Ferill 278. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 278 . mál.


388. Tillaga til þingsályktunar



um stuðning við réttindabaráttu Eystrasaltsríkjanna á alþjóðavettvangi.

Flm.: Björn Bjarnason, Árni R. Árnason, Árni Johnsen, Einar K. Guðfinnsson,

Geir H. Haarde, Karl Steinar Guðnason, Lára Margrét Ragnarsdóttir,

Rannveig Guðmundsdóttir, Sigbjörn Gunnarsson, Sigríður A. Þórðardóttir,

Sólveig Pétursdóttir, Sturla Böðvarsson, Tómas Ingi Olrich.


     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að stuðla að því innan þeirra alþjóðasamtaka þar sem Ísland er aðili að Eystrasaltsríkjunum verði ekki settir óeðlilegir kostir vegna stefnu þeirra gagnvart ríkisborgararétti þess fólks sem fluttist og flutt var til landanna í skjóli sovésks hernáms.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er flutt í því skyni að Alþingi taki afstöðu til málefnis sem er til umræðu víða þar sem íslenska ríkið á fulltrúa hvort heldur þeir eru á vegum framkvæmdarvaldsins eða löggjafarvaldsins. Að mati flutningsmanna er nauðsynlegt að fram fari opinberar umræður um málið hér og ætti tillagan að gefa tilefni til þeirra, auk þess sem í henni felst stefnumótun. Flutningsmenn vilja árétta að ekki ber á nokkurn hátt að skoða tillöguna sem vantraust á þá stefnu sem íslenska ríkisstjórnin hefur fylgt í þessu máli.
    Vandinn, sem Eystrasaltsríkin eiga við að glíma varðandi ríkisborgararétt, á einkum rætur að rekja til þeirrar staðreyndar að Sovétstjórnin, ekki síst í tíð Stalíns, flutti hundruð þúsunda Rússa til landanna. Er vandinn mestur í Eistlandi og Lettlandi. Markmið Sovétstjórnarinnar var að grafa undan menningu og þjóðerni Eistlendinga og Letta. Var það von valdhafanna í Moskvu að þeim tækist með þessum hætti að innlima Eystrasaltsríkin varanlega inn í Sovétríkin. Við upplausn Sovétríkjanna kom í ljós að íbúar Eystrasaltsríkjanna höfðu ekki látið bugast andspænis hinni sovésku ógn. Þau hafa nú öðlast sjálfstæði og sækja fram til fullrar viðurkenningar í alþjóðasamstarfi.
    Eystrasaltsríkin verða ekki fullgildir þátttakendur í samstarfi Evrópuríkja, t.d. innan vébanda Evrópuráðsins, nema þau fullnægi ströngum kröfum um virðingu fyrir mann- og borgararéttindum. Þar kemur m.a. til álita hvaða reglur gilda um rétt Rússa í Eistlandi og Lettlandi til að öðlast ríkisborgararétt í þessum löndum. Er því ekki að leyna að ýmsir hafa sakað stjórnvöld í Eistlandi og Lettlandi um að beita Rússa harðræði í þessu efni.
    Ef litið er sérstaklega til Eistlands gilda þær reglur að allir sem eiga fasta búsetu þar njóta sömu réttinda að öllu leyti nema varðandi kosningarétt til þings; þess réttar njóta aðeins eistneskir ríkisborgarar. Vegna þingkosninga í Eistlandi 20. september sl. vaknaði sú spurning hvort þær væru lýðræðislegar þar sem um 600.000 Rússar í landinu höfðu ekki rétt til að taka þátt í þeim.
    Allir útlendingar og þar á meðal Rússar geta sótt um ríkisborgararétt í Eistlandi og má geta þess að fyrir 1. júní 1992 höfðu 5.000 manns sótt um eistneskan ríkisborgararétt, þar af helmingur Rússar. Umsækjendur verða að uppfylla þau skilyrði að hafa í tvö ár átt fasta búsetu í Eistlandi, þ.e. frá sjálfstæðisyfirlýsingunni í mars 1990. Þá verða þeir að gangast undir tungumálapróf sem sýnir að þeir hafi 1.500 eistnesk orð á valdi sínu. Glæpamenn og eiturlyfjaneytendur eru ekki gjaldgengir, tvöfaldur ríkisborgararéttur er bannaður og umsækjandi verður að lýsa yfir hollustu við Eistland. Ríkisborgararétturinn verður virkur einu ári eftir að umsókn er lögð fram.
    Flutningsmenn eru þeirrar skoðunar að þessi skilyrði, sem sett eru fyrir því að innfluttir Rússar í Eistlandi fái þar ríkisborgararétt, séu ekki óeðlileg. Séu þau ekki talin fullnægja kröfum, sem gerð eru til ríkja, svo sem vegna þátttöku í Evrópuráðinu, er verið að setja Eystrasaltsríkjunum óeðlilega kosti. Í Lettlandi er verið að semja reglur sem hafa að geyma sömu meginákvæði og reglur Eistlendinga. Um Litáen gildir nokkru öðru máli þar sem hlutfallslega fáir innflytjendur búa þar.
    Ástæða er að undirstrika mikilvægi þess að Eystrasaltsríkin fái tóm til að leysa sinn innri vanda á grundvelli eigin laga og í sátt við útlendinga sem vilja vera um kyrrt í löndunum og gerast þar ríkisborgarar.