Ferill 240. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 240 . mál.


309. Frumvarp til skipulags-


og byggingarlaga



(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



I. KAFLI


Almenn ákvæði.


1. gr.


Markmið laganna.


     Markmið laga þessara er að byggð verði mótuð eftir skipulagsáætlunum og gæðakröfum og felld sem best að umhverfinu. Jafnframt verði stuðlað að hagkvæmri nýtingu auðlinda og landnotkun. Leitast skal við að byggð nýtist sem best, skapi gott umhverfi og að byggingar og önnur mannvirki standist settar kröfur um styrkleika, endingu, útlit, hagkvæmni, öryggi og vellíðan þeirra sem byggingarnar eða mannvirkin nota. Þá skal að því stefnt að við meðferð skipulags- og byggingarmála sé jöfnum höndum tekið tillit til eðlilegra hagsmuna einstaklinga og almannahagsmuna.

2. gr.


Skilgreiningar.


    
Í lögum þessum merkir:
     Skipulagsáætlun: Áætlun þar sem gerð er grein fyrir ákvörðunum um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar og gerð grein fyrir forsendum þeirra ákvarðana. Skipulagsáætlanir skiptast í fjóra flokka: Landsskipulag, svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag.
     Landsskipulag: Skipulagsáætlun um einstaka þætti sem varða landið allt eða tiltekna landshluta, samgöngur, fjarskipti, orkuveitur, þróun atvinnuvega, landnotkun, landnýtingu og byggð í meginatriðum. Hlutverk landsskipulags er m.a. að stuðla að samræmdri stefnu og framkvæmdum ráðuneyta, ríkisstofnana og sveitarfélaga og skapa grundvöll að gerð svæðisskipulags og aðalskipulags.
     Svæðisskipulag: Skipulagsáætlun sem tekur yfir tvö eða fleiri sveitarfélög. Svæðisskipulag skal gert í því skyni að samræma byggðaþróun á grundvelli landsskipulags og samræma ákvarðanir um landnotkun samkvæmt aðalskipulagi sveitarfélaga er saman liggja.
     Aðalskipulag: Skipulagsáætlun sem byggð er á stefnu sveitarstjórnar að því er varðar landnotkun, nýtingu lands, meginumferðaræðar og þróun byggðar í sveitarfélaginu.
     Deiliskipulag: Skipulagsáætlun sem nær yfir einstaka bæjarhluta, hverfi eða reiti innan marka aðalskipulags þar sem nánari grein er gerð fyrir landnotkun, nýtingu lands, gatnaskipulagi, fyrirkomulagi bygginga og annarri mannvirkjagerð.
     Nýtingarhlutfall: Hlutfall milli samanlagðs gólfflatar húss og lóðarstærðar. Getur einnig átt við hlutfall milli samanlagðs gólfflatar á reit milli gatna og stærðar reitsins eða samanlagðs gólfflatar og stærðar annars skilgreinds svæðis.
     Mæliblað: Uppdráttur sem sýnir legu og stærð lóðar, byggingarreit og kvaðir á lóð.
     Landnotkun: Ráðstöfun lands til mismunandi þarfa, svo sem íbúðar, iðnaðar, verslunar, vörugeymslu, útivistar, landbúnaðar o.s.frv.
     Landnýting: Sameiginlegt heiti á þeim orðum og hugtökum sem lýsa því hversu mikið land er nýtt, svo sem nýtingarhlutfall, þéttleiki byggðar, ítala, leyfileg umferð um útivistarsvæði, landbúnaðarframleiðsla o.s.frv.
     Þéttleiki byggðar: Hlutfallið milli samanlagðs gólfflatar og stærðar svæðis eða bæjarhluta. Í íbúðahverfum er þéttleika byggðar einnig lýst sem fjölda íbúða á hektara lands.
     Byggingarleyfi: Leyfi til að byggja hús, gera mannvirki, rífa hús, breyta húsi, breyta um notkun húss eða mannvirkis. Leyfið felur í sér samþykki aðaluppdrátta og framkvæmdaáforma, en ekki heimild til að hefja framkvæmdir.
     Framkvæmdaleyfi: Leyfi til framkvæmda í samræmi við byggingarleyfi að uppfylltum ýmsum nánari skilyrðum.
     Hverfisvernd: Með hverfisvernd er átt við að við breytingar á byggð beri að taka sérstakt tillit til svipmóts og heildaryfirbragðs þeirrar byggðar sem fyrir er.

II. KAFLI


Stjórn skipulags- og byggingarmála.


3. gr.


Yfirstjórn skipulags- og byggingarmála.


     Umhverfisráðuneytið fer með yfirstjórn skipulags- og byggingarmála samkvæmt lögum þessum.
     Ráðuneytinu til aðstoðar er Skipulagsstofnun ríkisins. Skipulagsstjóri ríkisins er forstöðumaður hennar.
     Ráðuneytið getur skipað nefnd sérfróðra manna sér til ráðgjafar um skipulags- og byggingarmál sem getur þá jafnframt verið Skipulagsstofnuninni til ráðgjafar.

4. gr.


Skipulagsreglugerð.


    
Umhverfisráðherra setur, að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, reglugerð um gerð skipulagsáætlana.
     Þar skal m.a. kveðið á um mælikvarða, gerð og frágang skipulagsuppdrátta, hvert skuli vera efni greinargerða og hvaða lágmarkskröfur gildi um einstaka þætti skipulagsáætlana, svo og um menntun og starfsreynslu þeirra sem falin er stjórn vinnu við skipulagsáætlanir.
     Í reglugerð skulu einnig vera ákvæði um helstu atriði er varða gerð og málsmeðferð skipulagsáætlana, m.a. um það hvernig meta skuli áhrif framkvæmda á umhverfið.

5. gr.


Gerð skipulagsáætlana.


    
Skipulagsstofnun fer í umboði umhverfisráðuneytisins með gerð áætlunar (áætlana) um landsskipulag.
     Sveitarstjórnir skulu eiga frumkvæði að gerð áætlana um svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag.

6. gr.


Skipulags- og byggingarnefndir.


    
Í hverju sveitarfélagi skal starfa skipulags- og byggingarnefnd.
     Heimilt er sveitarstjórn að ákveða í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að starfa skuli tvær nefndir á hennar vegum og fjalli önnur um skipulagsmál en hin um byggingarmál.
     Heimilt er sveitarfélagi að hafa samvinnu við nágrannasveitarfélag um kosningu svæðisskipulags- og byggingarnefndar og ráðningu byggingarfulltrúa. Hlutaðeigandi sveitarfélög skulu þá gera með sér samning um stofnun svæðisnefndar. Umhverfisráðuneytið skal staðfesta slíka samninga og úrskurða jafnframt um ágreiningsatriði sem upp kunna að koma.
     Um skipulags- og byggingarnefndir og starfsemi þeirra gilda sömu reglur og um nefndir samkvæmt sveitarstjórnarlögum.
     Í stofnsamþykktum sveitarstjórnar skal nánar kveðið á um fjölda nefndarmanna.
     Formaður skipulags- og byggingarnefndar skal vera aðal- eða varamaður í sveitarstjórn.
     Ákvæði um skipulags- og byggingarmál skv. 35.–63. gr. laga þessara eiga einungis við um störf byggingarnefndar þar sem starfa tvær nefndir.

7. gr.


Skipulagsstofnun ríkisins.


    
Hlutverk Skipulagsstofnunar ríkisins er þetta:
    Að annast gerð og framkvæmd landsskipulags, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 25. og 26. gr. laga þessara.
    Að vera stjórnvöldum ríkis og sveitarfélaga til ráðgjafar og ráðuneytis um skipulags- og byggingarmál.
    Að hafa eftirlit með störfum samstarfsnefnda um svæðisskipulag.
    Að fylgjast með skipulagsgerð sveitarfélaga.
    Að láta úrskurðarnefnd í té umsagnir um ágreiningsmál á sviði skipulags- og byggingarmála skv. 38. gr. laga þessara.
    Að gera tillögur til ráðherra um aðgerðir ef ekki er fylgt fyrirmælum laga þessara um gerð skipulagsáætlana eða með öðrum hætti brotið í bág við ákvæði laga þessara, sbr. 9. gr.
    Að stuðla að rannsóknum á sviði skipulags- og byggingarmála í samvinnu við hlutaðeigandi stofnanir og hagsmunaaðila, svo og að annast eða stuðla að útgáfu fræðslurita um þau mál.

8. gr.


Skipulagsstjóri.


    
Skipulagsstjóri fer með daglega stjórn Skipulagsstofnunar. Hann skal hafa sérmenntun á sviði skipulags- og byggingarmála. Ráðherra skipar skipulagsstjóra til fimm ára í senn.
     Skipulagsstjóri ber ábyrgð á stjórn og starfsskipulagi Skipulagsstofnunar gagnvart umhverfisráðherra og gerir rekstraráætlanir fyrir hana.

III. KAFLI


Skipulag byggðar.


9. gr.


Skipulagsskylda.


     Allt landið er skipulagsskylt. Með sérstökum lögum skal ákveðið hvernig hagað skuli
meðferð skipulags- og byggingarmála á Miðhálendi Íslands og annars staðar þar sem sérreglur gilda samkvæmt landsskipulagi.
    Skipulag skal ná til allra bygginga ofan jarðar og neðan og annarra mannvirkja sem áhrif hafa á umhverfi byggðar.
     Ef ekki er fyrir hendi staðfest aðalskipulag getur sveitarstjórn leyft einstakar byggingarframkvæmdir að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar.
     Ef um verulegar byggingarframkvæmdir er að ræða án þess að fyrir liggi staðfest aðalskipulag getur Skipulagsstofnun veitt sveitarstjórn tiltekinn frest til að ganga frá tillögu að aðalskipulagi.
     Ef sveitarstjórn gengur ekki frá aðalskipulagstillögu innan þess frests sem Skipulagsstofnun ákveður getur Skipulagsstofnun lagt til við ráðherra að byggingarframkvæmdir og önnur mannvirkjagerð í viðkomandi sveitarfélagi verði stöðvuð þar til fyrir liggur tillaga að aðalskipulagi.

10. gr.


Aðalskipulag.


    
Gera skal aðalskipulag fyrir öll sveitarfélög.
     Í aðalskipulagi skal gera grein fyrir þeirri byggð sem þegar er risin, atvinnuháttum og stefnu sveitarstjórnar um landnotkun, landnýtingu og þróun byggðar næstu 10 árin.
     Gæta skal umhverfissjónarmiða, náttúru landsins, heildstæðra eldri húsaþyrpinga og byggðahverfa og annarra sögulegra minja og koma í veg fyrir hvers konar mengun eftir því sem unnt er.
     Í aðalskipulagi skal tekið fram hvar deiliskipulag skuli háð staðfestingu ráðherra, sbr. 18. gr.

11. gr.


Kynning aðalskipulagstillögu.


    
Fyrir fyrri umræðu og áður en sveitarstjórn tekur afstöðu til aðalskipulagstillögu eða
meiri háttar breytinga skal efnt til almenns borgarafundar þar sem sveitarstjórn kynnir vinnu vegna aðalskipulags, forsendur og markmið.
     Að lokinni kynningu er tillagan lögð fyrir sveitarstjórn til fyrri umræðu. Sveitarstjórn sendir síðan Skipulagsstofnun tillögu að aðalskipulagi til athugunar. Hafi Skipulagsstofnun ekki gert athugasemdir innan fjögurra vikna skal tillagan auglýst óbreytt.
     Nú telur Skipulagsstofnun að tillagan fullnægi ekki settum kröfum um aðalskipulag og skal hún þá endursenda sveitarstjórn tillöguna og leita samkomulags um breytingar. Náist ekki samkomulag er sveitarstjórn engu að síður heimilt að auglýsa tillöguna, en sýna skal athugasemdir Skipulagsstofnunar við hana.

12. gr.


Auglýsing aðalskipulagstillögu.


    
Sveitarstjórn er skylt að auglýsa fyrir íbúa sveitarfélags tillögu að aðalskipulagi á þann
hátt sem venja er um auglýsingar stjórnvalda á staðnum. Enn fremur skal birta auglýsingu um tillöguna í Lögbirtingablaðinu.
     Í auglýsingu skal tilgreina til hvaða svæðis tillagan nái, hvar uppdrættir ásamt fylgiskjölum séu til sýnis og hvað lengi, en það skal eigi vera skemmri tími en fjórar vikur. Í auglýsingu skal almenningi og stofnunum boðið að gera athugasemdir við tillöguna innan ákveðins frests sem eigi skal vera skemmri en sex vikur frá birtingu auglýsingar. Jafnframt skal tekið fram hvert skila skuli athugasemdum og að þeir sem eigi geri athugasemdir við auglýsta tillögu innan tilskilins frests teljist hafa samþykkt hana.

13. gr.


Umfjöllun um athugasemdir og staðfesting aðalskipulags.


    
Þegar frestur til athugasemda skv. 12. gr. er liðinn skal sveitarstjórn fjalla um tillöguna á nýjan leik að undangenginni umfjöllun skipulags- og byggingarnefndar. Skal við þá umfjöllun m.a. taka afstöðu til þeirra athugasemda við tillöguna sem borist hafa.
     Senda skal tillöguna ásamt athugasemdum og umsögn sveitarstjórnar um þær til Skipulagsstofnunar innan fjögurra vikna frá fundi sveitarstjórnar. Skipulagsstofnun skal þá fjalla um niðurstöðu sveitarstjórnar og gera síðan tillögu til ráðherra um staðfestingu aðalskipulagsins eða synjun á slíkri staðfestingu, en aðalskipulag eða breyting á því tekur eigi gildi nema að fenginni staðfestingu ráðherra og auglýsingu um hana í Stjórnartíðindum.
     Tillaga Skipulagsstofnunar um synjun staðfestingar skal rökstudd með greinargerð þar sem m.a. komi fram hvort formgallar séu á afgreiðslu sveitarstjórnar, hvort aðalskipulag sé í ósamræmi við settar kröfur um gerð þess eða hvort með því sé freklega gengið á rétt einstaklinga, hagsmuni nágrannabyggða eða ríkisins. Komi slík tillaga fram frá Skipulagsstofnun skal ráðherra leita umsagnar sveitarstjórnar áður en hann tekur ákvörðun í málinu.

14. gr.


Frestun á gerð eða staðfestingu skipulagsáætlunar.


    
Sveitarstjórn er heimilt með samþykki Skipulagsstofnunar að fresta um ákveðið árabil, þó ekki lengur en um 10 ár í senn, gerð aðalskipulagsáætlunar fyrir ákveðið svæði enda sé svæðið í eigu eða umráðum sveitarfélagsins eða aðila sem samþykkja þá tilhögun. Þá getur sveitarstjórn ákveðið með sama hætti frestun á gerð aðalskipulags fyrir tiltekið svæði án samþykkis landeigenda ef sérstök óvissa ríkir um þýðingarmikil atriði sem haft geta veruleg áhrif á framkvæmd skipulagsins.
     Ráðherra getur, að fenginni tillögu Skipulagsstofnunar, frestað staðfestingu á aðalskipulagi fyrir ákveðið landsvæði, þó ekki lengur en 10 ár í senn, ef nauðsyn þykir til bera vegna almannahagsmuna, svo sem vegna óvissu um áætluð samgöngumannvirki eða vegna þess að nauðsynlegt sé að samræma betur skipulagsáætlanir sveitarfélaga er saman liggja. Slík svæði skal auðkenna á uppdrætti.

