Ferill 229. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 229 . mál.


286. Tillaga til þingsályktunar



um sérstakt tilraunaverkefni framhaldsskóla á Austurlandi.

Flm.: Einar Már Sigurðarson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að undirbúa í samvinnu við framhaldsskóla og fulltrúa aðila vinnumarkaðarins á Austurlandi sérstakt tilraunaverkefni um stóraukna samvinnu skóla og atvinnulífs. Tilraunin nái til starfsnáms, verkmennta og fullorðinsfræðslu.

Greinargerð.


    Í mörg ár hafa átt sér stað miklar umræður um nauðsyn þess að auka samvinnu skóla og atvinnulífs. Þrátt fyrir almennan vilja um aukna samvinnu hefur árangurinn ekki verið sem skyldi. Einn höfuðvandi íslenska framhaldsskólakerfisins í dag er að ekki hefur tekist að skapa nægjanleg tengsl við atvinnulífið, en þetta er ekki síður vandi þess.
    Grundvöllur þessarar samvinnu er gagnkvæmt traust milli aðila. Því miður hafa fulltrúar atvinnulífs og skóla stundum ásakað hvorir aðra um að bera sök á ástandinu. Þannig hafa fulltrúar atvinnulífs ásakað skólakerfið um að vera ekki í takt við það sem gerist í atvinnulífinu og þess vegna mennti skólakerfið ekki nemendur í samræmi við þarfir atvinnulífsins. Á móti segja skólamenn að frá atvinnulífinu komi ekki fram þær kröfur um breytingar sem talin er þörf á, jafnvel þótt eftir þeim sé leitað.
    Á Austurlandi eru tengsl skóla og atvinnulífs með þeim hætti að búast má við að auðvelt verði að koma á góðu samstarfi milli aðila verði staðið að því á skipulegan og markvissan hátt. Framhaldsskólar á Austurlandi hafa haft með sér náið samstarf um margra ára skeið, m.a. í stjórnunarnefnd framhaldsnáms á Austurlandi sem starfað hefur á annan áratug. Með tilkomu Farskóla Austurlands, sem var fyrsti skóli sinnar tegundar á landinu og er samstarfsverkefni Verkmenntaskóla Austurlands og Atvinnuþróunarfélags Austurlands, hefur samstarf skóla og atvinnulífs aukist verulega, sjá fskj. I. Menntaskólinn á Egilsstöðum hefur skipulagt skógræktarbraut í samvinnu við Skógrækt ríkisins og Héraðsskóga og fjarkennsla hefur verið stunduð við skólann í tilraunaskyni um nokkurt skeið. Þá má nefna að nýlega hefur Verkmenntaskóli Austurlands fengið heimild í tilraunaskyni til fimm ára til að þróa nýtt fyrirkomulag við gerð iðnnámssamninga þar sem skólinn er milliliður milli iðnnema og iðnmeistara, sjá fskj. II.
    Nauðsynlegt er fyrir íslenskt samfélag að takast megi að tryggja gott samstarf skóla og atvinnulífs. Hér er lagt til að staðið verði að raunhæfri tilraun án þess að hendur aðila verði of bundnar þótt lögð sé sérstök áhersla á þá þætti sem mikilvægastir eru, þ.e. starfsnám, verkmenntun og fullorðinsfræðslu.
Fylgiskjal I.

Farskólinn Austurlandi:

Starf Farskólans á Austurlandi 1991–1992.


    Starfsemi Farskólans var með hefðbundnu sniði á því starfsári sem er að ljúka. Alls voru haldin 20 námskeið á átta stöðum í fjórðungnum sem er svipað og undanfarin ár og var fjöldi kennslustunda 830 sem skiptist á tæplega 200 þátttakendur.
    Segja má að starfsemi Farskólans stefni jafnt og þétt í lengri starfsmenntunar- og réttindanám sem sést á því að haldin voru námskeið sem gefa starfsréttindi á sviði 30 tonna skipstjórnar, svæðisleiðsagnar og vélavarða.
    Skipulagning og framkvæmd slíkra námskeiða er mjög tímafrek og bitnar oft á framkvæmd ýmissa annarra starfsmenntunarnámskeiða sem einnig þarfnast mikils undirbúnings.
    Samstarfsaðilar Farskólans voru frá Austurlandi og af Reykjavíkursvæðinu, allt sérhæfðir aðilar hver á sínu sviði.
    Eftir fjögurra ára starf Farskólans var á liðnum vetri litið um öxl og starfsemin og árangur liðinna ára vegin og metin. Viðræður við helstu samstarfsaðila okkar leiddu síðan í ljós að fullur vilji er á frá þeirra hendi, svo og okkar, að efla það samstarf sem náðst hefur og reyna að skipuleggja námskeiðin fram í tímann eins og kostur er.
    Sá þáttur, sem sannfærir okkur um að við séum á réttri braut, er allar þær beiðnir og fyrirspurnir sem til okkar koma um æ fleiri námskeið og þá sérstaklega í starfsendurmenntun, en vandamálið er ekki hvort við fáum þátttakendur, heldur hvort við höfum nægan tíma til að skipuleggja og undirbúa námskeiðin svo að vel fari.

Jóhann G. Stephensen.




Fylgiskjal II.


Bréf menntamálaráðuneytis til Alberts Einarssonar,


skólameistara Verkmenntaskóla Austurlands.


(19. október 1992.)



    Vísað er til bréfs yðar, ódagsett en móttekið 19. sept. 1991, þar sem farið er fram á að Verkmenntaskóla Austurlands verði veitt heimild til að hlutast til um gerð iðnnámssamninga í Austfirðingafjórðungi.
    Ráðuneytið heimilar skólanum hér með að gera tilraun með atvinnumiðlun iðnnema, þ.e. að iðnfulltrúi Austurlands annist framkvæmdina í samræmi við bréf yðar, dags. 14. apríl 1992. Miðað við lengd iðnnáms er eðlilegt að tilraun þessi standi í fimm ár. Ráðuneytið fer fram á að skólinn skili skýrslu um framgang tilraunarinnar eftir hvert tilraunaár.
    Hins vegar getur ráðuneytið ekki orðið við beiðni yðar um að ráða starfsmann í 1 / 2 stöðu atvinnulífstengils. Ráðuneytið er aftur á móti reiðubúið til að veita einhvern styrk til verkefnisins að fenginni sundurliðaðri kostnaðaráætlun.