Ferill 188. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 188 . mál.


218. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 21 5. maí 1990, um lögheimili.

Flm.: Ólafur Þ. Þórðarson.



1. gr.


    Á eftir 3. mgr. 4. gr. laganna kemur ný svohljóðandi málsgrein:
     Manni, sem býr á dvalarheimili aldraðra eða í öðru húsnæði sem sérstaklega er ætlað öldruðum, skal heimilt að eiga áfram lögheimili í því sveitarfélagi þar sem hann hafði fasta búsetu áður.

2. gr.


    Við 5. mgr. 4. gr. laganna (er verður 6. mgr.) bætist nýr málsliður svohljóðandi: Sama gildir um lögheimili manns skv. 4. mgr.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


     Á Alþingi voru 21. apríl 1990 samþykkt lög um lögheimili, nr. 21/1990, og leystu þau af hólmi lög nr. 35 30. maí 1960. Samkvæmt lögunum er meginreglan sú að maður eigi lögheimili þar sem hann hefur fasta búsetu, sbr. 1. gr. Í 4. gr. eru gerðar undantekningar frá meginreglunni varðandi námsmenn, alþingismenn og ráðherra.
     Með lögum nr. 68/1982 voru gerðar breytingar á þágildandi lögum um lögheimili, nr. 35/1960, þess efnis að menn gætu ekki átt lögheimili á elliheimilum eða í sérhönnuðum heimilum og íbúðum aldraðra eða öryrkja, byggðum í tengslum við þjónustumiðstöð aldraðra eða heilsugæslustöð, nema sveitarstjórn heimilaði undantekningu. Var því í raun lagt bann við að menn gætu átt lögheimili á elliheimili eða í íbúðum aldraðra. Sú takmörkun var felld niður með gildandi lögum og er nú gert ráð fyrir að menn eigi lögheimili á dvalarheimilum aldraðra, enda er ljóst að þeir sem flytja þangað koma til með að dveljast þar til frambúðar og taka þar upp fasta búsetu. Áðurnefnt bann gat valdið öldruðum ýmsum vandkvæðum og gert þá mun háðari ættingjum sínum og venslafólki en ella. Núgildandi regla er þó engan veginn gallalaus og í raun aðför að persónufrelsi og réttarstöðu manna. Eru það og sjálfsögð mannréttindi að fá að eiga lögheimili þar sem menn hafa lengstum búið og unnið ævistarf sitt.
     Með frumvarpi þessu er lagt til að tekin verði í lög heimild til handa þeim sem búa í húsnæði, sem ætlað er öldruðum, til að eiga áfram lögheimili í því sveitarfélagi þar sem þeir höfðu fasta búsetu áður. Víða um land er málum þannig háttað að nokkur sveitarfélög reka saman dvalarheimili fyrir aldraða í einu þeirra, oftast þéttbýlisstað. Verði frumvarp þetta að lögum geta menn eftir sem áður átt lögheimili í sínu gamla sveitarfélagi enda þótt þeir flytjist búferlum á dvalarheimili í öðru sveitarfélagi. Gefst þeim þar með kostur á að halda áfram tryggð við sitt sveitarfélag, en slíkt er oft mikið tilfinningamál hjá gömlu fólki. Auk þess mundu aldraðir með þeim hætti geta tryggt að jarðir þeirra færu ekki í eyði með öllum þeim óþægindum sem slíku fylgir.
     Með frumvarpinu er því lagt til að gerð verði undantekning frá þeirri meginreglu sem kveðið er á um í 1. gr. laga nr. 21/1990 um fasta búsetu. Hafa ber þó í huga að eftir sem áður er gert ráð fyrir þeirri meginreglu að aldraðir eigi lögheimili á dvalarheimilum aldraðra. Hins vegar kunna þær aðstæður að vera fyrir hendi að slík lögheimilisskráning geti valdið öldruðum tjóni, hvort heldur er fjárhagslegu eða tilfinningalegu. Er því nauðsynlegt að í lögunum sé heimild þeim til handa til að eiga lögheimili í því sveitarfélagi sem þeir áttu fasta búsetu í áður. Munu slík tilvik væntanlega verða sjaldgæf. Gert er ráð fyrir að þessi heimild gildi um allt húsnæði sem ætlað er öldruðum. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort viðkomandi á umrætt húsnæði eður ei.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með greininni er gert ráð fyrir að lögfest verði sérstök heimild fyrir íbúa á dvalarheimili aldraðra eða í öðru húsnæði, sem sérstaklega er ætlað öldruðum, til að eiga lögheimili áfram í sveitarfélagi þar sem þeir höfðu áður fasta búsetu.

Um 2. gr.


    Með greininni er gerð breyting á 5. mgr. 4. gr. gildandi laga þess efnis að verði ágreiningur um lögheimili manns, sem býr í húsnæði fyrir aldraða, skuli hann sjálfur ákveða hvar það skuli vera. Geri hann það hins vegar ekki ákveði Þjóðskráin það. Er hér um viðbót við málsgreinina að ræða.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.