Ferill 45. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 45 . mál.


227. Nefndarálit



um frv. til l. um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra.

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund Árna Kolbeinsson, ráðuneytisstjóra sjávarútvegsráðuneytisins, Brynjólf Sandholt yfirdýralækni, Gísla Jón Kristjánsson fiskmatsstjóra, Einar M. Jóhannsson frá Ríkismati sjávarafurða, Árna Benediktsson og Aðalstein Gottskálksson frá Íslenskum sjávarafurðum hf., Kristján Ragnarsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Sturlaug Daðason frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Jón Friðjónsson frá Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda. Þá studdist nefndin við umsagnir er bárust á 115. þingi frá Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Íslenskum sjávarafurðum hf., Fiskiðn, Vélstjórafélagi Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Fiskmatsmannafélagi Íslands, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Ríkismati sjávarafurða, Félagi íslenskra fiskmjölsframleiðenda, Félagi rækju- og hörpudiskframleiðenda, Landssambandi smábátaeigenda, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Samtökum fiskvinnslustöðva, Hollustuvernd ríkisins og yfirdýralækni.
    Nefndin leggur til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
    Lagðar eru til breytingar á 2. og 3. gr. Annars vegar að fellt verði úr 2. gr. að ferskvatnsdýr teljist til sjávarafla. Er það gert í því skyni að forðast skörun við lög um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970. Hins vegar er lagt til að ákvæði um eftirlit vinnslu, slátrunar og pökkunar ferskvatnsdýra bætist inn í 3. gr. til þess að náð verði því markmiði að eftirlit með veiðum og hagnýtingu sjávarafurða og eftirlit með vinnslu og pökkun afurða hafbeitar- og eldisfisks verði í höndum sama aðila.
    Lagt er til að við 6. gr. bætist ákvæði þess efnis að við innflutning lifandi fiska, skrápdýra, liðdýra og lindýra, sem lifa í söltu vatni, skuli höfð hliðsjón af lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990, og er það til að tryggja samræmi við meðferð þessara mála.
3.        Samkvæmt 14. gr. frumvarpsins er það skylda fyrirtækis eða útgerðar skips að hafa samning við viðurkennda skoðunarstofu. Lagt er til að ráðherra geti veitt undanþágur frá þessari skyldu enda helgist það af sérstökum ástæðum, t.d. ef erfitt er vegna staðsetningar fyrirtækis að koma við því fyrirkomulagi sem greinin gerir ráð fyrir eða ef fyrirtækin hafa sjálf byggt upp gæðaeftirlit innan sinna vébanda sem fullnægja öllum kröfum.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með þessum breytingum. Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja breytingartillögur eða fylgja þeim sem fram kunna að koma. Anna Ólafsdóttir Björnsson, fulltrúi Samtaka um kvennalista, sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi.

Alþingi, 3. nóv. 1992.



Matthías Bjarnason,

Össur Skarphéðinsson.

Árni R. Árnason.


form., frsm.



Guðmundur Hallvarðsson.

Vilhjálmur Egilsson.

Steingrímur J. Sigfússon,


með fyrirvara.



Jóhann Ársælsson,

Stefán Guðmundsson,

Halldór Ásgrímsson,


með fyrirvara.

með fyrirvara.

með fyrirvara.