Ferill 9. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 9 . mál.


349. Breytingartillögur



við frv. til samkeppnislaga.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Við 1. gr. Greinin orðist svo:
                  Lög þessi hafa það markmið að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Markmiði þessu skal náð með því að:
              a.    vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri,
              b.    vinna gegn óréttmætum viðskiptaháttum, skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum,
              c.    auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðinum.
    Við 3. gr.
         
    
    Við 2. mgr. bætist: sbr. þó ákvæði XI. kafla og reglur um viðskipti á sameiginlegum markaði Evrópska efnahagssvæðisins.
         
    
    3. mgr. falli brott.
    Við 4. gr.
         
    
    Á eftir skýringu hugtaksins fyrirtækjasamstæða í fyrri málsgrein komi ný orðskýring, svohljóðandi:
                             Markaðsráðandi staða er þegar fyrirtæki hefur þann efnahagslega styrkleika að geta hindrað virka samkeppni á þeim markaði sem máli skiptir og það getur að verulegu leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytenda.
         
    
    Í stað orðsins „endurgreiðslu“ í skýringu hugtaksins neytandi í fyrri málsgrein komi: endurgjaldi.
         
    
    Í stað orðsins „viðskiptaráðherra“ í síðari málsgrein komi: samkeppnisráð.
    Við 5. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Hlutverk samkeppnisráðs er sem hér segir:
              a.    að framfylgja boðum og bönnum laga þessara og leyfa undanþágur samkvæmt þeim,
              b.    að ákveða aðgerðir gegn samkeppnishamlandi hegðun fyrirtækja og óréttmætum viðskiptaháttum,
              c.    að stuðla að auknu gagnsæi markaðarins,
              d.    að gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni og benda stjórnvöldum á leiðir til þess að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að markaði.
    Við 6. gr. Greinin verði svohljóðandi:
                  Ráðherra skipar fimm menn í samkeppnisráð og jafnmarga til vara. Skulu þeir hafa sérþekkingu á samkeppnis- og viðskiptamálum og vera óháðir fyrirtækjum eða samtökum sem lögin taka til. Ráðherra skipar formann og varaformann ráðsins.
                  Skipunartími samkeppnisráðs er fjögur ár í senn. Látist aðal- eða varamaður í ráðinu eða forfallist varanlega skal skipa nýjan mann til loka skipunartíma ráðsins.
                  Nú er aðalmaður vanhæfur til meðferðar einstaks máls sökum tengsla við málsaðila og tekur varamaður þá sæti hans. Sé þess ekki kostur getur ráðherra að ósk formanns samkeppnisráðs skipað mann í ráðið til að taka þátt í umfjöllun þess um málið.
    Við 7. gr. 5. mgr. falli brott.
    Við 8. gr.
         
    
    Í stað orðanna „þriggja mánaða“ í 3. málsl. fyrri málsgreinar komi: sex vikna.
         
    
    Fyrri málsliður síðari málsgreinar orðist svo: Ráðherra skipar forstjóra Samkeppnisstofnunar til sex ára að fenginni umsögn samkeppnisráðs og stjórnar hann rekstri hennar.
    Við 9. gr. Greinin verði svohljóðandi:
                  Ákvörðunum samkeppnisráðs og Samkeppnisstofnunar má áfrýja til sérstakrar nefndar, áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Úrskurður áfrýjunarnefndar skal liggja fyrir innan sex vikna frá áfrýjun. Áfrýjun frestar ekki gildistöku ákvarðana samkeppnisráðs eða Samkeppnisstofnunar.
                  Í áfrýjunarnefnd samkeppnismála sitja þrír menn og jafnmargir til vara, skipaðir af ráðherra eftir tilnefningu Hæstaréttar. Formaður og varamaður hans, sem jafnframt er varaformaður, skulu uppfylla hæfisskilyrði hæstaréttardómara, en aðrir nefndarmenn skulu hafa faglega kunnáttu á sviði samkeppnis– og viðskiptamála.
                  Skipunartími áfrýjunarnefndar er hinn sami og skipunartími samkeppnisráðs.
    Við 11. gr.
         
    
    Á eftir orðunum „getur seljandi“ í 2. málsl. síðari málsgreinar komi: með heimild Samkeppnisstofnunar.
         
    
    Á eftir 2. málsl. síðari málsgreinar komi nýr málsliður, svohljóðandi: Þess skal gætt að ákvörðun um hámarksverð takmarki ekki óhæfilega svigrúm til álagningar á endursölustigi og valdi ekki hærra verði.
    Við 13. gr.
         