15. gr.


Endurskoðun aðalskipulagsáætlunar.


    
Sveitarstjórn skal að afloknum sveitarstjórnarkosningum meta hvort forsendur aðalskipulagsáætlunar hafi breyst það verulega að ástæða sé til endurskoðunar. Komist sveitarstjórn að þeirri niðurstöðu að ástæða sé til endurskoðunar aðalskipulagsáætlunar fer um málsmeðferð sem um gerð nýs aðalskipulags væri að ræða.

16. gr.


Óveruleg breyting á aðalskipulagi.


    
Nú óskar sveitarstjórn eftir því að gerð verði breyting á staðfestu aðalskipulagi sem
er það óveruleg að ekki er talin ástæða til meðferðar samkvæmt framanskráðu og skal þá gera rökstudda tillögu til Skipulagsstofnunar um breytinguna. Tillögunni skal fylgja yfirlýsing sveitarstjórnar um að hún taki að sér að bæta það tjón er einstakir aðilar kunna að verða fyrir við breytinguna.
    Ef Skipulagsstofnun fellst á breytinguna tilkynnir stofnunin hana ráðuneytinu sem sér um að auglýsa breytinguna í Stjórnartíðindum.

17. gr.


Ágreiningur um aðalskipulag á mörkum sveitarfélaga.


    
Nú hagar svo til að aðalskipulag í einu sveitarfélagi er að dómi Skipulagsstofnunar svo háð aðalskipulagi nærliggjandi sveitarfélags að nauðsyn beri til að gera að einhverju leyti sameiginlegt skipulag fyrir þessi sveitarfélög. Ef viðkomandi sveitarstjórnir koma sér ekki saman um sameiginlegt skipulag getur ráðherra ákveðið að samvinnunefnd verði skipuð til þess að gera tillögur um svæðisskipulag sem að þessu leyti er sameiginlegt fyrir sveitarfélögin.
     Sveitarstjórnir þær, sem hlut eiga að máli, skipa hver um sig tvo menn í samvinnunefnd en ráðherra einn mann og skal hann vera formaður hennar.
     Skipulagsstofnun skal aðstoða nefndina eftir þörfum.

18. gr.


Deiliskipulag.


    
Deiliskipulag skal gera yfir tiltekin svæði innan marka aðalskipulags þar sem verulegar framkvæmdir eru fyrirhugaðar eftir nánari ákvörðun sveitarstjórnar hverju sinni.
     Þar sem um er að ræða byggðarhverfi eða svæði þar sem fara saman húsaþyrpingar sem æskilegt er talið að vernda og aðrar sögulegar og menningarlegar minjar skal setja ákvæði um hverfisvernd. Áætlun um deiliskipulag svæðis sem hverfisvernd tekur til, sbr. 10. gr., skal háð staðfestingu ráðherra.
     Nú er deiliskipulag eigi fyrir hendi af sveitarfélagi eða hluta þess og getur þá sveitarstjórn leyft einstakar byggingarframkvæmdir sem um kann að verða sótt enda sé fyrirhuguð framkvæmd í samræmi við staðfest aðalskipulag, sbr. þó ákvæði 3. mgr. 38. gr. Slík leyfi má binda skilyrðum.
     Eigi er skylt að gera deiliskipulag um þær byggingar á lögbýlum sem nauðsynlegar eru til búvöruframleiðslu, svo sem íbúðarhús bænda, gripahús, fóðurgeymslur og gróðurhús, en umsóknum um byggingarleyfi skal fylgja afstöðuuppdráttur þar sem m.a. er sýnd tenging við vegi, nærliggjandi byggingar og lagnir.
     Byggingar á kirkju- og skólastöðum skal þó ávallt gera í samræmi við samþykkt deiliskipulag.
     Við gerð deiliskipulags skal taka sérstakt tillit til sérþarfa barna, fatlaðra og aldraðra eftir því sem aðstæður leyfa.

19. gr.


Deiliskipulag að ósk landeiganda.


    
Nú er land í einkaeign og sveitarstjórn hefur samþykkt ósk eiganda að það eða hluti
þess verði skipulagt sem byggingarlóðir í samræmi við aðalskipulag og er þá landeiganda skylt að láta endurgjaldslaust af hendi til sveitarfélagsins til almenningsþarfa land sem svarar til 1 / 3 af heildarflatarmáli þess lands sem samþykkt sveitarstjórnar nær til.
     Ef landeigandi ræður ekki yfir nægu landi umfram lóðir getur sveitarstjórn heimilað að hann leysi sig undan kvöð þessari með því að greiða andvirði þess sem á vantar samkvæmt mati dómkvaddra manna.

20. gr.


Kynning deiliskipulagstillögu.


    
Við gerð deiliskipulagstillögu skal, eins og kostur er, leita eftir sjónarmiðum íbúa og annarra hagsmunaaðila á svæðinu að því er varðar mótun byggðar.
     Þegar lokið er gerð deiliskipulagstillögu og sveitarstjórn hefur samþykkt hana við fyrri umræðu skal tillagan auglýst og höfð til sýnis í þrjár vikur. Í auglýsingunni skal hagsmunaaðilum boðið að gera athugasemdir við tillöguna innan ákveðins frests sem eigi skal vera skemmri en fimm vikur frá birtingu auglýsingar. Jafnframt skal tekið fram hvert skuli skila athugasemdum og að þeir sem ekki geri athugasemdir við auglýsta tillögu teljist samþykkja hana.
     Þegar um er að ræða deiliskipulagstillögu á landi utan núverandi byggðar, svo sem á nýbyggingarsvæði, er sveitarstjórn heimilt að falla frá auglýsingu. Um slíka tillögu nægir ein umræða í sveitarstjórn. Þegar sveitarstjórn hefur samþykkt tillöguna er hún send Skipulagsstofnun.

21. gr.


Samþykkt og gildistaka deiliskipulags.


    
Þegar frestur til að gera athugasemdir við deiliskipulagstillögu er liðinn skal sveitarstjórn fjalla um tillöguna á nýjan leik og taka m.a. afstöðu til athugasemda sem borist hafa.
     Þegar deiliskipulag hefur verið samþykkt í sveitarstjórn við síðari umræðu öðlast það gildi.
     Sveitarstjórn skal senda Skipulagsstofnun eintak af samþykktu deiliskipulagi til varðveislu.

22. gr.


Breytingar á samþykktu deiliskipulagi.


    
Ef sveitarstjórn ákveður að breyta samþykktu deiliskipulagi skal fara með breytinguna eins og um nýtt deiliskipulag væri að ræða skv. 20. og 21. gr. nema um minni háttar eða óverulega breytingu sé að ræða að mati sveitarstjórnar.

23. gr.


Svæðisskipulag.


    
Svæðisskipulag skal gera fyrir þau svæði sem hlutaðeigandi sveitarfélög ákveða. Í svæðisskipulagi er skipulag sveitarfélaganna samræmt innbyrðis og stefnumörkun samræmd áætlunum ríkis og ríkisstofnana.
     Sveitarstjórnir skulu í samráði við Skipulagsstofnun koma á fót samstarfsnefnd í þessu skyni.
     Svæðisskipulag skal endurskoða á fjögurra ára fresti að afloknum sveitarstjórnarkosningum ef sveitarstjórn á svæðinu gerir samþykkt þar um.

24. gr.


Kynning og samþykkt svæðisskipulags.


    
Þegar samstarfsnefnd hefur lokið gerð tillögu að svæðisskipulagi skal tillagan auglýst í fjórar vikur og kynnt.


     Íbúar og aðrir, sem hagsmuna hafa að gæta á viðkomandi svæði, skulu hafa sex vikna frest frá birtingu auglýsingar til að gera skriflegar athugasemdir við tillöguna til samstarfsnefndar.
     Samstarfsnefnd tekur afstöðu til athugasemda og sendir hlutaðeigandi sveitarstjórnum tillögu sína að svæðisskipulagi. Sveitarstjórnir skulu innan þriggja mánaða taka afstöðu til tillögunnar.
     Svæðisskipulagið öðlast gildi þegar öll hlutaðeigandi sveitarfélög og Skipulagsstofnun hafa samþykkt hana.
     Ef samþykkt svæðisskipulag hefur í för með sér breytingu á staðfestu aðalskipulagi sveitarfélags skal sú breyting fá umfjöllun skv. 12. og 13. gr. eða 16. gr.

25. gr.


Landsskipulag.


    
Skipulagsstofnun skal í samvinnu við aðra opinbera aðila sjá um að upplýsingar og gögn varðandi landsskipulag séu fyrir hendi og tryggja að innbyrðis samræmi sé milli þeirra. Skipulagsstofnun skal afla gagna og aðgangs að gagnasöfnum annarra opinberra aðila á því sviði.
     Ráðherra gefur Alþingi árlega skýrslu um landsskipulag.

26. gr.


Landsskipulagsmeðferð.


    
Ef opinbert mannvirki, svo sem þjóðvegur, orkuveita eða fjarskiptalína, nær yfir fleiri
en eitt sveitarfélag getur sú stofnun, sem ábyrgð ber á framkvæmdum, óskað eftir því við Skipulagsstofnun að lega mannvirkisins fái landsskipulagsmeðferð.
     Landsskipulagsmeðferð er fólgin í því að lega mannvirkis er auglýst eftir að hafa verið kynnt viðkomandi sveitarstjórnum. Tillagan er auglýst sem um breytingu á aðalskipulagi væri að ræða að því leyti sem það á við.
     Komi að lokinni auglýsingu upp ágreiningur um tillöguna kveður ráðherra upp úrskurð að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og sveitarstjórna sem hlut eiga að máli.

27. gr.


Landmælingar og kortagerð.


    
Mæla skal og kortleggja byggð og nærliggjandi svæði eins og ástæða þykir til vegna
skipulagsvinnu. Sveitarstjórn, í samvinnu við Skipulagsstofnun, ákveður hvar mælingar, myndataka úr lofti og kortagerð skuli fram fara hverju sinni.
     Umráðamönnum lands og lóða er skylt að leyfa mælingamönnum að fara um lönd og lóðir eftir því sem þörf krefur vegna mælinga og leyfa þeim að setja föst merki þar sem slíkt er nauðsynlegt, enda sé það ekki til lýta eða tjóns.

28. gr.


Lóðaskrár.


    
Sveitarstjórnir skulu láta gera skrá yfir allar jarðir, lönd og lóðir innan sveitarfélagsins. Skal gefa nöfn öllum götum, vegum og torgum í sveitarfélaginu.
     Í reglugerð, sem ráðherra setur að fenginni tillögu frá Skipulagsstofnun, Fasteignamati ríkisins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Hagstofu Íslands, skal kveðið nánar á um skráningu lóða og fasteigna og gerð og frágang lóðaskrár, sbr. 1., 5. og 9. gr. laga nr. 94 20. maí 1976, um skráningu og mat fasteigna.

29. gr.


Skipting landa og lóða.


    
Óheimilt er að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til.
     Áður en sveitarstjórn veitir slíkt samþykki fyrir byggingarlóðir ákveður hún nafn götu og númer, en aðrar nýafmarkaðar landareignir skulu hafa heiti til skrásetningar í lóðaskrá, sbr. 28. gr.
     Sveitarstjórn getur krafist þess að gerður sé fullnægjandi uppdráttur af hinum nýafmörkuðu lóðum eða löndum til afnota fyrir lóðaskrá og þinglýsingarstjóra.

30. gr.


Forkaupsréttur sveitarstjórna að fasteignum.


    
Sveitarstjórn getur með sérstakri samþykkt áskilið sér forkaupsrétt að tilteknum fasteignum innan sveitarfélagsins ef hún telur slíkt nauðsynlegt af skipulagsástæðum. Samþykkt um forkaupsrétt skal senda ráðherra til staðfestingar og skal þinglýsa henni sem kvöð á hlutaðeigandi fasteignir.
     Eigendur fasteigna þeirra, er slíkar samþykktir taka til, skulu skyldir til að bjóða sveitarstjórn að ganga inn í kaup fasteigna við sölu þeirra á sama verði og með sömu kjörum og stendur til boða hjá öðrum aðilum. Innan fjögurra vikna frá því að sveitarstjórn er boðið að neyta forkaupsréttar skal hún segja til um hvort hún vill neyta réttarins eður ei. Svari sveitarstjórn eigi boði eiganda fasteignar innan tilskilins frests skal líta svo á að forkaupsrétti sé hafnað.

31. gr.


Heimildir til eignarnáms.


    
Heimilt er sveitarstjórn að taka eignarnámi landsvæði eða fasteignir innan sveitarfélagsins ef nauðsynlegt er talið vegna fyrirsjáanlegrar og eðlilegrar þróunar sveitarfélagsins, enda sé slíkt eignarnám í samræmi við staðfest aðalskipulag.
     Sveitarstjórn er og heimilt að taka eignarnámi einstakar fasteignir eða hluta fasteignar ef þess gerist þörf vegna framkvæmda á deiliskipulagi. Það gildir einnig um óbyggðar lóðir innan þeirrar landspildu sem deiliskipulag nær til.
     Heimilt er sveitarstjórn að taka eignarnámi, með sömu skilyrðum og tilgreind eru í 1. mgr., efnisnámur sem nauðsynlegar eru til framkvæmda á staðfestum eða samþykktum skipulagsáætlunum í sveitarfélaginu.
     Náist ekki samkomulag milli umráðamanna fasteigna um endurbyggingu byggingarreits eða hluta hans samkvæmt samþykktu deiliskipulagi eða milli sveitarstjórnar og umráðamanna í slíku tilviki getur sveitarstjórn tekið einstakar fasteignir á byggingarreitnum eignarnámi.
     Um framkvæmd eignarnáms og ákvörðun um bætur fer eftir reglum laga nr. 11/1973.

32. gr.


Verðrýrnun fasteigna vegna framkvæmdar skipulags.


