Ferill 155. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 155 . mál.


177. Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Flm.: Finnur Ingólfsson, Svavar Gestsson, Valgerður Sverrisdóttir,


Kristín Ástgeirsdóttir, Páll Pétursson.



     Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd til að endurskoða lög nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Nefndin skal m.a. skipuð fulltrúum allra þeirra námsmannasamtaka sem hagsmuna eiga að gæta og fulltrúum allra þeirra stjórnmálaflokka sem nú eiga sæti á Alþingi. Í starfi sínu skal nefndin hafa hliðsjón af þeirri reynslu sem fengin er af nýsettum lögum um Lánasjóðinn og þeim tillögum sem fram hafa komið á Alþingi og frá námsmönnum um breytingar á lögunum.

Greinargerð.


     Reynslan af lögunum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, sem sett voru í vor, er smátt og smátt að koma í ljós. Því miður virðast spár þeirra sem svartsýnastir voru sl. vetur og vor þegar frumvarpið um Lánasjóð íslenskra námsmanna var til meðferðar á Alþingi ætla að ganga eftir. Fækkun innritana í Háskólann og breyting á framtíðaráformum mikils fjölda stúdenta eru fyrstu vísbendingar um hversu alvarlegar afleiðingar þessi lög geta haft fyrir íslenskt þjóðfélag. Undirbúningur og meðferð málsins á Alþingi var með þeim hætti að útilokað var að ná samstöðu um þær breytingar, sem flestir voru þó sammála um að nauðsynlegt hafi verið að gera á gömlu lögunum um Lánasjóðinn, án þess þó að taka þær kollsteypur sem núgildandi lög munu hafa í för með sér. Námsmenn voru ekki hafðir með í ráðum nema að mjög takmörkuðu leyti við undirbúning málsins. Þá var öllum breytingartillögum við frumvarpið, svo og öllum tillögum stjórnarandstöðunnar um samstarf og samvinnu milli hennar og ríkisstjórnarinnar um lagasetninguna, hafnað af ríkisstjórnarflokkunum. Þegar þannig er að verki staðið er ljóst að útilokað er að skapa sátt um svo stórt og mikilvægt mál sem lögin um Lánasjóð íslenskra námsmanna eru.
     Fyrri lög um námslán og námsstyrki voru frá árinu 1982. Þau voru í raun samningur milli ríkisvaldsins og námsmanna því að þáverandi menntamálaráðherra, Ingvar Gíslason, skipaði nefnd sem í voru fulltrúar allra þeirra stjórnmálaflokka sem þá áttu sæti á Alþingi, auk námsmanna. Nefnd þessi komst að sameiginlegri niðurstöðu og voru tillögur hennar samþykktar á Alþingi. Sú samstaða, sem náðist árið 1982 um lögin um Lánasjóðinn, byggðist á eftirfarandi grundvallaratriðum:
    Að hlutverk Lánasjóðsins væri að jafna aðstöðu manna til náms.
    Að tekið væri tillit til aðstæðna námsmanna meðan á námi stæði.
    Að við endurgreiðslu námslánanna að námi loknu skyldi tekið tillit til tekna lánþega.
    Að lánin skyldu ekki bera vexti.
    Að endurheimtuhlutfall lánanna skyldi vera sem hæst.
    Fullyrða má að öll þessi markmið gengu eftir nema endurheimtuhlutfall lánanna var lægra en áætlað var að það yrði í upphafi. Í síðustu ríkisstjórn voru lögin svo framkvæmd undanbragðalaust í góðri samvinnu við námsmenn og aðra þá sem hlut eiga að máli. Skerðing menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins á framfærslulánum var felld niður.
    Núgildandi lög, sem sett voru sl. vor um Lánasjóð íslenskra námsmanna, þurrka því miður út eða veikja öll þessi grundvallarmarkmið sem samkomulag náðist um á sínum tíma. Jafnrétti til náms er ekki lengur tryggt. Það er síður tekið tillit til aðstæðna námsmanna meðan á námi stendur. Vextir eru lagðir á námslán. Það eina sem eftir stendur af markmiðunum, sem hin víðtæka samstaða náðist um, er að lánþegar eiga að endurgreiða lánin í samræmi við tekjur sínar. Hins vegar er svo hert á tekjutengingunni að þeir sem bera ábyrgð á þessum lögum eru að vísa vandamálum samtímans yfir á framtíðina og skapa þannig fortíðarvanda.
     Tilgangurinn með flutningi þessarar tillögu til þingsályktunar er fyrst og fremst sá að gera tilraun til að skapa aftur það trúnaðartraust sem í grundvallaratriðum hefur ríkt milli námsmanna og ríkisvalds á undanförnum árum. Slíkt ætti að takast setjist þessir aðilar niður og leiti samstöðu um nýtt frumvarp til laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna þar sem áðurnefnd grundvallarmarkmið yrðu tryggð.