    
    Í stað orðsins „Samkeppnisstofnunar“ í fyrri málslið fyrri málsgreinar komi: samkeppnisráðs.
         
    
    Í stað orðsins „þriggja“ í 2. og 3. málsl. síðari málsgreinar komi: tveggja.
    Við 14. gr. Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Þegar um er að ræða opinbert fyrirtæki eða fyrirtæki sem starfar að einhverju leyti í skjóli opinbers einkaleyfis eða verndar er samkeppnisráði heimilt að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað annars vegar á milli þess hluta rekstrar fyrirtækisins sem nýtur einkaleyfis eða verndar og hins vegar þess hluta rekstrar sem er í frjálsri samkeppni við aðra aðila. Skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaleyfis- eða verndaðri starfsemi.
    Við 15. gr.
         
    
    Í stað orðanna „nytjaleyfishafi og nytjaleyfisnotandi“ komi: rétthafi og nytjaleyfishafi.
         
    
    Orðið „vörumerki“ falli brott.
    Við 16. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Undanþágur samkvæmt þessari grein mega ekki hamla samkeppni meira en nauðsynlegt er og geta þær bæði verið ótímabundnar eða veittar tímabundið. Hægt er að setja frekari skilyrði fyrir undanþágu.
    Við 17. gr.
         
    
    Við fyrri málsgrein bætist nýr stafliður, c-liður, svohljóðandi: óhæfilegri notkun á kaupbæti.
         
    
    Við síðari málslið síðari málsgreinar bætist: enda verði að mati samkeppnisráðs ekki með öðru móti komið í veg fyrir skaðleg áhrif á samkeppni í viðkomandi grein.
    Við 18. gr. Greinin orðist svo:
                  Telji samkeppnisráð að samruni fyrirtækja eða yfirtaka fyrirtækis á öðru fyrirtæki leiði til markaðsyfirráða þess, dragi verulega úr samkeppni og sé andstæð markmiði laga þessara getur ráðið ógilt samruna eða yfirtöku sem þegar hefur átt sér stað. Samkeppnisráð getur einnig sett slíkum samruna eða yfirtöku skilyrði sem verður að uppfylla innan tilskilins tíma. Sama á við ef eigendur með virk yfirráð í einu fyrirtæki ná virkum yfirráðum í öðru fyrirtæki þannig að slíkt valdi markaðsyfirráðum, hamli samkeppni og brjóti í bága við markmið laganna. Við mat á lögmæti samruna eða yfirtöku skal samkeppnisráð taka tillit til þess að hvaða marki alþjóðleg samkeppni hefur áhrif á samkeppnisstöðu hins sameinaða fyrirtækis.
                  Ákvörðun um ógildingu skal taka eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að samkeppnisyfirvöldum varð kunnugt um samrunann eða yfirtökuna.
                  Aðilar, sem hyggja á samruna eða yfirtöku, geta leitað álits samkeppnisráðs fyrir fram á því hvort samruninn eða yfirtakan brjóti gegn ákvæðum 1. mgr. Hafi samkeppnisráð ekki svarað slíkri fyrirspurn innan sex vikna frá því að samkeppnisyfirvöldum barst hún verður samruninn eða yfirtakan ekki ógilt nema samkeppnisráð hafi verið leynt upplýsingum sem máli skiptu við mat ráðsins á lögmæti athafnarinnar.
                  Ákvæði 3. mgr. ná einnig til þess þegar eigendur með virk yfirráð í einu fyrirtæki hyggjast ná virkum yfirráðum í öðru fyrirtæki og óska eftir vitneskju um hvort slíkt brjóti gegn 1. mgr.
    Við 19. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Slíkt álit skal einnig birta almenningi á fullnægjandi hátt, t.d. með fréttatilkynningu til fjölmiðla eftir að það hefur verið kynnt ráðherra.
    Við 23. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Skilmálar þjónustuaðila, sem bjóða þjónustu sína á íslenskum markaði, t.d. flutnings- og vátryggingaskilmálar, skulu undantekningarlaust vera á íslensku.
    Við 26. gr. Greinin falli brott.
    Við 27. gr. Greinin falli brott.
    Við 36. gr.
         
    
    Í stað orðanna „skal Samkeppnisstofnun afla“ komi: aflar Samkeppnisstofnun.
         