    
Nú rýrnar lóð verulega við framkvæmd skipulags þannig að hún nýtist eigi til sömu
nota og áður að mati dómkvaddra manna og skal þá greiða bætur ef eigandi getur sýnt fram á að hann verði fyrir tjóni af þessum sökum. Verði lóð ónothæf til byggingar að mati dómkvaddra manna er sveitarstjórn skylt að kaupa lóðina ef eigandi krefst þess. Náist ekki samkomulag um bætur eða kaupverð skal það ákveðið af matsnefnd eignarnámsbóta, sbr. lög nr. 11/1973.
     Nú er ákveðin í staðfestri skipulagsáætlun tiltekin lega götu eða vegar eða að ákveðið svæði skuli tekið til almenningsnota eða húsahverfi til endurnýjunar og slíkt veldur því að mati dómkvaddra manna að eigandi fasteignar getur ekki nýtt hana eins og eðlilegt er miðað við allar aðstæður, m.a. vegna hagnýtingar fasteigna í næsta nágrenni, og á hann þá rétt á bótum. Ef eigandi krefst er sveitarstjórn skylt að kaupa eignina og verði ekki samkomulag um verð skal það úrskurðað af matsnefnd eignarnámsbóta.
     Við ákvörðun bóta vegna skipulagsaðgerða skal taka tillit til þeirrar verðhækkunar sem þær kunna að hafa í för með sér á viðkomandi eign. Ef talið er að verðhækkunin sé jafnmikil eða meiri en bótaskylt tjón skal engar bætur greiða. Enn fremur ber að miða við eftirtalin atriði í sambandi við ákvörðun bóta: Hvort nýtt skipulag hefur áhrif nú þegar eða síðar á verðmæti eignarinnar, hverjar kröfur eru gerðar um nýtingarhlutfall, húsahæðir, bifreiðastæði, leiksvæði barna, opin svæði o.s.frv. að því er snertir sambærilegar eignir, enn fremur hvort skipulagið gerir afstöðu fasteignarinnar gagnvart götu hagstæðari eða óhagstæðari en áður var o.s.frv. Þá ber og að miða við þann arð sem eðlileg notkun eignarinnar gefur af sér.
     Sá sem telur sig eiga rétt á bótum samkvæmt þessari grein skal senda kröfu sína til sveitarstjórnar.

33. gr.


Ákvæði um greiðslu kostnaðar.


    
Kostnaður við mælingar, loftljósmyndun og kortagerð, sem nauðsynleg er vegna svæðisskipulags og aðalskipulags, skiptist til helminga milli Skipulagsstofnunar og hlutaðeigandi sveitarfélaga.
     Kostnaður við gerð skipulagsáætlana greiðist sem hér segir:
    Kostnaður við gerð landsskipulags greiðist að fullu af viðkomandi stofnunum, svo sem Vegagerð ríkisins, Póst- og símamálastofnun og Landsvirkjun eftir því sem við á í hverju tilviki. Hins vegar ber Skipulagsstofnun kostnað vegna nauðsynlegrar gagnaöflunar og gagnavinnslu sem hún annast fyrir landsskipulag.
    Kostnaður við gerð svæðisskipulags greiðist til helminga af Skipulagsstofnun og hlutaðeigandi sveitarfélögum samkvæmt áætlun og samningi.
    Kostnaður við gerð aðalskipulags sveitarfélaga með færri en 700 íbúa greiðist að 3 / 4 af Skipulagsstofnun og að 1 / 4 af hlutaðeigandi sveitarfélagi samkvæmt fyrirframgerðri áætlun og samningi hverju sinni.
    Kostnaður við gerð aðalskipulags sveitarfélaga með fleiri en 700 íbúa greiðist að hálfu af Skipulagsstofnun og að hálfu af hlutaðeigandi sveitarstjórn samkvæmt fyrirframgerðri áætlun og samningi hverju sinni.
    Kostnaður við gerð deiliskipulags greiðist úr sveitarsjóði.
    Nú annast sveitarstjórn gerð og reglulega endurskoðun aðalskipulags og skal Skipulagsstofnun þá greiða hlutaðeigandi sveitarsjóði árlega helming heildarkostnaðar sveitarstjórnar við skipulagsvinnuna, þó eigi hærri fjárhæð en nemur helming þeirra gjalda sem greiðast af gjaldskyldum eignum í sveitarfélaginu skv. 34. gr. enda er þá eigi um frekari greiðslur að ræða skv. c- til e-liðum þessarar greinar.

34. gr.


Skipulagsgjald.


    
Til þess að standa straum af kostnaði og framkvæmd skipulags- og byggingarmála skal
innheimta í ríkissjóð sérstakt gjald er nefnist skipulagsgjald. Skipulagsgjald nemur 3 / 1000 — þremur af þúsundi — af brunabótamati hvers mannvirkis sem reist er. Nú er um að ræða mannvirki sem ekki er metið til brunabótaverðs og skal þá miða skipulagsgjaldið við fasteignamat mannvirkisins.
     Skipulagsgjald fellur í gjalddaga þegar virðingargjörð hefur farið fram og hún hefur verið tilkynnt til innheimtumanns ríkissjóðs. Það hefur lögveð í eigninni og gengur fyrir öllum öðrum veðkröfum er á henni hvíla. Innheimta má gjaldið með lögtaki.
     Auk skipulagsgjalds, sem um ræðir í 1. mgr., skal árlega greiða úr ríkissjóði til framkvæmda samkvæmt lögum þessum eigi lægri fjárhæð en sem nemur helmingi skipulagsgjalda næstliðins árs.

IV. KAFLI


Mannvirkjagerð.


35. gr.


Gildissvið ákvæða þessa kafla.


     Ákvæði þessa kafla taka til hvers konar bygginga ofan jarðar og neðan og annarra mannvirkja sem áhrif hafa á umhverfið.
     Undanþegin ákvæðunum eru þó götur, vegir og brýr, flugbrautir, holræsi, dreifikerfi orku, vatns og fjarskipta, svo og hafnarmannvirki og virkjunarmannvirki, enda séu þessi mannvirki byggð á vegum opinberra aðila og hönnuð af sérfræðingum á viðkomandi sviði. Ákvæðin ná þó til varanlegra húsbygginga sem gerðar eru í tengslum við þessar framkvæmdir.
     Mannvirki, sem undanþegin eru ákvæðum þessa kafla, skulu byggð í samræmi við skipulagsákvæði skv. III. kafla laga þessara. Óski skipulags- og byggingarfulltrúi þess skulu honum afhentir til varðveislu uppdrættir viðkomandi mannvirkja.

36. gr.


Byggingarreglugerð.


    
Ráðherra setur almenna byggingarreglugerð að fenginni umsögn Sambands íslenskra
sveitarfélaga þar sem nánar er kveðið á um hin ýmsu fyrirmæli og reglur þessa kafla. Hin almenna byggingarreglugerð nær til landsins alls.
     Í byggingarreglugerð skal mælt fyrir um hvernig háttað skuli undirbúningi, gerð, útliti, tæknilegum frágangi og viðhaldi bygginga og annarra mannvirkja sem lög þessi taka til. Í byggingarreglugerð skal kveðið á um þær kröfur sem gerðar eru varðandi m.a. undirstöður, byggingarefni, burðarþol, einangrun gegn kulda, raka og hávaða, loftræstingu, lagnir, hollustuhætti og eldvarnir. Þá skulu í byggingarreglugerð vera ákvæði um þær lágmarkskröfur sem gerðar eru varðandi einstaka hluta bygginga og mismunandi tegundir þeirra, aðgengi fatlaðra, grenndarkynningu, aðstöðu og umgengni á vinnustöðum og gróður og frágang lóða. Enn fremur skal í byggingarreglugerð kveðið á um hönnunargögn og löggildingu hönnuða, viðurkenningu, réttindi og skyldur byggingarstjóra og iðnmeistara, hvernig háttað skuli byggingareftirliti, verksviði skipulags- og byggingarfulltrúa, gjöldum fyrir byggingarleyfi, mælingar, úttektir og vottorð sem skipulags- og byggingarfulltrúi lætur í té og hvernig þau skuli innheimt. Í byggingarreglugerð skal kveðið á um framkvæmd lokaúttektar.
     Í byggingarreglugerð skal skýra orð og hugtök sem þar er fjallað um og orkað geta tvímælis, svo sem um stærðir og byggingarstig mannvirkja. Í byggingarreglugerð skal vísa til gildandi íslenskra staðla um tæknilega útfærslu og annað sem snýr að mannvirkjum. Jafnframt er heimilt að vísa til tilskipana (og/eða sérsamninga) og túlkunarskjala sem hafa verið samþykkt í samstarfi milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Evrópubandalagsins um Evrópskt efnahagssvæði.
     Sveitarstjórn getur sett staðbundna samþykkt með viðbótarreglum við þær er hin almenna byggingarreglugerð hefur að geyma. Þar má m.a. fjalla um sérstakar kröfur til bygginga vegna flóða, ofanflóða- eða jarðskjálftahættu, friðunar eldri byggðar og trjágróðurs, girðinga umhverfis lóðir og um uppsetningu auglýsingaskilta og um önnur atriði er ráðast af staðbundnum aðstæðum eða viðhorfum. Einnig má þar setja sérstök ákvæði um atriði er varða staðbundna stjórn byggingarmála í sveitarfélaginu. Hafi sveitarfélög myndað svæðisskipulags- og byggingarnefnd geta þau sameiginlega sett samþykkt samkvæmt þessari málsgrein.
     Staðbundnar byggingarsamþykktir skal senda til staðfestingar ráðuneytis og að henni fenginni birta þær í B-deild Stjórnartíðinda.

37. gr.


Hlutverk skipulags- og byggingarnefnda.


    
Skipulags- og byggingarnefndir fara með skipulags- og byggingarmál undir yfirstjórn
sveitarstjórna.
     Óheimilt er að hefja gerð mannvirkja sem ákvæði kafla þessa ná til, sbr. 44. og 49. gr., án heimildar viðkomandi skipulags- og byggingarnefndar. Sama gildir um niðurrif mannvirkja. Fjallar nefndin um leyfisumsóknir sem berast og gerir tillögu um endanlega úrlausn þeirra til viðkomandi sveitarstjórnar. Nefndin skal hafa eftirlit með því að hvarvetna í umdæmi hennar sé byggt í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag, sbr. 10. gr. og 18. gr., lagaákvæði og reglugerðir um skipulags- og byggingarmál.

38. gr.


Störf skipulags- og byggingarnefnda.


    
Skipulags- og byggingarnefnd skal halda reglulega fundi a.m.k. einu sinni í mánuði
svo framarlega sem erindi liggja fyrir til afgreiðslu. Nefndin skal halda gerðabók þar sem skráð eru móttekin erindi og hvaða afgreiðslu þau fá. Um málsmeðferð fer eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986.
     Nefndinni er skylt að rökstyðja synjanir á erindum sem henni berast sé þess óskað, en afgreiðslur nefndarinnar skal leggja fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu. Hafi sveitarstjórn ekki ályktanir skipulags- og byggingarnefndar til afgreiðslu innan tveggja mánaða frá því að hún var gerð telst hún samþykkt.
     Áður en leyfi er veitt fyrir nýbyggingu, viðbyggingu eða breytingu á húsi í þegar byggðu hverfi, eða verulegri breytingu á notkun húss, skal nágrönnum, sem skipulags- og byggingarnefnd telur að hagsmuna eigi að gæta, gefinn kostur á að tjá sig um fyrirhugaða framkvæmd innan þess frests sem nefndin setur. Þegar skipulags- og byggingarnefnd hefur veitt leyfi að lokinni nágrannakynningu tilkynnir hún þeim sem tjáðu sig um fyrirhugaða framkvæmd um niðurstöðu nefndarinnar.
     Telji einhver rétti sínum hallað með samþykkt nefndarinnar eða sveitarstjórnar er heimilt innan mánaðar frá afgreiðslu sveitarstjórnar að skjóta málinu til úrskurðar þriggja manna nefndar sem skipuð skal einum fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, einum fulltrúa umhverfisráðuneytis og einum fulltrúa skipuðum af Hæstarétti sem skal vera formaður nefndarinnar. Skal nefndin þá kveða upp úrskurð sinn um ágreininginn innan mánaðar að fenginni umsögn hlutaðeigandi sveitarstjórnar og Skipulagsstofnunar sem skila skulu umsögn sinni innan tveggja vikna frá því að þeim barst beiðni um hana.
     Nefndinni er að kröfu kæranda heimilt að leggja fyrir sveitarstjórn að láta stöðva framkvæmdir þar til úrskurður liggur fyrir og má fylgja þeirri stöðvun eftir með lögregluvaldi. Slík stöðvun má þó eigi standa lengur en í tvo mánuði.

39. gr.

Sérhæft starfslið skipulags- og byggingarnefnda.


    
Skipulags- og byggingarfulltrúi skal vera arkitekt eða hafa sérmenntun á byggingartæknisviði frá háskóla eða tækniskóla. Hann skal hafa minnst tveggja ára starfsreynslu sem skipulags- og byggingarnefnd metur gilda.
     Fáist ekki maður í stöðu skipulags- og byggingarfulltrúa sem fullnægir skilyrðum 1. mgr. má ráða í stöðuna tímabundið mann með minni menntun á sviði skipulags- eða byggingarmála og minnst þriggja ára starfsreynslu.
     Staðgenglar skipulags- og byggingarfulltrúa skulu, eftir því sem unnt er, fullnægja skilyrðum 1. mgr. Skipulags- og byggingarnefnd skal ákveða þær náms- og reynslukröfur sem gerðar eru til annars starfsliðs.
     Tilkynna skal Skipulagsstofnun um breytingar í stöðum skipulags- og byggingarfulltrúa.
     Aðili, sem gegnir starfi skipulags- eða byggingarfulltrúa við gildistöku laga þessara, telst fullnægja settum menntunar- og reynslukröfum í skilningi þeirra meðan hann gegnir því starfi.

40. gr.


Störf skipulags- og byggingarfulltrúa.


    
Skipulags- og byggingarfulltrúi er framkvæmdastjóri skipulags- og byggingarnefndar. Hann gengur úr skugga um að skipulagsuppdrættir séu í innbyrðis samræmi og að aðaluppdrættir séu í samræmi við samþykktar skipulagsáætlanir.
     Skipulags- og byggingarfulltrúi ákveður í samræmi við byggingarreglugerð hvaða hönnunargögn skulu lögð fram vegna framkvæmdaleyfis. Hann gengur úr skugga um að þau séu í samræmi við þær reglur er gilda um viðkomandi framkvæmd og hann áritar uppdrætti um samþykkt á þeim. Hann gefur út framkvæmdaleyfi, byggingarleyfi og leyfi til niðurrifs mannvirkja og annast eftirlit með því að allar framkvæmdir við byggingar og önnur mannvirki séu í samræmi við samþykkta uppdrætti. Hann annast úttektir einstakra þátta byggingarframkvæmda eftir því sem nauðsyn krefur, svo og lokaúttekt fullbyggðs mannvirkis, og gefur út vottorð þar um, allt eftir því sem nánar er kveðið á um í byggingarreglugerð.
    Skipulags- og byggingarfulltrúi skal sjá um að öll gögn, sem ákvarðanir skipulags- og byggingarnefndar eru byggðar á, séu tryggilega varðveitt. Hann skal einnig annast skráningu fasteigna og önnur störf sem honum eru falin samkvæmt lögum og reglugerðum eða af sveitarstjórn.

41. gr.


Réttarstaða starfsmanna skipulags- og byggingarnefnda.


    
Starfsmönnum skipulags- og byggingarnefnda er óheimilt að leggja eigin uppdrætti að
byggingu eða öðru mannvirki fyrir skipulags- og byggingarnefnd í hlutaðeigandi byggingarnefndarumdæmi nema nefndin hafi fyrir fram veitt samþykki sitt hverju sinni.
     Nánari ákvæði um erindisbréf skipulags- og byggingarfulltrúa, verksvið hans og skyldur og réttarstöðu gagnvart byggingaryfirvöldum og byggingaraðilum skulu sett í byggingarreglugerð.

42. gr.


Eftirlit með byggingarframkvæmdum.


