Ferill 226. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 226 . mál.


283. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 96/1990, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



1. gr.


    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem verður IV, svohljóðandi:
     Á árinu 1993 skulu sveitarfélög greiða 500 m.kr. til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Sveitarfélög með 300 íbúa eða fleiri greiði 1.950 kr. fyrir hvern íbúa en sveitarfélög með færri en 300 íbúa greiði 1.170 kr. á hvern íbúa. Miða skal við íbúafjölda 1. desember 1992. Um innheimtu gjaldsins skal fjármálaráðherra setja reglugerð.
     Þrátt fyrir ákvæði 47. gr. skal stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimilt á árinu 1993 að gera tillögur um ráðstöfun á þessu fjármagni til að styrkja sérstök verkefni á vegum sveitarfélaga til eflingar atvinnulífs, enda dragi samsvarandi úr greiðslum atvinnuleysisbóta á hverjum stað. Úthlutun styrkja skal vera í samræmi við reglur sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setur að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Tveir fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga skulu taka sæti í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs þegar styrkumsóknir eru teknar til umfjöllunar og afgreiðslu. Tillögur sjóðstjórnar um styrkveitingar skulu staðfestar af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 10. október 1992 var undirritað samkomulag ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um aðgerðir til að draga úr atvinnuleysi á árinu 1993. Samkomulagið er svohljóðandi:
    „Samband íslenskra sveitarfélaga mælir með því við sveitarfélögin að þau leggi fram á árinu 1993 fjárframlag, 500 m.kr., í Atvinnuleysistryggingasjóð. Framlagið verður miðað við íbúafjölda sveitarfélaga.
    Vegna þessa fjárframlags sveitarfélaganna mun ríkisstjórnin gera ráðstafanir til þess að á árinu 1993 verði Atvinnuleysistryggingasjóði heimilað að ráðstafa því fjármagni, þó þannig að dragi samsvarandi úr atvinnuleysisbótum og að uppfylltum reglum sem settar verða um úthlutun úr sjóðnum. Þessum greiðslum skal einungis varið til sérstakra verkefna til eflingar atvinnulífs á vegum sveitarfélaga. Samband íslenskra sveitarfélaga skal fá aðild að ákvörðunum um ráðstöfun þessa fjármagns.
    Ofangreindar ráðstafanir gilda eingöngu á árinu 1993 og mun ríkisstjórnin beita sér fyrir nauðsynlegum lagabreytingum.
    Aðilar eru sammála um að framvegis verði tillögur um meiri háttar breytingar á fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga og tekjustofnum sveitarfélaga, sem kveðið er á um í lögum eða gert hefur verið sérstakt samkomulag um, teknar til umfjöllunar í sérstakri samráðsnefnd þeirra. Skulu ákvæði um slíka samráðsnefnd sett í nýjan samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga er öðlast gildi í ársbyrjun 1993, en núverandi samstarfssáttmáli aðila rennur út um næstu áramót.“
    Vegna þessa samkomulags er nauðsynlegt að setja nýtt ákvæði til bráðabirgða við lög um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið er á um greiðslu framlags sveitarfélaga til Atvinnuleysistryggingasjóðs á árinu 1993 og fjárhæð framlagsins miðað við hvern íbúa. Eðlilegt er talið að hafa framlagið mismunandi eftir stærð sveitarfélaga þannig að sveitarfélög með 300 íbúa eða fleiri greiði 1.950 kr. á hvern íbúa en sveitarfélög með færri en 300 íbúa greiði 1.170 kr. á hvern íbúa. Gert er ráð fyrir að miðað við 1. desember 1992 séu sveitarfélög með 300 íbúa eða fleiri samtals 78 með samtals 247.541 íbúa en sveitarfélög með 300 íbúa eða færri séu samtals 123 með 15.299 íbúa. Miðað við þessar forsendur mun framlag sveitarfélaganna verða 500,6 m.kr. Gert er ráð fyrir að fjármálaráðherra setji reglugerð um innheimtu framlagsins.
     Í bráðabirgðaákvæðinu eru og settar skýrar reglur um það að styrkur Atvinnuleysistryggingasjóðs til sveitarfélaga vegna eflingar atvinnulífs verður að draga samsvarandi úr greiðslu atvinnuleysisbóta á hverjum stað. Sömuleiðis er ákveðið að Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefni tvo fulltrúa sem taka sæti í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs þegar styrkumsóknir sveitarfélaga eru til umfjöllunar og afgreiðslu. Loks kemur fram að um styrki þessa skal setja nánari ákvæði í reglugerð og að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skuli staðfesta tillögur sjóðstjórnar um styrki.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar,

nr. 96/1990, með síðari breytingum.



    
Frumvarpið er lagt fram í kjölfar samkomulags á milli ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um aðgerðir til að draga úr atvinnuleysi.
     Samkvæmt spám um mannfjölda í desember 1992 munu þær fjárhæðir, sem tilgreindar eru í frumvarpinu, skila um 500 m.kr. í tekjur árið 1993. Frumvarpið gerir ráð fyrir að fénu verði varið til eflingar atvinnulífs á þann hátt að dragi samsvarandi úr greiðslum atvinnuleysisbóta. Ekki er ástæða til að gera ráð fyrir öðru en að gjaldið innheimtist að fullu. Verður því ekki annað séð en að fjárhagsleg markmið frumvarpsins standist og framlög ríkissjóðs til sjóðsins verði um 500 m.kr. lægri en annars hefði orðið.