Ferill 253. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 253 . mál.


328. Tillaga til þingsályktunar



um neyðarráðstafanir gegn neyslu áfengis og annarra vímuefna.

Flm.: Jón Helgason, Anna Ólafsdóttir Björnsson,

Jóhann Ársælsson, Hermann Níelsson, Ingibjörg Pálmadóttir.


     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa nú þegar til neyðarráðstafana til að vinna gegn neyslu áfengis og annarra vímuefna í því skyni að draga úr þeirri bylgju ofbeldis, innbrota, nauðgana og annarra afbrota sem nú hvolfist yfir þjóðfélagið og veldur ólýsanlegum þjáningum og neyð. Leitað verði eftir því að koma á víðtæku samstarfi ríkisvalds, sveitarstjórna, lögreglu, skóla, kirkju, foreldrasamtaka og annarra aðila sem vilja vinna gegn þessum mikla vágesti með breyttu viðhorfi til vímuefnaneyslu.

Greinargerð.


     Stöðugt berast fréttir af vaxandi ofbeldi og öðrum afbrotum sem hljóta að vekja ógn hjá þeim sem gefa sér tíma til að hlusta. Mikill meiri hluti þessara verka stafa á beinan eða óbeinan hátt af neyslu áfengis og annarra vímuefna. Sem betur fer fjölgar þeim sem finnst þetta ástand óviðunandi og einhverra úrræða þurfi að leita. Flestar tillögur hníga í þá átt að auka þurfi löggæslu, stækka meðferðarstofnanir og fangelsi og margt hefur verið gert til að hjálpa einstaklingum sem í ógæfu hafa ratað á síðustu árum. En það er ekki aðeins að kostnaðurinn við það björgunarstarf fer sífellt vaxandi og verður einstaklingum og þjóðfélagi allt of dýr heldur er vonlaust að vinna nokkurn sigur í þeirri varnarbaráttu. Eina árangursríka úrræðið er því að fara að ráðum þeirra sem lengi hafa bent á að ráðast verði að rótum vandans. Þess vegna hafa verið stofnuð og eru starfandi ýmis félög og samtök sem vinna gegn neyslu áfengis og annarra vímuefna.
    Ein þeirra eru foreldrasamtökin Vímulaus æska. Hafa þau nýlega sent frá sér bækling sem heitir „Lítil hjálparhandbók“. Þar er bent á ýmsar athyglisverðar staðreyndir um þetta mikla vandamál og segir þar m.a.:
    „Neysla áfengis og annarra vímuefna eru ekki tvö aðskilin mál. Neysla áfengis er alltaf forsenda neyslu annarra vímuefna. Til þess að forvarnastarf sé markvisst þarf að ríkja eining um markmið og helstu leiðir. Litlar líkur eru á að okkur takist að verjast og hvað þá að hrekja vímuefni úr samfélagi okkar ef hver höndin er uppi á móti annarri og enginn vill vinna með öðrum að því marki. Við verðum öll að snúa bökum saman með sama markmið í huga í fjölskyldunni, skólanum, lögreglunni, sjúkrahúsinu, félagsmálastofnuninni, kirkjunni, vinnustaðnum, bæjar- og sveitarstjórninni o.s.frv. Stundum skapast slæmt ástand í vímuefnamálum vegna þess að ekkert hefur verið gert til að spyrna við fótum. Allir virðast vera að bíða eftir því að einhverjir aðrir en þeir sjálfir taki af skarið og geri eitthvað í málinu. Það er ákaflega slæmt því á meðan versnar ástandið og erfiðara verður að bæta úr því en annars væri.
    Vímulaus æska, foreldrasamtök, eru samtök foreldra sem vilja koma í veg fyrir vímuefnaneyslu barna og unglinga. Þau þurfa á þinni aðstoð á halda, aðstoð sem felst í því að þú takir af skarið og eigir frumkvæði að úrbótum í vímuefnamálum í þínu nánasta umhverfi, hverfinu, bænum eða sveitarfélaginu. Vímuefni eru ógnun við þjóðfélagið, lýðræðið og samábyrgð okkar. Velferð barna okkar er í húfi. Þau verða að eiga okkur að. Hver stund sem líður án þess að eitthvað sé gert er tími glataðra tækifæra. Áfengisneysla unglinga er spegilmynd af neyslu fullorðinna sem bera mikla ábyrgð sem fyrirmyndir og mótendur viðhorfa og venja.“
    Þannig væri lengi hægt að halda áfram að vitna í það sem skrifað hefur verið um neyslu áfengis og annarra vímuefna og sorglegar afleiðingar hennar. Slíkt er óþarfi þar sem allir þekkja þær staðreyndir svo vel, ekki aðeins af fréttum fjölmiðla, heldur þekkja allir einhverja úr hópi ættingja, vina eða kunningja sem eiga í óviðráðanlegum erfiðleikum af þessum sökum. Slíkar staðreyndir tala miklu skýrara máli en mörg orð.