    
Skipulags- og byggingarnefndarmönnum, skipulags- og byggingarfulltrúa og starfsmönnum hans skal heimilt að hafa eftirlit með framkvæmdum við mannvirki sem er í byggingu.
     Liggi rökstuddur grunur fyrir um að fullbyggðu mannvirki sé verulega áfátt með tilliti til ákvæða laga og reglugerða um byggingarmál skal skipulags- og byggingarfulltrúa og starfsmönnum hans heimill aðgangur þar til eftirlits. Sé mannvirki verulega áfátt getur byggingarfulltrúi veitt aðila hæfilegan frest til úrbóta að viðlögðum dagsektum.
     Nú er ásigkomulagi, frágangi, notkun, umhverfi eða viðhaldi húss eða annars mannvirkis þannig farið að verulega ábótavant er eða hætta stafar af að dómi skipulags- og byggingarfulltrúa og skal hann þá gera eiganda (umráðamanni) þess viðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er.
     Sinni eigandi (umráðamaður) ekki áskorun skipulags- og byggingarfulltrúa um úrbætur innan ákveðins frests sem ekki má vera styttri en sex vikur fer um málsmeðferð skv. 62. gr.

43. gr.


Kröfur til þolhönnunar og efnisvals.


    
Skipulags- og byggingarfulltrúa er heimilt þegar um vandasama hönnun er að ræða, að eigin mati, að óska eftir sérstökum prófreikningum hönnunar á kostnað byggjanda frá sérstökum prófhönnuðum sem skipulags- og byggingarfulltrúi viðurkennir. Heimilt er ráðherra að gefa út sérstakar reglur um viðurkenningu prófhönnuða og kröfur sem til þeirra eru gerðar.
     Telji skipulags- og byggingarfulltrúi ástæðu til getur hann krafið framleiðendur og byggingarefnissala um vottorð frá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins eða hliðstæðum stofnunum um að timbur, steinsteypa, stál, bendistál og annað byggingarefni, byggingarhlutar og einingahús, sem viðkomandi hefur til sölu, standist gæðakröfur samkvæmt byggingarreglugerð og viðurkenndum gæðastöðlum.
     Framleiðandi verksmiðjuframleiddra húseininga eða einingahúsa ber fimm ára ábyrgð á göllum sem fram kunna að koma á þessari vöru og rekja má til hönnunar hennar eða framleiðslu.
     Skipulags- og byggingarfulltrúa er heimilt að krefjast sérstakra eftirlitsmanna þegar um byggingu meiri háttar mannvirkja er að ræða. Einnig getur hann krafist þess að hönnuðum sé falið eftirlit með byggingarframkvæmdum þegar um óvenjulega eða nýja byggingartækni er að ræða.
     Skipulags- og byggingarfulltrúa er heimilt, telji hann ástæðu til, að krefjast álagsprófunar mannvirkis til staðfestingar burðarþoli eftir að það hefur verið reist. Standist mannvirkið ekki eðlilega álagsprófun skal skipulags- og byggingarfulltrúi gefa byggjanda ákveðinn frest til að gera nauðsynlegar umbætur. Að öðrum kosti getur hann látið bæta úr því sem áfátt er á kostnað byggjanda.

44. gr.


Byggingarleyfi.


    
Óheimilt er að grafa grunn, reisa hús, rífa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki sem lög þessi taka til, nema að fengnu leyfi viðkomandi skipulags- og byggingarnefndar.
     Byggingarleyfið felur í sér samþykki uppdrátta og framkvæmdaáforma eða breyttrar notkunar húss. Það felur ekki í sér leyfi til framkvæmda skv. 47. gr.
     Sá sem óskar leyfis skv. 1. mgr. skal senda um það skriflega umsókn til hlutaðeigandi skipulags- og byggingarnefndar ásamt nauðsynlegum hönnunargögnum og skilríkjum, þar með talið samþykki meðeigenda ef um sameign er að ræða. Í byggingarreglugerð skal kveðið nánar á um hvaða önnur gögn skuli fylgja leyfisumsókn og hvernig frá umsókn og uppdráttum skuli gengið.
     Í umfjöllun skipulags- og byggingarnefndar um niðurrif og breytingar á eldri húsum og öðrum mannvirkjum skal gætt ákvæða V. kafla þjóðminjalaga, nr. 88/1989.
     Framkvæmdir skv. 1 mgr. skulu ætíð vera í samræmi við ákvæði III. kafla laga þessara.

45. gr.


Staðfesting sveitarstjórnar.


    
Byggingarleyfi öðlast ekki gildi fyrr en sveitarstjórn hefur samþykkt það.
     Gefa má út byggingarleyfi þegar eftirtöldum skilyrðum hefur verið fullnægt:
    Sveitarstjórn hefur staðfest samþykkt skipulags- og byggingarnefndar um veitingu byggingarleyfis og skipulags- og byggingarfulltrúi hefur áritað aðaluppdrætti.
    Byggingarleyfisgjöld og önnur tilskilin gjöld, svo sem tengigjöld og gatnagerðargjöld, hafa verið greidd samkvæmt settum reglum eða samið um greiðslu þeirra.
     Staðfesting skv. 1. tölul. fellur úr gildi hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan tólf mánaða frá samþykkt sveitarstjórnar.

46. gr.


Skyldur sveitarfélags.


    
Þegar byggingarleyfi hefur verið gefið út fyrir nýbyggingu á skipulögðu svæði í þéttbýli er sveitarstjórn skylt að sjá um að götur, rafmagn, vatn og holræsi séu fyrir hendi eftir því sem þörf er á nema sveitarstjórn hafi gert sérstakan fyrirvara.

47. gr.

Framkvæmdaleyfi.


    
Framkvæmdaleyfi veitir heimild til framkvæmda í samræmi við byggingarleyfi. Standi
sérstaklega á má veita leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda og takmarkast leyfið þá hverju sinni við samþykkt hönnunargögn. Skipulags- og byggingarfulltrúi getur veitt lóðarhafa heimild til að kanna jarðveg á byggingarlóð sinni án þess að framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út. Framkvæmdaleyfi skal vera skriflegt og heimilt að gefa það út þegar eftirtöldum skilyrðum hefur verið fullnægt:
    Byggingarfulltrúi hefur áritað öll hönnunargögn sem snerta þá þætti framkvæmda sem leyfðir eru.
    Byggingarstjóri hefur undirritað yfirlýsingu um ábyrgð sína á leyfðum framkvæmdum.

48. gr.


Gildistími byggingar- og framkvæmdaleyfis.


    
Byggingarleyfi fellur úr gildi ef framkvæmdaleyfi hefur ekki verið gefið út og byggingarframkvæmdir hafnar innan tólf mánaða frá samþykkt sveitarstjórnar. Byggingarframkvæmdir teljast hafnar í þessu sambandi þegar undirstöður hafa verið gerðar.
     Nú stöðvast byggingarframkvæmdir í eitt ár eða lengur og getur skipulags- og byggingarnefnd þá fellt úr gildi byggingarleyfið og þann hluta framkvæmdaleyfisins sem ekki er farið að nota.
     Hafi byggingarframkvæmdir stöðvast í tvö ár hið skemmsta getur sveitarstjórn að tillögu skipulags- og byggingarnefndar með sex mánaða fyrirvara lagt dagsektir á byggingarleyfishafa, sbr. 62. gr., eða tekið ófullgerðar byggingarframkvæmdir eignarnámi samkvæmt lögum um eignarnám.
     Sveitarstjórn er heimilt að setja í byggingarskilmála strangari reglur um byggingarhraða.

49. gr.


Hönnunargögn.


    
Hönnunargögn bygginga og annarra mannvirkja, sem heyra undir þessi lög, greinast í uppdrætti og fylgiskjöl. Uppdrættir greinast í aðaluppdrætti, burðarþolsuppdrætti, kerfisuppdrætti og deiliuppdrætti. Til fylgiskjala heyra m.a. forsendur og útreikningar.
     Aðaluppdrættir skulu gera grein fyrir svipmóti mannvirkis, innra skipulagi, skipulagi lóðar, staðsetningu, stærð og útliti og hvernig mannvirkið fellur að næsta umhverfi og samþykktu deiliskipulagi.
     Burðarþolsuppdrættir skulu gera grein fyrir burðarkerfi mannvirkis.
     Kerfisuppdrættir skulu sýna eðli, fyrirkomulag og frágang innri sem ytri þjónustukerfa, svo sem brunavarnakerfa og lagnakerfa svo og hvers konar boð-, stjórn- og rafkerfa.
     Deiliuppdrættir gera nánar grein fyrir einstökum þáttum mannvirkja, innra skipulagi og skipulagi lóðar.
     Í byggingarreglugerð skal kveða nánar á um kröfur varðandi hönnunargögn.

50. gr.


Áritun hönnuða.


    
Aðal- og séruppdrættir skulu vera gerðir af hönnuðum sem hafa fengið löggildingu, sbr. 53. og 54. gr. Allir hönnuðir skulu árita teikningar sínar og taka þar með ábyrgð á að hönnun þeirra sé í samræmi við lög og reglugerðir um byggingarmál.
     Í sérhverju mannvirki skal ákveða hver er samræmingarhönnuður sem að jafnaði er hönnuður aðalteikninga. Samræmingarhönnuður ber ábyrgð á því að séruppdrættir séu í samræmi innbyrðis og við aðaluppdrætti.
     Hönnuðir, sem leggja uppdrætti fyrir byggingarnefnd, skulu hafa ábyrgðartryggingu eða leggja fram bankatryggingu sem verkkaupi hefur samþykkt.

51. gr.


Varðveisla uppdrátta.


    
Varðveita skal á öruggan hátt í skjalasafni viðkomandi skipulags- og byggingarfulltrúa a.m.k. eitt eintak af öllum samþykktum uppdráttum.
     Uppdrættir, samþykktir og áritaðir af skipulags- og byggingarfulltrúa, skulu ætíð liggja fyrir á byggingarstað og vera eftirlitsmönnum aðgengilegir.

52. gr.


Löggilding hönnuða.


    
Rétt til að leggja fram uppdrætti vegna byggingar- eða framkvæmdaleyfis hafa þeir sem til þess hafa hlotið löggildingu ráðherra.
     Þeir sem hlotið höfðu þennan rétt fyrir gildistöku þessara laga teljast einnig löggiltir hönnuðir.
     Sérhver arkitekt, byggingarfræðingur, tæknifræðingur, verkfræðingur, innanhússhönnuður eða landslagshönnuður, sem sækir um löggildingu samkvæmt lögum þessum, skal hafa hlotið heimild ráðherra til starfsheitis síns samkvæmt lögum nr. 73/1968.
     Sérhver umsækjandi skal hafa sérhæft sig á viðkomandi löggildingarsviði og öðlast starfsreynslu hjá löggiltum aðila á sviðinu. Starfsreynslutími skal ekki vera skemmri en tvö ár, þar af minnst eitt ár hér á landi. Í vottorði um starfsreynslu skal gerð grein fyrir þeim verkefnum sem umsækjandi hefur unnið að á starfsreynslutímanum.
     Sérhver umsækjandi skal hafa staðist próf í íslenskri skipulags- og byggingarlöggjöf ásamt tilheyrandi reglugerðum.
     Ráðherra skipar, til fjögurra ára í senn, nefnd þriggja manna sér til aðstoðar varðandi mat á sérnámi og starfsreynslu umsækjanda skv. 3. mgr., svo og framkvæmd og mat prófs skv. 4. mgr. Nánar skal kveðið á um nefndina í reglugerð.
     Umhverfisráðuneytið skal senda árlega lista yfir löggilta hönnuði til allra skipulags- og byggingarfulltrúa.

53. gr.


Löggilding á sérsviði.


    
Arkitektar geta hlotið löggildingu sem hönnuðir aðaluppdrátta. Sama gildir um byggingarverkfræðinga, byggingartæknifræðinga og byggingarfræðinga, enda hafi þeir öðlast a.m.k. fjögurra ára starfsreynslu við skipulagsgerð.
     Verkfræðingar og tæknifræðingar með viðkomandi sérmenntun geta fengið löggildingu sem hönnuðir á hvers konar burðarvirkjum, boðveitum, rafkerfum og raflögnum í mannvirkjum, vatns-, hita- og frárennsliskerfum, loftræsikerfum og lýsingarkerfum.
     Arkitektar, byggingarfræðingar, verkfræðingar, tæknifræðingar, innanhússhönnuðir og landslagshönnuðir geta fengið löggildingu sem hönnuðir deiliuppdrátta hver á sínu sviði.

54. gr.


Umsjón með byggingarframkvæmdum.


    
Við stjórn framkvæmda við gerð hvers mannvirkis skal vera ábyrgur einstaklingur er
nefnist byggingarstjóri.
    Byggingarstjórar geta orðið:
    Húsasmíðameistarar, múrarameistarar, pípulagningameistarar, rafverktakar og byggingariðnfræðingar sem uppfylla skilyrði 2. mgr. 55. gr.
    Arkitektar, byggingarverkfræðingar, byggingartæknifræðingar, byggingarfræðingar sem hlotið hafa löggildingu skv. 52. og 53. gr.
     Byggingarstjóri er framkvæmdastjóri byggingarframkvæmda. Hann ræður iðnmeistara í upphafi verks með samþykki eiganda eða samþykkir ráðningu þeirra. Samsvarandi gildir um uppsögn iðnmeistara. Að öðru leyti fer um umboð byggingarstjóra, verksvið hans og ábyrgð gagnvart eiganda byggingarframkvæmda eftir samningi þeirra á milli. Í byggingarreglugerð skulu vera nánari ákvæði um slíkan samning.
     Byggingarstjóri skal hafa ábyrgðartryggingu samkvæmt nánari ákvæðum í sérstakri reglugerð sem ráðherra gefur út.
     Byggingarstjóri ber ábyrgð gagnvart skipulags- og byggingarnefnd og öðrum aðilum á því að framkvæmdir séu í samræmi við samþykkta uppdrætti og lög og reglugerðir um byggingarmál. Ábyrgð miðast við fimm ár. Hann gerir byggingarfulltrúa viðvart um lok úttektarskyldra verkþátta.
     Áður en byggingarframkvæmdir hefjast skal byggingarstjóri undirrita yfirlýsingu um ábyrgð sína. Við lok framkvæmda staðfestir byggingarstjóri að byggt hafi verið í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir.
     Hætti byggingarstjóri sem framkvæmdastjóri mannvirkjagerðar áður en verki er lokið skal það tilkynnt skipulags- og byggingarfulltrúa. Byggingarframkvæmdir skulu þá stöðvaðar uns nýr byggingarstjóri er ráðinn. Gera skal úttekt á þeim verkhluta sem lokið er og skulu fráfarandi og aðkomandi byggingarstjórar undirrita hana, ef þess er kostur, ásamt skipulags- og byggingarfulltrúa.
     Ábyrgð nýs byggingarstjóra gagnvart byggingarnefnd takmarkast við þá verkþætti sem unnið er að eftir að hann hefur störf.

55. gr.


Iðnmeistarar.


