Ferill 207. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 207 . mál.


248. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Flm.: Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson,


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Einarsdóttir.



1. gr.


    Á eftir 3. mgr. 6. gr. laganna kemur ný málsgrein er orðast svo:
    Nú verður breyting á reglum um úthlutun námslána, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 5. gr., eða á lögum þessum á þeim tíma sem námsmaður er í námi og getur hann þá valið milli þess að fá lánað eftir þeim reglum og vaxtakjörum sem giltu er hann hóf nám sitt eða að taka lán eftir nýjum reglum. Gildir þetta þar til hann hefur lokið námi á þeirri námsbraut sem hann stundar nám á þegar breyting verður.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Hver sá námsmaður, sem ákveður að hefja nám, hlýtur að gera áætlun um það hvernig hann fjármagnar nám sitt. Þá áætlun gerir hann með tilliti til þeirra laga og reglugerða sem í gildi eru þegar hann tekur ákvörðunina. Það er því eðlilegt að hann geti treyst því að þær reglur gildi þann tíma sem námið stendur, en það sé ekki háð ákvörðunum stjórnvalda frá degi til dags að kollvarpa öllum þeim forsendum sem námsmaðurinn gaf sér. Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur á undanförnum árum tekið miklum breytingum frá ári til árs. Það hlýtur að vera afar erfitt fyrir námsmenn og fjölskyldur þeirra að standa frammi fyrir því óöryggi sem slíkt veldur.
    Ekki ætti að vera erfiðara fyrir stjórn sjóðsins að framfylgja breytilegum lögum en breytilegum reglugerðum. Má í því sambandi benda á ákvæði í úthlutunarreglum LÍN 1992–1993, en þar segir svo um lán vegna skólagjalda erlendis: „Þeir sem fengu lán vegna skólagjalda á námsárinu 1991/1992 í samræmi við eldri reglur fá áfram skólagjaldalán samkvæmt þeim reglum til að ljúka námi.“
    Sú breyting, sem hér er lagt til að gerð verði á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, væri spor í þá átt að auka traust almennings á stjórnvöldum. Allt of oft gerist það að því trausti er misboðið með ýmsum hætti. Þar má nefna samskipti ríkisvaldsins við sveitarfélögin í landinu vegna fjárlagagerðar, vaxtaákvarðanir í húsnæðismálum o.fl.
    Flutningsmenn telja að lög um LÍN hafi breyst á undanförnum árum til hins verra. Sú breyting, sem hér er lögð til, er ein sú brýnasta sem gera þarf á þessum lögum þótt full ástæða sé til að breyta fleiri ákvæðum þessara laga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að gerð verði breyting á lögum eða reglum um úthlutun námslána á meðan námsmaður er í námi sem hafið var meðan fyrri lög og reglur giltu. Þá geti hann valið um hvort hann tekur lán samkvæmt breyttum lögum og reglum eða nýtir sér rétt sinn til að taka lán samkvæmt eldri lögum og reglum sjóðsins.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.