur af sölu kvóta Hagræðingarsjóðs skila sér til stofnunarinnar fyrir næstu áramót.

204    Fiskistofa. Farið er fram á 38 m.kr. til þess að hefja rekstur Fiskistofu sem stofnuð var með lögum nr. 36/1992. Fiskistofa yfirtekur verkefni sem áður hefur verið sinnt í nokkrum stofnunum ráðuneytisins. Um 15 m.kr. vantar upp á að flutningur fjárheimilda frá öðrum stofnunum nái að fjármagna rekstur ársins og 23 m.kr. stofnkostnaður fellur til á þessu ári sem ekki var áætlað í fjárlögum.


06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti



    Til dóms- og kirkjumálaráðuneytis er farið fram á 89 m.kr. viðbótarheimild.

190    Ýmis kostnaður ráðuneytis. Farið er fram á 15 m.kr. Kostnaður vegna aðskilnaðar framkvæmdarvalds og dómsvalds í héraði reyndist meiri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Um er að ræða aukin verkefni bæði hjá ráðuneytinu og ýmsum sýslumannsembættum vegna frágangs mála er tengjast kerfisbreytingunni.

231    Málskostnaður í opinberum málum. Farið er fram á 5 m.kr. Málskostnaðurinn er lögbundinn og háður ákvörðun dómara hverju sinni. Ráðuneytið er að endurskoða reglur um greiðslur af þessum lið.

490    Ýmis rekstrarkostnaður sýslumannsembætta. Farið er fram á 69 m.kr. hækkun gjalda vegna laga um aukatekjur ríkissjóðs. Breytingarnar taka til þriggja þátta. Í fyrsta lagi er 40 m.kr. auglýsingakostnaður vegna nauðungaruppboða o.fl. sem var áður færður sem sértekjur en verður nú að gjaldfæra sérstaklega á móti auknum tekjum sem skilað er í ríkissjóð. Í öðru lagi er 20 m.kr. aukning kostnaðar við birtingu kvaðninga við fjárnám. Með lagabreytingu, sem tók gildi í júlí sl., var gerð kerfisbreyting sem felur í sér auknar tekjur ríkissjóðs um 75 m.kr. en á móti kemur að kostnaður hækkar um 20 m.kr. Í þriðja lagi er sótt um 9 m.kr. vegna kostnaðar við undirbúning aðfararaðgerða. Áður var þessi kostnaður borinn af þolanda en samkvæmt nýjum lögum er kostnaðurinn borinn af viðkomandi sýslumannsembætti.


07 Félagsmálaráðuneyti



    Til félagsmálaráðuneytis er farið fram á viðbótarheimild að fjárhæð 96 m.kr.

700    Málefni fatlaðra. Farið er fram á 20 m.kr. Í fjárlögum þessa árs eru veittar 132 m.kr. til umönnunarbóta skv. 10. gr. laga um málefni fatlaðra, en fyrirséð er 20 m.kr. fjárvöntun á þessum lið. Undanfarin ár hefur þessi lagagrein verið túlkuð víðar en fjárlög gera ráð fyrir, þannig að greiddar hafa verið bætur vegna sjúkra barna ekki síður en fatlaðra. Tryggingastofnun ríkisins annast þessar greiðslur og verða þær bókaðar sem hluti almannatrygginga í ríkisreikningi 1992.

982    Ríkisábyrgð á launum. Farið er fram á 76 m.kr. vegna eldri lagaákvæða um ríkisábyrgð á launum. Lög um Ábyrgðasjóð launa tóku ekki gildi fyrr en 1. mars 1992 og tekur sjóðurinn aðeins við fjárskuldbindingum sem voru afgreiddar frá skipta-ráðanda eftir þann tíma. Fram til þess dags myndaðist fjárvöntun að fjárhæð 76 m.kr.


08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti



    Til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis er farið fram á viðbótarheimild að fjárhæð 1.638,4 m.kr.