    
Iðnmeistari ber ábyrgð gagnvart byggingarstjóra og eiganda byggingarframkvæmda á
að þeir verkþættir, sem hann tekur að sér að hafa umsjón með, séu unnir í samræmi við viðurkennda verkhætti, samþykkta uppdrætti og lög og reglugerðir. Skal hann áður en hann kemur til verksins staðfesta ábyrgð sína fyrir skipulags- og byggingarnefnd.
     Nefndin viðurkennir þá meistara sem hún telur hæfa til þess að taka ábyrgð á einstökum verkþáttum við byggingarframkvæmdir. Geta þeir iðnmeistarar, sem hafa fullgilt meistarabréf og hafa lokið prófi frá meistaraskóla, hlotið slíka viðurkenningu enda séu þeir starfandi sem iðnmeistarar. Nánar skal kveðið á um menntun, starfsreynslu, réttindi og skyldur iðnmeistara í byggingarreglugerð.
     Hætti iðnmeistari umsjón með framkvæmdum áður en verki er lokið skal byggingarstjóri sjá um að nýr iðnmeistari taki við störfum án tafar og tilkynni það án tafar skipulags- og byggingarfulltrúa.
     Framkvæmdir við þá verkþætti, sem fráfarandi iðnmeistari bar ábyrgð á og hafði umsjón með, skulu stöðvaðar þar til nýr iðnmeistari hefur undirritað ábyrgðaryfirlýsingu. Skal gera úttekt á þeim verkþáttum er fráfarandi iðnmeistari hefur haft umsjón með og skal úttekt undirrituð bæði af fráfarandi iðnmeistara og hinum nýja ef þess er kostur. Nýr iðnmeistari ber ábyrgð á þeim verkþáttum sem unnir eru eftir að hann tók við starfi.
    Ákvæði þessarar greinar hagga í engu réttindum og skyldum iðnmeistara samkvæmt iðnaðarlögum, nr. 42/1978.

56. gr.


Leyfisgjöld.


    
Sveitarfélög skulu ákveða gjöld tengd byggingarframkvæmdum, þ.e. gjöld fyrir leyfi
til að reisa, stækka eða breyta byggingarmannvirki. Enn fremur skal þar kveðið á um gjöld fyrir útmælingu, eftirlit, úttektir og vottorð sem byggingarfulltrúi lætur í té.
     Gjöld skv. 1. mgr. renna í sveitarsjóð og skulu þau breytast í samræmi við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar eftir nánari ákvörðun sveitarstjórnar.

57. gr.


Greiðsla leyfisgjalda.


    
Sveitarstjórn ákveður með hvaða hætti byggingarleyfisgjöld eru innheimt.
     Verði vanskil á greiðslu byggingarleyfisgjalda getur skipulags- og byggingarfulltrúi neitað að gefa vottorð um viðkomandi mannvirki. Gjaldfallin gjöld má innheimta með lögtaki.

V. KAFLI


Viðurlög.


58. gr.


Framkvæmdir sem brjóta í bága við skipulag eða eru án leyfis.


     Ef ákvæði skipulagsáætlunar eru brotin, byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi
sé fengið fyrir henni, ef byggt er á annan hátt en leyfi stendur til eða ef bygging er tekin til annarra nota en byggingar- og skipulagsnefnd hefur heimilað varðar það sektum. Enn fremur getur skipulags- og byggingarfulltrúi fyrirskipað stöðvun slíkrar framkvæmdar tafarlaust og mælt fyrir um að jarðrask skuli fært í fyrra horf, að bygging eða byggingarhluti skuli fjarlægður og er lögreglu skylt að aðstoða við slíkar aðgerðir ef þörf krefur. Gera skal skipulags- og byggingarnefnd grein fyrir slíku máli svo fljótt sem við verður komið.
     Ráðherra getur hlutast til um að mannvirki, sem reist hefur verið án samþykkis sveitarstjórnar, verði fjarlægt á kostnað eiganda ef sveitarstjórn hefur látið hjá líða að framkvæma verkið innan sex mánaða frá því henni var kunnugt um málið.
     Með mál, sem upp koma samkvæmt grein þessari, skal fara með að hætti opinberra mála.
     Sveitarsjóður á endurkröfu á byggingaraðila á öllum kostnaði sem hann hefur haft af ólöglegri mannvirkjagerð og á sveitarsjóður lögveð fyrir endurgreiðslukröfu sinni í öllu efni sem komið er í hina óleyfðu byggingarframkvæmd.

59. gr.


Úrræði skipulags- og byggingarnefndar gagnvart brotum hönnuða.


    
Ef hönnuður, sem fengið hefur löggildingu skv. 52. eða 53. gr., leggur fyrir skipulags- og byggingarnefnd uppdrátt þar sem brotið er í bága við ákvæði laga þessara, skipulagsáætlunar eða reglugerðar settri samkvæmt þeim getur nefndin veitt honum áminningu. Hafi nefndin veitt hönnuði áminningu skal tilkynna ráðherra um það.
     Ráðherra getur veitt hönnuði áminningu og við ítrekað brot svipt hann löggildingu skv. 52. eða 53. gr. um tiltekinn tíma eða fyrir fullt og allt. Áður en ráðherra tekur ákvörðun um sviptingu löggildingar skal hann leita umsagnar hönnuðar og nefndar þeirrar sem fyrir er mælt um í 52. gr.

60. gr.


Úrræði skipulags- og byggingarnefndar gagnvart brotum


byggingarstjóra og iðnmeistara.


    
Ef byggingarstjóri eða iðnmeistari, sem ábyrgð ber á byggingarframkvæmdum, brýtur ákvæði laga, reglugerða eða samþykkta um skipulags- og byggingarmálefni getur skipulags- og byggingarnefnd veitt honum áminningu. Hafi nefndin veitt iðnmeistara áminningu skal tilkynna ráðherra um það.
     Ef brot er ítrekað eða alvarlegt getur skipulags- og byggingarnefnd svipt hann viðurkenningu.

61. gr.


Refsiábyrgð.


    
Ef hönnuður, byggingarstjóri eða iðnmeistari gerast sekir um alvarleg brot á lögum þessum eða reglugerðum og samþykktum settum samkvæmt þeim varðar það sektum og skal um slík mál fara að hætti opinberra mála. Í refsimáli skal gefa sveitarstjórn kost á að bera fram endurgjaldskröfu sem sveitarsjóður hefur haft vegna brotsins.

62. gr.


Aðgerðir til að knýja fram úrbætur.


    
Ef aðili sinnir ekki fyrirmælum skipulags- og byggingarfulltrúa eða skipulags- og byggingarnefndar innan þess frests sem sveitarstjórn setur getur hún ákveðið dagsektir þar til úr verður bætt. Hámark dagsekta skal ákveðið í byggingarreglugerð. Dagsektir renna í sveitarsjóð. Skjóta má slíkum málum til dómstóla.
     Skipulags- og byggingarnefnd getur látið vinna verk, sem hún hefur lagt fyrir að unnið skyldi, á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið.
     Dagsektir og kostnað skv. 1. og 2. mgr. má innheimta með lögtaki.

VI. KAFLI


Gildistökuákvæði.


63. gr.


Gildistaka.


     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1993. Jafnframt falla þá úr gildi skipulagslög, nr. 19
21. maí 1964, með síðari breytingum, og byggingarlög, nr. 54 16. maí 1978.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


     Að liðnum 10 árum frá gildistöku laga þessara skulu öll sveitarfélög hafa gert aðalskipulag.
     Ráðherra getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði þar sem aðstæður knýja ekki á um gerð aðalskipulags.

II.


     Ákvæði laga þessara skulu ekki hafa áhrif á viðurkenningu byggingaryfirvalda til handa iðnmeisturum og byggingarstjórum sem viðurkenndir eru til þess að standa fyrir framkvæmdum hver á sínu sviði við gildistöku laganna.

III.


     Á meðan varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna, sbr. lög nr. 110/1951, er í gildi
fer utanríkisráðherra með yfirstjórn skipulags- og byggingarmála á auglýstum varnarsvæðum í samræmi við ákvæði laga nr. 106/1954 og gegnir þeim störfum varðandi skipulags- og byggingarmál á þeim svæðum sem falin eru ráðherra samkvæmt lögum þessum. Ákvæði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim eiga við um skipulags- og byggingarmál á varnarsvæðum eftir því sem við getur átt, en í stað skipulags- og byggingarnefnda samkvæmt lögum þessum skipar utanríkisráðherra fimm manna nefnd sem fer með skipulags- og byggingarmál fyrir varnarsvæðin.
     Skipulags- og byggingarnefnd varnarsvæða skal í starfi sínu hafa náið samráð við Skipulagsstofnun ríkisins og forsvarsmenn þeirra sveitarfélaga sem hlut geta átt að máli.
     Utanríkisráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Inngangur.


    
Frumvarp þetta hafa samið, að ósk Eiðs Guðnasonar umhverfisráðherra í júní 1991,
Stefán Thors, skipulagsstjóri ríkisins, og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
     Fyrir lágu tvö frumvörp um sama efni. Það fyrra var samið af nefnd sem Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra skipaði 12. apríl 1989 og lagt var fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi árið 1989. Í nefndinni áttu sæti: Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri, formaður, Sigurgeir Sigurðsson bæjarstjóri, Guðmundur G. Þórarinsson alþingismaður og Guðrún Helgadóttir alþingismaður. Með nefndinni störfuðu Stefán Thors skipulagsstjóri og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir deildarlögfræðingur sem var ritari nefndarinnar.
     Seinna frumvarpið var samið af nefnd sem Júlíus Sólnes umhverfisráðherra skipaði 16. júlí 1990 og var lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990–91. Í nefndinni áttu sæti: Stefán Hermannsson aðstoðarborgarverkfræðingur, formaður, Gestur Ólafsson, arkitekt og skipulagsfræðingur, Geirharður Þorsteinsson arkitekt og Óttar P. Halldórsson, prófessor í verkfræði. Með nefndinni starfaði Ragnhildur Arnljótsdóttir laganemi sem var ritari nefndarinnar.
     Áður hafði verið samið frumvarp til skipulagslaga árið 1986. Var það samið af starfshópi undir forsæti Hallgríms Dalbergs ráðuneytisstjóra. Það var lagt fyrir Alþingi veturinn 1986–1987, en varð þá ekki útrætt.
     Þá lá einnig fyrir frumvarp til byggingarlaga sem samið var af nefnd er félagsmálaráðherra skipaði 11. ágúst 1987. Var Stefán Thors formaður nefndarinnar. Nefndin skilaði frumvarpinu ásamt athugasemdum við það til ráðherra 8. mars 1988.
     Lög um skipulagsmál voru fyrst sett hér á landi árið 1921. Á þeim voru gerðar breytingar á árunum 1926, 1932 og 1938. Lögin voru leyst af hólmi af núgildandi skipulagslögum, nr. 19 frá 1964, en á þeim hafa verið gerðar breytingar árin 1972, 1974 og 1978.
     Lög um byggingarmál eru nr. 54 frá 1978 og tóku þau gildi 1. janúar 1979. Þau komu í stað nokkurra laga og tilskipana frá eldri tíð þar sem heimild var veitt til þess að stofna byggingarnefndir og setja staðbundnar byggingarsamþykktir, en meginbreytingin, sem gerð var með lögunum, er sú að samkvæmt þeim var sett byggingarreglugerð sem gildir fyrir landið allt. Upphaflega reglugerðin er nr. 292/1979, en á henni hafa nokkrum sinnum verið gerðar breytingar.
    Nefndin kynnti sér fyrri frumvörp og athugasemdir og aðra umfjöllun sem þau hafa fengið. Í tveimur síðustu frumvörpum hefur verið tekin sú stefna að fjalla um skipulags- og byggingarmál í sömu lögum, enda væri um svo náskyld mál að ræða.
     Miðað við fyrri frumvörp og athugasemdir við þau hefur skipulagskaflinn fengið mesta umfjöllun og þar hefur verið mestur ágreiningur um það hversu langt skuli ganga í því að staðfesta frumkvæði og ábyrgð sveitarfélaganna í þeim málaflokki. Í frumvarpinu frá 1989 er t.d. gert ráð fyrir því að áætlun um deiliskipulag teljist ekki samþykkt fyrr en hún hefur verið samþykkt bæði í sveitarstjórn og af Skipulagsstofnun. Í frumvarpinu frá 1990–91 er hins vegar gert ráð fyrir að samþykkt sveitarstjórnar nægi og deiliskipulagið síðan sent Skipulagsstofnun til varðveislu.
     Í frumvarpinu frá 1989 er gert ráð fyrir að skipulagsstjórn ríkisins skipi formann í samvinnunefndum um svæðisskipulag en í frumvarpinu frá 1990–91 er ákvæði um slíkt fellt niður en í stað þess skuli fulltrúi Skipulagsstofnunar sitja fundi nefndanna og hafa þar tillögurétt.
     Nefnd sú, sem nú skilar áliti, var eins og fyrri nefndir á því að frumvarpið skyldi samið með það að markmiði að frumkvæði og ábyrgð sveitarfélaganna yrði staðfest og meðferð skipulags- og byggingarmála einfölduð. Þá hefur nefndin einnig lagt á það áherslu að þar sem því megi koma við verði ýmis ákvæði í lögum um nánari útfærslu færð yfir í reglugerð.
     Helstu breytingar frá gildandi lögum eru eftirfarandi:
    Skipulagslög og byggingarlög eru sameinuð í einn lagabálk.
    Skilgreindar eru ólíkar gerðir skipulagsáætlana, þar á meðal landsskipulag sem ekki hafa verið ákvæði um í lögum eða reglugerðum.
    Skipulagsstjórn ríkisins er lögð niður og verkefni færð til Skipulagsstofnunar og sveitarfélaganna.
    Frumkvæði, gerð og framkvæmd svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana er fært frá ríki til sveitarfélaga.
    Skilgreint er nýtt hlutverk Skipulagsstofnunar ríkisins þar sem m.a. er lögð aukin áhersla á ráðgjöf og rannsóknir.
    Aukin áhersla er lögð á að allar sveitarstjórnir láti vinna aðalskipulagsáætlanir. Þetta á jafnt við um þéttbýli og strjálbýli.
    Sveitarstjórn þarf ekki að óska eftir heimild skipulagsstjórnar til að auglýsa tillögu að skipulagi.
    Skipulagsstofnun hefur ekki afskipti af deiliskipulagi svo fremi það sé í samræmi við staðfest aðalskipulag.
    Ekki er reiknað með að sveitarstjórnir þurfi meðmæli Skipulagsstofnunar og samþykki ráðherra til að taka eignarnámi landsvæði eða fasteignir vegna fyrirsjáanlegrar þróunar sveitarfélagsins.
    Auk þess sem skipulagsgjald greiðist af brunabótamati hverrar nýbyggingar eins og verið hefur er lagt til að skipulagsgjald verði einnig greitt af mannvirkjum.
    Skipulags- og byggingarnefndir fara með skipulags- og byggingarmál undir yfirstjórn sveitarstjórnar (ekki ráðuneytis).
    Fellt er niður ákvæði um að ráðherra skeri úr komi upp ágreiningur milli skipulags- og byggingarnefndar og sveitarstjórnar.
    Auknar kröfur eru gerðar um þolhönnun bygginga og efnisval.
    Hönnunargögn bygginga og annarra mannvirkja eru nánar skilgreind.
    Skýrari ákvæði eru um löggildingu hönnuða og ábyrgð þeirra.
    Málsmeðferð, þegar einhver telur rétti sínum hallað með ályktun skipulags- og byggingarnefndar, er breytt á þann hátt að ekki er kært til ráðuneytis eins og gert er samkvæmt gildandi byggingarlögum heldur til nefndar sem skipuð verði fulltrúa umhverfisráðuneytisins, fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og formanni, skipuðum af Hæstarétti.
    Bráðabirgðaákvæði er sett um að öll sveitarfélög skuli hafa gengið frá aðalskipulagi 10 árum eftir gildistöku laganna.
     Auk þess sem hér er rakið er mikið um smávægilegar breytingar og ýmislegt fellt niður sem á frekar heima í reglugerð.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. gr., sem er nýmæli, er gerð grein fyrir þeim markmiðum sem liggja að baki lagasetningunni. Þetta er m.a. gert til þess að leggja áherslu á þær faglegu kröfur sem gerðar eru til áætlunargerðar og hönnunar á sviði skipulags- og byggingarmála.

