Ferill 241. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 241 . mál.


310. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 49/1974, um Lífeyrissjóð sjómanna, með síðari breytingum.

Flm.: Pétur Sigurðsson, Margrét Frímannsdóttir.



1. gr.

    2. mgr. 2. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1981, orðast svo:
    Þá skulu sjómenn, sem lögskráðir eru í tilteknum byggðarlögum eða landshlutum, vera utan við sjóðinn ef ráðherra hefur fyrir gildistöku laga þessara veitt þeim undanþágu frá þátttöku, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 78/1970. Um sjóði þá, er þessir sjómenn eiga aðild að, skulu gilda öll ákvæði þessara laga sem við geta átt og varða skyldur launagreiðenda til að halda eftir af launum iðgjaldagreiðslu og um innheimturétt, lögveð í skipum, svo og önnur atriði sem tryggja rétt lífeyrissjóðs samkvæmt þessum lögum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á 103. löggjafarþingi 1980–81 var lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna. Í því frumvarpi var sú breyting gerð aðallega að heimilað var að greiða sjómönnum lífeyri við 60 ára aldur og iðgjöld miðuð við heildarlaun en ekki hlutfall af kauptryggingu eins og lögin gerðu ráð fyrir.
    Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að óbreytt yrðu ákvæði um að sjómenn lögskráðir í tilteknum byggðarlögum eða landshlutum skyldu vera utan við sjóðinn ef ráðherra hefði fyrir gildistöku laganna veitt slíka undanþágu. Þá var einnig í sömu málsgrein tryggður innheimturéttur iðgjalda og lögveð í skipum, sem og önnur atriði sem tryggja rétt lífeyrissjóðs samkvæmt lögunum.
    Í meðferð þingsins breyttist þessi málsgrein á þann veg að innheimturéttur með lögveði í skipum var tekinn út úr lögunum þannig að aðeins Lífeyrissjóði sjómanna er tryggður þessi réttur. Í gögnum málsins er ekki hægt að sjá að hér hafi verið um ásetning að ræða, að mismuna þannig sjómönnum eftir því í hvaða lífeyrissjóði þeir tryggðu rétt sinn. Ekki er heldur hægt að finna að í umræðum um málið sé nokkurs staðar í máli þingmanna vikið að þessu atriði.
    Í framkvæmd hefur alltaf verið litið svo á að lögveðsréttur væri fyrir hendi þegar grípa hefur þurft til harðra innheimtuaðgerða, svo og við gjaldþrotaskipti fyrirtækja o.fl.
    Þegar inneign útgerðarfyrirtækja í Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins var ráðstafað á þessu ári gerði framkvæmdastjóri sjóðsins athugasemdir við rétt annarra lífeyrissjóða til lögveðs á skipum og því höfðu þeir ekki forgang á greiðslum úr sjóðnum eins og Lífeyrissjóður sjómanna.
    Frumvarp þetta er því flutt til að tryggja öllum sjómönnum sama rétt hvar í lífeyrissjóði sem þeir eru tryggðir.
    Eftirfarandi lífeyrissjóði, aðra en Lífeyrissjóð sjómanna, hafa sjómenn innan sinna vébanda:
    Lífeyrissjóð Vestfirðinga,
    Lífeyrissjóð Bolungarvíkur,
    Lífeyrissjóð verkamanna, Hvammstanga,
    Lífeyrissjóð Austurlands,
    Lífeyrissjóð Vestmannaeyja.