Ferill 12. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 12 . mál.


391. Nefndarálit



um frv. til l. um verðbréfasjóði.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund hennar komu frá viðskiptaráðuneytinu Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri, Finnur Sveinbjörnsson skrifstofustjóri og Páll Ásgrímsson lögfræðingur. Þá komu Þórður Ólafsson, forstöðumaður bankaeftirlits Seðlabanka Íslands, Jóhann Albertsson, deildarstjóri í bankaeftirliti Seðlabanka Íslands, Eiríkur Guðnason, aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands, Jóhann Þorvarðarson, hagfræðingur Verslunarráðs Íslands, Rúnar B. Jóhannsson, formaður Félags löggiltra endurskoðenda, og loks frá Samtökum íslenskra verðbréfafyrirtækja Gunnar Helgi Hálfdanarson formaður, Guðmundur Hauksson varaformaður og Helgi Sigurðsson hdl. Umsagnir bárust frá Verslunarráði Íslands, Neytendasamtökunum, Samtökum íslenskra verðbréfafyrirtækja, Lögmannafélagi Íslands og Félagi löggiltra endurskoðenda. Enn fremur var stuðst við umsagnir er bárust á 115. löggjafarþingi frá Samtökum íslenskra verðbréfafyrirtækja, Verslunarráði Íslands og Neytendasamtökunum.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar við frumvarpið:
    Lögð er til sú breyting á 3. gr. að verðbréfasjóðir noti orðið „verðbréfasjóður“ til nánari skýringar á starfsemi sinni verði því við komið.
    Lagt er til að 14. gr. verði breytt en þar er gert ráð fyrir að varðveisla verðbréfa skuli falin vörslufyrirtæki sem hlotið hefur viðurkenningu bankaeftirlitsins. Sú staða getur komið upp að verðbréfasjóður fjárfesti að miklu eða öllu leyti í erlendum verðbréfum og þá er óhjákvæmilegt annað en að vörslufyrirtækið sé erlent og er því lögð til viðbót við ákvæðið.
    Lagt er til að 16. gr. verði breytt þannig að síðari málsgrein falli brott en þar segir að hlutdeildarskírteini skuli skráð á opinberum verðbréfamarkaði. Heppilegra þykir að skráning þessara skírteina aukist samkvæmt þróun en ekki lögboði.
    Lögð er til orðalagsbreyting á 17. gr.
    Lagt er til að 20. gr. verði breytt þannig að skipulegur verðbréfamarkaður, annar en opinber verðbréfamarkaður, sé sá sem er opinn almenningi og viðurkenndur með þeim hætti sem bankaeftirlitið metur gildan. Er með þessari breytingu verið að fella niður ákvæði um „viðurkenningu lögbærra yfirvalda í hlutaðeigandi ríki“.
    Lögð er til breyting á 23. gr. þannig að heimilt sé að kveða á um rýmri mörk en 5% þegar um er að ræða fjárfestingar verðbréfasjóða í eignum sjóðsins. Annað hefði í för með sér of mikla röskun þar sem þegar eru starfandi hér sjóðir með þessu sniði.
    Lögð er til sú breyting á 25. gr. að orðalag ákvæðisins gefi til kynna að meginreglan sé sú að frestur til að færa fjárfestingar verðbréfasjóða í lögmætt horf sé sex mánuðir. Jafnframt verði hnykkt á því að það verði augljóslega í þágu eigenda hlutdeildarskírteina þegar bankaeftirlitið mælir fyrir um lengri frest.
    Lagt er til að 28. gr. verði breytt en núverandi ákvæði hennar þykja ekki í samræmi við eðlilegt fyrirkomulag þeirra viðskipta sem þar er fjallað um.
    Lagt er til að 31. gr. verði breytt þannig að sú upplýsingaskylda sem lögð er á endurskoðendur samkvæmt síðari málslið 3. mgr. falli niður en hún þykir ekki samræmast hlutverki og skyldum endurskoðenda en þeir hafa m.a. ríkri trúnaðar- og þagnarskyldu að gegna. Aftur á móti er lögð til viðbót við fyrri málslið 3. mgr. þar sem fram komi að hafi endurskoðandi ástæðu til að ætla að stjórnendur fyrirtækis hafi ekki rækt upplýsingaskyldu sína við bankaeftirlitið skuli hann gera því viðvart.
    Lagt er til að 40. gr. falli brott en hún þykir fela í sér óeðlilegt framsal á heimildum ráðherra til bankaeftirlitsins.
    Lagt er til að 43. gr. verði breytt en heppilegra þykir að frumvarpið taki gildi 1. júlí nk.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 2. des. 1992.


Vilhjálmur Egilsson,

Rannveig Guðmundsdóttir.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.

form., frsm.



Halldór Ásgrímsson.

Guðjón Guðmundsson.

Ingi Björn Albertsson.



Sólveig Pétursdóttir.

Kristín Ástgeirsdóttir,

Steingrímur J. Sigfússon,

með fyrirvara.

með fyrirvara.