Ferill 209. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 209 . mál.


250. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 29/1978, um geymslufé.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



1. gr.


    1. gr. laganna orðast svo:
     Hver sá, sem inna á af hendi peningagreiðslu en fær ekki greitt kröfueiganda vegna aðstæðna eða atvika sem kröfueigandi ber ábyrgð á, getur fullnægt greiðsluskyldu sinni með því að greiða skuldina á geymslureikning í viðskiptabanka eða sparisjóði.

2. gr.


     Lög þessi öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið öðlast
gildi að því er Ísland varðar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram sem fylgifrumvarp frumvarps til laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 9/1978, um geymslufé, geta menn fullnægt greiðsluskyldu sinni með því að greiða skuld sína á geymslureikning í „ríkisviðskiptabanka eða annarri þeirri innlánsstofnun, sem heimild hefur lögum samkvæmt til þess að taka við geymslufé“. Einungis ríkisviðskiptabankar hafa því beina heimild til að taka við geymslufé samkvæmt þessum lögum. Hins vegar hafa aðrir viðskiptabankar og sparisjóðir notið samsvarandi heimilda samkvæmt ákvæðum 31. gr. laga nr. 86/1985, um viðskiptabanka, og 35. gr. laga nr. 87/1985, um sparisjóði.
     Í áðurnefndu frumvarpi til laga um viðskiptabanka og sparisjóði er gert ráð fyrir að almennar heimildir þessara stofnana til móttöku geymslufjár verði felldar niður í trausti þess að ákvæði 1. gr. laga um geymslufé verði breytt með þeim hætti sem hér er lagt til. Þykir þessi breyting eðlileg þar sem hún er liður í lagahreinsun og horfir til aukins réttaröryggis. Ekki er um neina efnisbreytingu að ræða þar sem viðskiptabankar og sparisjóðir, þar með taldir ríkisviðskiptabankar, eru einu innlánsstofnanir sem heimilt er samkvæmt gildandi lögum að taka við geymslufé frá almenningi. Því er ekki verið að þrengja heimildir til að taka við geymslufé frá því sem nú er.
     Gildistaka frumvarpsins er miðuð við gildistöku samnings um Evrópskt efnahagssvæði. Eins og fyrr sagði er frumvarp þetta fylgifrumvarp með frumvarpi til laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Þykir því eðlilegt að miða gildistöku þess við sama tímamark og þar er mælt fyrir um.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 9/1978, um geymslufé.



    Frumvarp þetta fjallar um greiðslu skulda á geymslureikning í bönkum og sparisjóðum og hefur á engan hátt áhrif á útgjöld ríkissjóðs.