271    Tryggingastofnun ríkisins. Farið er fram á 693 m.kr. vegna lífeyris- og sjúkratrygginga. Annars vegar er áætluð 163 m.kr. aukning í útgjöldum lífeyristrygginga umfram forsendur fjárlaga sem leiðir af eingreiðslum sem samið var um í síðustu kjarasamningum. Hins vegar er sótt um 530 m.kr. til sjúkratrygginga. Fyrst er að nefna að veruleg fjárvöntun verður vegna sérfræðikostnaðar á árinu og er lagt til að veittar verði 180 m.kr. vegna þess. Í öðru lagi er lagt til að veitt ar verði 150 m.kr. til tannréttinga vegna bráðabirgðaákvæða laga nr. 1/1992 um þátttöku sjúkratryggingadeildar í greiðslu kostnaðar vegna tannréttinga á árinu 1991. Í þriðja lagi vantar 200 m.kr. til sjúkrastofnana sem eru á daggjöldum. Greiðsla daggjalda vegna desembermánaðar 1991 var vanmetin um 80 m.kr. í forsendum fjárlaga, auk þess sem áætlaðri 120 m.kr. greiðslu úr Framkvæmdasjóði aldraðra hefur verið ráðstafað í önnur rekstrarverkefni. Loks er talið að greiðslur sjúkratrygginga vegna lyfja-kostnaðar verði allt að 300 m.kr. umfram áætlun fjárlaga. Þau útgjöld munu koma til frádráttar heimildum næsta árs. Í heilbrigðisráðuneyti og fjármálaráðuneyti eru til skoðunar ýmsar leiðir til lækkunar á lyfjakostnaði ríkissjóðs.

273    Atvinnuleysistryggingasjóður. Farið er fram á 709 m.kr. Í forsendum fjárlaga var gert ráð fyrir bótagreiðslum sem svara til rúmlega 2% atvinnuleysis. Samkvæmt nýjustu áætlunum stefnir í nálægt 3% atvinnuleysi í ár sem eykur fjárþörf sjóðsins um 500 m.kr. Við gerð kjarasamninga sl. vor var fallið frá áformum um að endurskoða rekstrarfyrirkomulag sjóðsins sem spara átti 150 m.kr. Þá er farið fram á 59 m.kr. vegna ákvæða um eingreiðslur í síðustu kjarasamningum.

277    Atvinnuleysisbætur opinberra starfsmanna. Farið er fram á 20 m.kr. vegna fyrirsjáanlegrar fjárvöntunar á árinu 1992.

358    Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri. Farið er fram á 5,7 m.kr. vegna kostnaðar sem fellur til vegna kjarasamnings við aðstoðarlækna sem gerður var árið 1991. Hagræðing samkvæmt bókun með samningnum sem ætlað var að mæta auknum kostnaði hefur enn ekki komið fram.

371    Ríkisspítalar. Farið er fram á 120 m.kr. af tveimur tilefnum. Annars vegar vegna yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga um að fallið yrði frá sumarlokun á öldrunardeild og barnageðdeild Ríkisspítala sem kostar 65 m.kr. Hins vegar vegna kaupa á segulómtæki sem fyrri ríkisstjórn færði stofnuninni að gjöf í tilefni 60 ára afmælis Landspítala árið 1990. Um er að ræða 55 m.kr. lokagreiðslu.

372    Borgarspítalinn. Farið er fram á 25 m.kr. vegna kostnaðar sem fellur til vegna kjarasamnings við aðstoðarlækna sem gerður var árið 1991. Hagræðing samkvæmt bókun með samningnum sem ætlað var að mæta auknum kostnaði hefur enn ekki komið fram.

373    St. Jósefsspítali, Landakoti. Farið er fram á 5,7 m.kr. vegna kostnaðar sem fellur til vegna kjarasamnings við aðstoðarlækna sem gerður var árið 1991. Hagræðing samkvæmt bókun með samningnum sem ætlað var að mæta auknum kostnaði hefur enn ekki komið fram.

500    Heilsugæslustöðvar, almennt. Farið er fram á 60 m.kr. Í tengslum við gerð kjarasamninga gaf ríkisstjórnin yfirlýsingu um breytingar á reglum um sértekjur heilsugæslustöðva. Áætlað er að breytingin hafi í för með sér um 60 m.kr. lækkun tekna hjá stöðvunum.


09 Fjármálaráðuneyti



    Til fjármálaráðuneytis er farið fram á viðbótarheimild að fjárhæð 71,3 m.kr.

214    Ríkisskattanefnd og skattsektanefnd. Farið er fram á 12 m.kr. vegna breytinga sem urðu með nýrri skipan á áfrýjunarstigi skattamála með stofnun yfirskattanefndar í stað ríkisskattanefndar. Gert er ráð fyrir hærri rekstrarkostnaði og sérstökum tímabundnum kostnaði vegna fjölda ólokinna mála frá tímum ríkis skattanefndar.

251    Gjaldheimtur og innheimtukostnaður. Farið er fram á 20 m.kr. Forsendur fjárlaga gera ráð fyrir verulegri lækkun innheimtukostnaðar með tilkomu nýrrar reglugerðar um innheimtulaun til Póst- og símamálastofnunar vegna innflutnings gegnum póstkerfið. Ekki hefur enn tekist að birta reglugerðina þar sem samningum við stofnunina er ólokið. Því er fyrirséð 20 m.kr. fjárvöntun vegna þessa.

