Ferill 237. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 237 . mál.


301. Tillaga til þingsályktunar



um ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins 1992.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Árni Johnsen, Jón Helgason,


Anna Ólafsdóttir Björnsson, Rannveig Guðmundsdóttir.



    Alþingi ályktar að beina þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að vinna að framkvæmd eftirfarandi ályktana Vestnorræna þingmannaráðsins sem samþykktar voru á fundi ráðsins á Akureyri 15. júní 1992:
    Ályktun um að landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands taki upp samstarf um gagnasöfnun varðandi sameiginlega sjávarútvegssögu vestnorrænu þjóðanna. Lagt er til að sérstakur gaumur verði gefinn að gögnum um fiskveiðar Færeyinga við Grænland og Ísland frá lokum 19. aldar og fram á miðja 20. öld.
    Ályktun um að landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands styrki samstarf landanna um upplýsingamiðlun og kynningu á lífsháttum fiskveiðiþjóðanna við Norður-Atlantshaf. Stefna ber og að þátttöku í þessu samstarfi frá Noregi og þeim ríkjum Kanada þar sem lífshættir eru svipaðir.
                  Tilgangur upplýsingastarfsins á að vera að gefa umheiminum rétta mynd af lífsháttum og menningu á þessu svæði og vekja athygli á hversu háðar þjóðirnar þar eru auðlindum hafsins.
    Ályktun um að landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands láti athuga með hvaða hætti sé unnt að greiða fyrir samskiptum og örva viðskipti milli landanna.
                  Í því skyni verði m.a.
        —    skattalög og viðkomandi reglugerðir yfirfarin,
        —    tollalög og viðkomandi reglugerðir endurskoðuð,
        —    gjaldskrár fyrir póstflutninga og símaþjónustu endurskoðaðar,
        —    gjaldskrár fyrir vöruflutninga milli landanna og fyrir umskipanir endurskoðaðar,
        —    önnur atriði varðandi framkvæmd, þjónustu opinberra aðila og gjaldskrár yfirfarin.
                  Lagt er og til að stofnuð verði samstarfsnefnd, skipuð fulltrúum frá viðskiptaráðuneytum landanna þriggja, til að kanna möguleika þess að auka viðskipti milli landanna.
    Ályktun um að landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands taki upp virkara samstarf á sviði samgöngu- og ferðamála í því skyni að bæta samgöngur innan vestnorræna svæðisins og tengsl þess út á við ásamt því að styrkja ferðamannaþjónustu sem atvinnugrein á vestnorræna svæðinu.
                  Einnig er lagt til að kannaðir verði möguleikar þess að komið verði á föstum skipaflutningasamgöngum milli vestnorræna svæðisins og Stóra-Bretlands.
    Ályktun um að landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands
         
    
    standi að gerð aðgengilegs upplýsingaefnis um vestnorrænu löndin á færeysku, grænlensku og íslensku,
         
    
    stuðli að því að ráðherranefnd Norðurlanda breyti reglum þeim sem gilda um styrki til nemendaskipta og námsferða innan Nordplus-junior kerfisins þannig að þær taki til nemendaskipta og námsferða milli allra vestnorrænu ríkjanna innbyrðis.
    Ályktun um að landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands fylgi eftir því samstarfi sem hefst á vestnorrænu ráðstefnunum þremur sem haldnar verða 1992 um jafnréttis-, umhverfis- og æskulýðsmál.
    Ályktun um að landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands vinni sameiginlega að því að trygging fáist gegn því að hergögnum verði sökkt í sæ.
    Ályktun um að landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands stuðli að samvinnu á sviði tölvumála á vestnorræna svæðinu.
    Ályktun um að landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands láti endurbyggja bæ Eiríks rauða í Bröttuhlíð á Grænlandi og Þjóðhildarkirkju á sama stað.
        Endurbyggingin verði til minningar um 500 ára búsetu norrænna manna á Grænlandi.

Greinargerð.


     Tillaga þessi er flutt til að koma á framfæri við Alþingi þeim tillögum sem samþykktar voru á fundi Vestnorræna þingmannaráðsins á Akureyri 15. júní 1992.
     Sú venja hefur skapast að leggja ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins fyrir Alþingi og fá samþykki Alþingis fyrir tilmælum til ríkisstjórnar um að vinna að framgangi viðkomandi mála. Þessi tilhögun hefur tvímælalaust styrkt starf ráðsins og gefið því aukna þýðingu.
     Ályktanir ársfundarins, sem að þessu sinni var haldinn á Íslandi, eru margar um gamalkunn viðfangsefni úr hinu vestnorræna samstarfi, svo sem um aukin samskipti og aukna verslun milli landanna, samvinnu í samgöngu- og ferðamálum og upplýsingamiðlun um lifnaðarhætti í hinum vestnorrænu löndum og mikilvægi hafsins. En einnig er að finna nýjar menningarlegar og sögulegar áherslur eins og í tillögu um að skrá sameiginlega sjávarútvegssögu og samskiptasögu vestnorrænu þjóðanna á sviði fiskveiða og tillögu um endurbyggingu sögufrægra húsa í Bröttuhlíð á Grænlandi.
     Allt frá fyrstu tíð hafa fulltrúar Vestnorræna þingmannaráðsins verið óhræddir við að skoða starfsemi ráðsins sjálfs og önnur svið vestnorrænnar samvinnu með gagnrýnu hugarfari og spurt hvert starfið leiddi og hvort það skilaði þeim árangri sem til var ætlast. Ekki varð annað ráðið af umræðum á síðasta fundi ráðsins en að einhugur ríkti um að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið fyrir vestnorrænt samstarf og auka það og bæta á komandi árum. Vel heppnaðar aðgerðir á Vestnorræna árinu, eins og hið fjölmenna kvennaþing á Egilsstöðum, verða mönnum væntanlega frekari hvatning í þeim efnum.
     Nánari grein verður gerð fyrir störfum ráðsins í framsöguræðu og í árlegri skýrslu Íslandsdeildarinnar til Alþingis síðar á þessum vetri.