Um 2. gr.


    Í greininni eru skilgreind helstu hugtök um skipulagsmál sem notuð eru í frumvarpinu. Gert er ráð fyrir að önnur hugtök, sem fyrir koma í lögunum, verði nánar útskýrð í reglugerð eftir því sem ástæða þykir til.

Um II. kafla.


     Í þessum kafla er fjallað um stjórn skipulags- og byggingarmála. Samkvæmt núgildandi skipulagslögum er það hlutverk skipulagsstjórnar að samþykkja tillögu að skipulagi sem skipulagsstjóri hefur gert og senda hana til viðkomandi sveitarstjórnar til umsagnar. Þannig hefur frumkvæði og ábyrgð á gerð skipulagsáætlana fyrst og fremst verið skipulagsstjórnar og skipulagsstjóra að forminu til þótt sveitarfélögin hafi á síðari árum í raun tekið til sín frumkvæði og framkvæmd á þessu sviði í auknum mæli.
     Með frumvarpinu er sú breyting lögð til að frumkvæði og forræði varðandi gerð skipulagsáætlana verði ótvírætt fært til sveitarstjórna. Skipulagsáætlanir um þróun og mótun byggðar eru stjórntæki sveitarstjórnar og því er eðlilegt að þau taki við því hlutverki, jafnframt því sem þau tryggi eftirlit með því að mannvirkjagerð falli að skipulagsáætlunum og þeim almennu gæðakröfum sem gerðar eru til bygginga á hverjum tíma.
    Sú stofnun, sem nú heitir Skipulag ríkisins, er í frumvarpinu nefnd Skipulagsstofnun. Það er gert til einföldunar þótt byggingarmál séu til umfjöllunar hjá stofnuninni og í raun um að ræða skipulags- og byggingarstofnun. Þá er gert ráð fyrir því að skipulagsstjórn ríkisins verði lögð niður og verkefni hennar færð yfir til Skipulagsstofnunar og sveitarfélaga.
     Þegar skipulagslög voru fyrst sett árið 1921 var húsameistari ríkisins eini háskólamenntaði arkitekt landsins, en vegamálastjóri einn af örfáum verkfræðingum. Það þótti því ráð að lögfesta setu þeirra í skipulagsnefnd ríkisins eins og skipulagsstjórn þá hét, auk prófessorsins í heilbrigðisfræðum við Háskóla Íslands, Guðmundar Hannessonar, sem sýnt hafði skipulagsmálum sérstakan áhuga.
     Með breytingu á lögunum árið 1938 var ákveðið að vitamálastjóri, sem jafnframt var hafnamálastjóri landsins, skyldi eiga sæti í nefndinni í stað prófessorsins er þá hafði náð aldurshámarki starfsmanna ríkisins. Með setningu núgildandi laga var svo nafni nefndarinnar breytt í skipulagsstjórn ríkisins og stjórnarmönnum fjölgað í fimm þannig að auk fyrrgreindra embættismanna sitja í stjórninni tveir til viðbótar sem skipaðir eru af ráðherra, annar samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga og hinn án tilnefningar.
     Ekki þarf að taka fram að aðstæður eru nú gjörbreyttar frá setningu fyrstu laganna um skipulagsmál hvað snertir sérfræðiþekkingu á sviði skipulags- og byggingarmála og þróun undanfarinna ára hefur gengið í þá átt að embættismenn sitji ekki í nefndum og ráðum með hliðstætt hlutverk og hér um ræðir.

Um 3. gr.


    Yfirstjórn skipulags- og byggingarmála, sem áður var hjá félagsmálaráðuneytinu, fluttist til umhverfisráðuneytis 1. janúar 1991. Sú breyting er gerð að í stað þess að skipulagsstjórn ríkisins og skipulagsstjóri skuli vera ráðuneytinu til aðstoðar verður það nú hlutverk Skipulagsstofnunar þar sem gert er ráð fyrir að skipulagsstjórn verði lögð niður.

Um 4. gr.


    Í 13. gr. gildandi skipulagslaga eru taldir upp ýmsir þættir skipulagsáætlana sem kveða á nánar á um í reglugerð, þar á meðal um að öldruðu og fötluðu fólki sé gert auðvelt að komast leiðar sinnar o.s.frv. Kröfur til skipulagsáætlana hafa verið að þróast og þær taka breytingum í tímans rás. Því þykir ekki heppilegt að telja upp einstök atriði sem taka á tillit til í lögunum, en hins vegar verði kveðið á um tæknilega útfærslu skipulagsáætlana í reglugerð. Þá er tekið fram að í reglugerð skuli vera ákvæði um hvernig meta skuli áhrif framkvæmda á umhverfið en hjá Skipulagi ríkisins er unnið að tilraunaverkefni í umhverfismati. Að því loknu verður gerð tillaga um það hvernig umhverfismat geti tengst gerð skipulagsáætlana.

Um 5. gr.


    Í greininni er ákveðin sú verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga að gerð og framkvæmd svæðisskipulags, aðalskipulags og deiliskipulags sé í höndum sveitarstjórna. Landsskipulag er hins vegar á vegum ríkisins (ríkisstofnana), enda er þar um að ræða skipulag framkvæmda sem ná til margra sveitarfélaga og skipulagssvæða.

Um 6. gr.


    Hér er fjallað um stjórn og eftirlit sveitarfélaga á sviði skipulags- og byggingarmála. Í flestum stærri sveitarfélögum landsins eru nú starfandi sérstakar skipulagsnefndir sem eru ráðgjafarnefndir sveitarstjórna. Þær styðjast við almenn ákvæði sveitarstjórnarlaga, en í gildandi skipulagslögum eru hins vegar engin ákvæði um slíkar nefndir. Í gildandi byggingarlögum er hins vegar ákvæði um að í hverju sveitarfélagi skuli eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar kjósa byggingarnefnd, þó þannig að nágrannasveitarfélög geti haft samvinnu um kosningu svæðisbyggingarnefndar. Slík svæðisbyggingarnefnd hefur aðeins verið kosin á tveimur svæðum, þ.e. í Eyjafirði og Skagafirði.
     Þar sem tvær nefndir eru starfandi á sviði skipulags- og byggingarmála er verkaskipting þeirra sú að byggingarnefnd fjallar um einstök byggingarleyfi sem sótt er um á grundvelli gildandi skipulagsáætlunar, en skipulagsnefnd fjallar um gerð og breytingar á skipulagsáætlunum og veitir umsagnir um hvort tilteknar framkvæmdir séu í samræmi við skipulagsáætlun. Þar sem ekki hafa verið kosnar sérstakar skipulagsnefndir hafa byggingarnefndir fjallað um skipulagsmál.
     Samkvæmt frumvarpinu geta sveitarstjórnir kosið eina skipulags- og byggingarnefnd eða ákveðið að kjósa tvær nefndir hvora á sínu sviði.
     Æskilegt er talið að sveitarfélög geti stofnað svæðisskipulags- og byggingarnefnd með sameiginlegu starfsliði. Þannig yrði smærri sveitarfélögum gert kleift að koma á markvissari umfjöllun og eftirliti á sviði skipulags- og byggingarmála.
     Í frumvarpinu, sem lagt var fyrir Alþingi 1989, var sveitarfélögum með færri íbúa en 700 gert skylt að mynda byggðasamlög með nágrannasveitarfélögum um skipulags- og byggingarmál, en hér er lagt til að sveitarfélögin taki ákvörðun um þetta sjálf, en þar sem þeim er gert skylt að hafa í þjónustu sinni sérhæft starfslið á sviði skipulags- og byggingarmála er augljóst, fjárhagslegt hagræði að myndun slíkra byggðasamlaga. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því að 1. ágúst 1990 hætti Stofnlánadeild landbúnaðarins að taka þátt í kostnaði vegna embætta byggingarfulltrúa í strjálbýli og munu vera dæmi þess að sveitarfélög hafi hætt samvinnu um ráðningu byggingarfulltrúa og ráði þess í stað ófaglærða menn hvert um sig. Félag byggingarfulltrúa hefur ítrekað bent á nauðsyn þess að herða ákvæði um svæðisbyggingarnefndir og hefur Skipulag ríkisins tekið undir það með félaginu. Nefnd sú, sem hér skilar áliti, telur æskilegast að sveitarfélög verði sameinuð og að sveitarstjórnir fámennari sveitarfélaga taki sjálfar frumkvæði í því hvernig þær vilja framfylgja ákvæðum skipulags- og byggingarlaga.

Um 7. gr.


    Eins og áður er getið er lagt til að Skipulag ríkisins verði nefnt Skipulagsstofnun. Hlutverk hennar er síðan nánar skilgreint í greininni. Það nýmæli er tekið upp að stofnunin skuli beita sér fyrir rannsóknum á sviði skipulags- og byggingarmála. Ýmis verkefni skipulagsstjóra samkvæmt gildandi lögum og fyrri frumvörpum eru færð til Skipulagsstofnunar.

Um 8. gr.


    Hér eru lagðar til þær breytingar varðandi skipun í embætti skipulagsstjóra að tekið er fram að hann skuli hafa sérmenntun á sviði skipulags- og byggingarmála, en í núgildandi lögum eru ekki gerðar sérstakar menntunarkröfur. Jafnframt er gerð sú breyting að hann skuli skipaður til fimm ára í senn, en nú gildir æviráðning um skipun í embættið.

Um III. kafla.


     Í þessum kafla er fjallað um skipulag byggðar og er hann verulega breyttur frá því sem
gildandi lög kveða á um. Hinar ýmsu gerðir skipulagsáætlana eru skilgreindar og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga breytt þannig að vald er í auknum mæli fært til sveitarfélaga, en eindregnar óskir hafa komið fram um það í athugasemdum við fyrri frumvörp. Markmið með þessum breytingum er að ekki þurfi að koma til afskipti ráðuneytis eða Skipulagsstofnunar nema sveitarfélög fari út fyrir ramma laganna um form og lögmæti ákvörðunar eða að upp komi ágreiningur að öðru leyti.

Um 9. gr.


    Samkvæmt þessu frumvarpi eru öll sveitarfélög skipulagsskyld eins og í núgildandi skipulagslögum. Á vegum umhverfisráðuneytisins er nú unnið að því að fastsetja málsmeðferð skipulags- og byggingarmála á Miðhálendi Íslands. Það er talið nauðsynlegt vegna þess að í sveitarstjórnarlögum er ákvæði um að byggðin í landinu skiptist í sveitarfélög og því óljóst með skipulagsskyldu á svæðum sem teljast til óbyggðar án þess að mörk milli byggðar og óbyggðar hafi verið skilgreind. Vaxandi byggingarframkvæmdir á hálendinu gera það nauðsynlegt að skorið verði úr um málsmeðferð.

Um 10. gr.


    Í gildandi lögum er ákvæði um að gera skuli skipulagsuppdrætti af öllum þéttbýlisstöðum þar sem búa 50 manns eða fleiri eða þar sem ætla má að mati skipulagsstjórnar að þéttbýli rísi. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gera skuli aðalskipulag fyrir öll sveitarfélög og í bráðabirgðaákvæðum eru sett þau tímamörk að 10 árum eftir gildistöku laganna skuli öll sveitarfélög hafa gert aðalskipulag. Í mörgum strjálbýlissveitarfélögum er töluvert um byggingarframkvæmdir. Má þar nefna sumarbústaði, íbúðarhús á lögbýlum sem ekki tengjast búskap og byggingar fyrir atvinnustarfsemi. Þar við bætist ýmis mannvirkjagerð á vegum veitustofnana. Samkvæmt gildandi lögum þarf sveitarstjórn, þegar aðalskipulag er ekki fyrir hendi, að leita samþykkis skipulagsstjórnar fyrir öllum byggingarframkvæmdum sem ekki tengjast búskap. Nefndin telur nauðsynlegt að í öllum sveitarfélögum sé mörkuð stefna í landnotkun og landnýtingu, ekki síst vegna fyrirsjáanlegra breytinga á landbúnaðarframleiðslu. Aðalskipulagsáætlun er kjörið hjálpartæki við slíka stefnumörkun.
     Lögð er til sú breyting að aðalskipulagsáætlanir séu til 10 ára í stað 20 ára.

Um 11. gr.


    Nokkur sveitarfélög hafa efnt til kynningarfunda um aðalskipulagsgerð áður en eiginleg skipulagsvinna hefst. Þetta hefur verið gert til að kynna hagsmunaaðilum hvernig staðið verði að skipulagsgerðinni og gefa þeim um leið tækifæri til að koma á framfæri hugmyndum sínum. Þetta hefur reynst betur en að halda kynningarfundi þegar fyrir liggur nánast fullmótuð aðalskipulagstillaga.
     Samkvæmt gildandi lögum þarf sveitarstjórn að leita eftir heimild skipulagsstjórnar til að auglýsa aðalskipulagstillögu. Þessu er breytt þannig að sveitarstjórn sendir Skipulagsstofnun tillöguna til athugunar og hafi hún ekki gert athugasemdir innan fjögurra vikna er tillagan auglýst.

Um 12. gr.


    Ákvæði um auglýsingu er óbreytt frá gildandi lögum nema frestur til að skila athugasemdum er styttur úr átta vikum í sex. Þetta er gert í þeim tilgangi að flýta málsmeðferð.

Um 13. gr.


    Málsmeðferð að lokinni auglýsingu er breytt frá gildandi lögum þannig að í stað þess að skipulagsstjórn fjalli um athugasemdir og umsagnir sveitarstjórna um þær fjallar Skipulagsstofnun um málið. Þá er það nýmæli í lögum að leggi Skipulagsstofnun til að synjað verði um staðfestingu skuli synjunin rökstudd með greinargerð.

Um 14. gr.


    Ákvæði 1. mgr. eru í samræmi við 20. gr. gildandi laga. Ákvæði 2. mgr. er nýmæli, en það veitir ráðherra heimild til að fresta staðfestingu á aðalskipulagi fyrir ákveðið landsvæði vegna almannahagsmuna eða vegna ósamræmis milli skipulagsáætlana aðliggjandi sveitarfélaga.

