Ferill 184. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 184 . mál.


211. Frumvarp til laga



um flutning ríkisstofnana.

Flm.: Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Kristín Ástgeirsdóttir.



1. gr.


    Markmið laga þessara er að jafna aðstöðu landsmanna gagnvart rekstri ríkisstofnana. Á næstu tíu árum skal vinna eftir áætlun um flutning ríkisstofnana út á land, sbr. 3. gr. Forsætisráðherra fer með þau málefni sem lögin varða.

2. gr.


    Við lok tímabilsins skulu 40% af starfsemi ríkisstofnana, reiknuð sem hlutfall af heildarlaunagreiðslum, fara fram utan höfuðborgarsvæðisins.
     Ákvæði varðandi einstakar stofnanir skal setja í sérlög þeirra.

3. gr.


    Byggðastofnun skal annast áætlunargerð og umsjón samkvæmt lögum þessum fyrir hönd forsætisráðherra. Forsætisráðherra gerir Alþingi grein fyrir framkvæmd áætlunarinnar í árlegri skýrslu sinni um Byggðastofnun.

4. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Á allra síðustu árum hefur verið vaxandi umræða um uppbyggingu opinberrar þjónustu hér á landi. Fyrir þann tíma hafði nánast öll umræða um eflingu atvinnulífs á landsbyggðinni beinst að framleiðslugreinunum. Það er ekki fyrr en augu manna opnast fyrir því hve þjónustustarfsemi er orðin afgerandi þáttur í atvinnulífinu, og þá sérstaklega hvað varðar ný störf, að umræða hefst í alvöru um að ekki sé gefið að hagkvæmt sé að nánast öll sameiginleg starfsemi þjóðarinnar fari fram á einum stað. Í framhaldi af því hefur komið upp umræða um að æskilegt geti talist að flytja ríkisstofnanir út á land. Sú umræða hefur verið handahófskennd og æskileg markmið hefur skort. Leiða má að því líkur að í þjóðfélagi, þar sem sífellt færri hendur vinna við að sinna frumþörfum þegnanna, ráði þróun þjónustugreinanna stöðugt meira um atvinnuþróun og búsetu. Ef til vill finnst einhverjum að þau markmið, sem hér eru sett fram, beri ekki vott um mikinn metnað, þ.e. að tæp 8% af núverandi umfangi ríkisrekstrar verði flutt út á land. Þess ber hins vegar að gæta í þessu sambandi að á síðustu árum hefur hallað á hina hliðina. Á árunum 1983 til og með 1991 hafa launagreiðslur ríkisins á landsbyggðinni dregist hlutfallslega saman um 6% á meðan íbúum hefur fækkað um 4%. Af því má ráða að hér er verið að leggja til að þessari þróun verði snúið við á mjög róttækan hátt. Þetta gerist á sama tíma og átt hefur sér stað veruleg uppbygging á landsbyggðinni á sviði heilsugæslu, sjúkrahúsa og framhaldsskóla. Það má því draga þá ályktun að verði ekki spyrnt við fótum muni þessi þróun verða enn hraðari. Með þessu frumvarpi er á engan hátt verið að vinna gegn hagsmunum höfuðborgarinnar.
    Flutningsmenn telja að öflugt höfuðborgarsvæði eigi að geta verið stolt allrar þjóðarinnar. Hins vegar er jafnljóst að flutningur fólks af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins í þeim mæli, sem spáð er á næstu árum, er engum til góðs. Slíkri þróun munu fylgja ófyrirséð félagsleg og efnahagsleg vandamál. Það er skoðun flutningsmanna að þeim markmiðum, sem sett eru fram í frumvarpi þessu, sé hægt að ná án þess að á nokkurn hátt sé vikið frá hagkvæmnisjónarmiðum í rekstri ríkisstofnana. Reyndar má leiða að því líkur að slík þróun geti á mörgum sviðum gert hið opinbera kerfi skilvirkara og sveigjanlegra, m.a. með því að færa verkefni til sveitarfélaga eða samtaka þeirra. Flutningsmenn telja að hér sé um það stórt mál að ræða og þróun þess geti haft svo afdrifaríkar afleiðingar fyrir þróun íslensks þjóðfélags að full ástæða sé til að setja lög þar um þannig að fyrir liggi skýr ákvörðun Alþingis í málinu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 2. gr.


    Breytingin miðast við stöðuna eins og hún var á árinu 1991. Miðað er við greidd laun hjá Launaskrifstofu ríkisins og sjúkrastofnunum á þeim tíma og markmið frumvarpsins reiknað út frá þeim. Á þeim tíma var skiptingin eftirfarandi: Höfuðborgarsvæðið 67,63% og landsbyggðin 32,37%. Markmiðum frumvarpsins er hægt að ná m.a. með flutningi ríkisstofnana í heilu lagi á lengri eða skemmri tíma, með flutningi á hluta af stofnunum, með samningum við einstaklinga eða félög um sérstök verkefni eða flutningi verkefna til sveitarfélaga eða samtaka þeirra.

Um 3. og 4. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.