Ferill 274. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 274 . mál.


370. Tillaga til þingsályktunar



um breytingu á Montreal-bókun um efni sem valda rýrnun ósonlagsins.

(Lögð fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingu á Montreal-bókun frá 16. september 1987 um efni sem valda rýrnun ósonlagsins er gerð var í Lundúnum 29. júní 1990, sbr. Vínarsamning frá 22. mars 1985 um vernd ósonlagsins.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Ísland gerðist árið 1989 aðili að Vínarsamningi frá 22. mars 1985 um vernd ósonlagsins og að bókun við samninginn frá 16. september 1987, Montreal-bókuninni um efni sem valda rýrnun ósonlagsins, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 9/1989. Alþingi hafði með ályktun 18. maí 1989 heimilað ríkisstjórninni að staðfesta samninginn og bókunina.
     Á öðrum fundi aðila að Montreal-bókuninni í Lundúnum 29. júní 1990 var samþykkt breyting á bókuninni. Breytingin öðlaðist gildi 10. ágúst 1992 en gildistaka hennar gagnvart einstökum aðilum er háð staðfestingu þeirra. Með þingsályktunartillögu þessari fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili staðfestingu breytingarinnar af Íslands hálfu. Hún er birt sem fylgiskjal 1 með þingsályktunartillögu þessari.
     Helstu atriði breytingarinnar eru þessi:
    Klórflúorkolefnum á bannlista bókunarinnar er fjölgað (flokkur I, viðauki B) og ákvæði sett sem miða að því að minnka notkun og framleiðslu þeirra um 20% fyrir 1993 og 85% fyrir 1997, miðað við notkun og framleiðslu árið 1989, og hætta notkun og framleiðslu alfarið fyrir árið 2000.
    Koltetraklóríð er bætt við listann (flokkur II, viðauki B) og ákvæði sett sem miða að því að minnka notkun og framleiðslu þess um 85% fyrir 1995, miðað við notkun og framleiðslu árið 1989, og hætta notkun og framleiðslu alfarið fyrir árið 2000.
    Efninu 1,1,1-tríklóretan er bætt við bannlistann (flokkur III, viðauki B) og ákvæði sett sem miða að því að minnka notkun og framleiðslu þess um 30% fyrir 1995 og 70% fyrir árið 2000, miðað við notkun og framleiðslu árið 1989, og hætta notkun og framleiðslu alfarið fyrir árið 2005.
    Bætt hefur verið við bókunina lista yfir ótímasett bannefni (viðauki C), þ.e. efni sem ákveðið hefur verið að banna án þess þó að tímamörk séu tilgreind.
    Stofnaður er nýr sjóður til að aðstoða þróunarlönd við að fullnægja þeim ráðstöfunum sem felast í bókuninni. Framlög til sjóðsins verða greidd af aðilum, á grundvelli framlagastiga Sameinuðu þjóðanna, öðrum en þeim þróunarlöndum sem heimilað er að seinka framkvæmdum sem tilgreindar eru í bókuninni.
    Ákvæði um miðlun tækni eru gerð ákveðnari.
     Á Lundúnafundinum voru einnig samþykktar lagfæringar á ákvæðum Montreal-bókunarinnar. Lagfæringar þessar öðluðust gildi 7. mars 1991 í samræmi við 2. gr. bókunarinnar. Þær eru birtar sem fylgiskjal 2 með þingsályktunartillögu þessari. Samkvæmt þeim eru hert ákvæði um notkun og framleiðslu þeirra klórflúorkolefna og halona sem nú eru á bannlista bókunarinnar:
    Minnka skal notkun og framleiðslu klórflúorkolefna í flokki I í viðauka A um 50% fyrir 1995 og 85% fyrir 1997, miðað við notkun og framleiðslu árið 1986, og hætta notkun og framleiðslu alfarið fyrir árið 2000. Fyrri ákvæði bókunarinnar kváðu á um að minnka skyldi notkun og framleiðslu þessara klórflúorkolefna um 20% fyrir 1. júlí 1993 og 50% fyrir 1. júlí 1998, miðað við notkun og framleiðslu árið 1986.
    Minnka skal notkun og framleiðslu halona í flokki II í viðauka A um 50% fyrir 1995, miðað við notkun og framleiðslu árið 1986, og hætta notkun og framleiðslu alfarið fyrir árið 2000. Fyrri ákvæði bókunarinnar kváðu á um að þrjátíu og sex mánuðum eftir að bókunin tæki gildi skyldi notkun og framleiðsla aðila ekki fara fram úr notkun og framleiðslu þeirra árið 1986.
     Á þriðja fundi aðila að Montreal-bókuninni í Nairobi 19.–21. júní 1991 var samþykktur nýr viðauki, viðauki D, við bókunina. Viðaukinn er skrá yfir framleiðsluvörur sem innihalda takmörkunarskyld efni sem tilgreind eru í viðauka A við bókunina og var samþykktur skv. 3. tölul. 4. gr. hennar. Viðaukinn öðlaðist gildi 27. maí 1992. Hann er birtur sem fylgiskjal 3 með þingsályktunartillögu þessari.
     Ísland hefur fylgt áætlunum þeirra þjóða sem lengst hafa gengið í að minnka notkun ósoneyðandi efna og haft hefur verið náið samráð við önnur Norðurlönd. Unnið hefur verið samkvæmt ofangreindum markmiðum, sem samþykkt voru á fundi aðila í Lundúnum árið 1990, þannig að staðfesting þeirra breytinga á Montreal-bókuninni, sem hér er lýst, mun ekki hafa breytingu í för með sér í framkvæmd þessara mála hérlendis. Árið 1991 hafði notkun klórflúorkolefna minnkað um 50% og halona um 68%, miðað við notkun árið 1986. Notkun koltetraklóríðs og 1,1,1-tríklóretans er hverfandi hér á landi.

    [Breyting á Montreal-bókun um efni sem valda rýrnun ósonlagsins, lagfæringar á þeirri bókun og enn fremur viðauki D, skrá yfir framleiðsluvörur sem innihalda takmörkunarskyld efni sem tilgreind eru í viðauka A, samþykkt skv. 3. tölul. 4. gr., voru birt (á íslensku og ensku) í þingskjalinu sem fskj. 1, 2 og 3. Gögn þessi verða enn fremur prentuð í C-deild Stjórnartíðinda.]