    
    Við greinina bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Samkeppnisráð skal setja Samkeppnisstofnun verklagsreglur um öflun slíkra upplýsinga, meðferð þeirra og birtingu.
    Við 37. gr. Síðari málsliður orðist svo: Skal þess gætt að viðskiptahættir séu sambærilegir hér við það sem almennt gerist í helstu viðskiptaríkjum Íslendinga.
    Við 40. gr. Greinin falli brott.
    Við 41. gr. Síðari málsliður síðari málsgreinar falli brott.
    Við 43. gr. Greinin orðist svo:
                  Samkeppnisstofnun getur við rannsókn máls gert nauðsynlegar athuganir á starfsstað fyrirtækis og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögum þessum eða ákvörðunum samkeppnisyfirvalda.
                  Við framkvæmd aðgerða skv. 1. mgr. skal fylgja ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit og hald á munum.
    Við 44. gr. Fyrri málsgrein verði svohljóðandi:
                  Skylt er þeim sem um er beðinn að veita eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og dómstóli EFTA þær upplýsingar sem þessum stofnunum er nauðsynlegt að afla sér til að unnt sé að framkvæma samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og samning EFTA-ríkja um eftirlitsstofnun og dómstól að því er varðar samkeppnismál. Sama gildir um framkvæmd fyrirmæla sem gefin eru með heimild í 51. gr.
    Við 46. gr.
         
    
    Í stað orðanna „framkvæmdastjórnar EFTA“ komi: framkvæmdastjórnar EB.
         
    
    Í stað orðanna „á Evrópska efnahagssvæðinu“ komi: samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Við 47. gr.
         
    
    1. mgr. verði svohljóðandi:
                            Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólnum er heimilt að leggja sektir á fyrirtæki, samtök fyrirtækja eða einstaklinga fyrir brot af ásetningi eða gáleysi á 53., 54. eða 57. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, svo og á ákvæðum bókunar 4 með samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls eða á reglum sem settar eru með heimild í 51. gr. þessara laga.
         
    
    Á eftir 1. mgr. komi ný málsgrein, er verði 2. mgr., svohljóðandi:
                            Sama gildir um framkvæmdastjórn EB og dómstól EB í þeim tilvikum sem þessir aðilar fara með lögsögu máls samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Við 50. gr. Á eftir orðunum „61. gr.“ í 1. mgr. komi: EES-samningsins.
    Við 52. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Samningsákvæði, sem teljast hafa efnislegt og efnanlegt sjálfstæði frá þeim ákvæðum sem brutu í bága við bannákvæði laga þessara, teljast þó gild. Ágreiningi varðandi þetta atriði má skjóta til samkeppnisráðs innan mánaðar frá því að samningur var ógiltur skv. 1. mgr.
    Við 54. gr. Við fyrri málsgrein bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Dagsektir geta numið frá 50 þúsundum til 500 þúsunda króna á dag.
    Við 55. gr. Síðari málsliður 2. mgr. orðist svo: Sektir geta numið frá 50 þúsundum til 40 milljóna króna, en þó allt að 10% af veltu sl. almanaksárs af þeirri starfsemi sem í hlut á hjá hverju því fyrirtæki eða samtökum fyrirtækja sem aðild eiga að samkeppnishömlunum ef sannanlegur ábati þeirra af broti gegn samkeppnisreglum laga þessara hefur numið hærri fjárhæð en 40 milljónum króna.
    Við 57. gr. Í stað orðsins „áfrýjun“ í 3. málsl. komi: ákvörðun.
    Við 60. gr. Á eftir orðunum „Dæma má“ í 4. mgr. komi: sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga og.
    Á undan 62. gr. komi ný kaflafyrirsögn, svohljóðandi: XIV. KAFLI, Gildistaka og ákvæði til bráðabirgða.
    Við 62. gr. Í stað orðanna „1. janúar 1993“ komi: 1. mars 1993, nema XI. kafli laganna sem öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið.
    Við ákvæði til bráðabirgða bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Ákvæði um tímabundna ráðningu forstjóra Samkeppnisstofnunar skv. 2. mgr. 8. gr. gildir ekki um ráðningu þess einstaklings sem skipaður er í starf verðlagsstjóra við gildistöku laga þessara og tekur hann við starfi forstjóra Samkeppnisstofnunar ef hann svo kýs.
                  Um leið og lög þessi ganga í gildi hættir störfum það verðlagsráð sem skipað var af viðskiptaráðherra 1. nóvember 1991. Þær ákvarðanir verðlagsráðs, sem í gildi eru þegar lög þessi koma til framkvæmda, skulu þó gilda áfram þar til samkeppnisráð ákveður annað.