Um 15. gr.


    Ákvæði um endurskoðun skipulagsáætlana hafa ekki verið í skipulagslögum, en í skipulagsreglugerð hafa verið ákvæði um að eigi sjaldnar en á fimm ára fresti skuli aðalskipulag tekið til endurskoðunar. Hér er um lykilatriði að ræða ef aðalskipulagsáætlun á að vera virkt stjórntæki sveitarstjórna og eðlilegt þykir að ákvæði um reglubundna endurskoðun sé að finna í skipulagslögunum sjálfum.
     Endurskoðun aðalskipulags getur falið í sér mikla vinnu og er hér lagt til að nýkjörnar sveitarstjórnir meti að afloknum sveitarstjórnarkosningum hvort þörf sé endurskoðunar.

Um 16. gr.


    Þessi grein er í samræmi við 3. og 4. mgr. 19. gr. núgildandi skipulagslaga að því undanskildu að Skipulagsstofnun kemur í stað skipulagsstjórnar. Nauðsynlegt er að hafa slíkt ákvæði í því skyni að hægt sé að gera minni háttar breytingar án þess að með þær þurfi að fara skv. 12. og 13. gr. Við framkvæmd aðalskipulags koma oft upp tilvik þar sem breyta þarf minni háttar atriðum.

Um 17. gr.


    Ágreiningur um aðalskipulag á mörkum sveitarfélaga hefur reynst erfiður úrlausnar og því þykir nauðsynlegt að lögfest verði skýr ákvæði um það hvernig með verði farið.

Um 18. gr.


    Í 11. gr. gildandi skipulagslaga er ákvæði um að þar sem gerður hafi verið aðalskipulagsuppdráttur skuli, þar sem þörf krefji, einnig gera séruppdrætti, þ.e. það sem síðar hefur verið kallað deiliskipulag. Upp hefur komið ágreiningur um deiliskipulagsskyldu og hver eigi að meta þörfina hverju sinni: sveitarstjórn, skipulagsstjórn eða ráðherra. Lagt er til að gert skuli deiliskipulag þar sem verulegar framkvæmdir eru fyrirhugaðar eftir nánari ákvörðun sveitarstjórnar hverju sinni. Þar sem deiliskipulag er ekki fyrir hendi getur sveitarstjórn engu að síður leyft einstakar byggingarframkvæmdir innan ramma aðalskipulags, en kynna þarf fyrirhugaðar framkvæmdir fyrir næstu nágrönnum og gefa þeim kost á því að láta skoðun sína í ljós. Þetta á ekki síst við í eldri hverfum þar sem verið er að byggja í skörð eða á lóðum þar sem hús hafa verið rifin og ekki er talin ástæða til að gera deiliskipulag.

Um 19. gr.


    Þessi grein er efnislega í samræmi við 30. gr. gildandi skipulagslaga. Sú breyting er þó gerð að verði sveitarstjórn við tilmælum landeiganda um að land hans verði skipulagt sem byggingarlóðir láti hann sveitarfélaginu endurgjaldslaust í té 1 / 3 hluta þess lands sem heimildin nær til. Samkvæmt gildandi ákvæðum skal landeigandi láta af hendi 1 / 3 af heildarflatarmáli þeirra byggingarlóða sem heimildin nær til, en reynslan sýnir að það er allsendis ófullnægjandi.

Um 20. gr.


    Um kynningu deiliskipulags hafa ekki verið sérstök ákvæði í lögum. Hér er gerð deiliskipulags einfölduð. Tillögu skal hafa til sýningar fyrir almenning í þrjár vikur og jafnframt skal auglýsa eftir athugasemdum innan fimm vikna frá birtingu auglýsingar um sýninguna. Senda skal tillöguna Skipulagsstofnun til kynningar.

Um 21. gr.


    Hér er fjallað um meðferð á deiliskipulagstillögu eftir að frestur til að gera athugasemdir við hana er liðinn. Deiliskipulag tekur ekki gildi fyrr en það hefur verið samþykkt af sveitarstjórn við seinni umræðu.

Um 22. gr.


    Í þessari grein er fjallað um breytingar á samþykktu deiliskipulagi og er þar um nokkra einföldun að ræða frá þeim reglum sem nú gilda. Auglýst skal eftir athugasemdum við breytinguna og skal við aðra umræðu í sveitarstjórn taka afstöðu til innsendra athugasemda.

Um 23. gr.


    Með vaxandi byggð, nýjum og fullkomnum samgönguæðum og nýjum viðhorfum á sviði atvinnumála hefur skapast þörf fyrir gerð skipulags er nái yfir heilt hérað eða nokkur sveitarfélög í senn. Ákvæði um svæðisskipulag eru í 3. og 12. gr. núgildandi skipulagslaga og hefur talsvert verið unnið eftir þeim. Hér er gert ráð fyrir að nágrannasveitarfélög óski sameiginlega eftir því að gert verði svæðisskipulag til þess að samræma þróun byggðar og aðalskipulag sveitarfélaga á svæðinu.

Um 24. gr.


    Greinin skýrir sig sjálf.

Um 25. gr.


    Fjölmargar stofnanir ríkisins hafa framkvæmdir á sinni könnu sem ná til landsins alls. Nauðsynlegt er að samræmis sé gætt milli áætlana um þessar framkvæmdir og skipulagsáætlana sveitarfélaga. Því er í greininni mælt fyrir um að Skipulagsstofnun skuli í samvinnu við aðra opinbera aðila sjá um að upplýsingar og gögn varðandi landsskipulag séu fyrir hendi.

Um 26. gr.


    Hér er fjallað um ákvörðun á legu opinberra mannvirkja sem ná yfir fleiri en eitt sveitarfélag. Nauðsynlegt er að ákveðnar verklagsreglur komist á um slíkar ákvarðanir. Samkvæmt frumvarpinu skal staðfesta slíka legu og hún skal hafa sama gildi og staðfest aðalskipulag.

Um 27. gr.


    Greinin samsvarar 7.–9. gr. núgildandi laga.

Um 28. gr.


    Greinin samsvarar 32. gr. gildandi laga, en er ítarlegri.

Um 29. gr.


    Greinin samsvarar 31. gr. gildandi laga, en er ítarlegri.

Um 30. gr.


    Greinin samsvarar 26. gr. gildandi laga, en er ítarlegri.

Um 31. gr.


    Greinin samsvarar 27. og 28. gr. gildandi laga, en bætt er við heimild til þess að taka eignarnámi efnisnámur sem nauðsynlegar eru til framkvæmda á staðfestum og samþykktum skipulagsáætlunum.

Um 32. gr.


    Hér er fjallað um skaðabætur til eigenda fasteigna vegna röskunar sem framkvæmd skipulagsáætlunar hefur í för með sér. Er um sambærileg ákvæði að ræða og nú eru lögfest í 29. gr. skipulagslaga.

Um 33. gr.


    Um þetta efni er fjallað í 33. og 34. gr. gildandi laga. Í frumvarpinu er lagt til að settar verði skýrari reglur um kostnaðarskiptingu vegna skipulagsmála og jafnframt er hér um að ræða nokkrar breytingar frá gildandi lögum.

Um 34. gr.


    Í frumvarpinu er lagt til að skylt sé að leggja á skipulagsgjald, en samkvæmt gildandi lögum hefur ráðherra heimild til slíkrar álagningar. Heimildin hefur hins vegar verið notuð frá upphafi og er álagningarprósenta óbreytt samkvæmt frumvarpinu. Sú breyting er gerð að „nýbyggingar“ er breytt í: mannvirki. Þá er lagt til að ríkissjóður greiði árlega framlag til skipulagsmála sem sé eigi lægri fjárhæð en sem nemur helmingi skipulagsgjalda næstliðins árs. Er þetta óbreytt fyrirkomulag frá gildandi lögum.
     Til tals hefur komið að fella niður ríkisframlagið og leggja í stað þess skipulagsgjald á opinberar framkvæmdir eins og virkjanir, háspennulínur og vegagerð. Á undanförnum árum hefur umfjöllun um þessar framkvæmdir hjá Skipulagi ríkisins stóraukist.

Um 35. gr.


    Greinin er að mestu samhljóða 1. gr. núgildandi byggingarlaga. Að gefnu tilefni er þó tekið fram að auk vega séu brýr undanþegnar ákvæðum laganna og því bætt við að mannvirki undanþegin ákvæðum laganna skuli byggð á vegum opinberra aðila og undir eftirliti sérfræðinga. Þá er því einnig bætt við núgildandi ákvæði að óski byggingarfulltrúi þess skuli honum afhentir til varðveislu uppdrættir viðkomandi mannvirkis. Þessu er bætt við greinina til að tryggja möguleika á virku byggingareftirliti.

Um 36. gr.


    Fyrri hluti þessarar greinar (1. og 2. mgr.) er að mestu leyti samhljóða 4. gr. gildandi byggingarlaga. Þær viðbætur eru þó gerðar að í byggingarreglugerð skuli vera ákvæði um mismunandi tegundir bygginga, grenndarkynningu, aðstöðu og umgengni á vinnustöðum, gróður og frágang lóða, hönnunargögn og réttindi og skyldur byggingarstjóra og iðnmeistara.
     Vegna aukins samstarfs um setningu staðla á ýmsum tæknilegum sviðum milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Evrópubandalagsins og innan samtakanna CEN og CENELEC er í 3. mgr. sú viðbót að auk þess að í byggingarreglugerð skuli vísað til gildandi íslenskra staðla um tæknilega útfærslu og fleiri atriði sem varða mannvirkjagerð sé heimilt að vísa til sérsviðssamninga og túlkunarskjala sem hafa verið samþykkt í samstarfi milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Evrópubandalagsins um Evrópskt efnahagssvæði.

Um 37. gr.


    Hlutverk skipulags- og byggingarnefnda verður víðtækara en byggingarnefndanna samkvæmt núgildandi byggingarlögum því auk þess að fjalla um byggingarmál og gera tillögur til sveitarstjórnar um afgreiðslu þeirra fjallar nefndin um stefnumörkun í skipulagsmálum og gerð skipulagsáætlana.

Um 38. gr.


    Fellt er niður ákvæði um að ráðherra skeri úr komi upp ágreiningur milli skipulags- og byggingarnefndar og sveitarstjórnar. Málsmeðferð, þegar einhver telur rétti sínum hallað með ályktun skipulags- og byggingarnefndar, er breytt á þann hátt að ekki er kært til ráðuneytis eins og gert er samkvæmt gildandi byggingarlögum heldur til nefndar sem skipuð verði fulltrúa ráðuneytisins, fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og formanni, skipuðum af Hæstarétti.

Um 39. gr.


    Í 21. gr. gildandi byggingarlaga eru gerðar þær kröfur að byggingarfulltrúi skuli vera arkitekt, byggingarfræðingur, byggingartæknifræðingur eða byggingarverkfræðingur. Í strjálbýli er heimilt að ráða búfræðikandídat úr tæknideild búnaðarháskóla í stöðu byggingarfulltrúa. Í frumvarpinu eru gerðar þær almennu kröfur til skipulags- og byggingarfulltrúa að hann skuli hafa sérmenntun á tæknisviði frá háskóla eða tækniskóla og að hann skuli hafa minnst tveggja ára starfsreynslu sem skipulags- og byggingarnefnd tekur gilda. Fáist ekki maður í stöðuna með fullnægjandi menntun er þó heimilt að ráða tímabundið mann með minni menntun.

Um 40. gr.


    Þessi grein er í aðalatriðum samhljóða 22. gr. gildandi byggingarlaga.

Um 41. gr.


    Þessi grein er að mestu samhljóða 6. mgr. 12. gr. gildandi byggingarlaga og kveður á um að skipulags- og byggingarfulltrúa og starfsmönnum hans sé óheimilt að gera uppdrætti að byggingu eða öðru mannvirki í hlutaðeigandi umdæmi nema sérstaklega standi á, enda hafi nefndin þá fyrir fram veitt leyfi sitt hverju sinni. Ástæður þessa eru augljóslega þær að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og óeðlileg vinnubrögð við framkvæmd opinbers eftirlits.

Um 42. gr.


    Þessi grein er í aðalatriðum samhljóða 25., 26. og 27. gr. gildandi byggingarlaga.

Um 43. gr.


    Greinin er nýmæli og liður í hertu byggingareftirliti. Er skipulags- og byggingarfulltrúa veitt heimild til þess í sérstökum tilvikum að óska eftir prófreikningum hönnunar frá sérstökum prófhönnuðum, en þar er um að ræða viðurkennda sérfræðinga á sviði hönnunar, t.d. varðandi styrkleika bygginga gagnvart jarðskjálftum. Er gert ráð fyrir því að ráðherra geti gefið út sérstakar reglur um viðurkenningu slíkra prófhönnuða og um kröfur sem til þeirra eru gerðar, en dæmi eru um slíkt fyrirkomulag í nágrannaríkjum okkar.
     Þá er í greininni einnig heimild til að krefja framleiðendur og byggingarefnissala um vottorð frá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins eða hliðstæðum stofnunum um að söluvörur þeirra standist gæðakröfur byggingarreglugerðar. Krefjast má sérstakra eftirlitsmanna með framkvæmdum við meiri háttar mannvirkjagerð og krefjast má álagsprófunar mannvirkis eftir að það hefur verið reist.

Um 44. gr.


    Greinin er að mestu samhljóða 1., 2. og 3. mgr. 9. gr. gildandi byggingarlaga. Bætt hefur verið við ákvæði um að skipulags- og byggingarfulltrúi geti heimilað lóðarhafa könnun jarðvegsgerðar á byggingarlóð þótt framkvæmdaleyfi sé ekki fengið. Þetta er gert m.a. til að koma til móts við þörf á upplýsingum um jarðveg sem nota þarf við hönnun mannvirkis.

Um 45. gr.


    Þessi grein er í aðalatriðum samhljóða 4., 5., 7. og 8. mgr. 9. gr. gildandi byggingarlaga. Ákvæði um yfirlýsingu um ábyrgð á framkvæmdum er fært í 47. gr. þessa frumvarps. Byggingarleyfi veitir ekki heimild til framkvæmda, jafnvel þótt það hafi verið staðfest í sveitarstjórn þar sem framkvæmdaleyfi þarf einnig að koma til, sbr. 47. gr.

Um 46. gr.


    Greinin er samhljóða 10. gr. í gildandi byggingarlögum.

Um 47. gr.


    Greinin er nýmæli. Byggingarleyfi, sem veitt er út á aðaluppdrætti, veitir ekki heimild til framkvæmda, heldur þarf einnig að koma til sérstakt framkvæmdaleyfi, en það tryggir að fullnægjandi burðarþols-, kerfis- og deiliuppdrættir hafi verið gerðir og að byggingarstjóri og iðnmeistarar hafi verið ráðnir til verksins og að þeir hafi undirritað yfirlýsingu um ábyrgð sína á leyfðum framkvæmdum.
     Í undantekningartilvikum er þó heimilt að veita framkvæmdaleyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda eins og t.d. til þess að grafa grunn eða hefja steypuvinnu þótt mannvirkið hafi ekki verið fullhannað í smáatriðum.