801    Ýmis lán ríkissjóðs, vextir. Farið er fram á 500 m.kr. lækkun fjárveitingar. Vextir á erlendum lánum voru mun lægri en áætlað var framan af árinu. Einnig hafa vaxtagreiðslur af skammtímabréfum ríkissjóðs innan lands, t.d. ríkisvíxlum og ríkisbréfum, reynst innan áætlunar.

901    Framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins. Farið er fram á 4 m.kr. Vegna samdráttar í verklegum framkvæmdum munu sértekjur stofnunarinnar ekki skila sér að fullu. Stofnunin hefur verið endurskipulögð til þess að mæta breyttum forsendum sem koma til framkvæmda á síðari hluta ársins.

989    Launa- og verðlagsmál. Farið er fram á 535,3 m.kr. Þar af eru 485,3 m.kr. vegna flutnings á óhöfnum fjárheimildum og umframgjöldum ársins 1991 yfir á þetta ár. Sundurliðun þeirrar fjárhæðar er að finna í fylgiskjali. Einnig er farið fram á 50 m.kr. til þess að mæta kostnaði vegna hækkunar launa samkvæmt kjarasamningum frá því í vor umfram þá fjárhæð sem er á þessum lið í fjárlögum 1992.


10 Samgönguráðuneyti



    Til samgönguráðuneytis er farið fram á viðbótarheimild að fjárhæð 82,1 m.kr.

322    Flóabátar og vöruflutningar. Farið er fram á 28 m.kr. til Hríseyjarhrepps vegna reksturs og afborgana skulda hjá Eyjafjarðarferjunum. Vegagerð ríkisins yfirtekur þennan rekstur eftir áramótin og er talið nauðsynlegt að gera upp vanskil fyrir þann tíma.

333    Hafnamál. Farið er fram á 41,1 m.kr. Innheimta sérstaks hafnarframkvæmdagjalds var í fjárlögum talin skila 125 m.kr. á árinu. Þær forsendur gerðu ráð fyrir 12 mánaða innheimtu. Áætluð skil á yfirstandandi ári taka til 9 mánaða og eru um 85 m.kr. Fjárlaganefnd hefur ekki treyst sér til þess að fresta framkvæmdum sem nemur lægri skilum og því er sótt um 40 m.kr. í fjáraukalögum. Einnig er sótt um 1,1 m.kr. vegna biðlauna hjá landshöfninni í Þorlákshöfn.

471    Flugmálastjórn. Farið er fram á 12 m.kr. þar sem forsendur fjárlaga gera ráð fyrir hærri sértekjum en verða í raun. Alþjóðaflugþjónustan greiðir kostnað sem nemur 95% af launum 38 flugumferðarstjóra, en ekki 41 eins og áætlað var í fjárlögum.

485    Ýmis framlög. Farið er fram á 1 m.kr. vegna aukins kostnaðar Rannsóknarnefndar flugslysa.


12 Viðskiptaráðuneyti



    Til viðskiptaráðuneytis er farið fram á viðbótarheimild að fjárhæð 300 m.kr.

201    Niðurgreiðslur á vöruverði. Farið er fram á 300 m.kr. Meginfrávik frá áætlun fjárlaga fellst í viðbótargreiðslum vegna vaxta- og geymslugjalds, eða um 130 m.kr. Forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir að taka upp raunvaxtaviðmiðun í stað nafnvaxta við ákvörðun gjaldsins, en sú ákvörðun hefur enn ekki komið til framkvæmda. Vegna gjaldþrots Álafoss hf. í fyrra safnaðist upp mikil ull hjá bændum sem hefur verið metin síðar. Þannig er fyrirséð um 80 m.kr. fjárvöntun vegna niðurgreiðslna á ull. Mjólkur- og samkeppnisniðurgreiðslur stefna í um 90 m.kr. fjárvöntun sem skýrist aðallega af birgðasöfnun þar sem þessar greiðsl ur leggjast af um næstu áramót.


14 Umhverfisráðuneyti



    Til umhverfisráðuneytis er farið fram á viðbótarheimild að fjárhæð 6,8 m.kr.

101    Aðalskrifstofa. Farið er fram á 6,8 m.kr. af þremur tilefnum. Í fyrsta lagi 2,5 m.kr. vegna stofnkostnaðar umfram áætlun við flutning skrifstofunnar í stærra húsnæði. Í öðru lagi er kostnaður vegna húsaleigu og ræstingar hærri í nýju húsnæði en í því eldra. Loks er sótt um viðbótarfjárheimild til greiðslu dagpeninga og ferðakostnaðar vegna námsleyfis starfsmanns ráðuneytisins.

Fylgiskjal.


Flutningur inneigna og skulda yfir áramótin 1991–1992.