Ferill 175. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 175 . mál.


201. Frumvarp til laga



um breytingu á landgræðslulögum, nr. 17 24. apríl 1965.

Flm.: Ólafur Þ. Þórðarson, Össur Skarphéðinsson, Kristinn H. Gunnarsson.



1. gr.


    12. gr. laganna orðast svo:
    Þegar land, sem Landgræðsla ríkisins hefur tekið til græðslu með samkomulagi, sbr. 7. gr., er svo vel gróið að dómi landgræðslustjóra að eigi er nauðsyn frekari aðgerða frá hendi Landgræðslunnar skal afhenda það aftur eigendum. Landgræðslustjóri setur reglur um meðferð landsins.
    Ef eigandi eða leigutaki vill fá landið fyrr en landgræðslustjóri telur hæfilegt eða vill ekki sætta sig við reglur landgræðslustjóra um meðferð landsins getur eigandi eða leigutaki áfrýjað til landbúnaðarráðherra sem skeri úr málinu að fengnu áliti Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og sérfræðinga Búnaðarfélags Íslands.
    Aldrei skal þó halda landi fyrir landeiganda lengur en í 30 ár enda skuldbindi landeigandi sig til að viðhalda og bæta það gróðurfar sem þá er á landinu.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með þessari breytingu, sem hér er verið að leggja til á landgræðslulögum, er tvennt haft að leiðarljósi. Í fyrsta lagi er eðlilegt að hægt sé að áfrýja ágreiningsmálum við landgræðsluna til æðra stjórnvalds. Í annan stað verður að líta svo á að uppgræðsla á ákveðnu landsvæði sé tímabundið verkefni og að viðhald gróðurs og frekari uppgræðsla sé eðlilegt verkefni landeiganda.
    Eignarrétti á landi eiga að fylgja skyldur samhliða réttindum. Það er aftur á móti óeðlilegt að Landgræðslan taki land til uppgræðslu en sinni lítt því verkefni, m.a. vegna féleysis, en haldi landinu fyrir eiganda þess áratug eftir áratug án þess að skila því.