Um 48. gr.


    Greinin fjallar um það hvenær byggingarleyfi falli úr gildi og er hún að mestu samhljóða núgildandi 15. gr. byggingarlaga. Þær breytingar eru lagðar til að byggingarleyfi falli úr gildi ef framkvæmdaleyfi hefur ekki verið gefið út og byggingarframkvæmdir hafnar innan tólf mánaða frá samþykkt sveitarstjórnar.

Um 49. gr.


    Greinin ásamt fjórum næstu greinum um hönnunargögn er nýmæli og kemur í stað 12. gr. í gildandi byggingarlögum sem er um margt óljós varðandi uppdrætti og löggildingu hönnuða. Í gildandi lögum eru nefndir aðaluppdrættir og séruppdrættir án þess að fram komi við hvað sé átt. Þá er í sömu grein tekið fram að rétt til að gera aðaluppdrætti og séruppdrætti af húsum og öðrum mannvirkjum geti hlotið arkitektar, byggingarfræðingar, tæknifræðingar og verkfræðingar hver á sínu sviði, án þess að viðkomandi svið séu skilgreind.
     Í þessari grein frumvarpsins eru hönnunargögn skilgreind sem uppdrættir og fylgiskjöl. Uppdrættir eru síðan greindir í aðaluppdrætti, burðarþolsuppdrætti, kerfisuppdrætti og deiliuppdrætti. Þessar fjórar ólíku gerðir uppdrátta eru skilgreindar og tekið fram að kröfur varðandi hönnunargögn verði nánar settar fram í byggingarreglugerð.

Um 50. gr.


    Tvær fyrstu málsgreinar þessarar greinar um áritun á uppdrætti og ábyrgð á þeim eru í samræmi við 4. og 5. mgr. 12. gr. gildandi byggingarlaga.
     Í 2. mgr. er hins vegar það nýmæli lagt til að uppdráttur skuli áritaður af löggiltum hönnuði sem tekið hefur að sér samræmingu þeirra uppdrátta sem mannvirkið verður byggt eftir, en um það eru ákvæði í gildandi byggingarreglugerð.
     Í 3. mgr. er það nýmæli lagt til að hönnuðir, sem leggja uppdrætti fyrir byggingarnefnd, skuli hafa ábyrgðartryggingu sem nánar sé mælt fyrir um í byggingarreglugerð. Sambærileg ákvæði hafa á síðustu árum verið lögfest í nýrri löggjöf varðandi fasteignasala og verðbréfasala, en markmið þeirra er að tryggja að viðskiptavinir geti sótt skaðabætur til sjálfstætt starfandi aðila sem valda þeim tjóni með mistökum í starfi sínu.

Um 51. gr.


    Greinin er að mestu samhljóða 7. mgr. 12. gr. gildandi laga, en leitast er við að gera orðalag ótvíræðara.

Um 52. gr.


    Greinin er í samræmi við 1. mgr. 12. gr. gildandi laga, en sú breyting er gerð á orðalagi að í stað „gera uppdrátt“ kemur: leggja fram uppdrátt.
    Skilgreint er almennt hvaða skilyrðum hönnuðir þurfa að fullnægja áður en þeir geta öðlast rétt til löggildingar. Hönnuðir þurfa að hafa hlotið heimild ráðherra til starfsheitis, sérhæft sig á viðkomandi sviði og öðlast starfsreynslu hjá löggiltum aðila. Meginreglan er sú að umsækjendur þurfa að hafa tveggja ára starfsreynslu. Þá skal umsækjandi hafa staðist próf í íslenskri skipulags- og byggingarlöggjöf ásamt tilheyrandi reglugerðum.
     Til að aðstoða ráðherra við mat á sérnámi og starfsreynslu og framkvæmd og mati prófs er lagt til að ráðherra skipi prófnefnd til fjögurra ára í senn. Felld er niður krafa um umsögn stéttarfélaga og skipulagsstjórnar.

Um 53. gr.


    Greinin er nýmæli, en í henni er skilgreint nánar hverjir geti hlotið löggildingu sem hönnuðir og þá til hvaða uppdráttagerðar. Varðandi aðaluppdrætti er lagt til að sú regla sé viðhöfð að arkitektar geti hlotið löggildingu. Byggingarfræðingar, byggingartæknifræðingar og byggingarverkfræðingar geti einnig hlotið löggildingu til aðaluppdráttar enda hafi þeir öðlast fjögurra ára starfsreynslu í starfi hjá löggiltum aðila á því sviði. Lagt er til að byggingartæknifræðingar og byggingarverkfræðingar geti hlotið löggildingu sem hönnuðir burðarþolsuppdrátta enda hafi þeir sérhæft sig á því sviði og hlotið starfsreynslu í starfi hjá löggiltum aðila á sama sviði.
     Innanhússhönnuðir og landslagshönnuðir hafa ekki áður verið nefndir í byggingarlöggjöf og hafa því hvorki þurft eða getað hlotið löggildingu. Báðar starfsstéttir hafa nú fengið lögverndun á starfsheiti sínu og gilda um þá sams konar reglur og þær starfsstéttir sem áður eru upp taldar í grein þessari. Lagt er til að innanhússhönnuðir geti fengið löggildingu til að leggja fram deiliuppdrætti að innra skipulagi bygginga og að landslagshönnuðir geti fengið löggildingu til að leggja fram deiliuppdrætti að skipulagi lóðar.

Um 54. gr.


    Í þessari grein og í 55. gr. er fjallað um sama efni og nú er fjallað um í 16.–19. gr. byggingarlaga. Hertar eru til muna kröfur um byggingarstjórn og er sett það skilyrði að við gerð hvers mannvirkis skuli vera einn ábyrgur aðili sem nefnist byggingarstjóri, en um það er aðeins heimildarákvæði í gildandi lögum. Tekið er fram hverjir geti orðið byggingarstjórar, en frá setningu núgildandi laga árið 1978 hefur þeim aðilum fjölgað mjög sem uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til byggingarstjóra samkvæmt frumvarpinu.
     Ákvæði um verksvið byggingarstjóra er samhljóða 17. gr. núgildandi laga, en nýmæli er að í byggingarreglugerð skuli kveðið á um samning milli byggingarstjóra og eiganda byggingarframkvæmda. Þá er það einnig nýmæli að byggingarstjóri skuli hafa ábyrgðartryggingu.
     Ákvæði um ábyrgð byggingarstjóra er að mestu samhljóða 1. mgr. 18. gr. núgildandi laga. Bætt er við ákvæði um að byggingarstjóri skuli við lok framkvæmda staðfesta að byggt hafi verið í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir.
     Í greininni eru einnig ákvæði um hvernig staðið skuli að málum ef byggingarstjóri hættir áður en verki er lokið, þ.e. með úttekt á þeim verkhluta sem lokið er og samþykki fráfarandi og aðkomandi byggingarstjóra.

Um 55. gr.


    Í þessari grein, sem er nýmæli, er fjallað um ábyrgð iðnmeistara gagnvart eiganda byggingarframkvæmda og skipulags- og byggingarnefnd og hverjir geti hlotið viðurkenningu skipulags- og byggingarnefndar til að taka á sig slíka ábyrgð.
     Ákvæði eru um það hvernig staðið skuli að málum ef iðnmeistari hættir áður en verki er lokið, þ.e. með úttekt á þeim verkhluta sem lokið er og með samþykki fráfarandi og aðkomandi iðnmeistara.
     Ákvæði um meint brot byggingarstjóra eða iðnmeistara er efnislega í samræmi við 33. gr. núgildandi laga. Verði byggingarstjóri eða iðnmeistari uppvís að því að sinna ekki umsjónarskyldu sinni með framkvæmd verks getur skipulags- og byggingarnefnd svipt hann viðurkenningu sinni fyrirvaralaust.

Um 56. og 57. gr.


    Greinarnar eru efnislega samhljóða VII. kafla núgildandi byggingarlaga.

Um V. kafla.


     Í þessum kafla er fjallað um ábyrgð aðila og viðurlög við brotum á lögum þessum og
reglugerðum sem settar eru í samræmi við þau.

Um 58. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 31. gr. núgildandi byggingarlaga að öðru leyti en því að hún nær einnig til atriða er varða skipulagsáætlanir.

Um 59. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 32. gr. núgildandi byggingarlaga að breyttu breytanda.

Um 60. gr.


    Í þessari grein er fjallað um heimild skipulags- og byggingarnefnda til þess að beita áminningum og sviptingu löggildingar ef byggingarstjórar eða iðnmeistarar gerast sekir um brot á ákvæðum laga og reglugerða um skipulags- og byggingarmál.

Um 61. gr.


    Hér er fjallað um refsiábyrgð hönnuða, byggingarstjóra og iðnmeistara. Með slík mál skal farið að hætti opinberra mála.

Um 62. gr.


    Hér er fjallað um aðgerðir skipulags- og byggingaryfirvalda til þess að knýja fram úrbætur með beitingu dagsekta eða með því að láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið.

Um 63. gr.


    Greinin skýrir sig sjálf.

Um ákvæði til bráðabirgða.


     Ákvæði I og II skýra sig sjálf.
     Ákvæði III er sett til þess að ákvarða nánar meðferð skipulags- og byggingarmála á varnarsvæðum. Samkvæmt lögum nr. 106 17. desember 1954 skal þeim ráðherra, sem falin er framkvæmd varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna er löggiltur var með lögum nr. 110/1951, fengin meðferð málaflokka á varnarsvæðum sem ella eru fengnir öðrum ráðherrum til meðferðar. Í lögunum er ekki getið um hlutverk sveitarstjórna þeirra sveitarfélaga sem hafa varnarsvæði innan marka sinna.
     Að gefnu tilefni þykir rétt að setja í frumvarpið ótvíræð ákvæði um þetta efni sem segja má að séu í samræmi við þá skipan mála er tekin var upp með setningu reglugerðar nr. 75 frá 15. mars 1982 um skipulagsmál á varnarsvæðunum. Samkvæmt reglugerðinni skipar utanríkisráðherra fimm manna nefnd er fer með skipulags- og byggingarmál innan varnarsvæðanna og skal hún í starfi sínu hafa samráð við Skipulagsstofnun og fyrirsvarsmenn viðkomandi sveitarfélaga.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til skipulags- og byggingarlaga.


    Með frumvarpi þessu verða skipulagslög og byggingarlög sameinuð í einn lagabálk og jafnframt falla úr gildi skipulagslög nr. 19/1964 og byggingarlög nr. 54/1978. Þeir þættir þessa frumvarps, er hafa munu áhrif á kostnað og tekjur ríkissjóðs, eru sem hér segir:
    Skipulagsgjald verði nú innheimt af öllum nýjum byggingum og mannvirkjum (34. gr.) en í núgildandi lögum er það einungis innheimt af nýbyggingum (35. gr. núgildandi laga). Skipulagsgjald er óbreytt og nemur 3‰ af brunabótamati þar sem slíkt mat er fyrir hendi en annars er miðað við fasteignamat mannvirkis. Hér er um umtalsverða útvíkkun á gjaldstofni að ræða þar sem gjaldið mun nú ná til allrar mannvirkjagerðar, svo sem vega, hafna, flugvalla, virkjana, veitna o.s.frv.
                  Á árinu 1992 er spáð að fjármunamyndun í mannvirkjun hins opinbera, öðrum en húsbyggingum sem greitt er skipulagsgjald af samkvæmt gildandi lögum, geti numið um 14 milljörðum króna. Sé gert ráð fyrir að fasteignamat slíkra mannvirkja nálgist kostnaðarverð má ætla að 3‰ skipulagsgjald gefi um 40 m.kr. í tekjur til viðbótar við þær rúmar 80 m.kr. sem nú er gert ráð fyrir að skipulagsgjald gefi af sér í sértekjur við embætti skipulagsstjóra ríkisins í fjárlögum yfirstandandi árs. Mannvirki í einkageiranum önnur en nýbyggingar verða einnig skipulagsgjaldskyld með frumvarpi þessu, en slík mannvirki eru fá.
    Í 33. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði um greiðslu kostnaðar. Liður a fjallar um kostnað við gerð svokallaðs landsskipulags. Sá kostnaður greiðist að fullu af viðkomandi stofnun, en Skipulagsstofnun ber kostnað vegna gagnaöflunar og vinnslu sem hún annast fyrir landsskipulag. Kostnaður vegna þessa verkefnis er talinn geta numið 2–3 m.kr. Liður b kveður á um að kostnaður við gerð svæðisskipulags greiðist til helminga af Skipulagsstofnun og hlutaðeigandi sveitarfélögum. Embætti skipulagsstjóra telur að á næsta áratug verði ráðist í 12 ný svæðisskipulagsverkefni og muni hvert þeirra kosta ríkissjóð um 5 m.kr., samtals 60 m.kr., auk 2 m.kr. á ári vegna endurskoðunar svæðisskipulagsáætlana, samtals 8 m.kr. á ári. Liður c kveður svo á að kostnaður við gerð aðalskipulags sveitarfélaga með færri en 700 íbúa greiðist að 3 / 4 af Skipulagsstofnun og að 1 / 4 af hlutaðeigandi sveitarfélagi. Talið er að fyrir liggi að gera allt að 110 ný aðalskipulög fyrir strjálbýlissveitarfélög. Hlutur ríkissjóðs í kostnaði hvers þeirra er talinn geti numið 1,7 m.kr., samtals 187 m.kr. Sé þeim kostnaði dreift á næsta áratug, yrði hann um 18,7 m.kr. á ári. Því til viðbótar má reikna með 5 m.kr. kostnaði á ári vegna endurskoðunar aðalskipulagsáætlana.
                  Til samans er áætlað að kostnaður vegna ofangreindra verkefna geti numið um 35 m.kr. á ári en undanfarin ár hefur hann verið um 20 m.kr., þ.e. nýr kostnaður mun nema um 15 m.kr.
    Skipulagsstjórn ríkisins sem skipuð er fimm mönnum verður lögð niður samkvæmt frumvarpinu. Embætti skipulagsstjóra verður fellt inn í Skipulagsstofnun og verður skipulagsstjóri yfirmaður hennar skv. 8. gr. Gert er ráð fyrir að sett verði á stofn úrskurðarnefnd (38. gr.) skipaðri þremur mönnum og er áætlað að nefndarlaun hennar muni nema um 360 þús. kr. Því til viðbótar er gert ráð fyrir sérstakri nefnd sérfróðra manna (3. gr.) á vegum umhverfisráðuneytis til ráðgjafar um skipulags- og byggingarmál. Kostnaðaráhrif af þessum nefndabreytingum eru taldar óverulegar.
    Samkvæmt ofangreindu má ætla verði frumvarp þetta að lögum að árlegar tekjur Skipulagsstofnunar ríkisins muni aukast um nálægt 25 m.kr. umfram viðbótarútgjöld stofnunarinnar sem ákvæði frumvarpsins hafa í för með sér.
     Lögunum er ætlað að taka gildi 1. janúar 1993. Í frumvarpi til fjárlaga ársins 1993 hefur ekki verið tekið tillit til þeirra fjárhagslegu breytinga sem frumvarpið mun hafa í för með sér verði það að lögum.